Goðasteinn - 01.09.1988, Qupperneq 208
1916. Á þessum árum kynntist hann konu sinni, Guðlaugu heitinni
Sigurðardóttur frá Varmahlíð og giftu þau sig í Steinum 15. júlí 1915
og þá var elsti sonur þeirra Ólafur Jónas skírður en Helgi hafði áður
átt Elimar með Vilborgu Oddsdóttur. Ungu hjónanna beið erfið
lífsbarátta, sem engu að síður var rík af hamingjustundum. í fjögur
næstu ár biðu þau þess að jarðnæði losnaði og voru í kaupamennsku
víða. 1920 komu þau að Helgusöndum með aleigu sína, 20 ær, 6
gemsa, 2 hross, 2 tryppi og eina kú, litla drenginn og hvort annað.
Hin börnin sem þeim fæddust voru: Halldóra Guðrún, stúlku-
barn sem fæddist andvana, Sigríður Þóra, Guðbjörg Jónína og
Sigurður Guðberg.
Þau keyptu Seljalandssel 1935. Það urðu tímamót í lífi Helga, því
hann var mjög sjálfstæður að eðlisfari og féll illa að vera leiguliði
og sífellt að vera að berjast fyrir leigukjörum, sem ætíð varð að
standa skil á, á nákvæmlega réttum tíma. Eftir þetta naut hann
hverrar stundar til starfs, hinn íslenski bóndi, sem hlakkaði til að
leysa öll óleyst viðfangsefni. Hann vaknaði snemma og fylgdi birtu
vor, sumar og haust. Það var hlaðið undir marga kílómetra af girð-
ingu, sem var snyrtilega komið upp, húsin voru endurbyggð nær öll
og jörðin var ræktuð og bætt. Hann var einnig ræktunarmaður
bústofnsins. Allar kindurnar voru þekktar með nafni og ættir
þekktar og kynbætur stundaðar með sérstökum árangri, sem hann
sjálfur skipulagði. Þannig naut Helgi þess að vera sjálfstæður og
búa vel að sínu. Hann vildi alltaf að orð stæðu, var traustur og
orðvar um aðra, en átti það þó til að segja meiningu sína ef honum
mislíkaði við þann hinn sama. Hann ræktaði vináttu við vini sina
með sérstökum hætti og þegar leiðin lá t.d. austur á bóginn komu
þau hjón alltaf við á bæjum í þessu skyni. Þau tvö, saman á ferð,
Helgi og Lauga, svo glöð, með svo bjartan svip einurðar og hrein-
skiptni, - bjartan svip trúar, sem var undirstaða svo margs í lífi
þeirra. Undirstaða gleðinnar og hjónabands þeirra, sem var svo
heilt af ást, kærleika og gagnkvæmri virðingu.
1950 kom í heimilið Sigurður Sigurþórsson, 14 ára gamall og
hann varð sem þeirra sonur. Þau urðu hans ástkæru foreldrar. Hin
börnin fluttust að heiman og stofnuðu sín heimili, öll nema Guð-
björg, sem varð stoð og styrkur foreldra sinna þegar árin færðust
206
Goðasteinn