Goðasteinn - 01.09.1988, Síða 220
Guðlaugu seinni konu sinni upp úr aldamótum. Þar reisti Auðunn
eitt stærsta timburhúsið, sem þá var á Suðurlandi. Var þetta tvílyft
hús reist árið 1907. Að Dalsseli var það flutt í flotbúntum frá Vest-
mannaeyjum og þar var Auðunn með verslun sína, en árið 1905
keypti hann verslunarbréf til þess að reka sveitaverslun af Einari
Benediktssyni skáldi og sýslumanni Rangæinga. í þessu mikla húsi
var mikið menningarheimili, því auk verslunar og búskapar, hélt
Auðunn þar ýmsa heimiliskennara, bæði fyrir heimili sitt og ýmsa
aðra í nágrenninu. Hús þetta stendur ekki lengur, því það var rifið
síðar.
Börn Auðuns og Guðlaugar Helgu urðu 12, en 10 komust til
fullorðinsára. Var Ingigerður 5. barn foreldra sinna. Nú eru sex
systkini Ingigerðar á lífi: Guðrún skáldkona á Hvolsvelli og fyrrum
húsfreyja í Stóru-Mörk, Ólafur Helgi bílstjóri í Reykjavík, Haf-
steinn vörubílstjóri í Reykjavík, Hálfdán bóndi á Seljalandi,
Valdimar bóndi á Grenstanga og Konráð bóndi á Búðarhóli.
Guðlaug lést árið 1941, en Auðunn árið 1961.
Guðrún skáldkona Auðunsdóttir gaf frábæra lýsingu á Dalssels-
heimilinu í ljóði. Þar var umhverfið og æskuheimilið hennar Ingi-
gerðar. Og þar dvaldist hún til ársins 1947. Þá fluttist hún til
Reykjavíkur. Oft hafði hún fengist við bóksölu í Dalsseli, en nú
sneri hún sér að slíkum störfum í höfuðborginni, auk þess sem hún
var þar skrifstofustúlka í 10 ár. Hún átti lengi við heilsuleysi að
stríða eða mest á árunum 1930—75, en það er hátt í hálfa öld.
Eftir að hún lét af skrifstofustörfum fékkst hún mikið við
prjónaskap. Hún fluttist svo á ný austur og fór til Valdimars bróður
síns og Þuríðar konu hans að Grenstanga. Var það 1975. Var einkar
mikilvægt fyrir hana að komast á ný á æskustöðvarnar og til síns
góða skyldfólks og vinafólks, sem einnig var þar að mæta eins og
í Reykjavík. Þar batnaði líka heilsa hennar til muna. Síðan var hún
sumarlangt í Miðhjáleigunni hjá Guðlaugu bróðurdóttur sinni og
Sigmari Ólafssyni. Hún fór svo þaðan árið 1980, er hún flutti að
Hellu á Lund, dvalarheimili aldraðra. Þar bjó hún skemmtilega um
sig í hlýju og fallegu stofunni sinni. Hún andaðist þar 16. september
1987 eða daginn fyrir afmælið sitt, 77 ára að aldri. Hún var ógift
og barnlaus.
218
Goðasteinn