Goðasteinn - 01.09.1988, Síða 222
Tíu ára gamall missti Stefán móður sína, en var áfram í Kerlingar-
dal með föður sínum og seinni konu hans Ólöfu Einarsdóttur. Þeir
voru tveir bræðurnir, Stefán og yngri bróðirinn Bjarni, sem lést
fyrir rúmum 20 árum, en var kunnur klæðskerameistari í Reykja-
vík.
Stefán var á fæðingarstað sínum til tvítugs aldurs, en var svo
vinnumaður á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum í 3 ár. Þá fór hann
sem kaupamaður að Eystri-Hól í Vestur-Landeyjum til Þórðar
Tómassonar, er síðar varð tengdafaðir hans. Heimasætunni Helgu
Þórðardóttur giftist svo Stefán þann 12. október árið 1926. Var það
þeirra bjarti og fagri gæfudagur og varð hjónaband þeirra í sam-
ræmi við þann sólskinsdag. Það var séra Bjarni Jónsson vígslu-
biskup, sem gaf þau saman. Þau Stefán og Helga eignuðust eina
dóttur, Jóhönnu, sem gift er Ólafi Sigurðssyni brunaverði í Reykja-
vík. Barnabörnin eru 3: Stefán, Sigurður og Anna. Og eitt er lang-
afabarnið: Helga.
Stefán bjó á Eystri-Hól í sambýli við tengdaföður sinn. I kringum
1946 tóku hann og Helga alveg við búskapnum, en árið 1977 brugðu
þau búi og fluttust til Reykjavíkur. Hér áður fyrr og fyrstu 10—12
búskaparárin fór svo Stefán á vertíðir í Vestmannaeyjum. Síðustu
árin var heimili þeirra Stefáns og Helgu að Dvergabakka 14 í
Reykjavík. Helga lést rúmu ári á undan Stefáni. Síðustu vikurnar
var Stefán á Vifilsstaðaspítala vegna hrakandi heilsu og þar lést
hann þann 5. nóvember 1987, 87 ára að aldri.
Stefán var góður bóndi og alveg sérstakt snyrtimenni í allri
umgengni. Hann fóðraði og fór svo vel með fénað sinn að orð fór
af og búið var arðsamt. Hestamaður var hann góður og hafði yndi
af góðum hestum, enda átti hann þá bæði fallega og góða.
Hvorugt hjónanna, Stefán eða Helga, flíkuðu því, að bæði voru
þau hagmælt. Og árin urðu hér um bil 60, sem þeirra góða hjóna-
band stóð.
Stefán unni mjög fæðingarstað sínum og síðan færðist sú ást yfir
á Eystri-Hólinn. Það var einhverju sinni fyrir langa löngu, þegar
Stefán kom úr verinu, að þá hafði fæðingarjörð hans, Kerlingar-
dalur, verið seld. Féll honum það mjög þungt og er hann saknaði
þeirrar jarðar, kvað hann vísu þessa:
220
Goðasteinn