Goðasteinn - 01.09.2016, Síða 52
50
Goðasteinn 2016
spurninguna „hvað gerum við í dag Runólfur“ ? Sumt var rútína, sömu verk
dag hvern, annað var mismunandi. Og það var margt að læra og sjá. Það var
lærdómsríkt að fá að kynnast sveitaverkunum þá, þau voru á leiðinni að hverfa.
Ég hef ævinlega minnst þess með þakklæti að hafa náð í skottið á hinum gömlu
búskaparháttum sem hvíldu á aldagamalli reynslu.
Fyrsta morgunin leiddi Anna Stefánsdóttir, eiginkona Runólfs mig út úr
bænum og út á hlað. Þar stóð hestur, sem hún sýndi mér. Þessum hesti mátt þú
ríða hvenær sem þú vilt sagði
hún, hann heitir Sleipnir og
er gæfur og viðráðanlegur,
góður hestur, þú getur geng-
ið að honum og náð honum
hvenær sem er úti í haga. Ég
er búin að klippa mjög stutt-
an á honum ennistoppinn
svo að þú getur þekkt hann
örugglega á því. Láttu vera
að eiga við aðra hesta, sumir
eru latir eða dettnir, styggir
eða dyntóttir en aðrir of vilj-
ugir fyrir þig svona til að byrja með. Þetta leist mér vel á og Sleipnir reyndist
mér vel, lét vel að stjórn og fór með mig á stökk þegar ég vildi. Það var gaman
að fara í reiðtúra.
Anna var mikill uppfræðari. Hún fór yfir nöfnin á hinum ýmsu hlutum lík-
amans með mér, sumt þekkti ég annað staðfestist og svo bættist við, hnésbót,
olnbogabót, táberg, kjúka og sjálfsagt margt fleira. Allur líkaminn var undir.
Þó varð eitt svæði eftir, Anna fór ekki yfir það. Það var það sem Runófur
föðurbróðir nefndi, svo eftirminnilega að það hefur fylgt fjölskyldunni síðan.
Hann spurði nefnilega þegar ég kom úr fyrsta baðinu í bala á baðstofgólfinu,
sem Anna tilreiddi, hvort ég hefði þvegið „stykkið“ líka. Þetta var einn kap-
ítulinn, fleira bættist við. Hún fór yfir eyktirnar og eyktamörk og benti mér
á þau í landslaginu; Miðmundahóll var eftirminnilegur. Örnefnin á svæðinu
rakti hún fyrir mér, allt frá fjöllum og heim í túnið. Ég gleypti þetta í mig og
sömuleiðis nöfnin á kúnum, kálfunum og hestunum. Trúin varð ekki útundan.
Faðirvorið kenndi hún mér og að ég ætti að fara með það á hverju kvöldi. Hún
sýndi mér hvernig maður signir sig og sagði mér að signa sig skyldi hver maður
að morgni dags þegar hann stigi út úr húsi sínu og fram á bæjarhelluna. Allt
þetta tileinkaði ég mér.
Kjartan fóðrar Sleipni, móðir hans Astrid fylgist með.