Goðasteinn - 01.09.2016, Page 74
72
Goðasteinn 2016
mikla vatni hafi beinlínis verið veitt á land þessara jarða og þar með Vestur-
Eyjafjallahrepp. Þar voru þingmennirnir Þorsteinn Pálsson og Árni Johnsen.
Ég gat ekki fundið að þeir hefðu verið búnir að hugsa málið á þann hátt sem
ég lagði það fyrir, en þeir tóku þessu samt vel.
Á árinu 1982 var Magnús Finnbogason bóndi á Lágafelli kosinn hrepps-
nefndaroddviti í Austur-Landeyjahreppi. Hann fór fljótt að vinna að þessu
máli, enda sá hann hættuna á því að fljótið færi að renna út í Landeyjar í
stórum stíl, ef ekkert yrði að gert.
Eftir þetta fórum við Magnús báðir að tala fyrir málinu þar sem færi gafst.
Þá fóru líka hreppsnefndirnar í þessum hreppum báðum að ræða þessi mál og
gera ályktanir um áskorun til Alþingis, að leggja fram fjármagn til að gera
varnargarða fyrir landi þessara jarða. Þá kom bæjarstjórn Vestmannaeyja fljót-
lega til liðs við okkur, á þeim forsendum að vatnslögn þeirra gæti orðið fyrir
skakkaföllum ef fljótið bryti sér leið út í Álafarveg.
Þá fóru líka þingmenn kjördæmisins að vinna að því, að Alþingi leggði til
fjármagn til þessara framkvæmda. Steingrímur Ingvarsson yfirmaður vega-
gerðarinnar á Suðurlandi vann líka að framgangi málsins, og þá unnu einnig
að þessu máli Símon Oddgeirsson í Dalsseli, sem hafði Brúnir og Tjarnir á
leigu á þessum tíma, einnig Grétar Haraldsson bóndi í Miðey. Hann beitti sér
m, a, fyrir því að alþingismenn kjördæmisins ásamt nokkrum mönnum öðrum
sem líklegir voru til þess að hafa áhrif á framgang málsins mættu á staðinn, til
að kynna sér hversu alvarlegt ástandið væri. Þá vil ég síðast en ekki síst nefna
Svein Runólfsson landgræðslustjóra, sem átti stærstan hlut okkar allra að því
að þetta verkefni allt kæmist í framkvæmd.
Þetta bar fljótlega nokkurn árangur, en fjárveitingarnar voru það smáar að
það liðu um tíu ár, þar til landeyðing stöðvaðist fram undir bæinn á Tjörnum,
en þar fyrir framan var landbrotið tilfinnanlegast. Á þessu tímabili var reynt að
veita vatninu frá en það hafðist ekki. Þá var líka gerður garður úr aurmölinni,
án þess að á honum væri grjótvörn. En fljótið fór fljótlega í gegnum þennan
bráðabirgðagarð, hvorug þessara tilrauna urðu að gagni.
En þá var komið að því að gera tveggja kílómetra langan varanlegan garð
í einu lagi, til varnar túnunum á Tjörnum og graslendinu þar fyrir framan.
Ekki þótti fært að byggja hann fyrr en öruggur varnar garður væri kominn fyrir
láglendiskaflann milli Brúna og Tjarna, svo vatnið gæti ekki komist bak við
garðinn sem þar átti að koma, og þá milli hans og bakkanna meðfram túninu og
graslendinu framan við það, og þar með eyðilagt garðinn sem þar væri kominn.
Þess vegna var hann byggður síðastur af þeim görðum sem þarna voru gerðir í
þessari lotu, þó að hann hefði þurft að vera kominn miklu fyrr.