Goðasteinn - 01.09.2016, Síða 83
81
Goðasteinn 2016
Um sumardag í fjallinu við silfurtærar lindir,
og sólin hátt á lofti skín, er kvörtun ekki þörf
umhverfið þar sýnir manni ægifagrar myndir,
er á daginn líður rökkvast klettaborgin djörf
í gilbotni með unga sína andamamma syndir,
og aftanskinið roðagullið léttir undir störf.
Værir þú hér, samruna við svæðið allt þú fyndir,
sálarfriður ríkir, öll er veröldin sem stjörf.
Þó ég hafi oftast verið einn í þessum störfum,
og allavega vélabúnað hafi spjallað við.
Tengingar við samstafsfólk er ávallt eftir þörfum,
auðvelt hefur verið mjög að sinna þeirri hlið.
Í Vestmannaeyjum úrval er af yndislegum skörfum,
og ekki er þar síðra hjá þeim blessað kvenfólkið.
Til nýrra breyttra tíma nú ég hverf með huga djörfum,
og hjartanlega þakka ykkur fyrir samstarfið.
Auðvitað má hvergi á neinu eftirliti slaka,
enda taka góðir menn við hér er ég tek frí.
Þeir munu af bestu samvisku yfir Vatnsveitunni vaka,
og verða sífellt tilbúnir í alls kyns havarí.
Ég treysti gerla að þeir verði hvergi úti að aka,
þó alvarlega bili, geri þeir allt heilt á ný
Ég óska þessum sexmenningum sem við þessu taka,
að sjálfsögðu alls velfarnaðar nýjum störfum í.
Fyrir mig ég þakka nú með fátæklegum orðum,
því fjörutíu og átta ára starfi lýkur hér
Öllum þeim er sitja hérna undir veisluborðum
og ótal fleira samstarfsfólki þakka einnig ber.
Margir eru hættir nú frá fyrstu árum forðum,
það færast árin yfir, eins og hver einn maður sér.
Alltaf líða dagarnir í afar föstum skorðum,
nú átján þúsund sólarhringa bakvakt lokið er.
7. apríl 2016