Goðasteinn - 01.09.2016, Page 209
207
Goðasteinn 2016
ferðir um nágrennið með krökkunum og var þá aðalatriðið að hafa með nesti.
Fjölskyldan ferðaðist nokkuð innanlands og hafði hann meðferðis bæði mynda-
og kvikmyndatökuvél og fangaði oft það sem öðrum hefði ekki dottið í hug að
festa á filmu.
Með fúsum og góðum vilja tók hann að sér ýmis félagsstörf og fannst það
skemmtilegt. Hvort sem það voru ábyrgðastörf eða skemmtilegheit eins og í
þorrablótsnefndinni, það fannst honum reglulega gaman enda gamansamur og
glettinn. Þóri voru falin ýmis trúnaðarstörf á vegum bænda, var hann m.a. for-
maður Búnaðarfélags Rangárvallahrepps í tíu ár og í fjögur ár formaður Félags
kúabænda á Suðurlandi þar til hann lét af þeim störfum vegna veikinda. Einnig
átti hann sæti á Búnaðarþingi síðustu ár. Hann var einn af stofnendum Veiði-
félags Rangárvallaafréttar árið 1993 enda hafi hann gaman af því að fara inn
á fjöll að veiða. Hann sinnti um árabil ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveitar-
félagið, fyrst Rangárvallahrepp og síðar Rangárþing ytra. Hann hafði gaman
af sveitapólitíkinni og tók þátt í henni. Hann var varamaður í sveitarstjórn um
tíma og sinnti ýmsum nefndarstörfum fyrir sveitafélagið. Þau sem unnu með
honum á þessum vettvangi sem og öðrum, nutu tryggðar hans og hversu hrein-
skiptin hann var, því þó hann hafi verið ljúfur í lund lét hann ekki vaða yfir sig
heldur fylgdi því sem honum fannst réttlátt. Hann var trúr sjálfum sér, lá ekki
á skoðunum sínum og var staðfastur. En ekki datt honum í hug, að þvinga aðra
að sinni skoðun, enda bar hann virðingu fyrir skoðunum annarra.
Dugnaður og vinnusemi einkenndi hann alla tíð. Sat hann að heita má
aldrei nema tilneyddur, auðum höndum og gekk í öll þau störf sem þurfti að
vinna og gera, það var ekki til í honum leti enda naut hann þess alltaf að vera
vinnandi. Stundvísi einkenndi hann og það sem hægt var að gera í dag var
ekki geymt til morguns.
Þórir glímdi um árabil við krabbamein og tókst á við það af mikilli baráttu
og æðruleysi. Hann lést á heimili sínu 5. janúar 2015 og var útför hans gerð frá
Oddakirkju 12. janúar.
Sr. Guðbjörg Arnardóttir