Goðasteinn - 01.09.2023, Side 22
20
Goðasteinn 2023
22. ágúst 2023 var einstaklega fallegur dagur hér á Suðurlandi. Sól skein á heið-
um himni og það blakti ekki hár á höfði. Fjöldi prúðbúinna gesta hafði komið
sér fyrir á Miðbæjartúni Hvolsvallar til að fylgjast með forseta Íslands, herra
Guðna Th. Jóhannessyni, og elsta hópi leikskólans Öldunnar afhjúpa afsteypu
af einu frægasta myndlistarverki Íslendings erlendis: Spirit of Achievement,
Afrekshuga, eftir Nínu Sæmundsson.
„Afrekshugur“ er hugtak sem segja má að hafi einkennt æviferil Nínu. Hún
var fædd 22. ágúst 1892, skírð Jónína og var Sæmundsdóttir, uppalin í Nikulás-
arhúsum í Fljótshlíð þar sem hún bjó fram á unglingsár; nítjándu aldar sveita-
stelpa, yngst fimmtán systkina. Lífsbarátta tímans gerði ekki ráð fyrir neinum
afrekum af hennar hendi, en hún bjó yfir anda og sál listamannsins, umkringd
hinum magnaða fjallasal, víðsýninu og guðdómlegri náttúru Fljótshlíðar. Og
þessi sveitastelpa varð fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævi-
starfi og naut alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir verk sín.
Saga Nínu er nefnilega svolítið Öskubuskuævintýri. Árið 1911 er Nína 19 ára
og fer til Kaupmannahafnar að dvelja hjá frænku sinni, Helgu Guðmundsdótt-
ur, sem rak þar þvottahúsið Geysi og var mikil hjálparhella íslenskra stúdenta
í borginni. Nína leitaði fyrir sér um nám og langaði að læra á fiðlu, en Helga
frænka var mótfallinn því að hún lærði listir, því hún sagði að listamenn eign-
uðust aldrei peninga. Nína lærði þá tannsmíði og prófaði nám í verslunarskóla.
En svo vildi til að hún eignaðist vinkonu sem var listmálari og bjó í Svend-
borg á Fjóni. Nína dvaldi hjá henni um tíma í hópi annarra listamanna og þar
gerði hún sína fyrstu mynd, barnshöfuð mótað í leir. Það er einstaklega ljóðræn
tilviljun að afsteypan af Afrekshuga er einmitt gerð í Svendborg á Fjóni, sama
bæ og Nína mótaði sína fyrstu höggmynd sem var upphafið á glæsilegum ferli
hennar. Hið fagurmótaða barnshöfuð ruddi Nínu braut inn í Tekniske Skolen,
og á einu ári lauk hún tveggja ára undirbúningsnámi fyrir Listaakademíuna.
Dugnaður hennar vakti athygli og verk hennar sömuleiðis, svo mjög að Helga
frænka fékk endurgreidd skólagjöldin sem hún hafði lagt út fyrir.
Eftir fjögurra ára nám veiktist Nína af berklum og dvaldi á berklahæli í
Sviss, en ári síðar var hún á Ítalíu og kom sér upp vinnustofu í Róm. En það
var í París sem höggmynd hennar, Móðurást, vakti mikla athygli og Nína hlaut
viðurkenningu og peningaverðlaun, sem komu sér vel, því hún hafði eytt síð-
ustu aurunum til að greiða fyrir þátttöku þessa verks inn á Haustsýninguna í
Grand Palais 1924. Listvinafélag Íslands keypti afsteypu af Móðurást og 1930
var henni komið fyrir þar sem hún stendur enn, í Mæðragarðinum við Lækjar-
götu; fyrsta höggmyndin eftir konu sem sett var upp hér á landi og einnig fyrsta
höggmyndin sem ekki er hefðbundið minnismerki.