Bautasteinn - 01.05.2018, Síða 16
Kirkjur hafa lengi staðið í Reykholti eða allt frá
kristnitöku. Framan af stóðu þær í suðurhluta
garðsins. Eldri kirkjan á staðnum sem enn stendur
er frá 1886, varðveitt af Þjóðminjasafni Íslands. Nýja
kirkjan í Reykholti var vígð árið 1996 og má segja að með
henni hafi reisn staðarins verið endurvakin svo um
munar. Þar er og Snorrastofa, safn um Snorra Sturluson og
fræðasetur um norræna sögu og bókmenntir. Í Snorra-
stofu er og rekin myndarleg upplýsingaþjónusta fyrir
ferðamenn.
Forn kirkjustaður
Við fornleifauppgröft í Reykholti hefur komið í ljós að
framan af stóðu kirkjurnar í Reykholti í suðurhluta
garðsins. Þær voru úr torfi framan af en sýnt er að þar var
hins vegar reist stafkirkja úr timbri á 12.-13. öld og stóð
hún fram að siðbót. Síðan tóku við torfkirkjur uns kirkja
var reist þar úr timbri 1835 og aftur 1886 en það er sú sem
enn stendur.
Þegar nýja kirkjan í Reykholti var tilbúin stóð til að rífa þá
gömlu en frá því var horfið og þess í stað ákveðið að
endurgera hana árið 2001 og lagfæra í upprunalegri
mynd. Kirkjan var þá illa farin og sigin á grunni, klædd
bárujárni að utan en þiljuð innan og máluð með allt öðru
sniði er áður hafði verið. Frágangi kirkjunnar var að fullu
lokið sumarið 2006. Gert var við gamla altarið, predik-
unarstólinn og altaristöfluna sem keypt var frá Dan-
mörku 1901 en hana málaði danski málarinn Anker Lund
árið 1901 eftir frægri altaristöflu Carl Blochs. Predikunar-
stóllinn er jafngamall kirkjunni og hefur hann auk altaris
og kirkjubekkja verið oðraður, þ.e. málaður í viðarlitum
eins og var í upphafi. Orgel var keypt frá Vesturheimi árið
1901 og hefur einnig verið gert upp. Á kórveggnum er
gömul söngtafla og fylgir henni stokkur með númera-
spjöldum. Skírnarfontinn skar út Ríkharður Jónsson
myndskeri og Guðmundur Einarsson leirkerasmiður frá
Miðdal bjó til skírnarskálina en fonturinn var gefinn
kirkjunni af Guðrúnu Jónsdóttur á Brennistöðum.
Ný kirkja og Snorrastofa
Ný og glæsileg kirkja var vígð í Reykholti árið 1996 á degi
heilags Ólafs Noregskonungs. Snorrastofa í kjallara og
fræðasetur í afhýsi, sem er tengt nýju kirkjunni, þjóna
mikilvægu og sögulegu hlutverki við að halda á lofti
gagnmerku menningarhlutverki staðarins um aldir.
Arkitekt byggingarinnar er Garðar Halldórsson, fyrrum
húsameistari ríkisins og samstarfsmaður hans var Andrés
Narfi Andrésson arkitekt.
Eins og allir vita var Reykholt í Borgarfirði menntasetur
og bær Snorra Sturlusonar en staðurinn hefur lengi haft
sérstaka stöðu í hugum landsmanna. Þótt héraðsskólahús
Guðjóns Samúelssonar arkitekts setji enn talsverðan svip
á staðinn er helsta kennileiti hans í dag nýja kirkjan sem
blasir við þegar komið er í Reykholt eftir þjóðveginum.
Þar vekur hár og tígullegur turninn sérstaka athygli.
Hin nýja Reykholtskirkja er hefðbundin krosskirkja og
liggur latneski krossinn til grundvallar krossforminu.
Fleira vekur athygli þegar grannt er skoðað, m.a. hring-
laga gluggar í rómönskum stíl á sitt hvorum gafli hússins
og háir og mjóir hliðargluggarnir sem vísa til hins
gotneska stíls. Listakonan Valgerður Bergsdóttir vann
steinda glugga í kirkjuna og byggir efni verkanna á
Sólarljóðum.
Þegar ný kirkja var reist í Reykholti var ákveðið að hafa
ekki kross á turni hennar heldur standandi kross framan
við stafnþil kirkjunnar. Einn velgjörðamaður kirkjunnar,
Norðmaðurinn Jan Petter Röd, gaf fjármuni til að setja
upp kross sem þar stendur eftir samlanda sinn, Jarle
Rosseland. Sótti listamaðurinn formgerð verksins til
Gunnhildarkrossins, lítils róðukross úr rostungstönn frá
því um 1100. Jan Petter Röd hefur og gefið allan búnað í
turni kirkjunnar auk stiga og klukku í turninum.
Núverandi kirkjur í Reykholti eru af sitt hvorri kynslóðinni, hin eldri reist úr timbri 1886 en sú yngri vígð árið 1996. Þær
setja báðar sinn svip á Reykholtsstað. Ljósm. Guðlaugur Óskarsson.
Merkar kirkjur í Reykholti
16