Bautasteinn - 01.05.2018, Side 35

Bautasteinn - 01.05.2018, Side 35
35 Og vatnið. Ha, ha, þessi var góður, Steinn. Hvað segirðu? Lágkúruleg sjálfsvorkunn. Margir verr staddir en ég. Það er ekki það, Steinn. Það er þetta holundarsár við hjarta mitt sem blæðir og blæðir. Það ættir þú að skilja manna best. Og ég er þegar orðinn eldri en þú varðst. Hvað segirðu? Hefðir þú vel getað hugsað þér að lifa lengur. Já, en Steinn, þú vissir þó alltaf að þú varst skáld. Það hef ég aldrei vitað, heldur kvalist dag hvern í tuttugu ár. Ég get það ekki lengur, Steinn. Ég bið þig. Þú verður að skilja mig. Hvað með fjölskylduna, ástvini mína? Já, þarna komstu með það. Ástvini. Ætla ég að leggja þetta á fólkið sem elskar mig? Elska. Þetta skelfilega orð. Sjálfsagt elskar þetta fólk mig. Hefur að minnsta kosti sýnt það í verki. Bróðir minn. Alltaf staðið við bakið á mér. Þegar ég var veikur. Lánaði mér. Aldrei borgað. Foreldrar mínir. Hreykin af skáldinu. Alltaf að tala um það. Þoldi það ekki. Konurnar mínar. Börnin mín. Yngsti drengurinn. Augun. Augun hans. Af hverju horfa þau svona á mig? Pabbi, en ég? Ég hef aldrei elskað þau. Ekkert þeirra, Steinn. Það er meinið. Ég hef aldrei kunnað að elska aðra manneskju. Ég hef elskað ljóð. Ég hef elskað ljóðin þín, Steinn. En ekki fólk. Ekki fólk. Af hverju get ég ekki einu sinni elskað börnin mín? Segðu mér það. Ég -- ég bið þig. Segðu mér sannleikann. Þú vilt kannski ekki særa mig en mér er alveg sama um sársaukann. Ég verð að fá að vita sann- leikann. Láttu það koma. Var það hrokinn, Steinn? Ég veit að hann er verstur af dauðasyndunum sjö. Var það það sem ég sagði við gröf þína fyrir tuttugu árum? En þetta voru bara orð, Steinn. Og ekki einu sinni orð. Aðeins hugsanir. Hvernig geta hugsanir haft bölvun í för með sér? Ég bið þig. Svaraðu mér. Ég verð ... Hann lét fallast niður í grasið með hálfkæfðri grátstunu. Axlirnar gengu upp og niður í krampakenndum hreyf- ingum og niðurbældur gráturinn var undarlega hljóm- laus. - Af hverju ertu að gráta? Hann kipptist við. Reis upp við dogg og þurrkaði snöggt framan úr sér með frakkaerminni. Lítill drengur, á að giska átta ára, stóð álengdar og horfði á hann alvarlegur á svip. Hann var í mórauðri peysu og bláum gallabuxum með jarpt hár og stór, dökk augu. - Hvaðan kemur þú, drengur minn? sagði skáldið dimmum rómi. - Ha, ég? Ég kem bara úr Kópavoginum. - Áttu heima þar? spurði skáldið og færði sig til svo bakið nam við legsteininn. - Já, sagði drengurinn og hafði ekki augun af skáldinu. - Og hvað ert þú að gera hér svo snemma morguns? sagði skáldið og ræskti sig. - Ég er að heimsækja afa minn. - Nú, býr hann hérna í grenndinni? Skáldið litaðist um. - Ha, nei, sagði drengurinn og roðnaði. Hann er dáinn. Ég kem svo oft að heimsækja hann. Ég kalla það að fara í heimsókn. Hérna er steinninn hans, sagði hann og klappaði á legsteininn við hlið sér. Skáldið þagði og horfði á drenginn sem hélt áfram að strjúka legsteininn, fínum, mjúkum hreyfingum. Eftir drykklanga stund hélt drengurinn áfram. - Hann dó fyrir tveimur árum. Amma dó löngu áður en ég fæddist og var grafin hérna en hann lét taka frá pláss fyrir sig við hliðina á henni. Hann sagði mér oft frá því þegar ég kom hingað með honum. Ég kem hingað til þess að tala við hann. Hann heyrir allt sem ég segi. Og skilur, bætti hann við feimnislega. Mér líður alltaf svo vel á eftir. Þá finnst mér ég ekki vera einn. Afi var sá eini sem, sem ... Drengurinn þagnaði og byrjaði aftur að strjúka steininn. Skáldið dæsti, saug upp í nefið og leit til himins. - Það er alltaf bara einn, sagði hann svo seint og fast. Bara einn. - Mér fannst allt búið þegar afi dó, sagði drengurinn lágt. Hann var sá eini sem hlustaði á mig. - Áttu ekki foreldra? spurði skáldið. - Jú, jú, en þau hlusta aldrei á mig. Þau þykjast bara gera það. Jánka og kinka kolli en ég finn að þau eru alltaf að hugsa um eitthvað annað. Afi, hann hélt oft í höndina á mér á meðan ég var að tala við hann. Horfði í augun á mér og brosti. Brosið hans afa. Það var svo fallegt, sagði drengurinn, hætti að strjúka steininn og leit framan í skáldið. Það komu svona hrukkur í kringum augun. Eins og á þér, bætti hann við. Og svo fórum við í langar gönguferðir niðrí fjöru. Alveg út á nes og til baka. Tíndum alls konar dót, skeljar og kuðunga í plastpoka. Hann kenndi mér að þekkja tjald, sandlóu og stelk og hvar ég gæti fundið hornsíli. Við höfðum alltaf með okkur nesti. Settumst á steinana okkar úti á nesi og horfðum á skipin á meðan við borðuðum nestið, döðlur, kex og kökur og drukkum kakómjólk með. Hann sagði mér frá skipunum. Hvert þau væru að fara og hvað þau kæmu með til baka frá útlöndum. Alls konar vörur og kræsingar úr svörtustu Afríku. Það er þar sem krían er á veturna. Svo kemur hún hingað í maí. Það sagði afi. - Það hefur verið heljar mikill kall, hann afi þinn, sagði skáldið og brosti lítið eitt. Ferðu nokkurn tíma í fjörur núna? - Ja, stundum. Ekki oft, sagði drengurinn með semingi. Það vantar eitthvað þegar afi ... Hann hætti að tala og horfði í augu skáldsins. - Ferð þú oft í fjörur? - O, nei, sagði skáldið. Það er nú orðið langt síðan ég hef gengið fjörur. - Eigum við að koma núna? spurði drengurinn. - Ja, það væri kannski ekki svo galið, sagði skáldið hásum rómi og reis á fætur hægt og stirðlega. Klukknahljómur heyrðist í fjarska. Skáldið og drengurinn stóðu í sömu sporum og hlustuðu á tónana deyja út. - Ég þekki leiðina, sagði drengurinn, tók í hönd skáldsins og þeir leiddust niður stíginn og hurfu inn á milli trjánna. Eysteinn Björnsson.

x

Bautasteinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bautasteinn
https://timarit.is/publication/2037

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.