Bautasteinn - 01.05.2018, Qupperneq 33
33
Garðurinn teiknaður upp
Haustið 1968, þegar þau hjónin fluttu heim frá Reykjavík
var Hreinn kosinn í sóknarnefnd Bjarnanessóknar og
hefur verið þar síðan, lengst af sem formaður. Í tvö ár
vann Hreinn við lok kirkjubyggingarinnar í Bjarnanesi en
kirkjan var vígð 1976. Þá hafði Hreinn verið meðhjálpari í
nokkur ár og hélt því starfi áfram og allri umsjón með
kirkjunni. Kvenfélagskonur í Vöku höfðu séð um hirðingu
á kirkjugarðinum um nokkurra ára skeið, en þegar þær
sáu sér ekki fært að annast það lengur tók Hreinn það
starf að sér eða eins og hann segir, „þar til einhver annar
fengist til þess“. Fór svo að Hreinn ílengdist í þessu starfi
þar til fyrir nokkrum árum að honum fannst nóg komið.
Árið 2001 spratt áhugi á að leita upplýsinga um ómerkt
leiði og það varð fljótt markmiðið að merkja öll leiðin í
garðinum. Hreinn teiknaði garðinn upp á stórt blað og þá
kom sér vel að hægt var að skrifa nöfnin þar til að byrja
með. Aðal upplýsingar um fólkið voru fengnar úr
kirkjubókum, þar voru öll nöfn látinna skrifuð en ekki
hvar þeir voru grafnir og jafnvel gátu þeir hafa verið
jarðsettir í Hoffelli, Brunnhól eða Stafafelli. Sigurður
Eiríksson, bróðir Hreins hafði einnig áhuga á þessu máli
og hjálpaði til við verkið. En ómerktu leiðin voru milli 70
og 80 svo það tók langan tíma að staðsetja fólkið á réttum
stað. Með því að spyrja nógu marga og skoða leiði og upp-
lýsingar í hinum kirkjugörðunum kom þetta loksins allt
heim og saman.
Fá oft hrósyrði
Árið 2003 var því hægt að gera fullkomna skrá, teikna
varanlegt kort og númera leiðin á kortinu. Þetta hafði allt
verið samstarfsverkefni þeirra hjóna, gert af miklum
áhuga og svo tók Regína dóttir þeirra að sér að teikna upp
tölvugerðu teikninguna og setja allar upplýsingarnar á
gardur.is.
Þau Kristín og Hreinn telja það afar ánægjulegt að ýmsir
hafa eftir þetta fundið leiði vina sem þeir vissu ekkert
hvar voru og ættingjar hafa merkt og prýtt mörg leiði
síðan. Ótrúlega margir hafa vikið sér að þeim með
hrósyrði, sem fólki er víst ekki mjög tamt hér um slóðir, en
öllum þykir gott að fá. Guðmundur Rafn, umsjónarmaður
kirkjugarða, var áhugasamur um þetta verk og þegar því
var lokið, kom hann með fjóra stuðlabergsdranga sem eru
sem inngönguhlið í garðinn á tveimur stöðum, sett var
gangstétt inn í garðinn, fjögur ljós fram með stéttinni og
unnin mikil jarðvegsvinna og komið upp geymsluskúr
með bjöllu til að hringja við jarðarfarir. Að lokum má svo
nefna það að gert var minnismerki um gömlu kirkjuna en
það var unnið úr steini sem Hreini var eitt sinn gefinn
með mynd af kirkjunni á.
Öll leiði í Bjarnaneskirkjugarði hafa verið merkt. Kristín og Hreinn, glöð á góðri stundu fyrir fáeinum árum.