Helgarpósturinn - 22.11.1984, Blaðsíða 15

Helgarpósturinn - 22.11.1984, Blaðsíða 15
LISTAPOSTURINN „Sem yður þóknast" er fullt af gáska og rómantík. Shakespeare á Selfossi LS frumsýnir „Sem yður þóknast“ á sunnudagskvöld Einhvern veginn finnst manni Selfoss bara vera bær til að keyra í gegnum. í mesta lagi lætur maður sig sundla yfir iðuköstum Ölfusár á leiðinni yfir brúna og fær sér ís. En að fara þangað til að sjá Shake- speare? Shakespeare á Selfossi? Kyndugt. En þó ekki svo mjög, þegar þess er gætt að á Selfossi starfar eitt kraftmesta og áræðnasta áhuga- leikfélag landsins. Leikfélag Selfoss, auðvitað. Síðasta afrek LS er enn í fersku minni. Það æfði „Þið munið hann Jörund" eftir Jónas Árnason á ensku og fór með leikinn til írlands í sumar. Hressilegt tiltæki það. Og nú setur leikfélagið upp „Sem yður þóknast" (As you like it) eftir William Shakespeare, undir stjórn Arnars Jónssonar. „Arnar vildi setja upp Shake- speare og varð ekki haggað, þegar okkur hafði tekist að negla hann fastan hjá okkur hælbrotinn á báð- um í sumar," segir Rúnar Lund, for- maður LS síðan í vor. „Ég átti nú varla von á því að hug- myndinni yrði tekið þegar ég lagði hana fram ásamt nokkrum öðrum þegar ég kom austur," segir Arnar. „En ég fann strax áhuga fyrir verk- inu hjá fólki og löngun til að glíma við verkefnið. Það hefur lagt heil- mikinn metnað í sýninguna." Arnar segir allt of lítið gert af því að setja upp Shakespeare hjá áhugaleikfélögum. „Helst ættu leik- félög ekki að sýna neitt nema Shakespeare," segir hann hálfpart- inn í gamni. „Hann er að vísu stund- um erfiður en hann er líka svo skemmtilegur. Sýningarnar eru mannfrekar, svo margir fá að spreyta sig, leikmyndir eru einfald- ar og hann býður upp á svo mikið frelsi. Og svo fær fólk frábæra þjálf- un í meðíerð tungumálsins." „Sem yður þóknast" er gáskafull- ur gamanleikur með hellingi af rómatík og öfund. Á einum stað eru t.d. fjögur ástfangin pör stödd sam- tímis í sama skóginum. Hertoga- dóttir verður ástfangin af riddara- syni sem eltir hana í útlegð, o.s.frv. Semsagt fjör. „Þetta leikrit Shakespeares er frægt fyrir að í því er mestmegnis talaður eðlilegur prósi, eðlilegt mál. Og þetta leikrit býður upp á frelsi í allar áttir." Arnari finnst skaðlegt að íslenskt leikhús hafi almennt aldrei lagt út í alvarlega glímu við meistarann Shakespeare. „Fordómarnir gagn- vart honum hafa vaðið uppi alls staðar en þó einna síst úti á landi. Við ættum allt annað leikhús á ís- landi í dag, hefði einhvern tímann verið mörkuð sú stefna að vera með þessi klassísku verk á fjölunum mun oftar en gert hefur verið." I fljótu bragði man Arnar ekki eft- ir öðru áhugaleikfélagi en LA, „sem þá var þó orðið hálfgert atvinnu- leikhús", sem sett hefur Shake- speare á svið. I sýningu Leikfélags Selfoss taka þátt 30 manns, þaraf 18 leikarar sem fara sumir með fleiri en eitt hlutverk. Ólafur Th. Ólafsson gerði leikmynd. Og frumsýningin er í Selfossbíói á sunnudagskvöldið kemur, klukkan 21. H.T. Vönduö plata Kristins Sigmundssonar Kristinn Sigmundsson er án efa í hópi vinsælustu söngvara okkar. Hann er nú staddur í Washington, USA, en Örn og Örlygur hafa nýver- ið gefið út hljómplötu þar sem Krist- inn syngur einsöng við píanóundir- leik Jónasar lngimundarsonar. Mjög hefur verið vandað til þess- arar útgáfu og má nefna að pressun fór fram á sérstakan gæðavínyl sem ekki hefur verið notaður hérlendis áður og gefur plötunni tærari og hreinni tón og betri endingu að sögn. Alls eru 16 lög á plötunni og þar á meðal nokkur vinsæl tslensk lög svo sem Fögur sem forðum eftir Árna Thorsteinsson, og í fjarlægð eftir Karl O. Runólfsson við Ijóð Valdimars H. Hallstað. Af þekktum erlendum lögum á plötunni má nefna On the Road to Mandalay sem samið var af Oley Speaks og The Foggy, Foggy Dew, sem er þjóðlag frá Englandi. Tvö lög eftir F. Paolo Tosti eru á hljómplötu Kristins og Jónasar, annað þeirra er La Serenata. Richard Strauss á tvö lokalög plötunnar. Kristinn syngur einnig lög eftir ís- lensk nútímatónskáld. Annað er eft- ir Gunnar Reyni Sveinsson og nefn- ist Um hina heittelskuðu, ljóðið eftir Halldór Laxness, og hitt eru Gam- ansöngvar, safn nokkurra þjóðvísa sem Atli Heimir Sveinsson hefur gætt tónalitunum. Allir textar eru prentaðir og fylgja með íslenskar þýðingar sem Þor- steinn Gylfason annaðist. Hljóðrit- un var gerð á Logalandi í Reykholts- dal í Borgarfirði síðastliðið sumar og sat Halldór Víkingsson við upp- tökustjórnvölinn. Sérstaklega er til þess tekið að þar er úrvalspíanó af Steinway & Sons-gerðinni og not- færði Jónas sér það að sjálfsögðu. Umslag hannaði Ingvar Víkingsson. BARNABOKMENNTIR Bróöir minn Ljónshjarta Bróðir minn Ljónshjarta er fyrsta barn- uglan sem Mál og menning gefur út, en sag- an kom áður út hjá forlaginu 1976. í nýút- komnu hefti Tímarits MM er þessi ugluútgáfa kynnt: Ætlunin er að prenta vandaðar kiljur á sambærilegu verði við hinar erlendu sem selst hafa í vaxandi mæli undanfarin ár, og koma þannig til móts við lesendur með lækkuðu verði til að mæta harðri samkeppni við aðra miðla, sjónvarp, myndbönd, hljóm- plötur o.s.frv. Þetta er góð hugmynd. Kostn- aður lækkar sem nemur bandi og þeim íburði, sem heyrir til bókum á jólamarkaði, án þess að hinn ytri búningur sé til muna verri; í þessari uglu hefði þó pappír mátt vera ögn þyngri og ljósari. Astrid Lindgren er einstakur höfundur og skiptir engu máli hvar borið er niður í bók- um hennar. Þær eru líflegar, skemmtilegar, spennandi og hafa ævinlega eitthvað til mál- anna að leggja, en boðskapurinn er samof- inn söguþræðinum og skyggir aldrei á list- ina. Og ævintýraformið lætur henni einstak- lega vel. Bróðir minn Ljónshjarta er löng saga mið- að við flestar barnabækur, 248 bls. Hún seg- ir frá tveimur bræðrum, Karli og Jónatan Ljónshjarta, sem svo eru nefndir, sonum fá- tækrar, einstæðrar móður. Karl er 10 ára, rúmliggjandi og dauðvona við upphaf sög- unnar, en Jónatan er 13 ára, ímynd hreysti og æskufjörs. Hann huggar bróður sinn með því, að eftir dauðann fari hann til Nangijala, þar sem er heimur varðeldanna og ævin- týranna og allir fallegir, hraustir og hjálp- samir. Atvikin haga því svo til, að Jónatan fer til Nangijala á undan Karli: Hann ferst þeg- ar hann bjargar bróður sínum úr eldsvoða, stekkur með hann á bakinu út um glugga. í fyllingu tímans heldur Karl á fund bróður síns, til Kirsuberjadals í Nangijala. Þar ríkir sælutónn jarðlífsins, ef svo má segja um framandi slóðir og vitna í aðra góða bók. Þar er tímalaus miðöld, fólk hjálpast að og eng- inn líður skort. En í Nangijala er annar dalur og þar ríkir kúgun. Þengill hinn illi frá Karmanjaga ræður ríkjum í Þyrnirósadal og þegnar hans sæta skefjalausu ofbeldi. Forn- aldarskrýmslið Katla er ógnvaldur hans og hermenn eru allsráðandi. En frelsisþráin er vakandi þótt leiðtoginn sitji í haldi. Þessi ógn varpar skugga á sældartilveruna í Kirsu- berjadal, því þar er svikari sem leitast við að efla ríki Þengils. Söguþráður bókarinnar er síðan spunninn um baráttu hins góða og illa, íbúa Kirsuberjadals undir forystu Jónatans og Soffíu, og Þengilsmanna. Það gengur ým- islegt á, en hið góða sigrar, svikarinn fær makleg málagjöld og Þengill og menn hans þau örlög sem þeir höfðu unnið til. En Jón- atan fær að kenna á eiturblæstri Kötlu og það verður hlutskipti Karls að stökkva með hann á bakinu inn í annað tilverustig, til Nangilima. eftir Sölva Sveinsson Bróðir minn Ljónshjarta er falleg bók. Sögumaður er Karl Ljónshjarta, og frásögn hans er einkar hugljúf, blandin ljúfsárum trega og þó hvergi væmin. Og skírskotun bókarinnar er af hinu góða, eins og í ævin- týrinu, þótt efnið sé með þeim hætti sem hér hefur verið rakið. Hið illa lætur í minni pok- ann fyrir hinu góða vegna skapstyrks og æðruleysis persónanna, sem ganga á hólm við ofureflið. „Annars er maður ekki mann- eskja heldur bara lítið skítseiði," segir Jón- atan. Frelsishugsjón verður aldrei kæfð í blóði. Það gerist margt í þessari bók og hún er spennandi án þess að lúta lögmálum afþrey- ingarsagna. Persónur eru dregnar fáum en skýrum dráttum, Soffía hugrökk og hrein- lynd, Húbert tortrygginn og afbrýðisamur (en góðir menn geta nú verið afbrýðisamir!), Þengill er persónugervingur hins illa eins og undirsátar hans, og svikarinn í Kirsuberjadal á sínar góðu hliðar, þótt hann rati í ógæfu og súpi af því seyðið. Og öldungurinn Matthías í Þyrnirósadal er tákn hugprýðinnar. Þýðing Þorleifs Haukssonar er fjarska vel gerð. Máifar er hvergi uppskrúfað og orða- val ekki einfaldað, eins og stundum vill brenna við í barnabókum. Og það er í sjálfu sér mikil íþrótt að halda hinum hugljúfa stíl- blæ söguna á enda. Þýðingin er hóflega ögr- andi, ef svo má segja, þar eru t.d. nokkur orð, sem ungir lesendur þurfa að fá skýring- ar á (slagbekkur o.í!.). Málfar bóka fyrir börn og unglinga má ekki einfalda um of því hlut- verk þeirra er m.a. að þroska málfar les- enda, án þess þó að íþyngja þeim við lestur- inn. Svart/hvítar teikningar llon Wiklands eru bókarprýði. Þær eru í senn trúar textanum og bæta við. Myndirnar bls. 6-7 og 17 sýna t.d. Ijóslega hvernig aðbúnaður þeirra bræðra var hér á Jörð. Og skrýmslið Katla er afar ófrýnilegt á myndum Wiklands. Sjónar- horn hans í flestum myndunum er þannig, að lesandi horfir að ofan yfir sviðið og mynd- irnar öðlast fyrir vikið meiri dýpt. Nú er sýnd í sjónvarpi framhaldsmynd eft- ir þessari sögu. Hún fylgir textanum að mestu, en ýmis atriði eru þó felld niður; bíó- mynd er ekki bók þótt handritið sé samið eft- ir henni. „Sælutónn jarðlífsins" í Kirsuberja- dal komst ágætlega til skila, og átti tónlistin sinn þátt í því. Hið illa er persónugert í Þeng- ilsmönnum og varð afar ógnvekjandi í aug- um ungra áhorfenda og leist víst mörgum ekki á blikuna þegar Þengilsmenn riðu um götur í Þyrnirósadal með Karl Ljónshjarta! Bróðir minn Ljónshjarta er sígild bók, og efni hennar á erindi við alla. Börn og ungl- ingar frá 7 — 8 ára aldri njóta hennar og það er vissa mín, að fullorðnir megi einnig hafa gagn og gleði af lestrinum. HELGARPÓSTURINN 15

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.