Helgarpósturinn - 03.10.1985, Page 19
KVIKMYNDIR
Zelig í okkur öllunn
eftir Ingólf Margeirsson og Sigmund Erni Rúnarsson
Austurbœjarbíó: Zelig. ★★★
Handrit og leikstjórn: Woody Allen.
Bandarísk. Árgerð 1983.
Kvikmyndataka: Gordon Willis.
Tónlist: Dick Hyman.
Aðalhlutverk: Woody Allen, Mia Farrow,
Garret Brown, Stephanie Farrow, Will
Holt, Sol Lomita o.fl.
Kvikmyndir Woody Allens verða bara æ
betri. Allt frá því að hann setti sjálfan sig á
svið sem hinn taugaveiklaða, smávaxna
gleraugnaglám og Manhattan-gyðing í fyrstu
myndunum (Take the Money and Run (1969),
Bananas (1971) og Everything You Álways
Wanted to Know about Sex, But Were Afraid
To Ask (1972) hafa kvikmyndir hans þróast
og orðið formfastari og öruggari með nokkr-
um hliðarsporum eins og ástarjátningunni til
Bergmans í Interiors (1978) og sjálfspæling-
unni í Stardust Memories (1980). í nýjustu
mynd sinni, The Purple Rose ofCairo (1984)
sem undirritaður sá nýlega erlendis, nýtir
hann og ýkir kvikmyndaformið í hreina full-
komnun með kvikmynd í kvikmyndinni þar
sem persónur og leikendur mætast og eigast
við.
Af hinum nýlegri myndum hans er nú Zelig
(1983) komin til landsins en A Midsummer
Night's Sex Comedy (1982) og Broadway
Danny Rose (1983) enn ókomnar. Zelig er
makalaus og meinfyndin mynd. Hún fjallar
um fyrirbærið Leonard Zelig sem er upp
á sitt besta á þriðja og fjórða áratugnum.
Zelig er eiginlega persónulaus, óöruggur og
með enga sjálfsvirðingu eða sjálfsvitund.
Hann vill einungis geðjast öðrum og þetta
gerir hann með því að breyta sér í bókstaf-
legri merkingu eftir því fólki sem hann er
með hverju sinni. Þannig breytist hann í
negra, íra, hornaboltaleikara, stjórnmála-
mann, lækni, sálfræðing og þar fram eftir
götunum. Zelig verður þjóðfrægur, sem
,,Kamelljónmaðurinn“. Geðlæknir (Mia
Farrow) fær hann til meðferðar, læknar hann
og það takast með þeim ástir. En kreppan er
skammt undan, nú streyma fram ýmsir kven-
menn sem hafa átt með Zelig börn þegar
hann var í hinum og þessum hamnum. Vin-
sældir Zeligs breytast í úlfúð og hann hverf-
ur. Loks skýtur honum upp í Þýskalandi
Hitlers, orðinn SA-maður í fremstu áróðurs-
línu.
Þessa sögu alla segir Woody Allen í svart-
hvítri heimildarmynd, þar sem hann klippir.
saman gamlar fréttamyndir, bregður upp
myndum af þekktum bandarískum persón-
um í dag sem segja frá kynnum sínum og áliti
á Zelig (innskot í lit). Kvikmyndataka Gordon
Willis er afbragð, stundum veit maður hrein-
lega ekki hvað er ekta gömul fréttamynd og
hvað er „fölsuð" gömul ræma. Tónlist Dick
Hymans er í sama dúr, áhorfandinn getur á
engan hátt áttað sig á hvað eru stolnir gamlir
slagarar og hvað er frumsamið. Með því að
nota heimildarmyndaformið, tekst Woody
Allen að halda bíógestum fastfjötruðum, fá
þá til að trúa lyginni sem sannri frásögn.
Maður veit að Leonard Zelig var aldrei til, en
maður trúir samt á tilvist hans. Leonard
Zelig verður einnig einstakt verkfæri í hönd-
um Woody Allens til að hæðast endalaust að
tískufyrirbrigðum i sálfræði og læknisfræði,
og aldrei hef ég séð freudianismann skorinn
jafnsr.yrtilega niður, þótt Allen (og fleiri góð-
ir menn) hafi oft lagt sig fram við að grínast
með Freud. Það er ennfremur hæðst að
fjöldahysteríu og delluákefð Bandaríkja-
manna, kreppu, stjórnmálum og þjóðlífs-
þáttum. Eiginlega er Zelig saga Bandaríkj-
anna á fyrri hluta aldarinnar en hún er enn-
fremur um samsemd og sjálfsímynd einstakl-
ingsins. Það er Zelig í okkur öllum; við erum
pródúkt af umhverfi og menningu hvers
tíma. Zelig-stigið er æðsta þrep áhrifagirni
og öryggisleysis.
Zelig er stutt mynd (79 mínútur) en ég er
ekki frá því að hún hefði verið enn betri við
styttingu. Sem klukkustundar „heimildar-
mynd“ hefði Zelig orðið fullkomið meistara-
verk í réttri heimildarmyndalengd.
Söguþráðurinn í Zelig er borinn uppi af
þuli, og hrein hneisa að texti sögumanns
skuli ekki vera þýddur á kópíunni í Austur-
bæjarbíói. Zelig er nefnilega erfið mynd í
texta, og oftar snjöll en fyndin, og engin leið
iyrir bíógesti sem ekki kunna enska tungu
vel, að fá viðunandi botn í myndina. -1M
Woody Allen sem
Leonard Zelig: Hið
mannlega kamelljón í
eillfri leit að sam-
bandi og viðurkenn-
ingu.
Tryllt samband fréttamanns og fréttaefnis
Regnboginn: Árstíð óttans (The Mean Sea-
son): ★★★
Bandarísk, árgerð 1985.
Framleiðendur: David Foster og Lawrence
Turnman.
Leikstjórn: Philip Borsos. Handrit: Leon
Piedmont, eftir bók John Katzenbach „In
the Heat of the Summer". Kvikmyndun:
Frank Tidy Tónlist: Lalo Schifrin. Aðal-
leikarar: Kurt Russell, Mariel Hemingway,
Richard Jordan, Richard Masur, Joe
Pantoliano, Andy Garcia.
Malcolm Anderson er að krepera eftir átta
ára fréttamennsku á Miami Journal og er eig-
inlega á því að skipta yfir á smáblað úti á
landi, þegar hann fær heldur óvenjulega
upphringingu eftir að vera búinn að skrifa
frétt um stúlku sem skorin var um nóttina.
Maðurinn á hinum enda línunnar er morð-
inginn. Hann segist vera svo hrifinn af stíl
Malcolms að sér finnist óvitlaust að gera
hann að eiginlegum miðli milli sín og um-
hverfisins; hann skapi fréttirnar, Malcolm
skrifi þær. Reyndar sé hann búinn að skipu-
leggja næstu fjögur morð, svo það verði nóg
að gera við fréttaskrifin á næstunni hjá fé-
laga Anderson!
Þetta er gott plott og reyndar verður ekki
annað sagt um þennan þétta þriller Philip
Borsos en hann sé þrælvel skrifaður, ef und-
an er skilin persónan sem vinstúlka frétta-
mannsins á að túlka, en hún hangir um of í
lausu lofti. Leikur Mariel Hemingway í þessu
hlutverki er ákaflega flatur eftir því, en hið
sama verður fráleitt sagt um leik Richard
Jordan í hlutverki sálsjúka morðingjans.
Hann er innan við tíu mínútur framan við
tökuvélina, en nær á þeim kafla að skapa svo
sturlaðan karakter að hrollur manns varð
meiriháttar. Russel sýnir og góðan leik, virk-
ar altént mjög sannfærandi sem æsifrétta-
maður. Og reyndar verður ekki annað sagt
um myndina í heild, en að hún gefi nokkuð
trúverðuga innsýn í bandaríska blaða-
mennsku.
-SER.
Dino droppar vid hjá Stebba Kóng
Bíóhöllin: Auga kattarins (Cat’s Eye) ★★
Bandarísk, árgerð 1985.
Framleiðandi: Dino de Laurentiis.
Leikstjórn: Lewis Teague. Handrit: Stephen
King, eftir þremur smásögum sínum. Kvik-
myndun: Jack Cardiff. Tónlist: Alan Sil-
vestri. Aðalleikarar: James Woods, Drew
Barrymore, Alan King, Kenneth McMillan,
Robert Hays, Candy Clark, James Naugh-
ton, Tony Munafo.
Dag einn labbaði Dino kallinn yfir til
Stebba Kóngs og spurði: „Heyrðu Stefán,
mér skilst að þú skrifir ansi skemmtilegar
spennusögur. Værirðu ekki til í að rubba af
einu kvikmyndahandriti fyrir mig upp úr
þessum verkum þínum?" En Stebbi svaraði
að bragði: „Mér þykir það leitt, Dino minn,
en ég er bara algjörlega andlaus þessa dag-
ana, fær bara ekki fátæklegustu hugmynd í
kollinn." Dino: „Hva..., gildir ekki einu hvað
frá þér kemur, verður það ekki allt vinsælt?
Svona; byrjaðu nú, þú veist að þetta er ekki
spurning um pening af minni hálfu." Og
Stebbi gaf sig að lokum: „Jæja þá, ég get svo
sem reynt að hressa hérna upp á þrjár smá-
sögur sem ég fann ófullkláraðar undir rúmi
i gærkveldi, og þrætt þær saman í mynd. Er
það ókey?“
Og Dino de Laurentiis er aldeilis hræddur
um það, veit eins og fram kom hér að ofan,
að allt verður að gulli sem Stebbi Kóngur
snertir þessa dagana. Síðan er frumsýnt.
Fyrsta sagan er broslega fáránleg, önnur
giska spennó, sú þriðja spielbergsk. Þetta er
tengt saman með tilviljanakenndum ferðum
flækingskattar um borgir og bý og kallað
einu nafni „Cat’s Eye“. Basta; allir fara ánægð-
ir heim, enda er þessi kvikmynd nosturslega
unnin og til dæmis ekkert upp á hana að
klaga hvað leik varðar. En hver ástæðan er
fyrir því að þessi samsetningur verður að
filmu önnur en sú að Stephan King hafi verið
vita andlaus daginn sem Dino de Laurentiis
bankaði upp á hjá honum, skal ekki fjölyrt
frekar um.
-SER.
Góð mynd í vondu bíói
Tónabíó: Ragtime. ★★★
Bandarísk, árgerð 1981.
Framleiðandi: Dino de Laurentiis.
Leikstjórn: Milos Forman. Handrit: Michael
Weller. Kvikmyndun: Miroslaw Ondreizek.
Tónlist: Randy Newmann. Aðalleikarar:
James Cagney, Elizabeth McGovern,
Howard E. Rollins Jr., Mary Steenburger,
Brad Dourif, James Olsen, Donald
O’Connor.
Ekkert kvikmyndahús í Reykjavík sýnir
viðskiptavinum sínum jafn mikla lítilsvirð-
ingu og Tónabíó. Þjónustan við kúnnana er
nærfellt engin, nema ef vera skyldi popp-
kornssalan. Þannig hættu forráðamenn þessa
bíóhúss að prenta prógrömm með myndum
sínum fyrir allnokkrum misserum og hefur
það verið með herkjum síðan að bíógestir
hafi getað notið sjálfsagðra upplýsinga um
þá mynd sem þeir eru að fara að horfa á. Þá
gerist það æ ofan í æ að þetta bíó sýni mein-
gölluð eintök af kvikmyndum, rispaðar og
slitnar filmur, brenglaðar hljóði. Og það sem
er kannski verst af þessu öllu og sýnu aum-
ingjalegast er að stjórnendur þessa kvik-
myndahúss geta ekki hundskast til þess að
láta íslenska allar þær myndir sem þeir taka
til sýninga.
Það er agalegt að jafn góð mynd og Rag-
time skuli vera tekin til sýninga í jafn vondu
kvikmyndahúsi og Tónabíói. Og hafði maður
þó beðið nógu lengi eftir því að sjá þetta sjar-
merandi verk Formans á íslensku breiðtjaldi,
en myndin er árgerð ’81. Það eintak sem
Tónabíó sýnir af þessari mynd haustið 1985
er bæði lélegt og óþýtt (skýringartexti á
dönsku að visu). Og leikskrá er náttúrlega
víðs fjarri. Þó ekki væri nema af þessum sök-
um, vil ég benda fólki á að nálgast Ragtime
einhverstaðar annarstaðar en í Tónabíói, til
dæmis á vídeóleigum. Þessi þriggja stjörnu
mynd sem er einstaklega sterk lýsing á tíðar-
andanum í bandarísku þjóðfélagi rétt uppúr
aldamótum með hörkuleik Rollins, Cagney
og fleiri á skilið betri sýningarstað en í titt-
nefndu bíóhúsi.
-SER.
HELGARPÓSTURINN 19