Helgarpósturinn - 31.10.1985, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 31.10.1985, Blaðsíða 6
INNLEND YFIRSYN «6S»4' Tvö stærstu fyrirtækin í þessum verðbréfabransa eru í raun komin út í nokkurs konar bankastarfsemi. Nóg lánsfé hjá nýju ,.bönkunum“ og vilja ekki taka dýru lánin fyrr en í nauð- Hvað er á seyði, þegar fjármagn er boð- ið til láns og menn þurfa ekki lengur að bera sig eftir slíku? Jú, það er einfalt. Ný- bylgja hins frjálsa, eða hálffrjálsa, peninga- markaðar hér uppi á íslandi, hefur breytt að nokkru leyti viðteknum og gömlum venjum í þessu sambandi. Maður gefur einfaldlega út skuldabréf tryggt í eigum sínum og kemur í sölu á ein- hverri verðbréfasölunni, sem hafa skotið upp kollinum í gorkúlumynd síðustu misser- in. Verðbréfasalarnir selja bréfið, maður fær peninga í hendur. Einfalt, ekki satt? Að sumu leyti, en það galli á gjöf Njarðar. Þetta eru nefnilega dýrt keyptir peningar. Þetta er kostnaðarsamt lán. Maður fær minna í hend- ur og þarf að borga meira þegar að skulda- dögum kemur en gerist og gengur með hin venjubundnu bankalán, sem lúta föstum og ákveðnum lögmálum. Á hinum frjálsa fjár- magnsmarkaði gilda aðrar reglur. Þar gildir máttur fjármagnsins í sinni sterkustu og öfl- ugustu mynd, þannig að sá býr til reglurnar og kröfurnar sem yfir fjármagninu ræður. Þetta þýðir í stuttu máli, að sá er lánar pen- ingana, gerir það ekki nema hann sé gull- tryggður með góða ávöxtun af lánsfé sínu, fái það ríflega til baka, þegar að gjalddögum kemur. Sá sem er hins vegar í fjárþörf og leit- ar eftir lánsfé, verður að taka því sem að hon- um er rétt. En það er annað hvort ökkli eða eyra hjá okkur íslendingum. Það var rækilega snúið við blaði í þessum efnum. Nú eru lán, hvort heldur þau eru á hinum hefðbundna gamla fjármagnsmarkaði — í bönkum og sjóðakerf- inu — eða í hinum nýja farvegi fjármagnsins — hjá verðbréfasölum — langt í frá gefins og lántakendur verða aldeilis að greiða sínar skuldir til baka, þegar gjalddagar renna upp. Lánin eru verðtryggð og með háum vöxtum. Og sérstaklega hvað varðar hina síðar- nefndu, verðbréfasalana, þá er langur vegur frá því, að maður fái alla upphæð skulda- bréfsins, sem maður gefur út, í sínar hendur. Það eru nefnilega afföll á bréfunum. Stund- um tiltölulega lítil, ef bréfið er til skamms tíma og vel tryggt, en á stundum líka gífur- lega mikil. Þetta þýðir á mannamáli, að mað- ur undirritar ef til vill skuldabréf, vel tryggt í góðri eign, þar sem maður viðurkennir að skulda handhafa bréfsins 100 þúsund krónur og lofar að borga þær eftir eitt ár. Maður fengi innan við 90 þúsund í vasann við sölu bréfsins. En eftir árið, á gjalddaga bréfsins, yrði maður að greiða skuldareiganda 146.500 krónur, ef miðað er við verðbólgu upp á 40%. Það kostar sitt að skulda. Og hitt líka, sem alls ekki er óalgengt, að afföll á bréfum eru á stundum miklu meiri. 100 þúsund kr. bréfið getur gefið langtum minna af sér í upphafi fyrir þann sem gefur það út og selur, og þá eru uppgripin að sama skapi meiri hjá kaup- anda bréfsins. Það er því í sjálfu sér engin ný og betri tíð sem hefur runnið upp hjá þeim aðilum sem þurfa á lánsfjármagni að halda. Odýrt láns- fjármagn er ekki til staðar, en peningar eru til reiðu, ef aðilar vilja borga vel fyrir þá. Svo einfalt er það. Það er staðreynd engu að síður, að fjár- magn er falt, enda þótt svo sé haldið fram, að það sé skortur á lánsfé í landinu. En lántak- endur margir hverjir halda að sér höndum irnar rekur. Frekar vilja margir fyrirtækja- eigendur berjast við lausafjárskort, en freist- ast til þess að taka hin dýru lán. Það mætti ætla að fjármagnseigendur í landinu væru óðfúsir að koma peningum sínum i veltu, því sífellt auglýsa verðbréfasalar eftir skulda- bréfum til sölu. Þannig staðfesti Gunnar Helgi Hálfdánarson hjá Fjárfestingafélaginu, að það hefði hringt í félaga í Félagi íslenskra stórkaupmanna og vakið athygli þeirra á hinum nýju möguleikum, sem til væru varð- andi útvegun lánsfjár í gegnum hinn frjálsa peningamarkað. „Menn voru mjög ánægðir með þetta,“ sagði Gunnar. „Þeir sögðust ekki eiga þessu að venjast, því að í áralöngum viðskiptum við bankana, hefðu þeir verið vanir því, að koma með hnéför á buxunum sínum til bankastjóranna og biðja um fyrir- greiðslu. Með þessu er ég ekki að segja okk- ur bankastjóra eða bankastofnanir, en pen- ingaviðskipti eru bara eins og hver önnur viðskipti á markaðnum. Um þau gilda sömu lögmái og um aðra vöru.“ Ekki vildi Gunnar Helgi halda því fram að nægt lánsfé væri á markaðnum þrátt fyrir þetta. „Þetta er afskaplega þunnur markað- eftir Guðmund Árna Stefónsson ur og í heild er skortur á lánsfé. En inn á milli koma skammtímasveiflur sem virka í hina áttina.“ Aftur á móti er málum nú svo komið, að verðbréfasalarnir eru ekki einungis söluaðil- ar, sem koma á viðskiptum milli þeirra sem selja skuldabréfin, skuldaranna og hinna sem lána peningana, skuldareigenda. Tvö stærstu fyrirtækin í þessum verðbréfabransa eru í raun komin út í nokkurs konar banka- starfsemi, því þau hafa komið á fót sérstök- um sjóðum innan fyrirtækjanna, sem kaupa skuldabréf og selja. Hjá Fjárfestingafélaginu er sjóður sem heitir Verðbréfasjóðurinn og hjá Kaupþingi heitir samsvarandi sjóður Ávöxtunarsjóðurinn. Báðir þessir sjóðir eru að formi til hlutafélög, en í eigu móðurfyrir- tækjanna. Þetta þýðir í raun, að Fjárfestingafélagið fær t.d. skuldabréf í sölu og ef því líst svo á, þá er allt eins hugsanlegt að það verði Verð- bréfasjóður Fjárfestingafélagsins sem kaupir bréfin. Það merkir í rauninni að þessir verð- bréfasalar eru sjálfir farnir að lána peninga — beint eða óbeint. Gunnar Helgi Hálfdánarson var um þetta spurður. Hann sagði: „Verðbréfasjóðurinn kaupir bréf af mörgum aðilum í þjóðfélaginu og m.a. er hann viðskiptavinur verðbréfa- markaðar Fjárfestingafélagsins." Og sögur herma, að stærstu verðbréfa- markaðirnir séu sífellt að gerast umsvifa- meiri varðandi skuldabréfakaup. Þannig hafi þeir t.a.m. verið stórir kaupendur að bréfum þeim, sem Landsbankinn auglýsti í síðustu viku og voru m.a. útgefin af Mjólkursamsöl- unni. Þessi bréf ruku út á einni morgunstund, enda gáfu þau góða ávöxtun fyrir kaupend- ur, en þýðir um leið síðri bissness fyrir sam- söluna. En verðbréfasalar eru ekki þeir einu stóru í sambandi við verðbréfakaup. Lífeyris- sjóðirnir hafa í seinni tíð gerst umsvifameiri á hinum frjálsa verðbréfamarkaði með bréfakaupum. ERLEND YFIRSYN Margaret Thatcher fær hvern skellinn af öðrum hjá kviðdómum í Old Bailey. Játningar um kynsvall og njósnir reyndust illa fengnar I annað sinn á einu ári stendur stjórn Margaret Thatcher í Bretlandi uppi ötuð skömm og skaða eftir að kviðdómur sýknar sakborninga sem stjórnvöld kostuðu kapps að fá sakfellda. Kviðdómur við Old Bailey sakadóminn í London sat í einangrun hátt í viku að bera saman bækur sínar og komast að niðurstöðu, sem varð sú að sjö ungir menn úr flughernum voru sýknaðir af öllum ákæruatriðum. Sækjendur á vegum sir Michaels Havers, saksóknara í stjórn Thatcher, höfðu staðhæft að sjömenningarn- ir væru sekir um að láta sovésku leyniþjón- ustunni KGB í té viðkvæmustu hernaðar- leyndarmál Bretlands. Til þess að reyna að fá þá sakfellda var rek- ið langvinnasta og dýrasta njósnamál í sögu breskrar réttvísi. Réttarhöld stóðu í 119 daga, lengst af fyrir luktum dyrum að kröfu sak- sóknara. Kostnaður þegar upp er staðið nemur allt að fimm milljónum sterlings- punda, eða tæpum 300 milljónum króna. Niðurstaða kviðdómsins segir, að til þessa málareksturs hefði aldrei átt að koma. Flugliðarnir sjö störfuðu í fjarskipta- og hlerunarstöð bresku herstjórnarinnar á Kýp- ur. Þar eru hleruð og tekin upp til greiningar og ráðningar fjarskipti á landi, í lofti og á legi um allt austanvert Miðjarðarhaf og löndin sem að því liggja. Stöðin á Kýpur gegnir lyk- ilhlutverki í sameiginlegu hlerunarkerfi Bretlands og Bandaríkjanna. Kemur bæði til að þar er margt að hlera á svæði sem logar í viðsjám, og Bandaríkjamenn eiga ekki að- gang að neinni annarri slíkri á næstu grös- um. Frá því Thatcher komst til valda hefur eitt af hennar helstu keppikeflum í utanríkis- málum verið að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjastjórn, til að Bretland verði á ný uppáhalds bandamaður hennar í Vestur- Evrópu. í því skyni hefur hún gert sér sér- stakt far um að reka af Bretum það slyðruorð sem á þá var komið hjá bandarískum leyni- þjónustustofnunum vegna tíðra og slæmra njósnahneyksla í Bretlandi. Til að geðjast Bandaríkjamönnum í þessu efni lét Thatcher banna starfsmönnum í hlerunar- og grein- ingarstöðinni miklu í Cheltenham í Englandi aðild að verkalýðsfélagi. Mál út af þeirri rétt- indasviptingu er nú rekið fyrir Mannrétt- indanefnd Evrópu. Af sama toga voru viðbrögðin, þegar því var lostið upp að viðkvæm hernaðarleynd- armál hefðu komist KGB í hendur úr hler- unarstöðinni á Kýpur. Herlögreglunni var sigað á starfsliðið, sjö óbreyttir flugliðar handteknir. Og viti menn, áður en langt um leið lágu fyrir játningar frá þeim öllum. Þær voru þess efnis, að vafasamir náungar hefðu tælt þá til þátttöku í kynvillusvalli, og að svo búnu hefðu þeir verið kúgaðir til njósna, með því að hóta að ella yrði athæfi þeirra gert uppskátt yfirmönnum og fjölskyldum. Saga réttarofsókna allt frá dögum Filipp- usar fagra Frakkakonungs og Musterisridd- arareglunnar til Stalíns og Moskvuréttar- haldanna er ein óslitin sönnun fyrir að játn- ing sakbornings ein út af fyrir sig er ná- kvæmlega einskis virði sem sönnunargagn. Bjargarlaus fórnarlömb óprúttinna rann- sóknardómara hafa fengist til að játa og stað- festa hverja fjarstæðu sem vera skal. Niður- staða í Old Bailey leiðir í ljós, að í hlerunar- stöðinni á Kýpur var hvorki um að ræða kyn- villusvall, uppljóstrunarhótanir né njósnir af hálfu sakborninganna sjö. Þegar eru komnar fram ásakanir um fantaskap og lögleysur rannsóknarmanna. Strax og fyrstu sýknuúrskurðirnir voru kveðnir upp, tóku sakborningar og ættingjar þeirra að leysa frá skjóðunni. Herlögreglan hélt sakborningum í algerri einangrun allt að tólf sólarhringa samfleytt. Rannsóknar- menn eru sakaðir um að hafa beitt fórnar- lömb sín bæði andlegum og líkamlegum mis- þyrmingum. Ákærurnar voru byggðar á játningum einum saman, án þess snefill af sjálfstæðum sönnunargögnum fylgdi. Þingmenn úr öllum flokkum í Neðri mál- stofu breska þingsins gerðu harða hríð að ráðherrum í fyrradag, eftir að síðustu sýknuúrskurðirnir lágu fyrir. John Stanley hermálaráðherra hét þegar í stað rannsókn óháðs aðila á öllum aðdraganda málsins og framkvæmd málsrannsóknar. Fyrir liggur að það var ákvörðun sir Michaels Havers og Thatcher forsætisráðherra í sameiningu að taka við málinu athugasemdalaust frá her- yfirvöldum og fela það Special Braneh Scotland Yard til reksturs fyrir Old Bailey til frekustu refsingar eftir lögum um uppljóstr- un ríkisleyndarmála. Sektarúrskurðum hefðu fylgt áratuga fangelsisdómar. Eftirmálin geta orðið löng og flókin, bæði vegna saknæms athæfis rannsóknarmanna og bótaréttar þeirra sem bornir voru röngum sakargiftum. Ekki auðveldar það að komast til botns í málinu, að um ríkisleyndarmál er að tefla. Vafi hlýtur að leika á því á þessari stundu, hvort nokkrar njósnir áttu sér í raun og veru stað á Kýpur. Og sé fyrir því óyggjandi vissa, að ríkis- leyndarmál Bretlands hafi borist úr hlerun- arstöðinni þar til KGB, hvar er þá föðurlands- svikarana að finna? Voru það kannski þeir sem bentu á sjömenningana, sem nú hafa verið sýknaðir? Eða voru raunverulegu njósnararnir máske yfirmenn rannsóknar- innar, þeir sem létu herlögregluna fara þann- ig að ráði sínu að saklausir menn komust í slíka neyð að þeir sáu sér ekki annan úrkost en játa á sig lognar sakir? í þessum dúr mætti lengi spyrja. Það sem ljóst liggur fyrir er að breska gagnnjósna- þjónustan hefur fengið enn einn skell, og var þó síst á bætandi hjá henni. En þeir sem gera sér í hugarlund að öryggi og vernd leyndar- mála sé best borgið með því að efla leyni- þjónustur og fá þeim aukið vald yfir sam- borgurum sínum, virðast seint geta lært af reynslunni. Hún kennir að veilan hjá Bretum hefur áratugum saman verið í leyniþjónust- unum sjálfum. Þaðan komu þeir Burgess, Philby, Blunt, Blake og svo margir aðrir. Svo gera stjórnvöld sér í hugarlund, að unnt sé að treysta þjóðaröryggi með því að efla stofnanirnar sem fóstruðu og forfröm- uðu þessa menn, gefa þeim aukið vald og umboð til að ákveða hverjum sé trúandi fyrir ríkisleyndarmálum og viðkvæmum störfum og hverjum sé það ekki. Fyrir Thatcher forsætisráðherra eru mála- lok í Old Bailey um síðustu helgi enn meira áfall sökum þess, að þar var fyrr á árinu kveðinn upp sýknuúrskurður yfir manni, sem hún lét lögsækja fyrir að setja skyldu við lög og rétt ofar hollustu við stjórn hennar. Clive Ponting var embættismaður í land- varnaráðuneytinu, sem lét þingmann vita að ráðherra hefði farið með rangt mál. Kvið- dómur sýknaði hann af broti á lögum um uppljóstrun ríkisleyndarmála. Þótt ýmsu hraki í Bretlandi um þessar mundir, er ber- sýnilega enginn bilbugur á kviðdómendum. 6 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.