Helgarpósturinn


Helgarpósturinn - 13.02.1986, Qupperneq 2

Helgarpósturinn - 13.02.1986, Qupperneq 2
URJÓNSBÓK Hamingjan góða Fátt veldur einstaklingum sárra hugarvíli en að brjóta heilann um hamingju sína. Flestir rata þó í slíkar ógöngur oftar en einu sinni; í fyrsta skipti á mótum unglingsára og manndóms þegar sálin er enn í næmum tengslum við sérhverja taug í sköpun- arverkinu og hjartað heimtar í vanþroska sínum að allir séu hamingjusamir nema foreldrar manns og þeir aðrir sem standa í vegi fyrir að fólk geti öðlast lífsfyllingu og hamingju. Kröfugerð af slíkum toga nær vitaskuld út yfir öll skynsamleg mörk, enda mildast hún brátt við íblöndun reynslunnar í með- fædda bjartsýni og gleymist þegar étur sig út undir húðina nagandi spurnin hvort sé maður sjálfur ham- ingjusamur. Köld lánleysistilfinning hvolfist þá yfir mann eins og nístandi heimskautanótt og þegar birt- ir loks í kringum hann af margfaldri litadýrð verald- ar, sem víst er hvikul eins og skin norðurljósa — en lýsir þó, heitir hann sjálfum sér að inna aldrei framar eftir hvort hann hafi höndlað gæfuna. Fæstir geta efnt þetta heit frekar en önnur og grípa til þess úr- ræðis að leita ekki svars við spurningunni eða telja fullnægjandi lausn að íhuga hvort þeir séu ekki við góða heilsu, eigi bíl sem er gott að aka, konu sem er gott að elska og börn sem er gott að vita af sofandi. Líða svo mörg ár uns spurnin angrar þá á nýjan leik, nema þeir verði svo ógæfusamir að hlaupa í flasið á fólki, sem telur sig vera hamingjusamt og stundar þá iðju að splundra áhyggjuleysi annarra með því að spyrja þá hreint upp úr þurru hvort þeir séu í raun og veru hamingjusamir. Sumir búa þó yfir síspyrjandi sál, og einstaka mað- ur býr yfir sál sem lætur sér ekki nægja skírskotun til þokkalegrar heilsu, bíls sem er góður í endursölu, konu og barna og innstæðu á öndvegisreikningi. Korpinn og grómtekinn pípulagningameistari, stoð( mín og stytta í sérhverri vatns- og skólplagnabilun, er einn þessara ólánsmanna. Spurningunni þyrmir yfir hann á nokkurra vikna fresti og stundum svo óvænt að hann er í miðri lögn, stendur álútur yfir snittivélinni eða er í þann veg að herða rörtöng um hné, og Iítur þá upp frá verki, botnlaus í augum eins og hafi strokist fram hjá hónum himindjúpur kven- mannskroppur, og fallast hendur. Þegar svona stendur á, vita þó allir, sem til hans þekkja, að hann þjáist ekki af holdlegum ofsjónum. Enn einu sinni hefur þeirri spurningu lostið niður í huga hans, hvort hann sé hamingjusamur, og hann rís á fætur, nábleikur, þögull sem gröfin og gengur frá lögn og snittivél, togar frollu sína niður fyrir eyru og hverfur í braut frá gapandi munnum, opnum rör- um og lausum hnjám. Ég veit ekki um nokkurn mann sem tekur þessa spurningu um hamingjuna jafn alvarlega. Heimamenn mega sækja sér vatn til nauðþurfta í skjólur til nágrannans og bíða þolin- móðir og illa þvegnir uns píparinn birtist á tröppun- um eftir tvo til þrjá sólarhringa eins og ekkert hafi í skorist. Hann brosir þá upp undir hársrætur, þegar aðfinnslurnar dynja á honum, svarar eins og þær væru heillaóskir og heldur áfram að leggja. Eg hef ekki grennslast eftir hvað hann hefst að þennan tíma, sem hann er í burtu, hvort hann hugleiðir líf sitt í hnuðli undir sæng, í keng yfir flösku eða á rölti um göturnar, brúnaþungur með krepptan hnefa um samanvöðlað síðdegisblað. En Ijóst er af hegðun hans á eftir að hann hefur komist að þeirri niður- stöðu að hann sé hamingjusamur. Þessi niðurstaða virðist þó byggð á svo veikum forsendum að inn.an. nokkurra vikna vofir stöðugt yfir pípara mínum að hann þurfi að leita svars á nýjan leik. En þá er hann til allrar hamingju venjulegast búinn að gera við það sem bilaði hjá okkur síðast. Að því er sjálfan mig varðar og spurninguna um hamingjuna þá gerist það ævinlega, þegar ég fylli út skattskýrsluna, að þessari spurningu þyrmir yfir mig svo að reitirnir renna saman fyrir sjónum mér. Þetta stafar ekki einungis af því að ég skuli ekki geta nýtt mér eina einustu frádráttarheimild, heldur einnig og reyndar miklu fremur af því hversu margir reitir á skýrslunni minni standa auðir. Engu er líkara en mér ætli aldrei að takast að láta mér verða eitthvað úr þessu lífi svo að mark sé á tekið á íslenskan mæli- kvarða. Skattskýrslan, þessi árlega yfirheyrsla um afrek mín á liðnum misserum, spyr til dæmis um arð af hlutabréfum, söluhagnað, leigutekjur af fasteign- um samkvæmt meðfylgjandi rekstraryfirliti, hreina eign samkvæmt efnahagsreikningi, innlenda pen- inga og erlenda peninga, hlutabréf, skattfrjáls jöfn- unarhlutabréf, gefur mér tvo reiti fyrir ökutæki, átta línur fyrir fasteignir, spyr um verðbréf, útistandandi skuldir og aðrar innstæður og bréf, vaxtatekjur og arð og fjárfestingu í atvinnurekstri og sannast sagna get ég ekki fyllt út í neinn af þessum mikilfenglegu reitum nema hvað íbúðarholuna og bílskrjóðinn verður að tíunda. Skýrslan mín er svo bert plagg að lýsir af henni langar leiðir og í hreinskilni sagt verð ég efins um hvort ég hafi yfirleitt nokkuð að gera á þessu landi, fyllist óhamingju og minnimáttarkennd, vöðla skýrslunni tryggilega ofan í brúnt umslag, svo að enginn óviðkomandi reki augun í þessa smán, og læðist með hana í vetrarmyrkrinu eftir fáförnum strætum niður á skattstofu. Þegar ég nálgast skatt- stofuna, bretti ég upp frakkakragann og set hattinn ofan í augu svo að enginn nærstaddra beri kennsl á mannaumingjann með svona ómerkilega skýrslu. Og eftir að ég hef troðið henni í fáti og flaustri innum bréfarifuna, hleyp ég flóttalegur úr augsýn allra hinna eins og ég ímyndi mér að þeir hafi allir upp- götvað í gegnum brúnt umslagið hvað það var fátæk- legt, uppgjörið á lífi mínu á nýliðnu ári. En ég tek hamingju mína á nýjan leik, sanniði til, ég verð hamingjusamur eða gleymi að minnsta kosti spurningunni um lífshamingju þegar ég er kominn heim að útrunnum skilafresti og sest niður að reikna út skattana. Málum er nefnilega þannig háttað hér á landi að þeir, sem fylla út í fæsta reitina á skattskýrsl- unni, fá flesta reitina ærlega útfyllta á gjaldheimtu- seðlinum. Ég fullyrdi ekki ad slíkt sé óyggjandi ham- ingjutákn, en vissulega gefur það lífinu einhvern til- gang og svarar að nokkru leyti spurningunni hvort maður sé hamingjusamur, ef manni er þrátt fyrir allt ætlað það hlutskipti að greiða skattana fyrir þá sem hafa svo marga reiti að útfylla að þeir verða að láta fyrirtækið greiða sér lögfræðiaðstoð við að svara spurningum skattskýrslunnar um afrek viðkomandi á liðnum misserum. HAUKURIHORNI SKATTFRAMTÖL ,,Hefurðu tekið eftir þvf hve fs- lendingar eru skilvísir skattgreið- endur?'1 ÍjúM 6~u^ 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.