Helgarpósturinn - 13.02.1986, Side 34
POPP
BAD — ekki sem verst
eftir Ásgeir Tómasson
THIS IS BIG AUDIO DYNAMITE
— BAD
Útgefandi: CBS/Steinar
Síðan Mick Jones gítarleikari var rekinn úr
hljómsveitinni Clash hefur sannarlega verið
á brattann að sækja á því forna frægðarsetri.
Henni tókst þó loksins að koma út plötu á
síðasta ári sem því miður er að gæðum óra-
vegu frá því þegar best lét í lok síðasta ára-
tugar og byrjun þessa.
Um svipað leyti og Clashplatan Cut The
Crap kom út sendu Mick Jones og félagar
hans frá sér sína fyrstu plötu. Platan nefnist
This Is Big Auciio Dynamite og hljómsveitin
heitir Big Audio Dynamite, oftast aðeins köll-
uð BAD. Þetta er fjögurra manna flokkur.
Jones hljómsveitarstjóri leikur á gítar og
syngur. Með honum eru Don Letts, Leo „E-
Zee Kill“ Williams, og Greg Roberts. Fimmti
maðurinn í BAD er Dan Donovan. Hann tek-
ur myndir auk þess að spila á hljómborð!
Ekkert þekki ég til fyrri afreka þessara pilta.
Hef reyndar heyrt því fleygt að þeir hafi ekk-
ert kunnað á hljóðfæri áður en Mick Jones
bauð þeim að stofna með sér hljómsveit.
Hvort sem það er satt eður ei er platan This
Is Big Audio Dynamite býsna forvitnileg.
Eiginlega er tónlist BAD fyrst og fremst
danstónlist í svonefndum dub stíl. — Clash
var reyndar farin að fást við slíka músík á
Sandinista! plötunum þegar tilraunastarf-
semi hljómsveitarinnar var upp á sitt besta.
— Laglínur eru yfirleitt sáraeinfaldar (stund-
um er laglínu reyndar ekki til að dreifa) og
þungur takturinn í forgrunni.
Ég efast um að lögin á þessari fyrstu plötu
BAD eigi greiðan aðgang undir nálarnar hjá
plötusnúðum hér á landi. Til þess er tónlistin
of tilraunakennd og ævintýraleg. Og þó svo
að fjór- eða fimmmenningarnir í hljómsveit-
inni hafi valið taktfast ,,dub-funk“ á fyrstu
plötuna sína er ekki þar með sagt að þeir hafi
ætlað sér frama á diskótekum heimsins.
Enda hafa poppblaðamenn látið vel af
frammistöðu félaganna á sviði og segja tón-
list þeirra mun rokkaðari á hljómleikum en
í stúdíói.
Eitt lag af This Is Big Audio Dynamite kom
út á lítilli plötu á síðasta ári: lagið The Bot-
tom Line. Það vakti sáralitla athygli og er þó
áheyrilegra en margt annað sem á greiðan
aðgang að vinsældalistum heimsins um
þessar mundir.
When you reach the bottom line
The only thing to do is climb.
Svo segir á einum stað í texta lagsins The
Bottom Line. Það gætu eiginlega verið ein-
kunnarorð hljómsveitarinnar Big Audio
Dynamite. Hún byrjar eins og svo margar
rokksveitir síðasta áratugar í neðstu tröppu
eða á grunninum. Þaðan getur leiðin aðeins
verið upp á við.
Miðað við fyrstu plötu BAD og þeim vænt-
ingum sem Mick Jones hefur tjáð breskum
poppblaðamönnum um hljómsveitina spái
ég því að hún eigi eftir að ná sér vel á strik.
Hljómsveitinni Clash hefur fatast flugið við
brottrekstur Mick Jones. Hann á áreiðanlega
eftir að ná sér vel upp aftur með nýjum
mönnum. Gefið Big Audio Dynamite gaum í
framtíðinni.
PS: Mér var sagt fyrir skemmstu að platan
væri komin á útsölur hér. Þeim mun meiri
ástæða til að kynna sér fyrirbærið BAD.
BITTER SWEET - King
Útgefandi: CBS/Steinar
Sumir geta dælt út lögum sem öll komast
hátt á vinsældalista án þess að LP piötur
þeirra séu neitt sérstakar. Vel þekkt smá-
skífubönd frá því í gamla daga eru Small
Faces og Dave Clark Five. Nú á dögum er
Shakin’ Stevens til dæmis afkastamikill
smellasjarmör og ekkert annað. Miðað við
tvær fyrstu breiðskífur hljómsveitarinnar
King er hún einnig í þessu sama fari.
Ferill þessarar hljómsveitar er ekki langur.
Hins vegar hefur hún komið hressilega við
sögu á vinsældalistum síðustu mánuðina.
Fyrst vakti King athygli fyrir lagið Love And
Pride. Síðan komu Won’t You Hold My Hand
Now, Alone Without You, The Taste Of Your
Tears og nú síðast Torture. Flest eru þessi lög
áheyrilegir smellir svokallaðir meðan þeir
eru nýlegir. Þeir eldast hins vegar hratt og
verða leiðigjarnir með tímanum. Dæmigerð
dægurlög með öðrum orðum.
Það verður að teljast afrek hjá ungri hljóm-
sveit sem King að koma fimm lögum hátt á
lista á innan við ári. Gildir þar einu hvort lög-
in rista djúpt eður ei. Þessir listasmellir
standa hins vegar upp úr lagasmíðum liðs-
manna hljómsveitarinnar. Stærri hlutinn er
aðeins meðalmennskulegt uppfyllingarefni.
Upptökustjórinn Richard James Burgess á
áreiðanlega stóran þátt í skjótri velgengn-
inni. Þá er söngvarinn og framlínumaðurinn
Paul King sjálegasti piltur. Hann kemur vel
fram í sjónvarpi og er sætur á plakatamynd-
um. Slíkt spillir ekki þegar baráttan um vin-
sældir og hylli unglinganna er annars vegar.
Mér sýnist meira að segja að Paul King sé far-
inn að hafa áhrif á hártísku karlmanna. Ég
var að fletta enskum vörulista á dögunum og
sá ófáar King-eftirlíkingar þar.
Hljómsveitin King á áreiðanlega eftir að
láta að sér kveða í vinsældapoppi og
smellaframleiðslu á þessu ári og kannski líka
því næsta. En miðað við frammistöðu á LP
plötunum Steps In Time og Bitter Sweet á
hljómsveitin tæpast eftir að endast lengi.
BÓKMENNTIR
Öllu bókelsku fólki
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR 1985,
1.-4. hefti, ritstjórar Silja Adalsteinsdóttir
og Vésteinn Olason.
í Ljóölist, bók Baldurs Ragnarssonar, eru
taldar upp 48 íslenskar ritgerðir um ljóðlist,
úr tímaritum, ritröðum og ritgerðasöfnum.
Réttur þriðjungur þeirra er úr Tímariti Máls
og menningar, TMM. Ef aðeins er litið á síð-
asta áratuginn sem ritgerðaskráin nær til,
1973—82, vex hlutur TMM í helming, 8 af 16.
Þetta gæti í sjálfu sér verið tilviljun, en ég
hygg þó að það gefi nokkra vísbendingu um
stöðu TMM í íslenskri bókmenntafræði og
bókmenntaumræðu, ekkert frekar á sviði
Ijóðlistar en annarra bókmennta. Og þó er
TMM alls ekki lagt undir eintóma bók-
menntafræði.
Helgarpósturinn hefur stundum — ekki að
staðaldri — flutt ritfregnir um einstök hefti
TMM, en hér verður rætt um heilan árgang,
4. hefti. Þau eru samtals um 530 blaðsíður, á
við mjög myndarlega bók, og er áskrift inni-
falin í félagsgjaldi Máls og menningar.
Nú er Mál og menning, eins og allir vita,
vinstrimannafélag, á línu sem kannski má
kenna við Alþýðubandalagið eða Þjóðvilj-
ann eða kúltúrkomma. Þetta má líka sjá af
Tímaritinu, þó miklu frekar af því hverjir
skrifa í það en hvað eða hvernig þeir skrifa.
Þetta lið vinstrimanna — eða kúltúrkomma
á Þjóðviljalínu — reynist þess fullkomlega
umkomið að halda úti tímariti sem öllu bók-
elsku fólki hlýtur að þykja varið í.
Ljóð eru birt í hverju hefti TMM. Tímarit
eru heppilegur vettvangur fyrir ljóðlist. Les-
endur, sem naumast eru nógu ljóðelskir til að
leggjast í heilar Ijóðabækur og lesa þær eins
vandlega og þyrfti, fá þar hæfilega smáa
skammta af ljóðum til að velta fyrir sér, og fá
sæmilegt tóm til þess, því að tímarit les mað-
ur ekki endilega í einni lotu eins og blað.
Árgangurinn flytur upp undir 50 ljóð, flest
stutt, eftir 22 skáld. Meirihluti þeirra er inn-
an við 35 ára aldur, en af hinum eldri má
nefna Stefán Hörð Grímsson (sem hefur ort
manna mest í TMM á liðnu ári), Thor Vil-
hjálmsson og Kristján Árnason, auk Ástu
Sigurðardóttur, en hún er eina skáldið sem
ekki er lifandi og starfandi enn. Lesendur
TMM fá þannig talsvert úrval af ljóðlist líð-
andi stundar, einkum af verkum ungra
skálda og upprennandi.
Svo flytur ritið smásögur, venjulega bæði
þýdda sögu og frumsamda í hverju hefti.
Raunar eru frumsömdu sögurnar aðeins
þrjár á síðasta ári, eftir Sindra Freysson (ör-
stutt saga eftir kornungan höfund), Elías Mar
og Guðberg Bergsson (en Guðbergur hefur
verið TMM drjúgur liðsmaður síðustu árin og
birti þar í fyrra svipmyndir ,,úr dögum bylt-
ingarinnar í Portúgal árið 1975“ undir nafn-
inu „Brúðan”).
Af þýddu sögunum er ein gömul, „Ævin-
týr af Eggerti glóa“ sem Jónas og Konráð
þýddu og birtu í Fjölni fyrir 150 árum. Hitt
eru nýjar þýðingar, sögur eftir Milan Kund-
era (og fylgir með viðtal við höfundinn, tekið
af þýðandanum, Friðriki Rafnssyni), Margue-
rite Yourcenar og Onelio Jorge Cardoso, all-
ar þýddar úr rómönskum málum, snjallar
sögur og hæfilegar stuttar fyrir tímarit; og
skal sérstaklega vakin athygli á sögu Cardos-
os fyrir afburðasnjalla þýðingu Ingibjargar
Haraldsdóttur, sem einnig er eitt af ljóðskáld-
um TMM.
Ritdómar eru mikilvægur efnisþáttur
TMM. Þeir eru birtir um einstaka fræðirit, en
þó einkum um markverð íslensk skáldrit, og
sinnir TMM þar hlutverki sem önnur tímarit
(Skírnir!) leiða hjá sér. TMM hefur lánast að
útvega ritdóma sem tímariti eru samboðnir,
yfirleitt efnismeiri og dýpra unnir en gerist
um bókadóma í blöðunum. Hins vegar eru
dómarnir heldur fáir. Af skáldritum frá 1984
er aðeins búið að fjalla um 6 (ljóðabók, leikrit
og 4 skáldsögur), þar af 4 útgáfubækur Máls
og menningar. En eins og 1. heftið í fyrra
flutti dóma um bækur frá 1983, þannig má
búast við umsögn í næsta hefti um fleiri af
bókunum frá 84.
Þá er komið að meginefni TMM, fræðileg-
um greinum og ritgerðum, einkum um bók-
menntir. Þótt þær séu fræðimannlega fram
settar, með formlegum heimildavísunum og
ekki myndskreyttar nema sérstakt tilefni sé
til, þá eru þær yfirleitt hóflega stuttar og vel
og aðgengilega skrifaðar, svo að ég get þess
vegna staðið við það sem fyrr var sagt, að
TMM sé boðlegt öllu bókelsku fólki, ekki
endilega lærdómsmönnum eða bókmennta-
spekúlöntum.
Líkt og ritdómarnir eru greinarnar í viss-
um tengslum við útgáfubækur Máls og
menningar. Þannig skrifar Árni Bergmann
um Glœp og refsingu Dostoévskís; Heimir
Pálsson um útgáfu sína á Snorra-Eddu; Krist-
ján Árnason um Raunir Werthers unga eftir
Goethe; og Ástráður Eysteinsson um Astkon-
una eftir Fowles. Þetta eru nýútkomnar eða
væntanlegar útgáfubækur M&M, og er góð
þjónusta við félagsmenn að birta um þær
fróðlega umfjöllun.
Venjulega er drjúgur hluti hvers heftis
helgaður einu efnissviði. Fyrsta heftið fjallar
mikið um íslenskar fornbókmenntir; Vé-
steinn Ólason skrifar um íslendingaþætti,
Haraldur Bessason um Völundarkviðu, Her-
mann Pálsson um syndarhugtakið i Sólar-
ljóðum og víðar, en Gunnar Karlsson og Vil-
hjálmur Árnason taka hvor um sig til endur-
mats þá deilu um siðferðisboðskap íslend-
ingasagna sem Hermann vakti á sinum tíma.
Þriðja hefti ber táknorðið „Hinn sálfræði-
legi maður". Lýtur það væntanlega að meg-
ingrein heftisins, sem Dagný Kristjánsdóttir
ritar og nefnir „Loftur á „hinu leiksviðinu”.
Nokkrar athuganir á Galdra-Lofti Jóhanns
Sigurjónssonar í ljósi sálgreiningarinnar”;
svo og styttri grein, „Strindberg og Freud"
(um Draumleik) eftir Keld Gall Jörgensen.
Svo vantar raunar ekki sálfræðina í smásögu
Kundera sem fyrr getur; og við sálfræði má
kannski líka kenna þær furðuhugmyndir
austurríska aldamótamannsins Ottos Wein-
inger sem Halldór Guðmundsson skrifar um.
„Rómantík" er yfirskrift fjórða heftisins,
og á hún við sumt af fyrrnefndu efni: Eggert
glóa, Werther unga og Ástkonuna. En hér er
einnig „Spjall um rómantík og þjóðernis-
stefnu" eftir Gunnar Karlsson (hann á í ár-
ganginum tvær veigamiklar greinar og rit-
dóm að auki); grein Guðmundar Andra
Thorssonar um rómantíkina og Jónas Hall-
grímsson þar sem m.a. er lagt út af ljóða-
flokknum „Annes og eyjar"; og grein eftir
Þóri Óskarsson „um hlutverk listarinnar í
heimssýn rómantískra skálda" þar sem mið
er tekið af Benedikt Gröndal og „Hugfró”
hans.
Enn er ekki allt efni árgangsins talið.
Hannes Lárusson og Gunnar Harðarson
skrifa greinar um íslenska myndlist síðustu
ár og áratugi. Ingunn Ásdísardóttir um síð-
asta leikár í íslensku atvinnuleikhúsunum.
Ágúst Georgsson segir og túlkar munnmæla-
sögur um viðureign ameríska hersins í Hval-
firði við drauga og álagabletti. Þýdd er rit-
gerð eftir J.M. D’Arcy um orkneyskt ljóð-
skáld, Brown; Helgi Grímsson ritar um ljóð-
list Einars Braga; og Ragnhildur Richter
skrifar um Huldu (rækilega og merkilega
könnun á því hvernig viðhorf Huldu til skáld-
skapar og kveneðlis birtist í ljóðum hennar).
Loks á Helga Kress hér mjög rækilega (og
harkalega) gagnrýnisgrein um norska þýð-
ingu á Leigjandanum Svövu Jakobsdóttur.
Það er lengsta grein árgangsins og skipt á
tvö hefti, en annars eru greinar í hæsta lagi
20 síður, oft um og innan við 10 síður, og er
ákjósanlegt að halda lengd þeirra þannig í
skefjum.
Meira varðar þó að greinarnar séu vandað-
ar að hugsun og framsetningu, og það er
mikill meirihluti þeirra, sem væntanlega má
öðrum þræði þakka árvökulli ritstjórn. En
rýmið leyfir mér ekki að segja kost og löst á
þeim hverri fyrir sig.
34 HELGARPÓSTURINN