Helgarpósturinn - 11.12.1986, Qupperneq 2
texti: Anna Kristine Magnúsdóttir
mynd: Jim Smart.
Rœtt við Þuríði Pálsdóttur um bókina „Líf mitt og gleði“
MINNISVERÐAR MINNIN
ENGIN ÆVISAGA
,,Eg vil helst ekkert tala um þessa
bók — bara þad ad hún er að koma
út!“ sagði Þuríður Pálsdóttir söng-
kona og brosti við. Tilefni viötalsins
var að grennslast örlítið nánar um
bókina sem Jónína Michaelsdóttir
skráði og ber nafnið ,,Líf mitt og
gleði“ og Forlagið gefur út. Hún seg-
ir að þetta sé auðvitað engin ævi-
saga: „Þetta eru minnisverðar
minningar og ég held það sé mikil-
vœgt atriði í svona bók aö vera heið-
arlegur varðandi það hvernig mað-
ur upplifði sjálfan sig, sína œsku,
sína foreldra og œttingja og sitt sam-
starfsfólk — hvernig maður komst í
gegnum þetta."
MERKILEGT AÐ OKKUR
SKYLDI ALDREI LENDA
SAMAN!
Tildrög bókarinnar segir Þuríður
vera þau að fyrir tveimur, þremur
árum hafi Jóhann Páll Valdimarsson
hjá Forlaginu haft samband við sig
varðandi aðra bók sem hann var að
gefa út. Hann minntist á hvort
Þuríður vildi ekki gefa út sínar
minningar ,,og fékk einhvern auga-
stað á mér — eins og reyndar fleiri.
En þar sem Jóhann Páll varð fyrstur
til að nefna þetta við mig auk þess
sem hann var duglegur við að
hringja til mín og minna mig á þetta,
afréð ég að láta hann gefa út bókina.
Eg treysti reyndar aðeins einni
manneskju til að skrá þessa bók . . .
Jónínu Michaelsdóttur hafði ég
kynnst fyrir nokkrum árum þegar
hún hafði við mig viðtal fyrir Vísi og
við urðum mjög góðar vinkonur
upp frá því. Mér finnst hún hafa fal-
legan penna og kynnast viðmæl-
anda sínum vel og er aldrei með
óþarfa málskrúð. Þótt ég tali mikið
þá er ég ekki fyrir orðagjálfur eins
og að segjast hafa verið „umkringd
rósrauðum bjarma" eða að „hjartað
hafi verið að springa"! Jónína hefur
skapað sér sinn stíl og hefur náð
mér vel. Hún leggur mér aldrei í
munn það sem ég hef ekki sagt, eins
og aðrir myndu kannski gera. Jón-
ína er mjög vönduð og þroskuð
kona og mér finnst hún afskaplega
gáfuð og þekkja vel allar hliðar
mannlífsins."
Þuríður viðurkennir að mun
meiri tími hafi farið í að vinna bók-
ina en hana hefði órað fyrir: „Við
eyddum drjúgum hluta sumarsins
saman, gengum um miðbæinn og
ræddum saman. Jónína notaði ekki
segulband heldur bara punktaði hjá
sér það sem ég sagði. Síðan dvöld-
um við í fjóra daga á Þingvöllum og
fórum saman yfir punktana og síð-
an hóf Jónína sína vinnu. Það var
óskapleg vinna því hún var með
fullt af bréfum og blaðadómum og
erfitt að velja og hafna. Eftir að
vinnan var hafin var málið að mestu
leyti komið úr mínum höndum þar
til handritið lá fyrir."
Hún minnist á það að nokkur hluti
bókarinnar fjalli um uppruna sinn
og ættir hennar raktar: „Það sýndi
mér kannski glöggt hvernig aðrir
sjá hlutina öðruvísi en maður sjálf-
ur. Jónína hafði áhuga á að rekja
ættir mínar því henni fannst sam-
hengið svo áhugavert. Móðuramma
mín, Jórunn Norðmann var merkis-
kona sem sendi öll sín börn í listnám
í kringum aldamótin sem var mjög
sérstakt og þennan tónlistaráhuga
minn má því rekja langt aftur — það
var ekki aðeins pabbi sem var tón-
listarmaður. — Jónína valdi nafnið á
bókina eftir að legið hafði verið yfir
mörgum nöfnum. Henni fannst hún
hafa þetta nafn í höndunum, „Líf
mitt og gleði" og ég er ánægð með
það. Samvinna okkar var afar góð —
og eins og Jónína hefur sjálf sagt þá
er merkilegt að okkur skyldi aldrei
lenda saman, eins ákveðnar og við
erum báðar!" og þessari fullyrðingu
fylgir skellihlátur.
„En maður má heldur ekki taka
sig of hátíðlegan," bætir hún við.
„Það er ekki hægt að skrifa neina
ævisögu í 270 blaðsíðna bók — það
er bara tóm vitleysa. Sjáðu bara
þessar ævisögur sem hafa komið út,
þetta er í mörgum bindum og sumir
ekki orðnir nema tvítugir í fjórðu
bókinni. Ef ég ætlaði að gera mín-
um vinnuferli skil, líkt og stjórn-
málakonur gera sínum stjórnmála-
ferli skil, þá yrði það efni í margar
bækur. í þessari bók er farið yfir
helstu atriðin, á því hvernig maður
upplifði sjálfur lífið og leysti úr sín-
um vandamálum auk þess sem
minni æsku eru gerð nokkuð góð
skil. Þetta er í stuttu máli saga konu
sem vildi ekki gefast upp og gerði
það sem hugur hennar stóð til. Ein-
föld saga um konu sem gerir það
sem hún finnur sig knúna til að
gera, þótt allir hlutir mæltu í raun-
inni gegn því.“
SEKTARKENNDIN
SÖM VIÐ SIG
Það sem mælti gegn því að Þuríð-
ur héldi utan til náms, var m.a. að
hún var þá gift og átti Kristínu, 4 ára
dóttur: „Auðvitað þótti þetta alveg
agalegt, þú getur rétt ímyndað þér!“
sejgir hún aðspurð um það atriði.
„Eg hafði áður hafið nám erlendis
en uppgötvaði þá að ég átti von á
barni og varð að snúa heim. Þegar
þessi staða kom upp nokkrum árum
síðar var það tengdamóðir mín sem
hvatti mig til að fara, enda mikil
kvennabaráttu-kona. Auðvitað fékk
ég að heyra það frá öðrum að það
væri nú bara eðlilegt að ég skyldi
komast í nám, dóttir Páls ísólfsson-
ar. Það fór lengi vel í taugarnar á
mér að heyra þetta því ég vissi sem
var, að ef þeir sem í hlut áttu hefðu
sjálfir viljað fara í nám hefðu þeir
getað það eins vel og ég. Þetta var
barningur og alls ekki auðvelt að
fara frá eiginmanni og dóttur til
dvalar á Ítalíu á annað ár. En að það
skipti máli að ég væri dóttir Páls ís-
ólfssonar, það var fjarri lagi. Pabbi
hvatti mig síst af öllum, því hann
vissi manna best hvað það var að
vera fátækur tónlistarmaður. Hann
sagði alltaf að ég væri ekki nógu
vond manneskja til að verða söng-
kona! Það var nú að hluta til grín hjá
honum, — honum fannst ég ekki
nógu gribbuleg!"
Þuríður hélt utan til söngnáms
með sektarkenndina í farangrinum
en studd af Erni manni sínum sem
hvatti hana og hjálpaði fjárhags-
lega: „Við leystum peningamálin
saman og hann hjálpaði mér alltaf í
mínu námi,“ segir hún. „En það er
þessi sektarkennd sem stendur kon-
um oft fyrir þrifum. Ég var haldin
óskaplegri sektarkennd að fara frá
barninu mínu en aftur á móti hafði
mamma aldrei neina sektarkennd
yfir því að setja mig á barnaheimili
flest öll sumur þegar ég var yngri.
Það held ég sé vegna þess að hún
var ekki úti að vinna... Sektar-
kenndin kemur um leið og við ætl-
um að fara að gera eitthvað fyrir
okkur sjálfar.
Ég er ekkert merkilegri en aðrar
konur, síður en svo, og var í rauninni
mjög feimin við að láta skrifa þessa
bók. En ég var alin upp við sér-
kennileg skilyrði og held að konur
hafi gott af að sjá að hlutirnir fást
ekki nema við berjumst fyrir þeim.
Ég er næstum því viss um að hefði
ég verið dóttir einhvers annars, til
dæmis iðnaðarmanns, hefði mér
verið hjálpað til náms vegna þess að
ég hafði greinilega hæfileika.
Frænka mín ein sagði mér að ég
hefði sungið mörg lög áður en ég fór
að tala, söngurinn var mér greini-
lega meðfæddur. Að sjálfsögðu var
ég alin upp við tónlist á tónlistar-
heimili en þetta var örugglega eitt-
hvað í mér því ég vildi aldrei gera
neitt nema syngja frá því ég fyrst
man eftir mér. Um tíma heillaðist ég
af myndlist og fór til náms í Mynd-
lista- og handíðaskólann þar sem ég
ætlaði að verða auglýsingateiknari
en það varð aldrei nein ástríða hjá
mér. Það var meira það að mér
fannst gaman að teikna og mála og
átti auðvelt með að ná svip fólks. I
þessu námi var aldrei alvara því það
var söngurinn sem dró mig áfram á
hverju sem gekk. Að vísu hef ég
ennþá unun af að mála og fæst tölu-
vert við það og finnst það meira
gaman en fást við handavinnu."
ALDREI BÓHEM
Þuríður leggur á það áherslu að
það sé ekki það sama fyrir karl-
menn að fara utan til náms eins og
fyrir konur: „Það eru fáir karlmenn
sem þurfa að fara frá heimili og fjöl-
skyldu ef þeir vilja mennta sig er-
lendis. Konurnar fylgja þeim oftast.
Það er allt annað mál með konur.
Hvaða maður færi að fórna starfi
sínu og frama svo konan geti
menntað sig? Það var varla til á
þeim árum þegar ég var við nám og
það er varla til enn. í rauninni hefur
staða kvenna lítið breyst á þessum
35 árum. Það er líka alveg ljóst að
það eru engar raddir í kvennahreyf-
ingum sem breyta þessu. Breytingin
verður að koma frá okkur konunum
sjálfum. Það verður hver kona að
finna það innra með sér. Ég hef í
fjölda ára starfað með Soroptimista-
klúbbi Reykjavíkur og líkt og aðrir
kvennaklúbbar höfum við haldið
flóamarkaði, basara, kökusölu o.fl.
á meðan karlmennirnir hafa komið
sér upp miklu einfaldara kerfi og
selja ljósaperur og dagatöl — sem
við konurnar allar kaupum!!! Við
virðumst oft gera okkur æði erfitt
fyrir. Ég var sjálf mjög venjuleg ung
kona þegar ég ákvað að fara utan til
náms. Ég var aldrei bóhem og hefði
ekki mátt vera að því að eyða tíman-
um í slíkt. Það eina sem gerði mig
frábrugðna öðrum venjulegum kon-
um á þeim tíma var kannski það að
ég lét ekki deigan síga og gerði það
sem hugur minn stefndi til. Það voru
hins vegar margar konur af minni
kynslóð sem hættu námi þegar þær
giftust og stofnuðu heimili. “
„Þetta er einföld saga konu sem gerði það sem hugur hennar stefndi til."
2 B HELGARPÓSTURINN