Helgarpósturinn - 17.09.1987, Qupperneq 2
UNDIR SOLINNI
Ólöglegt en brilljant!
Það hefur ekki frést víða eða farið hátt og
ég treysti því að lesendur fari ekki að blaðra
um þetta út um allan bæ, en það nýjasta, sem
er að frétta af Útvegsbankamálinu, er það að
nokkrir áhugasamir menn hafa bundist sam-
tökum um að kaupa bankann. Þetta eru
reyndir menn og rúnum ristir eftir marga
harða hildi í fjármálaheiminum. Þeir eru að
vísu engir auðmenn, en þrautþjálfaðir fjár-
glæframenn allir saman, sem hafa leikið
djarft með annarra manna fé og tapað, án
þess að blikna. I stuttu máli sagt; vanir menn.
Fyrst frétti ég af þessu þegar einn þessara
vönu manna hringdi í mig og spurði hvort ég
vildi ekki vera með í tilboðinu og benti mér
á að þetta væri alveg hreint einstakt tæki-
færi.
— Þér býðst ekki svona möguleiki aftur á
þessari öld. Hvað segirðu? A ég ekki að
skrifa þig fyrir einni milljón eða svo?
— Einni milljón! át ég upp eftir manninum,
svo hneykslaður að ég átti ekki orð.
Hann misskildi mig gersamlega og baðst
innilega afsökunar. — Það er ekki endilega
bundið við eina milljón, ef þú vilt fá stærri
hlut, sagði hann afsakandi. — Þú mátt gjarna
skrifa þig fyrir tíu milljónurrr, eða tuttugu,
allt eins og þér sýnist!
— Tuttugu!
— Þá þaðj segjum tuttugu milljónir, ekki er
það verra. Eg átti bara ekki von á að þú legð-
ir í svona mikla fjárfestingu, eða að þú hefðir
svona mikið fé handbært. Hvað gerðirðu?
Rændirðu banka eða vannstu í Lottóinu,
hahaha?
— Nei, þú misskilur, þú misskilur, veinaði
ég, hálftrylltur af örvæntingu. — Ég hef eng-
ar tuttugu milljónir handbærar og ég tek alls
ekki þátt í þessu ævintýri ykkar.
Hann hló, háum, löngum og dillandi hlátri
hins áhyggjulausa, lífsglaða manns, sem
heyrt hefur alveg nýjan brandara.
— Hver segir að þú þurfir að hafa nokkurt
fé handbært? Hver var að tala um að þú
þyrftir að hafa þessar skitnu tuttugu milljónir
í vasanum? Enginn! Hvernig heldur þú að
viðskipti á borð við þessi fari fram? Heldurðu
að maður gangi bara inn í búð, bendi á banka
uppi á hillu og segist ætla að fá þennan?
Heldurðu að þetta sé eins og að kaupa
lambalæri?
Hann skellti aftur upp úr og hló nú sýnu
lengur og hærra en í fyrra skiptið. Þetta var
greinilega alveg ferskur brandari.
— Heldurðu í alvöru að nokkur maður ætl-
ist til þess að þú mætir á einhvern tiltekinn
stað með tuttugu milljónir í fimm þúsund
köllum? Þú myndir ekki lofta þeim, maður!
Og hver heldurðu, þess utan, að nenni að
telja allt þetta klink? Ekki nokkur lifandi
maður!
Ég segi ekki að ég hafi beinlínis móðgast,
en mér rann hálfvegis í skap að heyra þenn-
an þrautþjálfaða fjárglæframann skemmta
sér yfir kunnáttuleysi mínu í viðskiptum. Að
minnsta kosti fannst mér mjög aðkallandi að
skipta um umræðuefni.
— Hverjir eru þessir menn, sem eru með
þér í þessu tilboði?
Hann hætti snögglega að hlæja (því við-
skipti ganga fyrir skemmtunum) og taldi upp
nokkur nöfn, reyndar hátt á þriðja tug nafna,
sem ég get því miður ekki talið upp hér. Hitt
get ég glaður upplýst að löngu áður en hann
hafði talið upp tíu fyrstu nöfnin var farið að
tísta í mér, við tuttugasta nafn var ég farinn
að flissa stöðugt og undir lokin hló ég svo
hátt, að ég heyrði aldrei þrjú síðustu nöfnin.
Lífsgleðin, sem kom svo greinilega fram í
skærum og gáskafullum hlátri mínum, virtist
einhvern veginn strjúka viðmælanda mínum
öfugt, ef marka mátti hversu mjög stríkkaði
á öllum hans andlitsdráttum og kjálkavöðvar
hans þöndust út. Rödd hans varð líka ögn
dýpri og hann varð einhvern veginn kverk-
mæltari en áður.
— Fyrirgefðu, en hvað er eiginlega svona
fyndið, ef ég má spyrja? Ég meina, ef ég er
svona óskaplega fyndinn og skemmtilegur
án þess að vita af því, gæti ég kannski orðið
miklu skemmtilegri ef ég reyndi. Þá gæti ég
kannski reynt fyrir mér í skemmtibransan-
um!
Ég hefði auðvitað getað sagt honum sann-
leikann, allan sannleikann og ekkert nema
sannleikann, nefnilega það, að öllu ólán-
legra félagatal hafði ég aldrei heyrt. Þarna
hafði hann talið upp alla skuggalegustu
„kaupsýslumenn" landsins. Sem dæmigerð-
an félaga má nefna landsþekktan fasteigna-
sala, innflytjanda og skjalafalsara sem hafði
vegna viðskipta sinna fengið veð í húsi móð-
ur sinnar fyrir láni. Þegar hið óhjákvæmi-
lega gerðist, að móðir hans, gömul og hrum,
var borin út brást hann ekki sonarlegum
skyldum sínum við þá gömlu, heldur flutti
hana í kjallaraherbergi í sínu eigin húsi. Þar
eftir Ólaf Bjarna Guðnason 1
fékk sú gamla að búa, en þó soninn tæki það
sárt sá hann sig tilneyddan að taka leigu af
þeirri gömlu. Það voru nefnilega svo erfiðir
tímar.
Annar var sá maður í þessum kaupsýslu-
mannahópi sem hafði komist í álnir á íkveikj-
um. Hann hafði óumdeiianlega verið færasti
brennuvargur landsins á sínum yngri árum
og ævinlega fenginn til að kveikja í betri
frystihúsum, þegar útgerðarmenn þurftu aö
fá reiðufé frá tryggingafélögunum.
Það er svo sem óþarfi að lýsa fleiri félögum
í hópnum. Þeir voru allir svipaðrar gerðar.
Ég hefði sumsé getað sagt þessum unga at-
hafnamanni að fyrir mína parta myndi ég
fyrr kveikja í peningum mínum en fela þá í
vörslu slíkra manna. En það vildi ég ekki
gera. Hann hefði tekið því illa, strákurinn, og
við vorum gamlir kunningjar. Svo ég spurði
hvort ekki þyrfti að leggja fram einhverja
upphæð um leið og tilboðið yrði gert.
— Jú, svaraði hinn ungi fjármálasnillingur.
— En það er bara ávísun!
Ég fyllist alltaf hrollkenndri aðdáun þegar
ég heyri talað af slíkri djörfung um ávísana-
fals, fjárdrátt og önnur ofbeldislaus auðgun-
arbrot. En þetta fannst mér samt skrýtið.
— En þeir leggja svo ávísunina inn! Og
hvað gerist þegar hún kemur skoppandi út
aftur.
Hann varð þreytulegur á svipinn, dró djúpt
andann og útskýrði hið augljósa fyrir mér.
— Avísunin er auðvitað frá Útvegsbankan-
um! Við opnuðum þar reikning! Heldurðu
ekki að við látum borga hana, þegar við höf-
um eignast bankann?
Ég vissi að þetta hlaut að vera ólöglegt. En
hugmyndin var svo bráðsnjöll að það hefði
spillt henni að reyna að finna fyrir henni ein-
hverja lögfræðilega réttlætingu.
— Ég skrifa þig þá fyrir tuttugu milljónum
sagði vinur minn. En ég þorði ekki annað en
segja nei, þó hugmyndin væri bráðsnjöll.
Skömmu síðar frétti ég að einn þeirra fé-
laganna hefði fundið veikleikann í þessari
bráðsnjöllu ráðagerð.
Hann hefði verið sendur með tilboð og
innborgun upp í ráðuneyti, en fór þess í stað
út á Keflavíkurflugvöll, upp í flugvél og úr
landi. Síðast fréttist af honum þar sem hann
stóð uppi á borði á restaurant í evrópskri
stórborg og hélt langa ræðu, þess efnis, að nú
væri hann búinn að vera fullur svo lengi, að
hann myndi ekki hvaðan hann væri. Þjónn-
inn sagðist þekkja þessa Islendinga og henti
honum út.
Af Útvegsbankanum er það nýjast að
frétta, að nú mun hafa verið ákveðið að
hætta við sölu á bankanum. Samkvæmt
heimildum úr innsta hring munu sambands-
menn sætta sig við þá ákvörðun, gegn því að
SÍS fái að kaupa ríkið í staðinn — ekki ATVR-
ríkið — ríkið sjálft! Sem sagt ráðuneytin,
kerfið allt, The Establishment! ísland!
Andstæðingar Sambandsins hafa þegar
beðið Bandaríkjamenn að bjóða á móti SÍS
og bjóðast til að hætta hvalveiðum í kaup-
bætur.
Við bíðum spennt.
2 HELGARPÓSTURINN
AUGALEIÐ