Helgarpósturinn - 17.09.1987, Side 32

Helgarpósturinn - 17.09.1987, Side 32
NÆRMYND fékk því framgengt á miðstjórnar- fundi Framsóknar 1968 að skoð- anakannanir skyldu viðhafðar við val á frambjóðendum flokksins. Slíkar skoðanakannanir tók Fram- sóknarflokkurinn síðan upp fyrir þingkosningarnar 1971 fyrstur allra flokka. Það sama ár var flokksþing Framsóknarflokksins opið öllum sem það vildu sækja og hafði það aldrei gerst í sögu ís- lensks stjórnmálaflokks. Það var þó á landsþingi Sam- bands ungra framsóknarmanna á Hallormsstað 1970 sem þessi vinstri alda í Framsóknarflokki reis hvað hæst. Þar var samþykkt söguleg stefnuyfirlýsing, sem hafði verið undirbúin af þeim Ólafi Ragnari Grímssyni, Jónatan Þórmundssyni og Birni Teitssyni. í henni sagði meðal annars að Framsóknarflokkurinn ætti að beita sér fyrir myndun víðtækrar vinstri hreyfingar og rækja kröft- uglega það grundvallarhlutverk sitt að vera höfuðandstæðingur íhaldsaflanna á íslandi. Nauðsyn- legt var talið að stjórn SUF hæfi viðræður við aðila innan Fram- sóknarflokks og utan um myndun víðtækrar hreyfingar félags- hyggjuafla. Grundvallarhugmynd- in var í raun sú að Framsóknar- flokkurinn yrði burðarásinn í nýrri breiðfylkingu vinstri manna. 1 samræmi við þessar hugmyndir um samvinnu og jafnvel samein- ingu vinstri aflanna gekk Sam- band ungra framsóknarmanna til viðræðna við Samtök frjálslyndra og vinstri manna í upphafi árs 1971. Þá höfðu verið í gangi þreif- ingar á milli Framsóknarflokks, Samtakanna og Alþýðuflokks í nokkra mánuði, en hvorki gekk né rak. Þegar ofan á þetta bættist sókn vinstri manna á flokksþingi Frámsóknar i apríl 1971 er ekki laust við að margir hægri menn innan flokksins hafi verið teknir að ókyrrast. Á téðu flokksþingi fengu þeir meðal annars sam- þykktar yfirlýsingar sem voru í andstöðu við hugmyndir þeirra sem þá fóru fyrir flokknum; til dæmis um það að herinn skyldi hverfa úr landi og að Framsóknar- flokkurinn skyldi vinna til vinstri. Það stefndi í uppgjör innan Fram- sóknarflokksins. Ólafur Jóhannesson var kosinn formaður Framsóknarflokksins árið 1968. Samkvæmt skilningi Ólafs var Framsóknarflokkurinn miðflokkur, flokkur smáatvinnu- rekenda, embættismanna og mið- stéttarfólks. Vinstra bröltið í ungu mönnunum var honum því lítt að skapi, enda lét hann eitt sinn svo um mælt að Framsóknarflokkur- inn væri „opinn í báða enda“. Það var svo í stjórnarkjöri í Félagi ungra framsóknarmanna í Reykja- vík haustið 1971 að hægri menn undir forystu Ólafs og Kristins Finnbógasonar köstuðu stríðs- hanskanum. Þar átti sér stað svo- kölluð „laugardagsbylting", en þá stóðu hægri menn fyrir stórfelldri smölun og fengu því framgengt að gamla stjórnin var felld en í stað- inn kosin ný, leiðitamari Ólafs- mönnum. Laugardagsbyltingin var að- dragandinn að stofnun hinn- ar eiginlegu Möðruvalla- hreyfingar, sem leit dagsins Ijós á Akureyri haustið 1973, í húsi því í eigu Menntaskólans sem nefnt er Möðruvellir. Möðruvallahreyfing- in var í raun ekki annað en fram- hald af viðleitni ungra framsókn- armanna í nær áratug á undan. Hins vegar höfðu andstæðurnar í flokknum skerpst til muna, eins og kannski má ráða af eftirfarandi kafla úr stefnuávarpi Möðruvalla- hreyfingarinnar; „Þótt odda- mennirnir týni þeirri átt, sem í upphafi var stefnan, getur hug- sjónakraftur liðsmanna enn verið svo sterkur, að tekið sé í taumana. Hinn almenni félagsmaður vill ekki átölulaust láta fórna hinum margþætta umbótatilgangi fyrir tímabundin völd fámennrar klíku. Til sjávar og sveita, í öllum lands- hlutum, rís hinn almenni flokks- maður upp til að slá skjaldborg um þá grundvallarstefnu, sem flokkn- um var ætlað að fylgja, og þau við- horf, sem móta skulu framtíðar- sýn hans." Það mátti glöggt sjá að viö óbreytt ástand sigldi Möðruvalla- hreyfingin hraðbyri út úr Fram- sóknarflokknum. Fyrir kosningarnar 1974 er þessum hópi svo ekki lengur vært í Framsóknarflokknum. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar það sama ár áttu þeir Ólafur Ragnar, Baldur Óskarsson og Bragi Guð- brandsson viðræður við Alþýðu- bandalagsmenn um sameiginlegt framboð. Alþýðubandalagsmenn buðu sæti á framboðslista sínum, en það gátu Möðruvellingar ekki sætt sig við. Næsta skrefið var að ganga til liðs við Samtök frjáls- lyndra og vinstri manna fyrir Al- þingiskosningarnar. Möðruvell- ingar lýstu því yfir að Framsókn stefndi í stjórn með Sjálfstæðis- flokki eftir kosningar og Ólafur Ragnar fór í framboð fyrir Sam- tökin á Austurlandi. I þeim kosn- ingum biðu Samtök frjálslyndra og vinstrimanna afhroð. Það hefur verið haft eftir Kristni Finnbogasyni, sem á þeim tíma var mestur bandamaður Ólafs Jóhannessonar, ásamt Steingrími Hermannssyni, Alfreð Þorsteins- syni og Guðmundi G. Þórarins- syni, og mikill áhrifamaður í Framsóknarfélögunum í Reykja- vík, að Möðruvallahreyfingin hafi verið stofnuð utan um einn mann — Ólaf Ragnar Grímsson. Ólafur hafi viljað fá mikil völd í flokknum og hafi reyndar fengið meira en flestir aðrir. Kristinn: „Ég held að ef hann hefði verið látinn hafa dúsu, eins og sagt er, þá hefði hann aldrei farið neitt — ef hann hefði til dæmis verið gerður að vararitara eða fengið eitthvert álíka embætti." Sjálfur áréttar Ólafur að skoð- anaágreiningurinn einn hafi vald- ið því að hann gekk úr Framsókn- arflokknum: „Pólitískir andstæð- ingar mínir hafa reynt að koma því inn hjá fólki að ég sé í pólitík metorðanna vegna. Morgunblað- ið hóf þennan söng á árunum 1967—70 með markvissum, hat- römmum áróðri gegn persónu minni. Öfl í Framsóknarflokknum voru svo fljót að taka undir þessi vein og reyndu að skýra málefna- ágreininginn sem var í flokknum á þennan hátt — sögðu sem sé að ég væri óflokkshæfur vegna metn- aðargirni og hroka. Hitt er annað mál, að á sínum tíma vildu margir mig í framboð fyrir Framsóknar- flokkinn. Þegar skoðanaágrein- ingur okkar vinstri mannanna í flokknum við forystuna stóð sem hæst vildu margir koma á sáttum. Það var til dæmis ákveðinn hópur Framsóknarmanna i kjördæmi Ólafs Jóhannessonar — Norður- landi vestra — sem vildi fá mig á lista flokksins með Ólafi við kosn- ingarnar 1974. Ólafur hins vegar harðneitaði þessari uppástungu og kvaðst ekki vilja heyra á það minnst að við tveir værum á sama framboðslistanum. Ég heyrði þessum möguleika ekki hreyft fyrr en löngu síðar, svo það kom aldrei til að ég tæki afstöðu til þessa máls.“ Líklega er það þó heldur ofmælt hjá Kristni Finnbogasyni að Möðruvallahreyfingin og vinstri andstaðan í Framsókn hafi snúist um Ólaf Ragnar einan, hann hafi verið ókrýndur leiðtogi. Hann var vissulega einn helsti hugmynda- fræðingur hreyfingarinnar og oft andlit hennar út á við, en þarna voru líka aðrir menn sem ætluðu sér stóran hlut og voru í raun ekki fjarri því að hreppa hann; nefnum Baldur Óskarsson, Friðgeir Björnsson, Má Pétursson og Jónatan Þórmundsson. Það hefur verið á það bent að það hafi bæði verið styrkur hópsins og veikleiki að hann hafi ekki getað sæst á leiðsögn eins manns, til þess hafi leiðtogaefnin verið of mörg. Það hafi enginn verið sjálfvalinn til þess að kveða upp úr fyrir hönd hópsins og því hafi í raun hlotið að koma til uppgjörs fyrr eða síðar. En það var komin uppdráttar- sýki í Samtök frjálslyndra og vinstri manna og þau fengu hægt andlát á tíma sam- stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 1974—78. Hugmynd- ir um að Samtökin gætu orðið það afl sem sameinaði vinstri menn reyndust heldur haldlitlar, enda lítill pólitískur vilji fyrir slíkri sam- einingu eða samstarfi í gömlu flokkunum. Meðlimir Samtak- anna og Möðruvallahreyfingar- innar tvístruðust; sumir höfðu komið sér út úr húsi víðast hvar og töldu sig ekki eiga afturkvæmt í pólitíkina, aðrir urðu hreinlega fráhverfir stjórnmálum, einstaka maður sneri hægt og bítandi aftur í raðir framsóknarmanna, en hjá flestum stóð valið milli Alþýðu- flokks og Alþýðubandalags. Al- þýðuflokkurinn var enn í sárum eftir ríkisstjórnarþáttökuna löngu á viðreisnartímanum, en Alþýðu- bandalagið virtist hafa meiri vaxt- armöguleika, þrátt fyrir skakka- föll á tíma vinstri stjórnarinnar 1971—74. Vinstri bylgja sjöunda áratugarins var langt í frá gengin sér til húðar og blómatími Alþýðu- bandaiagsins fór í hönd, þótt hann reyndist skammær. Ólafur Ragnar og Baldur Óskarsson völdu Al- þýðubandalagið. Ólafur gekk í flokkinn 1976. Frami hans innan Alþýðubanda- lagsins varð ógnar skjótur, þótt sjálfur segi hann að á þessum ár- um hafi hann helst stefnt að því að helga sig kennslu og fræðistörf- um. Margir gamalgrónir Alþýðu- bandalagsmenn komust að því að Ólafur ætlaði ekki að vera neitt skrautblóm, eins og þeir höfðu kannski vonað. Mörgum líkaði það miður að slíkur flakkari í pólitíkinni kæmist til áhrifa jafn- fyrirvaralaust. í kosningunum 1974 kemst Ólafur inn á þing fyrir Alþýðubandalagið, fjórði maður á lista í Reykjavík, í stærsta kosn- ingasigri sem flokkurinn hefur unnið. Og mannvirðingarnar hélt áfram að reka á fjörur hans. Eftir kosningarnar 1979 varð hann for- maður þingflokksins. Á þessum árum var líka tiltölulega friðlegt um að litast í Alþýðubandalaginu, sem er meðal annars þakkað því að um taumana hafi haldið ákveð- ið þríeyki manna sem allir höfðu umtalsverða pólitíska reynslu; Svavar Gestsson formaður, Ragn- ar Arnalds og Ólafur Ragnar Grímsson. Það fór hins vegar að síga á ógæfuhliðina fyrir Alþýðubanda- laginu þegar líða tók á seinni hluta stjórnarsamstarfsins við Gunnar Thoroddsen og Framsóknarflokk- inn. Margir álíta að Alþýðubanda- lagið hafi gert hrikalega skyssu að ganga ekki úr ríkisstjórninni strax haustið 1982. Og þarna var hann líka að koma upp á yfirborðið ágreiningurinn um afstöðuna til verkalýðshreyfingarinnar, sem líklega hefur leikið Alþýðubanda- lagið hvað verst — og gert stjórn- málamanninum Ólafi Ragnari Grímssyni marga skráveifuna. að var í forvalinu fyrir Al- þingiskosningarnar 1983 að fyrst fór að næða veru- lega um Ólaf Ragnar í Alþýðu- bandalaginu. Sagan frá framsókn- arárunum virtist vera að endur- taka sig; hann var kominn upp á kant við flokksforystuna. Svavar Gestsson formaður átti undir högg að sækja eftir viðskilnað ríkis- stjórnarinnar og sú kenning fékk byr undir báða vængi að Ölafur ætlaði að hirða af honum fyrsta sætið í Reykjavík. Undir hand- leiðslu Ulfars Þormóðssonar, eins helsta stuðningsmanns Svavars, var róið hart gegn Ólafi og honum borin á brýn ráðríki og valdafíkn. Fjórir þingmenn bitust um þing- sæti sem gátu aldrei orðið fleiri en þrjú. Svavar Gestsson hlaut fyrsta sætið, Guðmundur J. Guðmunds- son annað sætið, Guðrún Helga- dóttir það þriðja, en Ólafur mátti gera sér fjórða sætið að góðu, þótt aðeins eitt atkvæði skildi milli hans og Guðrúnar. Það stefndi í fylgistap Alþýðubandalagsins og nær útilokað að Ólafur næði á þing. Hann átti í raun í höggi við tvíhöfða andstæðing; sameinaðan mátt gamla valdakjarnans i flokknum og verkalýðsarms sem beitti sér gegn honum og þá óskrifuðu reglu að í fyrstu þremur sætunum í Reykjavík skyldu vera flokksformaðurinn, ein kona og einn verkalýðsforingi. í umtöluðu viðtali sem birtist í tímaritinu Heimsmynd í fyrra var Ólafur spurður að því hvort Svav- ar Gestsson hefði unnið gegn hon- um í forvalinu 1983. Ólafur Ragn- ar svaraði þá með því að vitna í fræg ummæli Jónasar frá Hriflu: „Skjóta byssurnar sjálfar eða er þeim miðað?" Þetta svar vakti litla hrifningu hjá forystu Alþýðubandalagsins. Einhvern veginn fer varla hjá því að orðatiltækið „Enginn er spámaður í sínu föður- landi“ komi upp í hugann þegar litið er á feril Ólafs Ragnars Gríms- sonar eftir að hann datt út af þingi 1983. Haft er fyrir satt að það hafi orðið honum þung vonbrigði að komast ekki á þing, en að vissu leyti hafa árin utan garðs orðið honum frekar til álitsauka en hitt. Þótt menn tækju í upphafi varlega sögum af frægð Ólafs á vettvangi alþjóðastjórnmálanna var tæpast hægt að hunsa það þegar marg- háttuð verðlaun tóku að hlaðast á „Parliamentarians for Global Action", alþjóðasamtök þing- manna, sem hann er í forsvari fyr- ir. Þar má nefna Indiru Gandhi- verðlaunin, sem Ólafur veitir við- töku siðar á þessu ári, og „Better World Society'-verðlaunin sem Ólafur þáði úr hendi Yoko Ono. í fyrstu vissu menn varla hvernig þeir ættu að taka þessu brölti í Ólafi — var valdafíknin í honum kannski orðin útflutningsvara? — en nú eru hinir fjölmörgu and- stæðingar hans Iíklega búnir að kyngja því að líklega hefur enginn íslenskur stjórnmálamaður um langa hríð haft jafnmikil og náin tengsl við erlenda frammámenn og þjóðarleiðtoga og einmitt Ólafur. Það dugði þó ekki til að fleyta Ólafi inn á þing í kosningunum í vor. Eftir talsvert þref féllst hann á að taka annað sætið í Reykjanes- kjördæmi í stað þess að sækjast eftir einu af þremur efstu sætun- um í Reykjavík. í staðinn var sam- þykkt stjórnmálaályktun, sem tal- in var sigur fyrir hann og hin frjáls- lyndari öfl í flokknum. Það varð því ekki úr í það skiptið að hreint uppgjör yrði milli Ólafs og Ás- mundar Stefánssonar, foringja verkalýðsarmsins í Alþýðubanda- laginu. Þeir lágu báðir, Ólafur og Ásmundur. Flokkurinn beið af- hroð. Hvellurinn í flokknum varð eftir kosningarnar. Uppgjöri verð- ur varla frestað lengur. Alþýðu- bandalagið á varla annan kost en að reyna að gera upp sín innri ágreiningsmál, ef þá á að eiga ein- hverja von til að rétta úr kútnum. Aður er vitnað í Kristin Finnbogason, gamlan mótherja Ólafs Ragnars úr Framsóknarfíokknum. Kristinn hefur látið svo um mælt að enginn friður verði innan Alþýðubanda- lagsins fyrr en Ólafur trónir þar á toppnum. Þar er náttúrlega átt við að Ólafur muni svífast einskis til að hljóta æðstu vegtyllur sem flokkurinn hefur upp á að bjóða. Samherjar Ólafs í eftirsókninni eft- ir formannssætinu segja að það sé hérumbil söguleg nauðsyn að hann verði formaður, hans tími sé kominn, það sé hreinlega enginn annar sem valdi þessu sviptinga- samastarfi. Forysta flokksins, „hin ráðandi klíka", leggur alla áherslu á að koma í veg fyrir að Ólafur nái kjöri. Margendurtekin ummæli Svavars Gestssonar um að þeir skuli draga sig í hlé sem eru „markaðir af innanflokksátökum" eru auðvitað ekki annað en bein- hörð skilaboð til Ólafs Ragnars um að láta vera. Þar nýtur hún stuðn- ings Ásmundar Stefánssonar og verkalýðsarmsins. Þingmenn flokksins, að undanskilinni Guð- rúnu Helgadóttur, eru ekki líklegir til að veita Ólafi brautargengi. Fylgið yrði hann að sækja neðar, úr röðum óbreyttari flokksmanna. Hann hefur óneitanlega styrkt stöðu sína meðal þessa fólks, eink- um meðal stuðningsmanna úr reykvískri millistétt. Honum ætti líka að vera einhver hjálp í því hversu klaufalega andstæðingar hans hafa borið sig í leitinni að álitlegum mótframbjóðanda. Hins vegar fer því fjarri að Krist- inn Finnbogason hafi slegið nagl- ann á höfuðið þegar hann gerir því skóna að friður verði í Alþýðu- bandalagi með Ólaf á toppnum. Það er ekki ólíklegt að ýmsir for- ystumenn flokksins í verkalýðs- hreyfingunni myndu komast að þeirri niðurstöðu að þeir ættu enga pólitíska framtíð fyrir sér í Alþýðubandalagi Ólafs Ragnars Grímssonar. Ólafur hefur verið talsmaður aðskilnaðar milli verka- lýðshreyfingar og flokks og meðal annars sagt að hann telji sterkara að forystumenn í verkalýðshreyf- ingu sem er þverpólitísk sitji ekki á þingi. Verkalýðsforingjar gætu því tekið þann kost að róa á önnur mið verði Ólafur kjörinn formað- ur. Eins gæti flokkurinn þurft að horfa á bak einhverjum stuðnings- mönnum Ólafs — og jafnvel hon- um sjálfum — ef hann félli eftir harðan formannsslag. Herdís Þorgeirsdóttir ritstjóri og fyrrum nemandi Ólafs Ragnars Grímssonar við Háskóla íslands hefur líkt þessum læriföður sínum við ísbjörn: „Skæður, markviss drápari, sem getur endalaust synt í ísköldum sjó. Einfari sem á það sameiginlegt með kettinum að hafa gaman af að veiða og gaman af því að leika sér.“ I Háskólanum er hann þekktur fyrir að gera miklar kröfur til nemenda og miklar kröfur til sjálfs sín. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt og feiknavel að sér um bæði praktísk og fræðileg stjórnmál. Hann hefur lengi verið stjórnmálamaður að atvinnu og sumir segja að stjórn- málin eigi hug hans bæði í svefni og vöku. Það er sagt, honum bæði til lofs og lasts, að hann líti á stjórn- málin sem fágað skáktafl. Mestall- an stjórnmálaferil sinn hefur hann þó átt í erjum við forystumenn þeirra flokka sem hann hefur vist- ast í. Það má spyrja hvort honum hefðu ekki hlotnast meiri vegtyll- ur ef hann hefði einfaldlega látið berast með straumnum. í Alþýðu- bandalaginu stendur hann aftur í ekki ósvipuðum sporum og í Framsóknarflokknum forðum tíð; á skjön við forystu sem heldur fast í gamalt ráðslag og stjórnarhætti. 32 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.