Morgunblaðið - 12.03.1981, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 12.03.1981, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 12. MARZ 1981 heim fjöldi manns. Var höfðing- lega tekið á móti öllum, því að hjartarýmið var stórt, þótt húsa- kostur væri minni. Amma mín hafði ánægju af að umgangast vini og ættingja og var lengst af við góða heilsu. Hin síðustu ár voru henni þó um sumt erfið, vegna vanheilsu, en hún hafði þó mikla ánægju af að umgangast vini og vandamenn og var þá enn sem fyrr glaðsinna og skemmtin. Hún missti mann sinn 14. apríl í fyrra og þá þvarr mjög gleði hennar. Hún lézt farin að heilsu á Hrafnistu tæpu ári síðar. Guðrún, amma mín, var trúuð kona í bezta skilningi þess orðs. Hún var óeigingjörn og ætíð reiðubúin að sýna trú sína í kærleiksverkum. Nutum við þess mjög afkomendur hennar og vinir. Ber okkur ljúf skylda að þakka henni nú, er leiðir skiljast um sinn. Amma mín treysti ávallt skap- ara sínum, og þegar mótlætið virtist ætla að buga hana að lokum, öðlaðist hún jafnan styrk við að syngja hinn fagra sálm P. Gerhardts: Á hendur fel þú hon- um. — Eg bið almáttugan guð að geyma þessa góðu konu. Ó.O. Þegar faðir minn Pétur Lárus- son andaðist í hárri elli mælti fósturfaðir minn Sigurður Ó. Lár- usson, öndvegisklerkur úr Hólm- inum, nokkur orð við kistu hins látna og hóf þá mál sitt með þessum orðum: „Pétur er dáinn — það er gott.“ Þetta þótti mér eins og á stóð vel mælt og af því hispursleysi, einurð og raunsæi, sem svo mjög einkennir þá kynngimögnuðu kynkvísl, sem hann tilheyrði, svokallaðri Lárusarætt, afkom- endum hins þekkta læknis Lárus- ar hómópata, og lengra aftur eldklerksins Jóns Steingrímsson- ar, sem stöðvaði eldgos og hraun- rennsli með bænhita sínum einum saman. Nú við fráfall merkrar konu Guðrúnar Lárusdóttur koma mér í hug tilvitnuð orð fóstra míns og bróður hennar, því það mætti vera hverjum manni augljós sannleik- ur, sem margir þó af heimsku einni saman kveinka sér við að viðurkenna, að öllum er hollt og gott að deyja, þegar nóg er lifað, og á þetta ekki síst við þegar giftusamlegt lífshlaup er á enda, en heilsa og kraftar á þrotum. Ekki kann ég að rita eftirmæli um þau Vífilstaðahjón, Guðrúnu og Helga Ingvarsson, yfirlækni, sem einnig er nýlega látinn, þann- ig að vel sé, en nokkur kveðju- og þakkarorð vildi ég mega senda þeim nú að leiðarlokum, slíkt einstakt velgerðarfólk, sem þau voru mér og mínum fósturforeldr- um. Fyrstu kynni mín af þeim Vífil- staðahjónum voru óbein, þ.e. af góðu umtali um þau hjón á æskuheimili mínu í Stykkishólmi hjá fósturforeldrum mínum Ingi- gerði Ágústsdóttur og sr. Sigurði Lárussyni. í augum fóstru minnar var Helgi Ingvarsson nánast heil- agur maður og fóstri minn virti hann manna mest, vitnaði oft í skoðanir hans, sem hann taldi næsta óskeikular, þegar frá voru taldar kenningar Helga læknis í bindindismálum, en þær taldi fóstri minn ekki aðgengilegar fyrir sig, en klerkur var bæði og í senn mikill vinur guðs og vaskur veraldarmaður í leiðinni. Þá var Guðrún og í miklu uppáhaldi á heimilinu m.a. vegna glæsileika síns, glaðværðar og þokka. Raunveruleg kynni mín af þeim Vífilstaðahjónum hófust hinsveg- ar ekki fyrr en á námsárum mínum hér í Reykjavík, í mennta- skóla og háskóla. Var ég þá alltíður gestur á Vífilstaðaheimil- inu og jafnan tekið opnum örmum. En nánast kynntist ég þeim þó á heimili þeirra merku heiðurs- hjóna Sigríðar Stefánsdóttur og Þorleifs Gunnarssonar bók- bandsmeistara, en þar voru þau Guðrún og Helgi heimilisvinir og tíðir gestir. Guðrún og Sigríður voru æskuvinkonur úr Þingholt- unum og kom Guðrún ævinlega við hjá Sigríði, er Helgi átti læknis- eða öðrum erindum að gegna í bænum. Sóttist ég þá, unglingurinn mjög eftir að komast í návist þeirra og hlýða á tal þeirra yfir kaffisopa, því Guðrún hafði þá jafnan víða farið og hafði einatt frá mörgu spaugilegu að segja. Hún var sem sé þeirrar manngerðar að henni varð allt að skemmtilegu frásagnarefni, hvort sem um var að ræða atburði innan fjölskyldu eða utan. Þá voru þeir Þorleifur og Helgi, en Þorleifur var af vinum sínum jafnan kallaður Leifur og undir því nafni frægðarpersóna í bókum Þórbergs, mjög nánir vinir, þótt skapgerð þeirra og lífsstíll væri eins gjörólíkur og mest mátti verða. Sérstaklega eru mér í þessu sambandi minnisstæð spilakvöld þeirra vinanna ásamt Gunnari Espolín, hæstaréttarlögmanni og Guðmundi Guðmundssyni, stór- kaupmanni. Sóttist ég mjög eftir aðild að veizluborði því, sem jafnan fylgdi þessum spilakvöldum, bæði vegna krása þeirra, sem fram voru reiddar og þeirra fjörugu um- ræðna, sem þar fóru fram m.a. um þjóðfélagsmál, en þeir Gunnar og Helgi höfðu all fast mótaðar skoðanir í því efni, en Leifur var blendnari í trúnni og hafði áður fyrr verið jafnaðarmaður eða bolsi, sem þá var kallað svo. Er slík mál komu til umræðu átti Leifur það til með hægð að egna mig unglinginn til andófs við skoðanir hinna eldri og urðu stundum af all skemmtilegar rimmur, sem puntuðu upp á borð- haldið, en mér fyrirgefnar ungæð- islegar skoðanir, sem mundu eld- ast af með tíð og tíma. Næst urðu þau kynni mín af þeim Guðrúnu og Helga, að þau skutu yfir mig, konu mína og nýfædda dóttur skjólshúsi, að loknu háskólanámi, með því að leigja mér fyrir Iágmarksprís íbúð, sem þau áttu að Freyjugötu 34 og komst ég þá aftur í sambýli við einkavinkonu mína og velgerð- arkonu, Jóhönnu Þorgrímsdóttur, en í húsi hennar og manns hennar Páls Lárussonar hafði ég áður dvalist um hríð meðan á námi stóð. Loks vil ég nefna það í sam- skiptum mínum við þau Vífil- staðahjón, sem mér er efst í huga og mest ber að þakka. Er fósturforeldrar mínir, þau Ingigerður og Sigurður, fluttu til Reykjavíkur að loknu farsælu ævistarfi fyrir vestan voru þau nokkuð lúin og ellimóð, en einkum var fóstra mín þjökuð af fótasár- um sem ekki vildu gróa. Gerðist það þá eins og af sjálfu sér, að Helgi Ingvarsson kom henni óbeð- inn til hjálpar, vitjaði hennar næsta daglega, hjúkraði henni, batt um sár hennar og hughreysti hana á alla lund, að sjálfsögðu án þess nokkuð gjald kæmi fyrir. Með þessu lengdi hann möguleika hennar til dvalar á eigin heimili um mörg ár. Verður slíkt dreng- skaparbragð seint fullþakkað. Jafnframt þeirri líkn er fylgdi komu Helga voru heimsóknir þeirra hjóna til mikillar uppörv- unar og gleði fyrir fósturforeldra mína í þeim einmanaleik sem ellinni fylgir að öllum jafnaði. Ég og mínir eiga því þeim hjónum ómælda skuld að gjalda. Börnum þeirra Guðrúnar og Helga, sem öll eru mannkostafólk og mikilhæft, hvert á sínu sviði, flyt ég hlýjar kveðjur. Blessuð sé minning.þeirra Vífilstaðahjóna. Sigurður Reynir Pétursson Við fráfall mágkonu minnar, Guðrúnar Lárusdóttur, finnst mér skylt að minnast hennar með nokkrum orðum. Hún andaðist 4. þ.m. 85 ára að aldri og verður jörðuð frá Dómkirkjunni í dag kl. 1.30. Guðrún ólst upp hér í Reykja- vík, dóttir hins landsþekkta smá- skammtalæknis Lárusar Pálsson- ar og konu hans, Guðrúnar Þórð- ardóttur. Guðrún Lárusdóttir var yngsta dóttirin á heimilinu og alin upp í miklu ástríki allrar fjölskyldunn- ar, enda falleg stúlka, glaðbeitt og gædd hlýju og ljúfu viðmóti. Sá góði eiginleiki fylgdi henni alla æfi, hvar sem hún fór. Leikfélagar hennar, skólasystur á Kvenna- skólanum og samstarfsfólk henn- ar við Landsímann hafa oft minnst hennar góðu framkomu. Guðrún hreifst af þeim nýja tíðaranda, er Ungmennafélags- hreyfingin skóp á fyrstu áratug- um aldarinnar og gekk í þann félagsskap og tók þátt í því sem hann tók sér fyrir hendur, m.a. gróðursetningu trjáplantna og kynnisferðum um nágrennið. Hún og stöllur hennar höfðu í þá daga þann léttleik til að bera að ganga upp á Esjutopp í peysufötum og dönskum skóm. Guðrún og bróðir minn, Helgi Ingvarsson læknir, stofnuðu sitt heimili á Vífilstöðum. í marg- menninu þar komu hinir góðu eðliskostir Guðrúnar sífellt að haldi. Fyrstu árin bjuggu ungu hjónin við þröngan hýbýlakost, en Guðrún hafði sérstakt lag á að gera heimilið aðlaðandi, hún kunni þá list að koma fáum hlutum svo vel fyrir, að úr varð falleg heild. Á heimili þeirra hjóna var alla tíð mikill gesta- gangur. Allir voru velkomnir, gamlir sveitungar, skyldmenni, vinir og sjúklingar. Faðir minn dvaldi þar oft um tíma að sumri til, og urðu hann og tengdadóttirin bestu mátar. Sjúklingar á Vífil- stöðum sýndu Guðrúnu þakklæti sitt í verki við ýmis tækifæri. Mágkona mín var frábær eig- inkona. Hún bókstaflega gerði líf manns síns að sínu lífi og hans áhugamál að sínum. Bróðir minn fórnaði sér fyrir sjúklinga sína alla æfi. Þeir sátu alltaf í fyrir- rúmi. Ótaldar eru þær nætur, sem hann var vakinn til að sitja hjá mikið veikum eða dauðvona sjúkl- 37 ingi, sem þráði það eitt að hafa hann næstan sér. Guðrún • "rrtaði aldrei yfir ónæði eða truflun á heimilislífi, þó svo að margir gerðu tilkall til hans, ekki aðtins sjúklingar af hælinu, heldur víðs vegar að. Hún annaðist aðeins fyrir það betur um börn sín og heimili. Blessuð mágkona mín kvaddi líka þennan heim án þess að skilja, hvað þá að gera að sínum, kröfur nútíma húsmæðra um að jafna verkaskiptingu hjóna í daglegu heimilishaldi. En síðustu árin, er heilsu hennar tók að hraka, gat bróðir minn veitt henni alla þá umönnun og hvíld, sgm hún sannarlega átti skilið. Slíkt er út af fyrir sig mikil gæfa. Við dánarbeð vina og vanda- manna er ávallt margs að minnast og margt að þakka, og maður sér eftir að hafa ekki notið enn meiri samveru. En í dagsins önn á besta starfsaldri eru tómstundir alltof fáar. Ég vil f.h. okkar hjóna þakka bróður mínum og mágkonu alveg sérstaklega fyrir indælar sam- verustundir síðustu ára. Fastir vikudagar voru valdir til heilsu- gæslu og heimsókna til okkar hjóna á Smáragötu. Við hlökkuð- um sífellt til þessara daga, og við leyfðum okkur að vona, að sú ánægja væri gagnkvæm. Á þess- um samverustundum okkar voru raktar minningar frá ýmsum ævi- skeiðum og þá ekki hvað síst frá bernsku- og æskudögum. Litlar barnshendur fá kúlur á þræði sem eitt fyrsta leikfang. Aldrað fólk leikur sér að perlum minn- inganna, raðar þeim og skoðar. í ljósi lífsreynslunnar verða gömul atvik enn skýrari og skiljanlegri. Við fráfall bróður míns og mág- konu eru þessar ánægjulegu stundir liðnar hjá.-Þetta er gang- ur lífsins. Eins og velflestir varð mágkona: mín fyrir sárum ástvinamissi á sinni löngu leið. En þyngsta áfall- ið var, er hún sá á bak eiginmanni sínum, Helga Ingvarssyni, fyrir tæpu ári. Éftir það hafði hún í rauninni enga lífslöngun, enda þvarr henni allur kraftur óðfluga. Að síðustu lifði aðeins í huga hennar ein þrá, sú að komast í návist eiginmanns síns. Við, sem þekktum Guðrúnu Lár- usdóttur, getum ekki kvatt hana betur og virðulegar með nokkru öðru móti, en að gera trú hennar að okkar og vera þess fullviss, að maðurinn, sem hún unni mest af öllum, hafi nú tekið á móti henni í heimi þeim, sem liggur ofar gröf og dauða. Soffía Ingvarsdóttir Við Jóhann Sveinsson vorum samstúdentar, og mér hefir oft orðið það umhugsunarefni, hvern- ig það gat atvikazt svo, að við skyldum aldrei kynnast á mennta- skólaárunum, en það átti raunar ekki aðeins við um Jóhann, heldur marga aðra A-bekkinga, sem ég hefi síðar kynnzt og orðið hafa góðir vinir mínir. En ég var sjálfur B-bekkingur. Ég man vel, hvernig ég kynntist Jóhanni. Það var í upplestrarfríi okkar undir stúdentspróf, og Halldór Vigfús- son, samstúdent okkar og hollvin- ur minn, átti upptök að því. Síðar urðum við Jóhann námsbræður í norrænudeild, eftir að hann hafði orðið að hverfa frá námi erlendis í uppeldis- og kennslufræðum, af fjárhagsástæðum, en það voru þær fræðigreinar, sem efstar voru í huga Jóhanns til framhalds- náms. Það var ekki út í bláinn að Jóhann valdi sér til náms hér við háskólann íslenzk fræði, því að þau fræði munu alla tíð hafa átt hug hans allan, allt frá barnæsku, er faðir hans, sem var góður hagyrðingur, kenndi honum fyrstu ferskeytluna. Eftir að við Jóhann urðum námsbræður í norrænu- deild slitnaði þráðurinn okkar í milli aldrei. Á háskólaárum okkar heimsóttum við jafnan hvor annan, og eftir að ég giftist kom hann oft á heimili mitt, aufúsu- gestur okkar hjóna og barna okkar. Eitt sinn, er hann hringdi í mig, varð Ragnhildur litla dóttir mín fyrir svörum og bar mér þau skilaboð, að ég ætti að koma í símann. „Hver vill tala við mig“, spurði ég. Hún svaraði: „Það er hann Jóhann, sem kveður vísurn- ar“. En Jóhann Sveinsson kom ekki aðeins á heimili mitt og gladdi mig og fjölskyldu mína með komu sinni, heldur gaf hann mér líka vináttu sína, traust og óeigin- gjarna vináttu um mörg ár. Kynn- um mínum við Jóhann átti ég meðal annars að þakka, að ég kynntist Jóhannesi skáldi úr Kötl- um og eignaðist vináttu hans, sem jafnan hefir yljað mér um hjarta- rætur. Jóhann Sveinsson mun jafnan verða minnisstæður öllum þeim, sem honum hafa kynnst. Hann var mjög sérstæður persónuleiki, bæði í skapi og allri framkomu, ræðinn og rabbsamur, enda víða heima. Einkum áttu þó íslenzk ljóð og lausavísur hug hans og hjarta. Man ég ekki til þess, að ég hafi nokkru sinni hitt hann svo, að hann færi ekki með eina eða fleiri vísur. Sjálfur var hann hagorður vel og kunni að beita ferskeytlunni svo að hún hitti í mark. Til söfnunar lausavísna og rannsókna á þeim varði Jóhann frístundum sínum um fjölda ára og lagði jafnvel á sig ferðalög til fjarlægra landshluta til þess að leita uppi kvæðamenn. Fékk hann fræði- mannastyrk í þessu skyni um mörg ár. Jóhann var og formaður Hagyrðinga- og kvæðamannafé- lags Reykjavíkur um skeið. Okkur vinum Jóhanns gramdist mjög, hve lítið kom út á prenti af vísnasafni hans. Við ásökuðum hann stundum í huganum fyrir afkastaleysi, en vorum við þess umkomnir að fella áfellisdóm yfir Jóhanni í raun og veru? Er nokkur þess umkominn að áfellast aðra, vitum við í raun og sannleika aðstæður hvers annars og per- sónulegar lífsástæður, þótt við höldum oft, að við þekkjum öll lífsatvik vina okkar og kunningja og hyggjum okkur vitrari þeim? Jóhann gaf út tvö bindi af vísna- safni sínu, Ég skal kveða við þig vel 1947 og Höldum gleði hátt á loft 1961. Jóhann birti og nokkur kvæða sinna í blöðum og mun þeirra kunnast „Nóttin með lokk- inn ljósa, fallegt og ljóðrænt kvæði, sem Eyþór Stefánsson samdi lag við og oft hefir heyrzt sungið í útvarpi. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit, einkum ritdóma og annað bók- menntalegt efni. Má um það til dæmis nefna „Perlur úr festi“ í Skirni 1952 og „Að yrkja stöku" í Unga íslandi 1947, og var það raunar sjálfstæð bók. Jóhann sá að mestu um útgáfu ljóða Sveins Hannessonar frá Elivogum 1933. Einn var ’svo ríkur þáttur í háttum Jóhanns Sveinssonar og framkomu, að honum verður ekki fulllýst án þess að minnast á hann, en það var óviðráðanleg árátta hans til þess að nefna menn ekki réttum nöfnum sínum, heldur gefa þeim auknefni. Ég held, að hann hafi auknefnt okkur flesta skólabræður sína, a.m.k. sambekk- inga sína, kom þar til aldursmun- ur hans og ungra æringja, sem skyldu ekki eldri háttu hans og höfðu í frammi áreitni við hann. Ég man, að mér kom þetta í fyrstu undarlega fyrir, og vafðist oft fyrir mér að átta mig á auknefn- um hans og tengja þau þeim, sem áttu. Þessi árátta í fari Jóhanns bakaði honum andúð og jafnvel óvild þeirra, sem fyrir urðu, og annarra líka. Ég veit enga skýr- ingu á þessari áráttu Jóhanns. Ef til vill var hana að rekja til sveitarbrags í heimahögum hans nyrðra, ef til vill var hún aftur ósjálfráðrar tilhneigingar til sjálfsvarnar frá skólaárunum, en vafalaust var hún einn þátturinn í gamansemi hans og áreiðanlega oftar en margur hugði. Jóhann átti það og stundum til að verða „svolítið gráglettinn", eins og hann sagði sjálfur. Þótt Jóhann Sveinsson væri jafnan ör og kátur í viðmóti var hann viðkvæmur í lund og auðsærður. Vinum sínum var hann trölltryggur og leið engum að hallmæla þeim. Jóhann Sveinsson eignaðist tvö börn, dóttur og son. Dóttir Jó- hanns heitir Kristín, f. 28. júlí 1934 í Reykjavík, stúdent 1954 og cand. phil. 1956. Móðir Kristínar er Sigríður Sigfúsdóttir frá Hóli í Fljótsdal. Maður Kristínar er Guðmundur Sigþórsson vélstjóri í Garðabæ. Sonur Jóhanns heitir Hörður, f. 6 febr. 1940. Móðir hans er Arnheiður Gísladóttir frá Torfastöðum í Grafningi. Hörður er skipstjóri á Eyrarbakka og heitir kona hans Agnes Karlsdótt- ir. Jóhann kvæntist 25. sept. 1959 Sigríði listmálara Sigurðardóttur bónda að Minni Þverá í Fljótum Sigmundssonar. Hún átti áður Tryggva listamann Magnússon og síðar Sigurð rithöfund Haralz. Sigríður var fædd 23. júlí 1904 og lézt 22. maí 1971. Hún átti við mikla vanheilsu að stríða síðustu æviár sín og var mjög rómuð hugulsemi Jóhanns og umhyggja hans í bágindum hennar. Jóhann Sveinsson andaðist í Landakotsspítala aðfaranótt föstudagsins 20. febr. Að eigin ósk hans fór útförin fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudag- inn 5. marz sl. Við skólasystkin Jóhanns vott- um börnum hans, tengdabörnum og barnabörnum einlæga samúð. Lárus Blöndal

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.