Morgunblaðið - 12.08.1992, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 12.08.1992, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 12. ÁGÚST 1992 37 Gerður Kristíns- dóttír - Minning Fædd 8. ágúst 1924 Dáin 18. júlí 1992 „Eyjafjörður finnst oss er / feg- urst byggð á landi hér,“ kvað Matt- hías forðum og var þó ekki Eyfirð- ingur að uppruna. Raunar geta há- stig lýsingarorða verið varasöm og . oft segir frumstigið meira: „Fagur er dalur...“ Þó man ég til þeirra stunda við Eyjafjörð er ég efaðist um að fegurri gæfust annars staðar á jarðríki. Minnisstætt er mér líka þegar ég 17 ára unglingur vann sumarlangt á eyfirskum rausnar- garði, Kaupangi, að mér fannst ég kominn í annan heim, svo mjög báru eyfirsk býli af því sem ég hafði kynnst austanlands. Það átti við um húsakost, híbýlaprýði, ræktun, vél- væðingu, þrifnað og snyrtibrag utan húss sem innan. En í þeim sveitum gátu stormar geisað og háir tindar varpað löngum skuggum yfir byggð- ir rétt eins og í öðrum héruðum og mennirnir voru sjálfum sér líkir, ástríður þeirra óstýrilátar sem stór- viðri á þorra og léku margan grátt eins og lengi hefur loðað við það kyn. Sama vor og ég kom fyrst í Eyja- fjörð fermdist í Grundarkirkju Gerð- ur dóttir þeirra í Möðrufelli, Jónu Þorsteinsdóttur og Kristins Jónsson- ar, elst fimm bama þeirra, fædd 8. ágúst 1924 á Akureyri. Árið eftir hófust okkar kynni þegar ég settist í 2. bekk MA þar sem hún var fyr- ir. Þegar ég lít til baka fæ ég illa skilið að hún hafi þá verið aðeins 15 ára eða vart af bamsaldri, svo andlega þroskuð sem hún var. Hún bar gælunafnið Gæja og átti þó skírnarnafn við hæfi því að hún var í sannleika gerðarleg stúlka og fal- leg. Hún var skarpgreind, fijáls- mannleg í framgöngu, og einurð í svipnum héldu sumir sprottna af þótta, en var aðeins vitnisburður um heilbrigt stolt sem hefði mátt eiga sér enn harðari varnarskel, því við- kvæmri lund og auðsærðri er alltaf hætt í grimmum heimi. Sérstaklega erfið em unglingsárin þegar augu manns em að opnast fyrir að (svo- kallað) fullorðið fólk er ekki annað en sjálfselskir óbilgjamir girnda- belgir sem hugsa bara um sig; og margt fleira getur orðið að meini, eins og þegar hrekkjalómurinn litli með örvamælinn og bogann sendir skeyti sín í rangan hjartastað; þá getur verið erfitt að fyrirgefa þeirri sem tekur skotinu fagnandi og auð- velt að sannfærast um að þessi karl- peningur hafi alltaf verið til vand- , ræða og verði meðan heimur stend- ur. En góðu heilli gengur þetta yfír eins og vorkvef og við tekur sælan mesta þegar hinn eini sanni ríður í garð í sólskini og sunnanvindi eins og Sörli forðum — eða kemur sigl- andi með blátt segl við hún. Þá eykst líka sáttfýsin svo til alls sem lifir að vel er hægt að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðmm að jafnvel (svo- kallað) fullorðið fólk er ekki nema manneskjur. Miskunnarlausa líf, miskunnsama lífl Með okkur Gæju tókst snemma góð vinátta sem ég mat mikils því að hún var ekki allra. En tæki hún tryggð við einhvern þurfti nokkuð til að hrekja hann úr vinahring henn- ar. Það fékk ég að reyna jafnlengi og ævidagur hennar entist. Á þessum tíma skiptust mennta- skólarnir í þriggja vetra gagnfræða- deild sem lauk með gagnfræðaprófi og í framhaldi af henni þriggja vetra menntadeild sem lauk með stúdents- prófi. Því miður hætti Gæja að loknu gagnfræðaprófi eins og allar bekkj- arsystur okkar að þremur undan- skildum. Þetta náði engri átti, því hún var miklu meiri námsgarpur en margur strákurinn sem áfram hélt og svo var um þær fleiri stúlkurnar í bekknum. En þær höfðu almenn- ingsálitið á móti sér eins og löngum; á öldinni sem leið var talið nægja að stúlkur lærðu að lesa og óþarfi að kenna þeim skrift líka; framundir miðja þessa öld var enn álitið kapp- nóg að þær tækju gagnfræðapróf, af því að fyrir þeim lægri hvort eð væri að giftast og ala upp böm og til þess þarf eins og hver maður veit ekki æðri menntun. Hripað hefur úr minni mér hvað Gæja hafði fyrir stafni næstu tvö ár eftir menntaskólavistina, líklega verið heima og unnið að búi foreldra sinna. Að minnsta kosti man ég við fórum eitt sinn hjólandi nokkrir vin- ir hennar fram í Möðrufell að heim- sækja hana og áttum þar ánægjuleg- an dag. Þá vora foreldrar hennar báðir á lífi og fjórir bræður á bemskuskeiði: Þorsteinn um ferm- ingu, Jón ári yngri eða svo, Ingvar níu ára og Valur þriggja. Á heimil- inu var einnig Hólmfríður systir húsfreyju með dóttur sína Solveigu kornabam, en hún er hálfsystir Gæju. Allt er þetta fólk nú látið nema Solveig, systkinin öll fyrir ald- ur fram. Haustið 1943 settist Gæja í Hús- mæðraskólann á Laugalandi sem var eins vetrar skóli, hóf haustið eftir nám í Húsmæðrakennaraskóla ís- lands og lauk þaðan prófi vorið 1946. Húsmæðrakennaraskólinn starfaði einnig að sumrinu og þá að Laugar- vatni. Sumarið 1945 var ég við blaðamennsku í Reykjavík en fór utan um haustið til náms. Einhvern tíma í byijun september kom Bjarni frá Hofteigi að máli við mig og bauð okkur hjónum í bíltúr austur að Gullfossi og Geysi, lagði til að við tækjum Gæju með í austurleið og skiluðum henni aftur að Laugarvatni eftir að hafa skoðað náttúrundrin miklu. Við tókum boðinu fagnandi og fagran sunnudagsmorgun renndi Bjami í hlað hjá okkur á Bergstaða- stræti í bíti. Mér þótti hann furðu fámáll á svo fyrirheitaríkum degi því að Bjarni var annars maður morgunhress. Innarlega við Suður- landsbraut bættist kunningjastúlkan hans í hópinn en hann varð engra málglaðari við það, sat íbygginn við stýri og hafði nána gát á umferð- inni. Þegar við voram komin upp úr Ártúnsbrekku sagði stúlkan okk- ur að Bjarna hefði dreymt fyrir því í nótt að eitthvert óhapp kæmi fyrir í ferðinni. Ég hafði verið með honum á herbergi heilan vetur í MA og vissi að ekki var að spauga með það sem hann hafði af draumföram sínum að segja þegar hann setti fætuma fram fyrir stokkinn á morgnana. Mér varð því dálítið ónotalega við, ekki síst vegna þess að við hlið mér sat kona ekki einsömul. En veðrið var fagurt, landið heillandi, við ung og eftirvæntingarfull svo að fljótlega var fyrirboðinn öllum gleymdur — nema Bjarna. Úr honum dróst varla orð þótt allt gengi að óskum austur og vel hofði um heimförina. Nema hvað? Sem við sígum á hægri ferð rennislétta beina braut og eigum eftir nokkur hundrað metra heim að Laugarvatni liggur bíllinn eins og hendi sé veifað á hliðinni úti í skurði með alla í einni kös og efstur Bjami. Hann var fljótur að átta sig, svipti upp hurðinni, hoppaði út og lék á alsoddi eins og leystur úr álög- um; nú var því lokið sem fram átti að koma! Sem betur fór varð engum meint af byltunni. En dálítið finnst mér undarlegt að þau tvö sem horf- in eru úr hópnum, Bjami og Gæja, kvöddu bæði aðfaranótt 18. júlí.. . Nú 'er frá því að segja að veturinn áður en ég kynntist Gæju var ég nemandi í Laugaskóla í Reykjadal. Þar var talsverður fjöldi Eyfirðinga, þeirra á meðal fimm Hjalteyringar og hét einn Jónas Einarsson. í svo nánu samfélagi urðu allir mátar og það hjálpaði til að viðhalda vinfengi okkar Jónasar að ég var viðloða Akureyri næstu vetur við nám og rakst þá stundum á Hjalteyringa og eins bar fundum saman þau sumur sem hann var á síld og ég við löndun í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn. Hann valdi sér sjómennsku að ævi- starfi og fór í Stýrimannaskólann. Dró nú til þess sem verða vildi í lífi þessara eyfirsku vina minna, Gæju og Jónasar, og kann ég ekki að rekja þá tilhugaltfssögu, nema hún endaði með þeim ágætum að 25. september 1948 gengu þau í hjónaband, bónda- dóttirin úr dalnum og sjómaðurinn upprunninn þar úr firði sem „stuðla- björgin sterk og há / stöðva nyrst hinn ramma sjá“. Öllum sem tifyþekktu hlaut að finnast gæfulega til þessa ráðahags stofnað; bæði höfðu þau hlotið góða starfsmenntun, Jónas varð farmaður í eftirsóttu stýrimannsstarfí með skipstjórastöðu í sjónmáli, og til að annast sjómannsheimili þar sem fað- irinn er í burtu langtímum saman var erfitt að hugsa sér traustari konu en Gæju. Á sjötta áratugnum eignuðust þau íjögur mannvænleg börn: Kristin (’50), Einar (’52), Haf- dísi (’55) og Jónas (’57). Þau áttu þá heima á Akureyri og. allir munu hafa búist við að þar hygðust þau staðfestast og ala upp böm sín á ættarslóð í nánd við frændalið og foma vini. Margir urðu því undrandi þegar þau tóku sig upp 1959 og fluttust með bamahópinn sinn alfari til Noregs. Það hlýtur að hafa verið erfið ákvörðun og einhver harðráður rekið á eftir. Einatt fer svo að at- gervi þess sem sest að í framandi landi er þjóð hans glatað og það sem verra er að oft fær hann ekki notið sín nema til hálfs í annarlegu um- hverfi. En þejm famaðist vel í nýju heimalandi. Á öðru ári settust þau að í Larvik og festu þar rætur. Gæja hafði kennt þijá vetur á ís- landi en fékk ekki komið því við meðan börnin vora að vaxa úr grasi. Þegar þau tóku að stálpast hóf hún kennslu að nýju og kenndi í aldar- fjórðung, lengst við Larvik yrkes- skole, síðustu árin sem fyrsti yfir- kennari hússtjómardeildar og var heiðrað af fylkisstjóm Vestfoldar fyrir vel unnin störf við verkalok vorið 1991. Jónas var í föram á norskum langferðaskipum fram eftir áram, síðar skipveiji á feiju milli Danmerkur og Noregs en fór loks í land eftir langa útivist og vann síð- ustu árin hjá verksmiðju í Larvik uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Börnin döfnuðu ágætlega, hafa öll gengið menntaveginn og reynst fósturlandi sínu nýtir þegnar. Kristinn er forstjóri einnar stærstu útgáfu í Noregi (De norske bokklub- bene), Einar nam búvísindi og iðkar sín fræði við landbúnaðarháskólann í Ási, Hafdís er félagsráðgjafi í Ósló og yngsti sonurinn Jónas læknir í Larvik. Bamabörnin era orðin 11 talsins. Fyrir áratug rúmum var ég á flakki einn í bíl, kom í ljósaskiptun- um til Moss, ók niður á bryggju til að skoða skipin og sá hvar feija lá sem leggja átti af stað eftir fimm mínútur vestur yfir Óslófjörð, svo að ég ók beint um borð og ákveð að bregða mér til Larvíkur og heilsa upp á Jónas og Gæju. Eftir þó nokkr- ar villur í svartamyrkri fann ég göt- una Grensen, stöðvaði bílinn framan við stæðilegt hús nr. 26, steig út og hringdi bjöllunni. Gæja kom til dyra í slopp, og þegar við höfðum heilsast afsakaði hún klæðnað sinn, sagði þau hefðu verið að koma af sjó, lent í bölvaðri brælu og fengið á sig skvettur svo ekki hefði veitt af að skola af sér sjávarseltuna. Mér fannst þetta líkara því að ég væri á tali við kunningja úr stétt fiski- manna eystra en eina höfðinglegustu dömu sem dalir íslands hafa alið, og þegar við höfðum Lengur rætt málin varð ljóst að Gæja var enginn gervisjómaður með sjóveikitöflur í vasanum, heldur vora sjóferðir líf hennar og yndi. Þau hjónin höfðu þá nýlega eignast bát svo traustan og vel búinn að þau töldu engin tor- merki á að sigla honum til Islands og höfðu uppi ráðagerðir um það í fullri alvöra. Ég fékk að sjá fleytuna morguninn eftir og er í engum vafa um að þau hefðu komist heilu og höldnu í Eyjaijörð ekki síður en Helgi magri forðum. Við sátum að snæðingi langt fram á kvöld. Á borð- um var glænýr fiskur sem þau hjón- in höfðu sjálf veitt, og ekki skorti húsfreyjuna kunnáttu til að matbúa hann listilega og framreiða með kostum. En af bar að mega dveljast með þessum góðvinum mínum á fögru heimili þeirra, rabba um heima og geima og finna að enn var hugur- inn á íslandi þótt í holdinu hefðu þau lifað utanlands á þriðja áratug. Ég hef ekki komið til Larvikur nema í þetta eina sinn. En allt yfir- bragð heimsóknarinnar var með þeim hætti að ég á auðvelt með að sjá fyrir mér síðustu ævistundir Gæju. Þau tóku daginn snemma og reru til fiskjar, gerðu sér góðan málsverð og neyttu hans um borð, ræddu meðan á máltíðinni stóð um Dostojevskí út frá grein um hann sem birst hafði í Aftenposten. Að áliðnum degi var haldið til hafnar, um kvöldið nutu hjónin saman feg- urðar sólarlagsins og gengu síðan til hvílu. Þegar Jónas reis úr rekkju morguninn eftir árla eins og hans er vani var Gæja örend. Bálför hennar var gerð frá Und- ersbo Kapell föstudaginn 24. júlí. Þetta var borgaraleg útför þar sem um 200 vinir og vandamenn Gerðar komu saman til kveðjustundar við kistu hennar. Athöfnin bar með sér að verið var að kveðja tveggja landa þegn sem verið hafði báðum trúr. Flutt vora ljóð eftir Jónas Hallgríms- son, Arnulf 0verland og Harald Sverdrap og lesinn kafli úr Pétri Gaut eftir Ibsen. Tónlist var með alþjóðlegu sniði. Öll börn hennar og ein tengdadætranna fluttu minning- arorð og sungið var að ósk Gerðar Ktið ljóð eftir móður hennar. Síðan var boðið til erfisdrykkju að íslensk- um sveitasvið. Minningargreinar um hana birtust í 0stlands Posten 21. og 23. júlí. Svo er á enda runnið æviskeið vænnar stúlku sem stoltarlega bar sig á götu og gladdi augu ungra manna forðum. Einn þeirra vann hjarta hennar. Til hans og vanda- manna hvarflar hugurinn á saknað- arstund. Nú sem ég lýk þessum kveðjuorðum á afmælisdegi Gæju finnst mér sem hún hefði getað lagt samísku listakonunni Rose-Marie Huuva ljóðið Heimvon í munn: Eins og þegar eldur deyr í hlóðum yfirgefins tjaldstaðar um haust, vindur slökkvir hinsta gneista í glóðum, sópar af hellu silfurgráa ösku, sáldrar henni yfir vatn og íjörð svo vil ég duft mitt berist burt með þeynum um beitilönd og þýfðan heiðamó, falli sem skuggi á fjallavatnsins spegil, finni sér skjól í hlýrri mosató, heimkomið barn við barm þér, móðir jörð. Einar Bragi. t Eiginmaöur minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, GUÐMUNDUR ÞORLEIFSSON stýrimaður, Grenimel 40, sem lést 2. ágúst, verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík [ dag, miðvikudaginn 12. ágúst, kl. 13.30. Dagmar Hannesdóttir, Bragi Guðmundsson, Guðrún Ríkarðsdóttir, Hannes Guðmundsson, Kristín Ármannsdóttir, Hanna G. Guðmundsdóttir, Guðmundur Hafsteinsson, barnabörn og barnabarnabarn. t Innilegar þakkir sendum við öllum þeim, sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför litlu dóttur okkar og systur, VALDÍSAR JÓNU ÞORSTEINSDÓTTUR. Þorsteinn Valur Baldvinsson, Sigriður Björnsdóttir, Sœdís Mjöll Þorsteinsdóttir. t Þökkum innilega auðsýnda samúð og vinarhug við andlát og útför móður okkar, tengdamóðiur, ömmu og langömmu, GUÐFINNU STEFÁNSDÓTTUR, sfðasttil heimilis að Kirkjuhvoli, Hvolsvelli. Björgvin Ottó Kjartansson, Ásgeir Kjartansson, Stefán Kjartansson, Jóhann Kjartansson, Sigurður Rúnar Kjartansson, Sólveig Smith, barnabörn og barnabarnabörn. Þurfður Jónsdóttir, Pálfna Gunnmarsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Ingibjörg Þorgilsdóttir, Lokað Vegna útfarar JÓHÖNNU S. GUÐLAUGSDÓTTUR, yfirtækniteiknara, verður skrifstofa Borgarskipu- lags Reykjavíkur iokuð eftir hádegi í dag, miðviku- daginn 12. ágúst. Morgunblaðið tekur afmælis- og minningargreinar til birting- ar endurgjaldslaust. Tekið er við greinum á ritstjórn blaðsins á 2. hæð í Aðalstræti 6, Reykjavík og á skrifstofu blaðsins í Hafn- arstræti 85, Akureyri. Við birtingu afmælisgreina gildir sú regla, að aðeins eru birtar greinar um fólk sem er 70 ára eða eldra. Hins vegar eru birtar afmæl- isfréttir með mynd í dagbók um fólk sem er 50 ára eða eldra. Mikil áhersla er á það lögð að handrit séu vel frá gengin, vélrituð og með góðu línubili.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.