Þjóðviljinn - 12.11.1986, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 12.11.1986, Blaðsíða 7
Umsjón: Ólafur Gíslason UðÐVIUIIIN Reykjavíkur- stemmning í tónum Sinfóníuhljómsveitin frumflytur á morgun tónverkið „Tvær myndir“ eftir Herbert Hriberschek Agústsson. Þetta eru 2 tónmyndir fyrir stóra hljómsveit sem eiga að lýsa rölti um borgina þar sem ég reyni að hlera uppi þekkt og ókunnug hljóð, sagði Her- bert Hriberschek Ágústsson tónskáld, þegarviðhöfðum samband við hann vegna þess að á morgun mun Sin- fóníuhljómsveit íslands frum- flytja eftir hann tónverkið „Tværtónmyndir". - Það var Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins sem pantaði þetta verk hjá mér í tilefni sex- tugsafmælis sem ég átti í ágúst síðastliðnum. Verkið var samið í vor, en hugmyndin á bak við það hefur verið lengi að þróast með mér. Verkið tekur 10-15 mínútur í flutningi, og ég hugsa mér að fyrri myndin byrji með morgungöngu í grámóskulegri morgunkyrrð, þar sem klukknaköll rjúfa kyrrðina og þau geta eins vel boðað dags- ljósið, lífsgleði eða sorg. Síðan kemur morgunsöngur sem leikinn er á flautu og þá vaknar dagurinn með ys og þys, en þessi kafli endar með því að morgun- söngur flautunnar heyrist aftur eins og í bakgrunni. Annar kaflinn, eða seinni myndin hefst á hröðu scherzo eða glettum, og ég ímynda mér þá börn að leik við tjörnina, fugla- kvak og síðan elskendur sem láta vel hvort að öðru með saxófón og klarinettu sem talast við. Þessi mynd endar síðan á því að virðu- legur bóndi eða húsbóndi kemur gangandi eftir Tjarnarbakkanum og það er túban sem fer með hans hlutverk. Málverk af stemmningu Er þetta þá það sem kallað er prógramtónlist? Nei, ekki í þeim skilningi að verkið styðjist við ákveðna sögu eða kvæði, heldur lýtur verkið sínum eigin lögmálum. En hug- myndirnar að verkinu eru fengn- ar á rölti mínu um borgina og eiga sér þannig fyrirmyndir. Eg lít frekar á þetta sem eins konar málverk af stemmningunni í borginni. Þetta er skrifað fyrir stóra hljómsveit og ég nota mikið málmblásturshljóðfærin. Það eru í þessu léttar sveiflur, sem eru jazzkenndar og Jón Múli ætti að kannast við. Herbert Hriberschek Ágústs- son er Austurríkismaður, en hann fluttist hangað til lands 1952 og hefur Ieikið í Sinfóníuhljóm- sveitinni alla tíð síðan, lengst af sem 1. hornleikari. Hann hefur auk þess komið víða við í tónlist- armálum, bæði sem tónskáld, kennari og stjórnandi. Þannig var hann skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík 1976-84 og hann hefur stjórnað Karlakór Keflavíkur frá ■ 1959. Þá hefur hann einnig stjórnað Þrastakórnum í Hafnar- firði, Kvennakór Suðurnesja, Háskólakórnum og Kvennakór Slysavarnafélagsins. Sinfóníu- hljómsveitin hefur áður flutt margar af tónsmíðum Herberts. Þegar við spurðum hann að því hvers vegna hann hefði flust til íslands á sínum tíma var svar- ið: - Ætli það hafi ekki verið af forvitni og ævintýraþrá. Ég hafði starfað sem hljóðfæraleikari við Fflharmóníuhljómsveitina í Graz, þegar ég frétti af því, að hér væri laus staða. Þá voru hér fyrir þeir landar mínir Páil Pam- pichler Pálsson og Hanz Pluder fagotleikari, og Iétu vel af landinu. Þeir áttu sinn þátt í þessu. Svo kynntist ég konu minni hér og hef unað mér vel... Þetta voru orð Herberts Hri- berscheks Ágústssonar og við óskum honum til hamingju með afmælið - þótt síðbúðið sé - og tónverkið um Reykjavíkur- stemmninguna sem Sinfóníu- hljómsveitin frumflytur annað kvöld. Stjórnandi verður Arthur Weisberg. ólg. Þetta er með léttri sveiflu og málmblásturshljóðfærum VEGURINN TIL MEKKA Leikfélag Reykjavíkur sýnir Veginn til Mekka eftir Athol Fugard Lelkstjóri: Hallmar Sigurðsson Leikmynd: Karl Aspelund Þýðing: Árnl Ibsen Athol Fugard er þekktasti leikritahöfundur frá heimalandi sínu, Suður Afríku. Mörg verka hans fjalla um sambúð hvítra og svartra í landinu á einarðlegan hátt og hann hefur vitanlega átt í útistöðum við stjórnvöld í A- Afríku eins og allt almennilegt fólk þar í landi. Hér átti fólk fyrir skemmstu kost á að sjá kvikmynd eftir leikriti hans Boesman og Lenu í sjónvarpi, og þeim sem sáu er áreiðanlega í fersku minni flutningur Lilla teatern á listahá- tíð fyrir svona áratug á grátbros- legri afhjúpun Fugards á aprart- heidstefnunni, Sizwe Banzi er dauður. Vegurinn til Mekka, sem mun vera nýjasta leikrit Fugards, fjall- ar hins vegar ekki nema óbeint um kynþáttaofbeldið heldur um hinn almenna tilvistarvanda eða réttara sagt þessa spurningu: hvernig getur manneskjan fundið sér tilvistargrundvöll ef hún miss- ir trúna á guð og viðtekin félags- leg verðmæti í kringum sig? Það er þetta sem hefur komið fyrir aðalpersónu verksins, Helen. Hún finnur svarið innra með sér, í sköpunarkrafti ímyndunar- aflsins, og tekur til við að skapa sér sína eigin veröld sem hlutger- ist í myndastyttum sem hún hrúg- ar upp í garðinum hjá sér. Hún kallar þetta styttusafn sitt Mekka og vegurinn þangað er leiðin til fyrirheitna landsins inni í okkur sjálfum. Þessi eyðimerkurganga konunnar hefur kostað hana ein- angrun frá samfélaginu, en hún býr í einangruðum smábæ í út- jaðri eyðimerkurinnar, stað sem ekki beinlínis einkennist af um- burðarlyndi og víðsýni. Eini maðurinn í bænum sem enn hefur samband við hana er presturinn, sem er fulltrúi þeirra gilda sem hún hefur gert uppreisn gegn og er að reyna að brjóta ein- strengingshátt hennar á bak aftur og koma henni á elliheimili. Hel- en fær hins vegar stuðning frá fulltrúa upplýstari afla, vinkonu sinni Elsu sem er kennari í Höfð- aborg. Leikritið gerist á einu kvöldi og snýst um þá spennu sem leysist úr læðingi kringum þving- anir prestsins til að koma Helen á elliheimili. í sýningu LR leysist reyndar engin spenna úr læðingi fyrr en langt er liðið á kvöldið. Fyrri hluti verksins er afar daufur og langdreginn og verkar sem alltof langur innangur að kjarna máls- ins. Þegar að honum kemur eftir hlé lifnar sýningin sem betur fer við og nær undir lokin sterkum tökum á áhorfendum. En hvað var að í fyrri hlutanum? Sumpart held ég að texti Fugards eigi sök- ina, hann er ótrúlega flatur á köflum í fyrri hlutanum og svo er hann einfaldlega of langur. En einnig held ég að leikstjórinn hefði getað gert meira til að vinna SVERRIR HÓLMARSSON gegn þessum meinsemdum með því að þétta gang leiksins og undirstrika betur þá spennu sem smám saman er að hlaðast upp. Það sem vantar í fyrri hlutann er meðal annars tilfinningin fyrir þrúgandi áhrifum þessa eyðilega umhverfis og miklu einangrunar. í byrjun þegar Elsa kemur inn, lítur hún hreint ekki út eins og hún hafi ekið 1200 km í hitakófi og rykmekki - svo dæmi sé nefnt um það sem að er. Hallmar Sigurðsson leikstýrir þessu verki á lágu nótunum, hann stefnir að því að finna sönnum tilfínningum eðlilega tjáningu. Þessi aðferð hans ber ríkulegan ávöxt í seinni hluta sýningarinnar þar sem samleikurinn nær um- talsverðri dýpt og hreinir strengir hljóma. Þegar Elsa er búin að kveikja á öllum kertunum stafar sannkallaður töfraljómi á sviðið, birta sem endurspeglar innri birtu Helenar. Lýsing í sýning- unni er reyndar vönduð og áhrif- arík, en Ijósaskiptingar sums staðar of hraðar, áhorfandinn má ekki finna eins mikið fyrir þeim og hann gerir. Frumraun Karls Aspelund er vandað verk og nokkuð sannfærandi en gefur tæplega nógu vel til kynna raun- verulega einangrun og nöturlegt ástand hússins. Eins og þegar hefur verið sagt er leikurinn hófstilltur og þegar best tekst til mjög sannur. Sig- ríður Hagalín leikur hér betur en hún hefur gert um skeið, nær mjög öruggum tökum á persón- unni og tekst að gera innri sann- leik hennar að sínum. Hún geislar þegar best lætur af innri birtu Helenar. Þetta var verðug- ur leiksigur til að halda upp á 40 ára leikafmæli. Hlutverk Elsu er langt frá því að vera eins þakklátt. hún er dá- lítið taugabiluð og ráðvilt nú- tímakona, uppfull með réttar hugmyndir en hefur ekki náð tökum á lífi sínu. Þessu kemur Guðrún Gísladóttir ágætlega til skila og samleikur hennar og Sig- ríðar er á köflum djúpur og inni- legur. Gagnvart rótleysi og óör- yggi Elsu stendur Jón Sigur- björnsson eins og klettur í hlut- verki prestsins, fulltrúa hinna fornu gilda. Leikur Jóns er einkar fallegur, hann sýnir okkur hörku og mildi þessa manns í senn, gerir hann sumpart fráhrindandi en sumpart aðlaðandi eins og vera ber. Hófstilltur, nákvæmur og sannur leikur. Og þá er það þýðingin. Árni Ibsen er of reyndur þýðandi til að geta leyft sér að senda frá sér þær alltof mörgu setningar sem mað- ur hnaut um sökum þýðingar- bragðs, bókmálskeims eða yfír- máta hátíðleika. Hér vantaði eina yfirferð enn til að slípa af vankantana. Sverrir IJólmarsson Ml&vikudagur 12. nóvember 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.