Morgunblaðið - 16.10.2006, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 16.10.2006, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 16. OKTÓBER 2006 31 sögurnar, allar uppákomurnar í kringum afa þinn, og síðast en ekki síst margt af því furðulega sem við brölluðum saman. Og ég veit að með því að halda draumnum á lífi þá mun hann stoltur segja öllum frá besta og flottasta afa í heimi, og halda þar með halda uppi minningu um einstakan mann. Eiríkur Karl Ólafsson Smith. Það færðist dökkur skuggi yfir heimili mitt þegar fregnin um að Óli væri dáinn barst til okkar. Þrátt fyrir það kom þessi frétt mér nú ekki svo ýkja mikið á óvart. Óli hafði nefnilega ekki gengið heill til skógar undanfarin misseri. Þegar hann dvaldi á heimili mínu í nokkra daga um miðjan ágúst sl. var hann mjög lasinn þó að hann reyndi að bera sig vel, gekk hægt um, hafði lítið úthald og þurfti oft að hvíla sig. Honum varð tíðrætt um það þá hvar hann vildi hvíla þegar hann væri allur og trúlega hefur hann sjálfur gert sér grein fyrir í hvað stefndi fljótlega. Við Óli erum systkinasynir og höfum alla tíð haldið góðu sambandi okkar á milli. Hann ólst upp hjá afa okkar og ömmu og var mikill sam- gangur á milli okkar alla tíð. Við átt- um snemma sameiginleg áhugamál sem við iðkuðum saman í frítíma okkar, s.s. fjallaferðir, gæsaveiðar stangveiðar o.fl. Óli var mikill áhugamaður um jeppa og átti jafnan slíka farkosti allt til síðasta dags. Óli starfaði alla tíð við flug, bæði hér heima og erlendis. Lengst af hjá Flugfélagi Íslands, Icelandair, og nú síðast í rúman áratug hjá Air Atl- anta. Óli frændi hafði sérstaka lund. Hann var rólegur og yfirvegaður að eðlisfari, svo rólegur að hann stress- aði fólk upp með rósemi sinni, t.d. ef hann átti að vera mættur í flug eftir stuttan tíma og var enn í Reykjavík. Það lá nú ekki mikið á hjá honum og alltaf náði hann vélinni. Hann hafði góða nánd, var sérlega hjálpsamur og vildi allt fyrir alla gera. Oft var viðkvæðið hjá Óla ef eitthvað vant- aði erlendis frá: „Ekkert mál, ég redda þessu bara.“ Ef hlutir gengu ekki eftir eins og hann ætlaði, sagði hann gjarnan: „Ekkert mál, við för- um bara í plan B“ og það gekk vana- lega eftir. Hann hafði gaman af því að segja sögur og laðaði ekki hvað síst að sér börn. Því fengu börnin mín að kynnast því hann vafði þeim um fingur sér og var fljótur að fanga huga þeirra. Hann var átrún- aðargoðið og það fylgdi honum þó að þau yxu úr grasi. Það voru ófáar stundirnar sem við sátum saman ýmist á mínu heimili, í veiðihúsi eða á heimili þeirra Möggu og ræddum um alla heima og geima. Hann var reyndar aðalsögumaður- inn þá því hann hafði ferðast víða um heim, á framandi slóðir og margt óvænt og skemmtilegt komið upp hjá honum í slíkum ferðum. Það var endalaust hægt að hlusta á skemmtilega framsetningu hans á hinum ýmsu ævintýrum. Skemmti- legustu sögurnar voru úr pílagríma- fluginu og veiðiferðum. Síðasta veiðiferðin sem við fé- lagarnir fórum í var seinnipart ágústmánaðar í Minnivallalæk í Landsveit. Þar naut hann íslenskrar náttúru í frábæru veðri. Veiddi lítið sjálfur en lagði áherslu á að kenna Hjörvari Gísla 13 ára syni mínum fluguveiðar sem voru yndi Óla frá upphafi. Þegar ég hugsa til baka um Óla frænda skipaði hann ótrúlega stóran sess í lífi mínu og fjölskyldu minnar. Þess eigum við eftir að sakna mjög mikið. Mér er efst í huga nú þakk- læti fyrir alla þær góðu minningar sem ég á um Óla. Elsku Magga og börn, Guð gefi ykkur styrk á erf- iðum tímum. Missir ykkar er mikill. Valgeir frændi. Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína sem hefði klökkur gígjustrengur brostið. Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið, sem hugsar til þín alla daga sína. En meðan árin þreyta hjörtu hinna, sem horfðu eftir þér í sárum trega, þá blómgast enn, og blómgast ævinlega, þitt bjarta vor í hugum vina þinna. Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki um lífsins perlu í gullnu augnabliki. (Tómas Guðm.) Elsku frændi, Með þessu ljóði kveð ég þig að sinni, það er huggun harmi gegn að vita að þú ert umvafinn ljósinu og ástvinum sem farnir eru. Kveðja. Íris Valgeirsdóttir. Vinur minn Ólafur Smith fæddist 22. október 1941, eldri sonur hjónanna Lesley Smith og Jónu B. Jónsdóttur. Þegar foreldrar hans fóru til Bretlands er herþjónustunni lauk á Íslandi varð Óli eftir hjá afa sínum og ömmu. Tvennt rak til þess, annars vegar var Óli lasinn og hins vegar var England ekki öruggur staður á meðan seinni heimsstyrj- öldin geisaði. Í stríðslok var Óli sendur utan með herflugvél til for- eldra sinna og föðurfólks, en þar undi hann sér ekki lengi og kom aft- ur heim til afa og ömmu. Um þau talaði hann af mikilli ást og virð- ingu. Óli ólst því upp í Reykjavík og gekk þar í skóla. Hann fór korn- ungur til sjós sem léttadrengur á Gullfossi og eftir nám í Verzlunar- skóla Íslands lá leið hans víða um heim til starfa hjá flugfélögunum. Kynni okkar hófust á sjötta ára- tugnum, þá vann Óli í afgreiðslu Flugfélags Íslands, en ég hjá Loft- leiðum á Reykjavíkurflugvelli. Millilandaflugið var enn starf- rækt frá Reykjavík að hluta til og var mikill samgangur milli okkar starfsmanna félaganna, þrátt fyrir harða samkeppni. Er British Euro- pean Airways hóf flug til Íslands seint á sjötta áratugnum réði hann sig til þeirra sem stöðvarstjóri í Keflavík. Ísland var þá ekki orðið það ferðamannaland sem það er nú og Íslendingar héldu tryggð við flugfélögin sín. Þegar BEA gafst upp við Íslandsflugið sneri Óli aftur til síns gamla vinnuveitanda. Hann dvaldi síðustu fjóra áratugina við störf erlendis, fyrst á vegum Flug- félags Íslands og Flugleiða, en síðan Air Atlanta. Kunnastur er Óli fyrir störf sín sem stöðvarstjóri Flugleiða á Heathrow-flugvelli við London þar sem þúsundir nutu fyrirgreiðslu hans. Óli vakti athygli mína fyrir sér- staklega létta lund og kímni. Hann var hæfileikaríkur og afbragðs sögumaður og bjó yfir miklu jafn- vægi og æðruleysi, sem oft kom sér vel í ólgusjó lífsins. Honum voru gefnir miklir persónutöfrar og var bæði örlátur og gjafmildur. Oft hringdi hann rétt fyrir heimferð til að spyrjast fyrir um hvort ekki vantaði eitthvað sem hann gæti komið með, skipti þá engu hvort það kostaði hann bæði tíma og fyrirhöfn. Honum fór betur að gefa en þiggja. Eitt vorið kom Óli færandi hendi sem endranær og gaf mér elgshorn af dýri sem bróðir hans, Jón, hafði fellt í Bandaríkjunum út á veiðileyfi, sem Óli hafði unnið í happdrætti er hann var þar í heimsókn. Þau prýða nú gaflinn á sumarbústað mínum austur í Fljótshlíð og eru í miklu uppáhaldi. Árið 1982 unnum við saman í Níg- eríu, þar deildum við húsnæði og fórum í fyrsta sinn saman til veiða. Þetta varð upphafið að árlegum veiðiferðum okkar heima á Íslandi með hópi vinnufélaga. Veiðin var ekki aðalatriðið hjá Óla heldur fé- lagsskapurinn og allt annað sem var í kringum hana. Hann gat setið tím- unum saman á árbakkanum heill- aður af útsýninu. Hann naut þess að hvílast frá daglegu amstri úti í guðs- grænni náttúrunni og á kvöldin söfnuðumst við félagarnir í kringum hann og hlýddum á sögurnar hans. Hann var hrókur alls fagnaðar á sinn ljúfa og milda hátt. Óli var alltaf vel útbúinn í úti- legum, hann eldaði súpur eða hitaði kaffi á árbakkanum á sprittprímus sem hann hafði alltaf með sér. Hann kaus frekar að gista í tjaldi en skála og áttu einkunnarorðin ,,eitt sinn skáti, ávallt skáti“ vel við hann. Lengi átti hann gamlan Lappl- ander-jeppa hérna heima. Gamla góða Lappann varð að nota í veiði- ferðirnar þó að yngri og þægilegri bílar stæðu til boða. Við hossuðumst til fjalla á Lappanum þótt hann væri svo hægfara að dagatal hefði dugað fyrir hraðamæli, eins og Óli orðaði það svo skemmtilega. Óli var afbragðs skytta og gæsa- veiði með Valgeiri frænda hans var í miklu uppáhaldi. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fara með þeim og lærði mikið. Óli vildi bæta skotfimi og byssu- menningu okkar félaganna og fórum við tvívegis með honum á skotæf- ingasvæði í Englandi. Ég heimsótti Óla til Kuala Lump- ur fyrir tæpum tveimur árum. Þá var hann búinn að koma sér upp gömlum jeppa og báti og þótt breiddargráðan væri önnur en hérna heima voru áhugamálin þau sömu. Óli vinur minn veiktist í fyrra- sumar og var þreytulegur að sjá þegar ég hitti hann síðast í ágúst. Enginn má sköpum renna. Hann andaðist þann 24. september sl. í Kuala Lumpur í Malasíu, tæplega 65 ára að aldri. Hann verður lagður til hinstu hvíldar í dag við hlið ömmu sinnar og afa. Ég votta fjölskyldu hans og af- komendum mína dýpstu samúð. Minning um góðan dreng lifir. Björn Stefánsson. „Já, Sigga mín, garantískírteinið er útrunnið og engir varahlutir til,“ sagði hann síðast þegar við hittumst fyrir um sex vikum og brosti sínu prakkaralega brosi sem ævinlega fylgdi kímni í augunum á bak við gleraugun undir derhúfunni, annað glerið vegna fjarsýni, hitt vegna nærsýni. Setningin átti við heilsu- farshremmingar sem hann hafði lent í fyrr á árinu og hafa nú orðið honum að aldurtila. Maðurinn með þetta skrýtna sjónlag gat horft óhlutdrægt úr fjarlægð á erfiðar að- stæður en greint um leið kjarna þeirra í nærmynd og á glöggan hátt. Samhliða sá hann alltaf spaugilegu hliðarnar og kunni þá list að lýsa ýmiss konar vandræðagangi og ves- eni af snarpri fyndni, sem þó aldrei hallaði á einstaklingana sem áttu hlut að máli. Þannig var Óli, heil- steyptur, skemmtilegur, greindur og fyndinn og tryggur félagi. Tilbú- inn til þess að aðstoða hvenær sem var og breyta voli annarra í skemmtilega nærverustund. Nær- vera hans var svo gefandi og áreynslulaus að hann gat stjórnað stórum hópi manna svo að allir væru sáttir og án þess að neinn gerði sér grein fyrir því að hann væri að stjórna. Að því leyti var hann listamaður. Baráttukraftur frumbyggjans var eðlislægur Óla, hann fór á byrjunar- reit þegar þörf krafði. Hóf þá ein- faldlega uppbyggingu á nýjum vett- vangi og án þess að sýta liðna tíð. Þótt örlög hans yrðu að dvelja megnið af ævinni erlendis var hann ávallt Íslendingur og elskaði að eyða frítíma sínum úti í náttúru heimalandsins við veiðar og ferðalög – húka kaldur í skurði eftir villibráð – eiga jeppa og fara nýjar slóðir þegar gafst. Elskaði frelsi sveita- mannsins en hafði á sama tíma hlýj- an húmor fyrir ófullkomleika þeirr- ar tilveru sem og sinnar eigin og annarra. Það eru forréttindi að hafa átt vináttu Óla síðastliðin 17 ár. Vináttu sem upphaflega byggðist á stuðn- ingi hans í erfiðleikum en varð síðan tilefni til ævilangs sambands með gagnhliða miðlun á lífsins gangi svo og skemmtilegra samverustunda þegar færi gáfust. Þótt lönd og að- stæður skildu á milli lengstan þann tíma vorum við bæði trygg þessari vináttu. Nærvera sumra býður upp á gleði og ævintýri og þannig var nærvera Óla. Hann var því vinsæll og vinamargur og vinátta hans við mig og systur mínar, Guðnýju og Önnu Dís, einungis ein af mörgum sem hann hélt tryggð við. Dauði hans skilur eftir sig sorg og tóma- rúm – við hefðum svo gjarnan kosið að samfylgdin yrði miklu lengri. Góður vinur er fallinn – fór í hina síðustu ferð löngu fyrir tímann. Fyrir hönd okkar systra sendi ég eiginkonu hans, börnum og ný- fæddu barnabarni innilegar samúð- arkveðjur. Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir. Jæja, Óli minn, þá er komið að leiðarlokum, óvænt og töluvert fyrr en áætlað var enda ætluðum við og fleiri að sitja saman á ævikvöldi og rifja upp skemmtilegar sögur frá þínum langa ferli í fluginu og þau ævintýri sem við lentum í ásamt góðu fólki. Það er sárt að fá ekki að njóta samverunnar eins og áætlað var en minningarnar ylja um hjarta- ræturnar og það verður ávallt auka glas af G&T og digur vindill við borðið þegar við minnumst þín í framtíðinni. Þú varst mér lærifaðir þegar ég byrjaði minn feril í fluginu fyrir alvöru fyrir um 15 árum síðan í Súdan og áttum við ánægjulegar stundir saman í verkefnum víða um heim fyrir Atlanta og mun ég búa að því um ókomna tíð. Eftirminnileg er ferð okkar og Ingós um Vestur-Afr- íku þegar við gengum inn í miðja borgarastyrjöld í Togó og fórum á flug-puttanum með ströndinni til Gambíu og svo mætti lengi telja. Enginn var rólegri en þú við slíkar kringumstæður. Manngæska þín var með eindæmum og var enginn betri í hlutverki sáluhjálpara og diplómats gagnvart starfsfólki og viðskiptavinum á raunastundu. Án undantekninga tengdist þú starfs- fólki og stjórnendum þeirra flug- félaga sem við flugum fyrir sterkum böndum og hlaust virðingu og vin- áttu fyrir enda var þér einstaklega annt um velferð allra og gafst þér tíma og fórst vetrarvegi í að greiða götu allra sem til þín leituðu og fórnaðir eigin velferð í annarra þágu. Rómuð er hjálpsemi þín og fórnfýsi við landann á starfstöðvum þínum hjá Icelandair og í „den“ var það reglubundið að maður fór ekki upp á hótel við komuna til London heldur beið maður eftir að þú sendir vélina heim og hægt var að setjast niður á skrifstofunni í Queens Bu- ilding og eiga góða stund efir önn dagsins, njóta góðra veitinga og ræða málin. Það var heiður að eiga með þér samleið og veit ég fyrir víst að við munum eiga góðar stundir saman og rifja upp sögur fyrir handan þegar þar að kemur. Þú varst einstakur og með þeim síðustu af þinni kynslóð sem lögðu veginn að þeirri útrás sem íslensk flugfélög njóta góðs af í dag. Ég votta fjöl- skyldunni og vinum öllum hérlendis sem erlendis mína dýpstu samúð og mun ekki láta mitt eftir liggja í að heiðra minningu þína um ókomna tíð. Hafþór Hafsteinsson. Óli Smith stöðvarstjóri Air Atl- anta í Kuala Lumpur var skyndilega kallaður til æðri heima fyrir stuttu, og þar mun hann örugglega gegna lykilhlutverki eins og hann gerði hér á meðal okkar. Í gegnum árin höfum við haft töluverð samskipti við Óla hvar sem hann hefur verið að störfum . Vart er hægt að finna nokkurn mann sem jafnaðist á við þennan snilling í mannlegum samskiptum. Hann starfaði fyrir Flugleiðir í fjöldamörg ár og var jafnan í þannig störfum að mikið mæddi á honum. Ef Óli gat ekki leyst úr vandræðum, sem af og til sköpuðust, gat það enginn. Vandfundin eru tilfelli þar sem hann leysti ekki úr því sem kom á hans borð. Hjá Atlanta starfaði Óli svo fram til síðasta dags og jafnan þar sem mikið reyndi á hæfileika hans að koma á samvinnu við önnur flug- félög og halda góðu sambandi við æðstu fulltrúa þeirra fyrirtækja sem Atlanta var með flugrekstur fyrir eins og Malasian Airways í Kuala Lumpur. Í verkefni Atlanta í Malasíu, gegndi Óli veigamiklu hlut- verki í samskiptum félagsins þar í landi. Væri einhver sem þurfti á aðstoð að halda, þar sem Óli starfaði, þá var hann mættur og vandræðin voru ekki til staðar lengur. Óli reddar því,“ en þetta var ansi algeng setn- ing ef hann var annars vegar. Óli var einnig afburða sögumaður og þær eru ófáar stundirnar sem hann gæddi óborganlegu lífi með ein- stakri frásagnargáfu. Óli yrði okkur sárreiður ef við héldum áfram að hæla honum og satt best að segja gerði hann öllum gott til að gleðja sjálfan sig því það var hans líf og yndi. Hann hafði áhuga á mörgu, svo sem veiðum og allri útiveru og hafði eignast bát í Kuala Lumpur sem átti hug hans allan þegar tími gafst til . Fyrir nokkrum mánuðum er hann kom úr flugi fann hann fyrir óþæg- indum í fæti. Í byrjun harkaði hann af sér, en endaði svo á spítala þar sem þetta var blóðtappi, sem var fjarlægður, ekkert mál, hann var kominn á stjá og til vinnu. Fljótlega kom þó í ljós að komin var illvíg ígerð á sárið, sem var svo gert að. Var það mikil þrautaganga, mest vegna þess að hann mátti hreint ekki vera að því, að vera frá vinnu. Sennilega hefur hann verið meira þjáður en hann vildi vera láta en hélt sínu striki. Eitt var það sem aldrei mátti bregðast, en það var að skreppa til Íslands annað slagið og var hann reyndar nýbúinn að vera hér og hafði mikið yndi af. Við vottum öllum ástvinum Óla innilegustu samúð og kveðjum þennan einstaka gæðapilt með trega. Baldur Oddsson, Guðmundur Hafsteinsson. Það var á árunum 1968 til 1981 að ég og eiginmaður minn Helgi vorum við nám og störf í London. Við ferð- uðumst oft heim til Íslands með börnin okkar ung og margir gestir fóru um okkar garð á þessum árum. Samskiptin við Heathrow og Flug- félag Íslands/Flugleiðir voru því tíð. Óli Smith vann á Heathrow á þess- um árum. Við höfðum bæði gengið í Verslunarskólann og vorum því málkunnug. Nú, þegar hann er lát- inn, vaknar minning um óvenjulega þægilegan og velviljaðan mann sem vildi allra götur greiða. Hann var alltaf viðmótsgóður og glaður í bragði. Lítil mál jafnt sem vandræði voru honum ekkert mál og hann leysti góðfúslega úr öllum vanda. Ef hann gat ekki leyst vandann, sem var sjaldan, þá leið manni betur af því að hann hafði málin í sínum höndum. Hann var sannkallaður haukur í horni og hafði ríka þjón- ustulund og mikinn velvilja gagn- vart öllum þessum Íslendingum sem voru ofhlaðnir farangri eftir vel- heppnaða kaupstaðarferð. Aldrei sá ég hann bregða skapi undir miklu álagi vegna tafa og ýmissa tálma sem hann réð ekki við. Óli Smith var afburða góður starfsmaður, réttur maður á réttum stað, og góður fulltrúi þjóðar sinnar í þessu alþjóðlega umhverfi flugvall- arins. Mér fannst flestir kannast við hann þegar spurt var eftir honum og að öllum væri vel við hann. Það er með þakklæti og virðingu sem ég votta ástvinum Óla innilega samúð. Blessuð sé minning hans. Guðrún Agnarsdóttir. Sumir segja að það verðmætasta sem til er á jörðinni sé gott hjarta- lag. Óli Smith vinur minn var óspar á þau auðæfi og dreifði gulli síns hjarta í kringum sig hvar sem leið hans lá. Lágvaxinn, hnellinn, með sitt ómótstæðilega bros tók hann glaður á móti hverjum nýjum degi. Það sem margir aðrir kalla vandamál og reyna að forðast leit Óli á sem kærkomin viðfangsefni og gestaþrautir og leysti þá hnúta án fyrirhafnar sem aðrir örvæntu um að hægt væri að leysa. Hann var í senn heimsborgari, ís- lenskur víkingur og breskur sént- ilmaður – af betra taginu. Gamall latneskur málsháttur hljóðar svo: Nihil tetegit quod non ornavit – Hann snerti ekkert án þess að fegra það. Hann snerti mína veröld, veröld okkar allra og gerði hana betri, feg- urri. Þráinn Bertelsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.