Málfríður - 15.03.2008, Blaðsíða 7

Málfríður - 15.03.2008, Blaðsíða 7
MÁLFRÍÐUR  semi keppenda að leika langreyði, hrúðurkarl eða marhnút þó að tiltölulega auðvelt sé reyndar að leika búrhval (þeir sem ekki vita hvað búrhvalur er á ensku geta flett því upp). Við eigum það líka til að krydda leiki með því að nota bolta, en þá fá nemendur aukastig fyrir sitt lið ef þeir geta hent boltanum í körfuna (eins, tveggja eða þriggja stiga) – allt eftir fjarlægð þess sem kastar frá körfunni (ruslatunnunni). Það er mörgum mikil hvatning að geta svarað rétt svo að þeir fái að spreyta sig á að kasta boltanum. Við notum oft leiki í bókmenntakennslu. Þá er nemendum til dæmis skipt í hópa, þeim úthlutaðir kaflar úr bókinni og fá ákveðinn tíma til þess að búa til tíu spurningar úr þeim köflum. Svo keppa hóp­ arnir sín á milli, spyrja sinna spurninga og reyna að svara hinum. Jafnvel er hægt að nota leiki við undirbúning formlegra rökfærsluritgerða, til dæmis með því láta nemendur (í hópum) finna eins mörg rök sem styðja ákveðið ritgerðarefni eða eru á móti því. Þeir sem koma með flest rök/mótrök vinna keppnina. Þeir punktar sem koma upp í keppninni geta svo nýst öllum nemendum þegar kemur að því að skrifa ritgerðina heima. Við þetta má bæta að stundum fá sigurvegarar leikjanna einhver verðlaun, en nemendum er yfir­ leitt sagt frá verðlaunum áður en keppni hefst til þess að auka enn meira á spennuna. Verðlaunin geta verið karamella, sleikjó (mælum með stórum sleikjópokum sem fást í Fríhöfninni fyrir slikk) eða eitthvað annað ódýrt sælgæti. Eflaust finnst ein­ hverjum það vinna á móti stefnu Manneldisráðs og jafnvel almennri skynsemi að vera að gefa nemend­ um sælgæti, en við bjóðum ekki upp á þetta í miklu magni og bara nokkrum sinnum á önn. „Eat well, stay fit, die anyway.” Í þau fáu skipti sem kvartað hefur verið undan óhollustu verðlauna höfum við prófað að gefa gulrætur í staðinn en þær hafa ekki verið eins vinsælar. Önnur verðlaun geta verið að fara úr tíma 10 mínútum fyrr en tapliðið, og er þá tapliðið látið sitja eftir og læra betur þau atriði sem keppt var um. Stundum er alls ekki þörf á verðlaun­ um, sérstaklega ekki í borðspilum þar sem nem­ endur fá mikla ánægju út úr því að reyna að sigra andstæðinginn. Hverjir eru kostir leikja í tungumálanámi? Leikir og keppni vekja nær undantekningalaust áhuga nemenda og vilja þeir leggja sig alla fram við að standa uppi sem sigurvegarar. Þó að sagt sé að enginn er annars bróðir í leik, má með sanni segja að þeir sem eru saman í liði tengist ákveðnum böndum í leiknum sjálfum og jafnvel eftir að leik er lokið því að í raun er svona leikur/keppni eins og hver önnur hópavinna þar sem nemendur ná að kynnast og jafnvel eignast nýja vini. Það er mjög dýrmætt, sérstaklega í áfangaskólum. Oft er kennarinn í hlut­ verki leikstjórnanda, tekur virkan þátt í leiknum og sýnir í besta falli á sér nýja og skemmtilega hlið í hita leiksins. Nám þarf ekki að vera alvarlegt. Ef það er gleði í kennslustofunni eru meiri líkur á að nám fari fram. Leikir hvetja nemendur til þess að hafa sam­ skipti sín á milli. Félagslegi þátturinn er því mjög mikilvægur. Í leikjum nota nemendur einnig tungumálið á mjög virkan og eðlilegan hátt. Leikir þjálfa nemend­ ur í samskiptum/tjáskiptum á tungumálinu. Leikir reyna á alla færniþætti: Þeir þurfa að hlusta á kenn­ arann eða aðra nemendur bera upp spurningu eða koma með ráðleggingar, þeir þurfa að tala til þess að geta svarað spurningunni. Margir leikir krefjast þess að nemendur skrifi niður svör sín á milli og aðrir krefjast líka lesturs, s.s. ef spurning er uppi á skjávarpa eða á borðspili. Að muna námsefnið hjálp­ ar þeim að vinna stig fyrir sjálfa sig og liðið sitt. Það gerir efnið áhugaverðara og tungumálið „nothæft”, þ.e. tungumálanámið öðlast strax tilgang í kennslu­ stofunni. Reyndar er ekki vandamál að útskýra tilgang enskukennslu í framhaldsskólum, en þetta gæti auðvitað nýst vel í öðrum tungumálum. Ekki má gleyma því að leikir brjóta upp hefð­ bundna rútínu í kennslustofunni. Við kennum 80 mínútna kennslustundir og það þarf vissulega mikla þolinmæði og úthald nemenda til þess að halda einbeitingu allan þennan tíma. Því er mikilvægt að reyna að brjóta upp kennsluna af og til, oft þegar líða fer á seinni hluta tímans og athygli nemenda er farin að þverra. Hlustunaræfingar, talæfingar eða leikir verða þá oft fyrir valinu. Auðvitað verður að gæta þess að ofnota ekki leiki. Gæta þarf jafnvægis þarna á milli því að nemendur geta líka orðið leiðir ef það er of mikið af því góða og þá verða leikirnir of mikið áreiti. Suma hópa þyrstir endalaust í leiki en aðrir eru fáskiptnari en kunna samt vel að meta að kennslan sé brotin upp af og til með leikjum. Einnig er mikilvægt að kennarinn sjálfur hafi gaman af því að nota leiki. Annars er tilraunin dæmd til að misheppnast. Við trúum því að allir geti notað leiki í sínum kennslustundum. Það þarf bara að trúa á að það heppnist. Kennarinn þarf að vera næmur á hópinn og á tímasetningu leiksins svo að nemendur verði ekki leiðir. Einnig þarf að útskýra reglur leiksins vel og vandlega þannig að nemendur viti hvað þeir eru að fara út í, sem sagt hafi sjálfs­ traust þegar í leikinn er komið. Kennarinn þarf samt

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.