Málfríður - 15.03.2008, Blaðsíða 18

Málfríður - 15.03.2008, Blaðsíða 18
1 MÁLFRÍÐUR á sama landsvæði á sama tíma. Þá er oft annað málið opinbert tungumál en hitt ekki. Þetta á við t.d. um ensku og spænsku í Bandaríkjunum, spænsku og guaraní í Paraguay og afrikaans, ensku og bantu tungumál í Suður Afríku. Stundum er eitt mál notað á opinberum vettvangi en annað heima við. Þannig er t.d. staða ensku í Hong Kong og Singapore. Samspil landfræðilegra og félagslegra þátta, sem áhrif hafa á tilurð og viðhald tvítyngis, getur átt bæði við samfélög og einstaklinga sem í þeim búa. En snúum okkur að þeim tilvikum þar sem tungu­ mál eru í ójafnvægi. Besta dæmið um slíkt er þegar fólk flyst milli landa og þarf að tileinka sér nýtt tungumál. Áður en lengra er haldið er vert að gera greinarmun á tvítyngi barna og fullorðinna, þ.e. á máltöku barna og máltileinkun fullorðinna, en hér verður hið fyrra til umfjöllunar. Ef litið er til máltöku barna er mikilvægt að hafa í huga að tungumálið er ekki eingöngu tæki til sam­ skipta heldur skiptir það lykilmáli í þroska barna, sérstaklega þeim vitsmunaþroska sem er undirstaða læsis og óhlutlægrar hugsunar, skilgreiningu hug­ taka og greiningu orða eftir því hvaða hlutverki þau gegna í setningum. Sama á við ef barn lærir tvö eða fleiri tungumál samtímis eins og Snow et al. (1992), Bialystok (1992, 2004) og fleiri hafa greint frá. Rannsóknir í Bandaríkjunum, Svíþjóð og fleiri lönd­ um hafa sýnt að málviðbót, eða virkt tvítyngi, hefur jákvæð áhrif á námsframvindu og vitsmunaþroska en málskipti hafa neikvæð áhrif. Thomas og Collier (1997) hafa tekið saman niðurstöður fjölda rann­ sókna víða um heim og lýsa kostum og ókostum þess að læra tvö tungumál í æsku á eftirfarandi vegu: •   Ef ung börn læra tvö eða fleiri tungumál samtímis verða bæði tungumálin móðurmál og barnið verður tvítyngt •   Ef máltaka annars málsins hefst á eftir hinu og báðum er haldið við verða bæði málin móðurmál og barnið verður tvítyngt. •   Ef máltaka annars hefst á eftir hinu og móðurmáli er ekki við haldið hefur það neikvæð áhrif á málþroska og læsi. Barnið verður tvítyngt en nær ekki að þroska með sér nægilegt mál til að byggja undir læsi. Þetta á aðallega við börn sem skipta um tungumál á þeim tíma sem þau eru að byrja að læra að lesa, um 5–8 ára. (Byggt á Thomas og Collier 1997) [þýðing höfundar]. Uppi eru ýmsar tilgátur um hvers vegna tvítyngd­ um börnum, sem hafa gott vald á móðurmáli, geng­ ur betur í námi á seinna málinu en börnum sem tapa færni í móðurmáli (eða fyrsta máli). Ljóst er að svarið liggur ekki í einni ástæðu. Hér verður aðeins fjallað um tvo mögulega áhrifavalda. Annars vegar hugsanlega truflun á málþroska við málskiptin og hins vegar, áhrif þess þegar málfærni afmarkast við heimilismál eða talmál, en færni er minni í „skóla­ máli” – sem leiðir til erfiðleika í lestri og námi (Cummins 1981). Rannsóknir Cummins og fleiri hafa sýnt fram á að fylgni er meiri milli móðurmáls­ þroska og lestrargetu á seinna máli en kunnáttu í seinna máli og lestrargetu í seinna máli (Cummins). Börn á grunnskólaaldri, eða u.þ.b. 6–9 ára, sem flytjast til annars lands, eiga erfitt með að ná færni í læsi á nýja málinu nema þau séu vel læs á móður­ málið og kunnáttunni sé síðan haldið við. Tæknin að kunna að lesa flyst milli tungumála ef ákveðinni leikni hefur verið náð og að nýja tungumálið er ritað með sama ritkerfi. Sem dæmi má nefna að þegar íslenskt barn flytur til Þýskalands um átta ára aldur gengur þýskunámið og námið almennt því betur sem lestrarkunnátta barnsins er betri á íslensku. Ef málþroski truflast, m.a. af því að barnið skiptir alfarið um tungumál, var ekki vel læst og íslensk­ unni ekki nægilega vel viðhaldið, virðist ekki vera nægilegur grunnur til að skilja flókna texta og á það bæði við um texta á móðurmálinu og síðara máli. Stungið hefur verið upp á að til sé nokkurs konar þrep eða þröskuldur í málþroska sem nemendur verða að ná svo þeir geti tileinkað sér færni í lestri og að sú kunnátta færist milli tungumála (Harley et al. 1990). Börn sem skipta um tungumál mjög ung eða á forskólaaldri geta náð þessum þroska á nýja málinu. Ef barn flytur til Þýskalands á leikskólaaldri og dvelst þar í þrjú ár, þar af tvö ár í skóla, verður þýskan skólamál þess og það byrjar að læra að lesa á þýsku. Í slíkum tilvikum eru litlar líkur á því að barnið lendi í vandræðum með þýskuna og námið í Þýskalandi (ef allt annað er í lagi). Þegar komið er að því að flytja heim snýst dæmið við og nú er farsæl­ ast að láta barnið þjálfa áfram lesturinn á þýsku til að reyna að koma í veg fyrir að þróunarferlið í lestr­ inum truflist þegar breyta á yfir í íslenskan skóla. Sama á við um filipískt barn sem flytur til Íslands. Mörg vesturíslensk börn voru læs á íslensku þegar þau fóru í skóla vegna þess að haldið var áfram að lesa á íslensku heima við, m.a. voru börn fermd „upp á íslensku.“ Þau áttu auðveldara með að til­ einka sér ensku, sérstaklega enskt ritmál en börn innflytjenda sem ekki bjuggu við þessar lestrarvenj­ ur. (Birna Arnbjörnsdóttir 2006) Góð málfærni felur líka í sér að viðkomandi getur notað öll málsnið tungumálsins, þ.e. allt notkunarsviðið og þá málhegðun sem þeim fylgja. Heimilismálið er aðeins eitt málsnið af mörgum sem börn þurfa að tileinka sér. Það málsnið, sem notað er hverju sinni, ræðst af því við hvern er talað, hvar er talað og um hvað. Þetta á við um öll tungumál. Málið, sem talað er í kennslustofunni, hefur öðruvísi orðaforða og setningagerð en málið sem talað er

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.