Morgunblaðið - 28.12.1980, Síða 10
10
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 28. DESEMBER 1980
Sameinuðu þjóðanna, er hann
samdi ásamt Einari Arnórssyni
1945. Var með þeirri ritgerð m.a.
lagður grundvöllur að inngöngu
íslands í samtökin ári seinna. Eru
þó ótaldar ýmsar merkar ritgerðir
um stjórnarskrána, m.a. um
mannréttindaákvæði stjórnar-
skrárinnar og sjálfsforræði sveit-
arfélaga landsins.
Aftur hvarf Gunnar til starfa
hér við lagadeild snemma árs 1971
sem prófessor í stjórnskipunar- og
stjórnarfarsrétti og þjóðarétti.
Þegar hér var komið sögu átti
hann að baki áralangan feril sem
ráðherra, sendiherra og hæsta-
réttardómari. Má nærri geta hver
fengur það var bæði lagadeiid og
laganemum að fá á nýjan leik til
starfa mann, sem nú þekkti af
eigin reynslu enn betur sannmæli
þeirra orða Jónsbókar að trautt
fær laganna mannfólkið misst.
Þremur árum áður hafði hann
varið doktorsritgerðina „Fjöl-
mæli“ við Háskóla íslands og
aukið þar veglega við þekkingu á
sviði refsiréttar og réttarsögu
þjóðarinnar. Er sú bók eitt hið
bezta framlag til lögvísinda lands-
ins á síðari árum.
Síðara starfstimabil Gunnars í
lagadeild stóð til 1974, er hann
varð ráðherra á nýjan leik og þá
oddviti ríkisstjórnar Islands. Þar
situr hann nú á hefðartindi og
horfir fram til margra hýrra
verka, enda maður á bezta aldri,
eins og hann sjálfur hefur svo vel
mælt og vinir hans allir vita að er
mála sannast.
Fyrir hönd fjölmargra lagamanna
færi ég Gunnari Thoroddsen beztu
árnaðaróskir á þessum tímamót-
um í ævi hans. Megi hans sem
lengst njóta við í lífi lands og
þjóðar.
Gunnar G. Schram
Gunnar Thoroddsen er vel
þekktur á Vesturlandi frá fornu
fari. Hann var frambjóðandi
Sjálfstæðisflokksins í Mýrarsýslu
við alþingiskosningarnar 1934.
Þar náði hann ágætum, en óvænt-
um árangri, og varð landskjörinn
þingmaður, yngstur allra, aðeins
23 ára að aldri. Vorið 1942 bauð
hann sig fram í Snæfellsnes- og
Hnappadalssýslu. Hann náði ekki
kosningu, en í haustkosningunum
sama ár var hann kjörinn á þing í
mikilli orrahríð. Hann var alþing-
ismaður Snæfellinga 1942—1949.
Auk þess hefur hann bæði fyrr og
síðar átt óteljandi ferðir um
byggðir Vesturlands, bæði sem
erindreki Sjálfstæðisflokksins á
árunum 1937—1939 og einn af
aðalforystumönnum flokksins
áratugum saman. Hann hefur
ævinlega verið fljótur til að vera
við óskum manna um að koma á
fundi — eða aðrar samkomur
flokksins og jafnan boðinn og
búinn til að greiða götu manna og
leggja fram krafta sína til úr-
lausnar mála. Enn þá lifir í
gömlum glæðum minninga frá
þingmannsárum hans þar vestra.
Þó að hann hefði þá eins og jafnan
ærnum störfum að sinna, kom
hann mörgum góðum málum
fram. Tryggð hans við menn og
málefni á Vesturlandi er óbrigðul.
Mætti nefna mörg dæmi því til
staðfestingar frá síðari áratugum.
Hann hafði og yfirleitt sterka
aðstöðu til að veita málefnum gott
brautargengi.
Gunnar var prófessor í lögum
við Háskóla Islands frá 1940—
1947, en það ár fékk hann leyfi frá
störfum og gerðist borgarstjóri í
Reykjavík. Nemendur hans í laga-
deild muna hann sem góðan og
skemmtilegan kennara og fræð-
ara, en jafnframt ágætan félaga,
sem í annríki daganna gaf sér
tíma til að ræða við þá og taka
þátt í félagslífi þeirra gleði og
sorgum.
Þó að Gunnar sé borinn og
barnfæddur Reykvíkingur og hafi
lengst af búið og starfað í höfuð-
borginni, hefur hann alltaf munað
eftir öðrum byggðum landsins.
Þeim hefur hann aldrei gleymt.
Hann hefur haft næga yfirsýn til
að sjá landið allt í einu. Hann
hefur alltaf skilið, að gott og náið
samstarf verður að vera milli allra
landsins barna og byggða, ef
þjóðin öll á að geta notið farsæld-
ar og hagsældar í ölduróti líðandi
stundar.
A þessum merkisdegi, þegar
Gunnar Thoroddsen forsætisráð-
herra fyllir sjöunda áratug ævi
sinnar, veit ég, að honum og
fjölskyldu hans berast margar
hlýjar kveðjur og hamingjuóskir.
Enn stendur hann í stafni, ötull og
vígreifur. Um hann næða kaldir
stormar og siglingaleiðin er vand-
rötuð og straumþung. En áfram
skal haldið meðan rétt stefnir.
Megi honum endast aldur, fram-
tak og auðna til enn meiri starfa
fyrir land og þjóð.
Friðjón Þórðarson.
Fyrir rösklega tveimur árum
síðan átti ég nokkrar samveru-
stundir með umdeildasta manni
þjóðarinnar. Eitt sinn ræddum við
um skáldskap afa hans. Hann
talaði af nokkrum hita um ijóðin,
sem væru ekki metin til jafns við
sögurnar og benti á að mönnum
yfirsæist gjarnan sniildin í þeim
vegna þess hvað þau væru „lát-
laus“. Hann nefndi nokkur dæmi
þessu til staðfestingar og hafði
meðal annars yfir ljóðið „Til
skýsins" og fjallaði um það á þann
hátt að það hefur síðan verið mér
sérlega hugleikið. Jafnan þegar
það kemur í hugann sé ég fyrir
mér skáld og sýslumann í íslenskri
sveit sem stendur einn úti á hlaði
og ávarpar þetta náttúrufyrir-
brigði eins og nágranna sinn:
„Eitthvað að þér
eins og að mér
amar, ég sé þú grætur"
í dag er þessi viðmælandi minn
forsætisráðherra landsins og
haldið er hátíðlegt að sjötíu ár eru
liðin síðan hann sá dagsins ljós í
húsi einu við Tjörnina í Reykjavík.
Flest af því sem okkur fór í milli
er þegar komið fyrir almennings-
sjónir. Kynni okkar hófust löngu
áður vestur á Snæfellsnesi og á
þau hefur ekki brugðið skugga. En
einhverra hluta vegna situr
fastast í mér þessi stund þegar
hann gaf mér ljóð afa síns.
A þessum tímamótum færi ég
Gunnari Thoroddsen einlægar
heillaóskir og vil um leið nota
tækifærið til að óska honum og
Völu til hamingju með hvort
annað. Sú virðing og ástúð sem
þessi glæsilegu hjón sýna hvort
öðru í sérhverju tilliti er beinlínis
mannbætandi fyrir þá sem um-
gangast þau.
Líf stjórnmálamannsins, kenn-
arans og listamannsins, Gunnars
Thoroddsen hefur verið með þeim
hætti að einhver kynni að líkja því
við lygasögu. En í raun er það
ævintýri, íslenskt ævintýri.
Jónina Michaelsdóttir
Ég minnist þess frá ungiingsár-
um mínum, að gest bar að garði á
Akri, sem í sjálfu sér var ekki
nýlunda. Honum var tekið opnum
örmum af föður mínum og urðu
þar augljósir fagnaðarfundir. Mér
varð nokkuð starsýnt á gestinn.
Mér þótti hann athyglisverður.
Hlýleiki og prúðmennska leyndu
sér ekki og kímileg tilsvör og
sagnir voru á hraðbergi. Glumdi
þá mjög hlátur föður míns í
hlaðvarpanum. Þessi maður var
Gunnar Thoroddsen.
Því er þetta minningabrot rifjað
upp á sjötugsafmæli Gunnars, að
vinátta hans og föður míns stóð
óbrigðul meðan báðir lifðu. Er
mér óhætt að fullyrða, að minnsta
kosti síðari árin mat faðir minn
Gunnar Thoroddsen umfram
flesta menn aðra, sem stóðu í
fylkingarbrjósti á stjórnmálavett-
vangi.
Ég kynntist Gunnari Thor-
oddsen ekki að marki fyrr en hann
kom að nýju til starfa á Alþingi,
eftir dvöl sem sendiherra í Kaup-
mannahöfn. Þau kynni hafa farið
vaxandi og þó að sjálfsögðu eink-
um eftir að núverandi ríkisstjórn
var mynduð.
Gunnar á langan og litríkan
stjórnmálaferil að baki. Fjölþætt
forystustörf hafa aflað honum
reynslu, sem er yfirgripsmeiri en
títt er hjá stjórnmálamönnum.
Hann er laginn í samningum og
samvinnufús og á létt með að laða
að sér menn. Þó hefur hann bæði
kjark og þrek til að standa fast á
sinni skoðun þegar því er að
skipta og fylgja henni fram, og
það svo, að stundum hefur flokks-
bræðrum hans þótt nóg um.
Þrátt fyrir að Gunnar sé um-
deildur stjórnmálamaður, viður-
kenna flestir ótvíræða hæfni hans
á mörgum sviðum, svo sem glæsi-
leik og prúðmennsku í framgöngu
og málflutningi, mikla þekkingu
og fjölhæfar gáfur. Hitt heyrist
sjaldnar viðurkennt, sem ég hef
kynnst í ríkisstjórninni, en það er
vinnusemi hans og óvenjulegt
vinnuþrek. Munu þar fleiri en ég
geta borið um vitni.
Á sjötíu ára afmæli Gunnars
Thoroddsen er ekki ástæða til að
skrifa stjórnmálasögu hans. Eng-
inn veit að vísu, að hve miklu leyti
hún kann að vera óskráð. Hitt er
ljóst, að hann stendur nú í þeim
sporum, að ýmsir virðast telja sem
sálfsagðan hlut, að forysta hans
dugi til að leysa þau vandamál
þjóðar okkar, sem öðrum stjórn-
málaforingjum hefur mistekist
glíman við á síðustu árum. Aðrir
óska honum heilla í því hlutverki
og vona að vel megi til takast. Víst
er, að slíkar óskir streyma til hans
víða að á þessum degi.
Ég flyt Gunnari innilegar
heillaóskir á sjötugsafmælinu og
bið honum, konu hans og fjöl-
skyldu blessunar á komandi tím-
um.
Pálmi Jónsson
Þegar Gunnar Thoroddsen, for-
sætisráðherra, fyllir sjöunda ára-
tuginn, á hann að baki lengstan
stjórnmálaferil allra núverandi
þingmanna.
Stjórnmálaferill hans er því
orðinn óvenju langur, litríkur og
samofinn stjórnmálasögu þjóðar-
innar í hálfa öld. í rösk 12 ár var
Gunnar Thoroddsen borgarstjóri í
Reykjavík og þar lágu leiðir okkar
fyrst saman, er ég kom inn í
borgarstjórnarflokk Sjálfstæð-
ismanna eftir kosningar árið 1954.
Eins og oft áður var sótt hart að
meirihluta Sjálfstæðisflokksins,
en með Gunnar Thoroddsen í
fararbroddi vannst naumur sigur í
kosningunum.
Gunnar vann þá mjög mikið
starf við undirbúning kosn-
inganna, enda hafði hann þá aflað
sér mikilla vinsælda borgarbúa,
sem talið var að hefði ekki síst
dugað flokknum til sigurs.
Það var sérstök ánægja og
góður félagsmálaskóli að taka þátt
í störfum borgarstjórnarflokksins
undir öruggri forystu Gunnars.
Enda hafði hann þá starfað um
áraraðir að borgarmálum, hafði
m.a. þá verið borgarstjóri um 7
ára skeið og gjörþekkti borgar-
málefnin af eigin reynslu. Það
kom þá fram sem endranær, að
Gunnar er mikill félagshyggju-
maður, samningalipur og prúð-
menni í öllum sínum samskiptum.
Á þessum árum voru nánustu
samstarfsmenn hans, borgarráðs-
fulltrúarnir Auður Auðuns, Geir
Hallgrímsson og Guðmundur H.
Guðmundsson, en í borgarstjórn-
arflokknum voru 16 fulltrúar.
Stjórnaði Gunnar flokksfundum
af festu og lipurð. Þar voru
borgarmálin rædd af einurð og
komist að sameiginlegri niður-
stöðu, sem talin var hin besta í
hverju máli með hag borgaranna í
heild í huga.
Vegna þess að borgarbúum
hafði fjölgað meira á undan
gengnum árum en nokkru sinni
fyrr, voru mjög aðkallandi félags-
mál, sem biðu úrlausnar. Má þar
til nefna skólamál, húsnæðismál,
íþrótta- og æskulýðsmál.
Á þessum árum var því samin
ný áætlun um skólabyggingar og
henni hrint í framkvæmd. Hús-
næðismálin voru þau erfiðustu
vegna mikils kostnaðar, því þrátt
fyrir að mikið væri byggt af
einstaklingum, þurfti að gera
stórt félagslegt átak á bygginga-
sviðinu, en halda þó í heiðri þeirri
stefnu flokksins, að sem flestir
gætu eignast sína eigin íbúð.
Fyrsta átakið sem Gunnar
beitti sér fyrir í borgarstjórn, var
að láta skipuleggja smáíbúða-
hverfið og aðstoða einstaklinga
við að byggja sín eigin einbýlis-
hús. Gaf þetta það góða raun, að
hverfið er enn stærsta samfellda
einbýlishúsahverfið sem byggt
hefur verið á svo skömmum tíma.
En meira þurfti til í húsnæð-
ismálum. Á þessum árum höfðu á
þriðja þúsund manns flutt inn í
herskála, sem herinn hafði látið
reisa á stríðsárunum. I stefnuskrá
Sjálfstæðisflokksins hafði því ver-
ið lofað, að útrýma skyldi á næstu
árum öllum herskálum og tryggja
öllum þeim fjölda er þar bjó nýjar
íbúðir, sem hver og einn ætti kost
á að kaupa með hagkvæmum
kjörum og sérstakri lánveitingu úr
borgarsjóði.
Eitt af fyrstu verkum eftir
kosningar 1954, var að Gunnar lét
semja heildaráætlun um að
byggja fyrir þennan stóra hóp
borgara og var strax hafist handa
um byggingarframkvæmdir, eftir
að borgarstjórn hafði samþykkt
áætlunina.
Minnihlutaflokkunum í borgar-
stjórn þótti áætlun þessi svo stór í
sniðum, að þeir töldu að hér væri
aðeins um gylliboð og kosningalof-
orð að ræða, sem ekki mundi verða
framkvæmd.
Þegar Gunnar lét af borgar-
stjóraembættinu 5 árum síðar, sá
fyrir endann á þessari mikilvægu
uppbyggingu til hagsbóta fyrir
þúsundir borgarbúa og lauk að
fullu nokkrum árum eftir að hann
gerðist fjármálaráðherra í ríkis-
stjórn Ólafs Thors.
Á sínum yngri árum var Gunn-
ar um árabil stjórnarformaður
íþróttavallanna í Reykjavík. Þá
kynntist hann íþróttamönnum og
aðstöðu þeirra til íþróttaiðkana.
Var hann allur af vilja gerður til
að bæta aðstöðuna eftir föngum
og tala máli íþróttamanna við
opinbera aðila.
Það ríkti því mikil bjartsýni hjá
íþróttahreyfingunni þegar Gunn-
ar varð borgarstjóri. Hann þekkti
þá betur en nokkur annar þann
vanda sem vaxandi íþróttahreyf-
ing bjó við og skortinn á íþrótta-
mannvirkjum til æfinga og
keppni. Iþróttamenn bundu því
miklar vonir við störf hins nýja
borgarsjóra um að nú væru bjart-
ari tímar framundan. Enda varð
raunin sú, að á næstu árum
rættust margar óskir um stór-
bætta aðstöðu íþrótta-
hreyfingunni til handa.
Þegar Gunnar tók við embætti
borgarstjóra var lokið við að
skipuleggja íþróttasvæðið í Laug-
ardal, en framkvæmdir ekki hafn-
ar. Hann lét því fljótlega hefja
framkvæmdir við íþróttaleik-
vanginn og var fyrsti áfangi því
tekinn í notkun 1957 fyrir
knattspyrnumenn, en leikvangur-
inn var vígður 1959.
Langþráðu marki var náð, nú
var hægt að leika alla meiriháttar
leiki í knattspyrnu á grasvelli, í
staðinn fyrir að þeir yrðu að fara
fram á gamla Melavellinum.
Þegar framkvæmdir við leik-
vanginn voru langt komnar, var
hafist handa um að byggja glæsi-
lega sundlaug í Laugardal, sem
verða skyldi aðal-keppnislaug
íþróttamanna, en einnig verða til
að bæta aðstöðu fyrir almenning,
því gömlu sundlaugarnar höfðu þá
gengið sér til húðar og lokið sínu
mikilvæga hlutverki í sundmenn-
ingu borgarbúa. Jafnframt þess-
um framkvæmdum, var hafist
handa um að efna loforð við
Vesturbæinga um að byggja
sundlaug í þeim bæjarhluta.
Á þessum árum notuðust
íþróttamenn við íþróttasal (Há-
logalandshúsið) sem herinn hafði
byggt, fyrir allar sýningar og
kappleiki. Húsið var lítið og lélegt
og var það eindregin ósk
íþróttahreyfingarinnar að borgin
byggði nýtt hús. Á þessum tíma
höfðu mörg samtök hug á að
byggj a slíkt stórhýsi, en enginn
þeirra hafði bolmagn til þess,
nema borgin veitti ríflegan styrk
til framkvæmdanna.
Eftir að Gunnar hafði margrætt
við þessa aðila, skipaði hann nefnd
til að sameina þá alla til að leysa
þetta vandamál og byggja eitt hús
fyrir hina margþættu starfsemi
og á þeim grundvelli legði borgin
fram verulegt fjármagn er nægði
til að tryggja framgang málsins.
Árangurinn af þessu starfi var
sá, að sýningarsamtök atvinnu-
veganna, bandalag æskulýðsfé-
laga, íþróttabandalag Reykjavík-
ur og Reykjavíkurborg gengu til
samstarfs um að reisa Iþrótta-
höllina í Laugardal.
Jafnframt þessum stuðningi við
íþróttahreyfinguna, voru styrk-
veitingar til íþróttafélaganna og
íþróttabandalagsins auknar og
m.a. stutt við bakið á skíðadeild-
unum svo þær gætu bætt aðstöðu
sína til fjalla fyrir félagsmenn og
almenning, með því að byggja
skíðaskála og þá var einnig hafist
handa um að byggja fyrstu varan-
legu skíðalyftuna í Skálafelli.
Þegar gengið var til kosninga
árið 1958, sat vinstri stjórn hér að
völdum. Vegna þess nauma sigurs,
sem vannst 1954 í borgarstjórn-
arkosningunum, töldu andstæð-
ingar Sjálfstæðisflokksins að
tækifæri væri til að hnekkja
meirihlu.ta flokksins í borgar-
stjórn. Sérstök lög voru samþykkt
sem miðuðu að því að takmarka
starfsemi fulltrúaráðsins við
framkvæmd kosninganna. Sjálf-
stæðismönnum var því mikil
nauðsyn á að endurskipuleggja
kosningaundirbúning sinn áður en
til kosninga kæmi.
Þar gekk Gunnar Thoroddsen
ötullega fram með fulltrúaráðinu
og beitti þá sinni alkunnu samn-
ingalipurð og ræðusnilld. Voru
þeir ófáir fundirnir sem hann stóð
fyrir með félögum, starfshópum
og einstaklingum til þess að
þjappa mönnum saman við kosn-
ingaundirbúninginn.
Stærsti kosningasigur Sjálf-
stæðisflokksins vannst við þessar
kosningar. 10 borgarfulltrúar
flokksins tóku sæti í Borgarstjórn
Reykjavíkur.
Eftir að Gunnar lét af störfum
sem borgarstjóri í árslok 1959 og
tók við stöðu fjármálaráðherra,
hélt hann áfram stuðningi við
íþróttahreyfinguna og er sérstök
ástæða til að minnast á stuðning
hans við ÍSÍ á árunum 1963 og
1964 sem varð til þess að gjör-
breyta allri aðstöðu heildarsam-
takanna við að gegna skyldu sinni
við sérsamböndin og landsbyggð-
ina. Og nú við lokafrágang fjár-
laga á Alþingi, sýndi hann enn
hug sinn til íþróttanna, sem verð-
ur mikils metinn af íþrótta-
hreyfingunni um allt land.
Á þessum merku tímamótum
Gunnárs Thoroddsen vil ég flytja
honum og konu hans hugheilar
árnaðaróskir.
Gisli Halldórsson
Gunnar Thoroddsen, hefir á
fimmta áratug staðið í fremstu
röð þeirra manna er mest hafa
komið við sögu íslenzku þjóðar-
innar. Þjóðkunnur maður fyrir
löngu og manna vinsælastur af
óvenjumiklum mannkostum.
Frá því að dr. Gunnar Thor-
oddsen var kosinn til setu á
Alþingi íslendinga 1934 og hóf þar
starf gat engum íslendingi dulist
að sjaldgæfur atkvæða- og gáfu-
maður var á ferð, sem fáa á sína
líka þó víðar væri leitað í hinum
fámenna hópi íslenzku þjóðarinn-
ar. Þessa gagnmerka manns
minnast margir í dag 29. des. á
sjötugsafmælinu, svo víða hefur
hann komið við í þjóðlífinu, fv.
borgarstjóri Reykjavíkur, prófess-
or í lögfræði, erindreki Sjálfstæð-
isflokksins, fjármálaráðherra,
sendiherra íslands í Danmörku,
hæstaréttardómari, fv. forseti
Norræna félagsins á íslandi.
Margt fleira mætti og nefna.
Alþingismaður varð dr. Gunnar
sem fyrr segir 1934, var þá
fullþroska maður, er teygað hafði
djúpt af lindum íslenzkrar menn-
ingar og bókmennta. Án þess að
rekja nákvæmlega ætt hans og
uppruna á sérstaklega fáguðu
heimili við Fríkirkjuveg í Reykja-
vík og undir leiðsögn greindra
foreldra, þar sem tækifærin til
menntunar og þroska voru langt
framyfir það sem almennt tíðkað-
ist.
Dr. Gunnar Thoroddsen er
karlmannlegur maður í fegurstu
merkingu. Hann tekur verkefnin
föstum tökum, gengur öruggum
skrefum sinn langa og merka
æviveg og heldur styrkum hönd-