Morgunblaðið - 03.01.1981, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 03.01.1981, Blaðsíða 8
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 3. JANÚAR 1981 Stjómin heitir á landsmenn til liösinnis Avarp dr. Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra á gamlársdag Góðir íslendingar. Vilji er allt sem þarf. Svo viturlega og vasklega mælti Einar skáld Benediktssón endur fyrir löngu. Síðan þetta var ort hafa stór- stígar framfarir orðið á Islandi á flestum sviðum. í þessari ævin- týralegu framfarasókn hafa Is- lendingar reist í verki viljans merki. Öll okkar mál höfum við tekið í eigin hendur, endurreist þjóðveldi og endurheimt umráð allra fiski- miða umhverfis landið. I öllu þessu umróti og gegnum átök við erlend öfl hefur viljinn og hinn viljasterka eining íslensku þjóðar- innar verið það óstöðvandi afl, sem áfram knúði og hlaut að sigra, aftur og aftur. Oft og áþreifanlega hefur þjóðin sýnt og sannað í verki, að viljinn er allt sem þarf. En í einum þætti þjóðmála hefur íslendingum illa gengið að sýna þá einingu viljans, sem í öðrum stórmálum hefur borið hana á örmum sér til frækilegra sigra. Jafnvægi, stöðugleiki í efna- hagsmálum hefur þar orðið útund- an. Hvassir sviptivindar óstöðug- leikans, verðbólgunnar, hafa geis- að um grund. Óviðráðanlegar orsakir utan að hafa valdið hér nokkru um, olíu- hækkun, sölutregða, verðlækkun á útfluttum afurðum, en höfuðor- sökin er okkar eigin smíð. Kröfu- gerð án heildarsýnar, metingur án tillits til annarra, skilningsskort- ur á þjóðarþörf, vöntun á sam- stilltum þjóðarvilja. Ríkisstjórnin vill nú gera til- raun til þess að draga úr verð- þenslunni, veita henni viðnám. Stjórnin hefur gert efnahagsáætl- un, ákveðið aðgerðir, og heitir á landsmenn til liðsinnis. Þessar aðgerðir mótast af þrem megin- markmiðum, en þau eru: í fyrsta lagi að efla atvinnulíf og tryggja öllum landsmönnum næga vinnu. I öðru lagi að draga svo úr hraða verðbólgunnar að hún lækki í um 40 prósent á árinu 1981. í þriðja lagi að tryggja kaup- mátt iaunafólks. Þau tímamót verða á morgun, að gjaldmiðli þjóðarinnar verður breytt, þannig að ein ný króna jafngildir 100 gömlum krónum. Um leið eru gerðar ýmsar efna- hagsráðstafanir. I fyrsta lagi: gengissigi verður hætt og gengi krónunnar haldið stöðugu næstu mánuði. Sú sífellda lækkun krónunnar, sem lengi hef- ur verið framkvæmd með gengis- sigi, hefur verið nauðvörn vegna atvinnuveganna. En hún hefur um leið ýtt undir verðþensluna og magnað verð- bólguhugarfar. Að undanförnu hefur ríkis- stjórnin reynt að búa þannig um hnúta, að útflutningsatvinnuvegir geti lifað og dafnað við stöðugt gengi. Nú í árslok hefur það gerst í fyrsta sinn um alllangt skeið, að allar greinar fiskvinnslunnar hafa jákvæða afkomu, frystiiðnaður- inn, sem átt hefur á þessu ári í alvarlegum erfiðleikum, hefur nú, að mati Þjóðhagsstofnunar, um 3'A prósent í afgang. En ný ákvörðun fiskverðs er framundan. Ríkisstjórnin leggur áherslu á það við alla aðila þess máls, að kosta kapps um að leita lausnar hið fyrsta í samræmi við þær forsendur, sem þessar efnahags- aðgerðir byggjast á. Til þess að greiða fyrir úrlausn þessa vandasama máls, hefur rík- isstjórnin ákveðið að útvega Verð- jöfnunarsjóði sjávarútvegsins fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar. Á hliðstæðan hátt verður útveg- að fjármagn til að tryggja afkomu samkeppnis- og útflutningsiðnað- ar. Útgerð og fiskvinnslu verður gert kleift að breyta skammtíma- lánum og lausaskuldum í lengri lán og vextir af gengisbundnum afurðalánum atvinnuveganna verða lækkaðir úr S'A prósenti í 4 prósent. Það er mikilvægt að nýta þessi tímamót þegar nýr gjaldmiðill er tekinn í notkun, til þess að treysta gildi hans, auka trú manna á hinni nýju krónu, örva menn til aðgæslu í fjármálum og hvetja til spari- fjármyndunar. En allt þetta miðar um leið að viðnámi gegn verð- bólgu. Einn mikilvægasti þátturinn í þessari viðleitni er einmitt þessi, að gera gengið stöðugt. 6 í öðru lagi er ákveðin verð- stöðvun frá 1. janúar til 1. maí og verða engar hækkanir á vöru eða þjónustu leyfðar nema með sam- þykki Verðlagsráðs, og má það ekki heimila hækkanir nema það teljist óhjákvæmilegt. Slík leyfi skulu háð samþykki ríkisstjórnarinnar. Vísitala fram- færslukostnaðar verður ákveðin 100 frá 1. janúar á grundvelli sérstakrar könnunar á fram- færslukostnaði. Á næsta ári, það er 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. desember, verða greiddar fullar verðbætur samkvæmt framfærsluvísitölu eins og hún breytist frá 1. janúar 1981. Verðbreytingar á áfengi og tób- aki hafa þó engin áhrif á verðbæt- urnar. Um verðbætur á laun 1. mars reiknast því hækkun framfærslu- vísitölu frá 1. janúar, en þó skulu þær ekki vera meiri en sjö prósent lægri en verið hefði, ef reiknað hefði verið einnig með verðbótum vegna verðhækkana í nóvember og desember. Til skýringa þessu vil ég nefna dæmi: Ef verðbætur ættu að verða 11 prósent 1. mars eftir eldra kerfi, án efnahagsaðgerða, þá verða þær væntanlega 4 prósent nú. Sú skerðing, sem verður þannig á verðbótum 1. mars verður bætt upp með ýmsum hætti; verðbætur á laun 1. júní, 1. september og 1. desember, verða hærri en ella hefði verið, að óbreyttum lögum, kaupmáttur á hverju verðbóta- tímabili rýrnar minna vegna minni verðbólgu, skattar verða lækkaðir sem svarar einu og hálfu prósenti í kaupmætti lægri launa og meðallauna. Vextir lækkaðir og lánum húsbyggjenda að nokkru breytt i lán til lengri tíma. Þessi aðgerð, sem ég nú lýsti, ásamt öðrum efnahagsaðgerðum, verður til þess að draga úr hraða verðbólgunnar á næstu mánuðum. Viðræður verða hafnar við sam- tök launþega og aðra hagsmuna- aðilja atvinnulífsins um sam- ræmda stefnu í kjaramálum, at- vinnumálum og efnahagsmálum til næstu tveggja ára. Til þess að ná fullri verðtrygg- ingu inn- og útlána nú um áramót, hefðu vextir átt að hækka nú um 10 af hundraði. Ríkisstjórnin telur alls ekki fært að fallast á hækkun vaxta, svo þung sem vaxtabyrðin nú þegar er orðin á atvinnufyrirtækj- um og einstaklingum. Með bráða- birgðalögum í dag hefur ríkis- stjórnin lengt þennan aðlögunar- tíma um 1 ár, svo að vextir hækka ekki. En með hliðsjón af þeim áhrifum, sem lækkun verðbóta 1. mars mun hafa, er stefnt að almennri lækkun vaxta 1. mars. Til þess að iétta undir með húsbyggjendum er tvennt ákveðið nú: Vextir af verðtryggðum lánum til lengri tíma en 10 ára verði ekki hærri en 2 prósent, en af lánum til skemmri tíma mest 4 prósent umfram verðtryggingu. í öðru lagi; vegna húsbygginga og kaupa á íbúðum skal stefnt að því að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í föst lán til lengri tíma. Að þessari skuld- breytingu verður unnið á vegum viðskiptaráðuneytis, Seðlabanka, félagsmálaráðuneytis og Húsnæð- isstofnunar ríkisins. í því skyni að örva sparnað hefur verið ákveðið að fé á verð- tryggðum sparireikningum verði bundið í sex mánuði í stað tveggja ára. Til þess að stuðla að stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífinu verð- ur áfram beitt ströngu aðhaldi í fjármálum ríkisins. Þá verður einnig haft strangt og stöðugt aðhald með því að útlán banka og sparisjóða verði í sam- ræmi við markmið ríkisstjórnar- innar í efnahagsmálum. í þriðja lagi hefur ríkisstjórn- inni verið heimilað með bráða- birgðalögum í dag að fresta ein- stökum opinberum framkvæmd- um til þess annars vegar að koma í veg fyrir hugsanlega ofþenslu í efnahagslífinu og hins vegar til að afla fjármagns til að treysta kaupmátt lágtekjufólks. Auk þessara aðgerða, sem ég nú hef rakið, hefur ríkisstjórnin und- irbúið og ákveðið margháttaðar umbætur í stjórnsýslu, skipu- lagsmálum og um eflingu atvinnu- lífs, umbætur sem koma til fram- kvæmda á næstu vikum og mán- uðum. Landsmenn góðir. Það.veltur á ykkur öllum, skiln- ingi ykkar á þessum aðgerðum, vilja ykkar til þess að draga úr verðbólgunni, hvort þessi tilraun tekst. Ég held að enn séu í góðu gildi orðin hans Einars Benediktssonar, vilji er allt sem þarf. Eg óska landsmönnum gleðilegs nýárs og farsældar á komandi ári. A .f mii misl blöð >um ir íargfi róðs manns Jóhann J. E. Kúld: STILLIST ÚFINN SÆR, Ægisútgáfan, 1980, Reykjavík. Bækur Jóhanns Kúld eru nú orðnar 5 bindi, 956 bls. En þar eð þær ná yfir allt hans æviskeið, má kalla það hóflegt, þegar saman er borið við suma okkar eldri rithöf- unda, sem telja sig þurfa fjögur til fimm bindi af sjálfsævisögu til þess að ná til tvítugs aldurs. Eftir því að dæma duga ekki minna en tuttugu til þrjátíu bindi til að segja ævisögu þessara manna. Til að segja frá ævi sumra stórmenna þessa hnattar hefur minna verið látið duga. Af þessum bókum Jóhanns má minna á I stillu og stormi, sem greinir frá fyrstu tuttugu árum höfundar. I iifsins ólgu sjó, sem ég hef getið um áður í þessum bókmenntaþáttum. En þar var aðalefnið Ákureyrarárin í öllum sínum sviftingum, skini og skúr- um, veikindum og verkalýðsbar- áttu. Ég held að sú bók sem hér er Bókmenntlr eftir ÆVAR R. KVARAN fjallað lítillega um muni vera lokabindi þessara frásagna Jó- hanns. En hún nær yfir tímabilið frá byrjun síðustu heimsstyrjald- ar og framá síðustu ár. Ég er ekki í minnsta vafa um það, að sagnfræðingar framtíðar- innar verða Jóhanni Kúld þakk- látir fyrir þessar bækur, því þær eru ómetanleg heimildarrit fyrir ýmsa mikilvæga þætti íslensks atvinnulífs. Það sem gefur þessum bókum slíkt gildi er athyglisvert hlutleysi sögumanns, sem aldrei iætur glepjast af neins konar öfgum í afstöðu sinni til mála, þar sem hann kemur við sögu. Þetta verður því ólíkt mikilvægari heim- iidarrit en endurminningar t.d. ýmissa stjórnmálaforingja, sem halda áfram að verða blindir af pólitísku ofstæki, þótt þeir séu orðnir gamlir menn. Þegar lesnar eru minningar Jóhanns frá hinum hörðu árum verkalýðsbaráttunnar á Akureyri er aðdáanlegt hvernig honum tekst jafnan að aðgreina menn og málefni og halda hug sínum í jafnvægi þótt í móti blási. Hann hikaði aldrei við að fórna atvinnu- möguleikum og hvers konar tylli- boðum, þegar verkamenn kusu hann til foringja bláfátækan og berklaveikan. Það eru tæpast margir sem hefðu staðist þær freistingar sem hann vísaði á bug. Greindir andstæðingar hans sáu þessa mannkosti ekki síður en félagar hans, og þess vegna var hann alla tíð mikils metinn, þótt fátækur væri. Jóhanni hefur verið tamt að skrifa margt hjá sér í minnisbæk- ur sínar og þess vegna eru frá- sagnir hans ákaflega skýrar og nákvæmar af hinum margvíslegu Jóhann J. E. Kúld atburðum sem hann segir okkur frá. Aldrei verður hann þó leiðin- legur, því hann er góður rithöf- undur og því gæddur hæfilegri hófsemd. Þvert á móti eru bækur hans hinn ágætasti lestur. Það gefur frásögnum hans auk- ið gildi, að þær eru ekki sagðar af einhverjum yfirmanni, heldur óbreyttum verkamanni eða sjó- manni og við sjáum því tilvik og atburði frá því sjónarmiði. Okkur ríður á að kynnast lífinu eins og það lítur út úr hinum lægri þrepum þjóðlífsins, því það er sjónarhorn meirihluta þessarar þjóðar, og til þess gefst okkur tækifæri með því að lesa bækur Jóhanns. í þessari síðustu bók er hagur Jóhanns tekinn að vænka, en það breytir honum ekkert, þótt hann nú fáist við skipaverslun fyrir KRON, birgðavörslu og birgða- stjórn á Kefiavíkurflugvelli eða starfi í björgunarliði breska sjó- hersins við Island, auk annarra enn mikilvægari starfa. Það sem einkennir öll verk hans eru eðlis- kostir hans: heiðarleikur, dugnað- ur, drengskapur og það dásamlega jafnvægi hugans, sem bjargar honum úr hvers konar vanda og kennir honum að bregðast rétt og karlmannlega við hvers konar andbyr. Jóhann er í frásögnum sínum óspar á að lofa dugnað, drengskap og hreysti samferðamanna sinna, en hann gerir lítið úr eigin afrekum. Þetta er einkenni þrosk- aðs manns, sem er í slíku jafn- vægi, að hann þarf ekki að reyna að hefja sjálfan sig með því að gera lítið úr kostum annarra. Fátækt, heilsuleysi og örðugleikar hafa ekki fyllt þennan mann af vanmetakennd, eins og oft vill verða. í honum er ekki að finna hatur, öfund eða biturleik, heldur góðleik, samúð og skiining. Það er sá lærdómur sem draga má af bókum Jóhanns Kúld og ef til vill gefur það þeim mest gildi, þegar á allt er litið. Ævar R. Kvaran

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.