Morgunblaðið - 03.02.1982, Qupperneq 23
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 3. FEBRÚAR 1982
23
hans, Guðrún Björnsdóttir frá
Veðramóti.
Meðal annars, sem við starfs-
menn hans gerðum, var að grafa
holu allvíða ca. 2—3 metra djúpa
til þess að finna hvort heppilegt
væri að byggja hælið á Kristnesi,
en hann hafði allan undirbúning
þar og ég held framkvæmdir við
þá byggingu, sem þar var reist. Og
þar komst einmitt í framkvæmd
fyrsta hugdetta hans, að leiða kalt
vatn ofan úr fjallinu í gegnum rör
og síðan eftir „spiral" í gegnum
laugarnar niður við veginn, sem
voru við suðuhita, og leiða vatnið
aftur upp í hælið til hitunar því.
Skal ekki farið nánar út í það, og
vona ég að iðnaðarmenn á Akur-
eyri og víðar, en þar var hann í
broddi fylkingar um langt skeið,
muni minnast afreka hans á því
sviði.
Kynni okkar Sveinbjörns hófust
aftur árið 1970 við flutning okkar
hjóna hingað til Reykjavíkur. Þau
höfðu reyndar aldrei slitnað alveg,
en nú voru þau endurvakin, og
alltaf var gamla hugsjónin um af-
neitun áfengis aflvakinn og það
sem batt okkur tryggðaböndum.
Og eitt sinn kom hann með
stóra og þykka bók, sem hann
sagði að yrði mér áreiðanlega
kærkomin til yrkisefnis, því að
hann hafði gaman af ljóðum, og
vildi stuðla að því að gefin væri út
ljóðabók, sögulegs efnis, þar sem
leitað væri fanga fyrir og um vissa
þætti að undirbúningi kristnitöku
á Islandi. Skal það ekki rakið hér
nánar, það yrði of langt mál.
Ég hefi misst mikinn og tryggan
vin við fráfall Sveinbjörs, en enda
þessi orð mín með þakklæti til
hans fyrir margar og góðar sam-
verustundir og bið afkomendum
hans og þeirra fjölskyldum allrar
blessunar, því að þær hafa misst
mikinn og góðan dreng og leið-
toga.
Stefán Agúst
Öldungurinn Sveinbjörn Jóns-
son í Ofnasmiðjunni hefði orðið 86
ára 11. febr. nk., ef honum hefði
enst aldur. Óneitanlega er þetta
hár aldur. Samt sem áður var ég
óviðbúinn, þegar vinur minn og
starfsfélagi Björn, sagði mér fyrir
nokkrum dögum að í tvísýnu
stefndi með líf föður hans. Ekki er
lengra síðan en um síðustu ára-
mót, að ég hitti Sveinbjörn, hress-
an og kátan að venju. Eins og
endranær snerist umræðan um
hugðarefni hans á sviði iðnaðar,
vandamál líðandi stundar og
framtíðarverkefni.
Hér verður hvorki rakinn ævi-
né starfsferill Sveinbjörns, enda
mun það gert af öðrum. Eftir 40
ára kunningsskap við hann, lang-
ar mig hins vegar að minnast hans
með nokkrum kveðjuorðum, því að
þessi sérstæði samferðamaður á
það vissulega skilið að minningu
hans sé haldið á loft.
Flest fólk á sér einhverja
drauma og hugsjónir. Algengast
er, að hvort tveggja snúist um eig-
in persónu og nánustu fjölskyldu,
eigin hag og vellíðan. I sjálfu sér
er þetta eðlilegt og mannlegt. í
þessu tilliti skar Sveinbjörn sig úr
eins og fleiri, sem lagt hafa
grundvöllinn að atvinnulífi og
tækniþróun þessarar þjóðar á 20.
öldinni. Hugðarefni hans voru
með afbrigðum fjölbreytileg og
mörg. Er mér nær að halda, að
Sveinbirni hafi verið nautn að þvi
að brydda upp á og koma í fram-
kvæmd nýstárlegum hugmyndum.
Um þetta bera vott mörg fyrir-
tæki, sem hann hafði forgöngu um
að stofna og ýmsar tækninýjung-
ar, sem hann beitti sér fyrir á
langri ævi. Gleðin yfir árangri
fólst í því að geta bætt hag þjóðar
sinnar, að vísa öðrum veginn til
þroska og bjargálna og gera
mannlífið betra. Að hagnast í eig-
in þágu var ekki ein af hugsjónum
Sveinbjörns.
Afrek Sveinbjörns Jónssonar
verða einkar athyglisverð, þegar
haft er í huga, að á köflum átti
hann við mikla vanheilsu að
stríða. Einbeitni, þrautseigja og
ósérhlífni eru því meðal einkunn-
arorða, sem koma fram í hugann
nú við brottför þessarar kempu.
Handa við móðuna miklu mun
bíða lífsförunauturinn Guðrún
Björnsdóttir frá Veðramóti. Einn-
ig hún var brautryðjandi á sína
vísu, fyrsta menntaða garðyrkju-
konan með þjóð okkar. Þau hjón
verða mörgum minnisstæð fyrir
margra hluta sakir, ekki síst þeim,
sem þau réttu hjálparhönd, þegar
erfiðleika bar að garði.
í dag leitar hugur okkar Helgu á
Háteigsveg 14 til Björns og Guð-
taugar. Við þessi þáttaskil sendum
við ykkur, afkomendum og vensla-
fólki Sveinbjörns og Guðrúnar
inniiegar samúðarkveðjur.
Sveinn Björnsson verkfr.
Þegar hinn sívökuli og hug-
kvæmi framkvæmdamaður,
Sveinbjörn Jónsson, er allur, er í
senn ljúft og skylt að tjá honum
þökk og virðingu stjórnar Minja-
safnsins á Akureyri, því að hann
má í senn kallast guðfaðir þess og
verndarvættur. Allt frá upphafi
undirbúnings munasöfnunar í
Eyjafirði og stofnunar Minja-
safnsins og til æviloka vakti
Sveinbjörn yfir hag þess og heill,
fyigdist með störfunum, lagði til
holl ráð, skaut að ferskum hug-
myndum og gaf stórgjafir. Ahugi
hans og kapp komu fram í smáu
og stóru. Hann studdi safnið og
málefni þess af alhug, leynt og
ljóst, sennilega oftar í leynum eða
án þess að mikið bæri á.
Margt hefir ráðið þessari af-
stöðu Sveinbjarnar og óvenjulegri
rækt í garð Minjasafnsins og þess
starfs, sem þar hefir verið reynt
að vinna. Þar má iyrst telja al-
mennan og óeigingjarnan áhuga
hans á verndun og eflingu þjóð-
legrar menningar, andlegrar og
verklegrar, að hætti og hugarfari
þeirrar kynslóðar, sem spratt úr
grasi um aldamótin síðustu og af-
komendur hennar eiga svo margt
að þakka, en kunna alltof lítið að
meta. í öðru lagi, hygg ég, að
nokkuð hafi ráðið sú von Svein-
bjarnar, að innan safnsins kæmist
upp öflug iðnminjadeild, þar sem
lesa mætti meginþættina í þróun-
arsögu iðnaðar í bæ og héraði,
einkum heimilisiðnaðar og hand-
iðna. Sú von hans hefir að mörgu
leyti ræst, þó að sá mikli og ára-
tugagamli draumur hans að flytja
smíðahús Þorsteins Daníelssonar
á Skipalóni til safnsvæðisins sé
enn fjarlægur. í þriðja lagi vó
þungt gömul og gróin vinátta hans
og ýmissa frumkvöðla safnstofn-
unarinnar, ekki síst Jónasar
Kristjánssonar, sem fyrst og
lengst var formaður safnstjórnar.
Víða má sjá verkin hans
Sveinbjarnar. Svo undarlega vill
til, að það var einmitt hann, sem
teiknaði og byggði það hús, sem
löngu síðar varð aðsetur og safn-
hús Minjasafnsins, Kirkjuhvol.
Hann annaðist smíði þess í gömlu
trjáræktarstöðinni við Aðalstræti
fyrir þau heiðurshjón, Gunnhildi
og Balduin Ryel. Þegar þau árið
1962 fluttust suður og seldu húsið,
keypti Jónas Kristjánsson eignina
handa safninu fyrir eigið fé, því að
ekki vannst tími til að afla heim-
ildar frá væntanlegum eigendum
safnsins til húsakaupanna. Síðar
gekk safnið inn í kaupin á sama
verði. Ég veit, að til þessa dreng-
skaparbragðs naut Jónas fullting-
is ýmissa góðra manna. Einn
þeirra var Sveinbjörn Jónsson,
sem vegna tengsla sinna við báða
aðilja greiddi mjög fyrir því, að
þessi kaup tókust, safninu til
ómetanlegs ávinnings, því að
betra aðsetur hefði ekki verið
unnt að fá því á þeim tíma.
Árinu áður höfðu þeir Jónas
fengið hingað norskan mann, Far-
tein Valen-Sendstad, forstöðu-
mann Sandvigsku safnanna í
Lillehammer, til þess að gera til-
lögur um skipulag, verksvið og
staðsetningu safnsins á Akureyri,
og hafði hann einmitt bent á Fjör-
una sem safnsvæði. Sveinbjörn
stóð algerlega straum af komu
hans hingað. Einnig kostaði
Sveinbjörn ferð Þórðar Friðbjarn-
arsonar safnvarðar til Noregs, þar
sem hann kynnti sér skipulag og
starfshætti safna, einkum í Lille-
hammer.
Oft komu bréf frá Sveinbirni til
safnsins, sum með ráðum og
hugmyndum, sum með gjöfum eða
tilkynningum um gjafir. Stundum
gaf hann beinharða peninga,
stundum hluti eða minjagripi, sem
safnið gat gert sér mat úr, stund-
um ómetanlega safngripi. Oft kom
han á aðalfundi safnsins og flutti
þá jafnan örvandi og hvetjandi
ræður. Vakandi hugur hans fylgd-
ist alltaf með störfunum af góð-
vild og áhuga, og hann glæddi
þann sama áhuga hjá öðrum.
Hann spurði sjálfan sig sífellt,
hvernig hann gæti orðið að liði
með ráðum og dáð. Sem dæmi má
nefna, að fyrir hér um bil tveimur
árum kom Sveinbjörn til Akureyr-
ar og færði Minjasafninu að gjöf
merka heimildarkvikmynd um
leiðangur hans og nokkurra félaga
hans, sem farin var til Jan Mayen
árið 1957 til að afla rekaviðar.
Myndinni, sem þá hafði nýlega
verið sýnd í íslenska sjónvarpinu,
fylgdi ýmislegt, svo sem skjalleg
gögn um leiðangurinn, bréf og af-
rit af bréfum, blaðaúrklippur,
myndir o.fl., sýningarréttur
kvikmyndarinnar og peningaupp-
hæð sú, sem Sveinbjörn hafði
fengið frá Sjónvarpinu fyrir sýn-
ingu myndarinnar þar.
Svona var Sveinbjörn. Það var
skemmtun hans og yndi að leggja
lið þeim málefnum, sem hann
hafði áhuga á og hann taldi þess
virði að styðja, og það gerði hann,
svo að um munaði. Slíkir menn
eru of sjaldgæfir með þjóð vorri,
en því meira þakkarefni.
Minjasafnið á Akureyri kveður
vin sinn og velgerðarmann að leið-
arlokum með alúðarþökk og bless-
unarósk.
Sverrir Pálsson
„Kldur er bezlur
1111*0 ýU sonum
og sólar sýn.
heilyndi sill.
ef madur hafa náir,
án vid lösl að lifa."
í dag er Sveinbjörn Jónsson,
byggingameistari, kvaddur hinstu
kveðjur frá Dómkirkjunni í
Reykjavík. — Vandfyllt verður
sæti hans í röðum samtíðarmanna
okkar, og vinum hans þykir sem
dagarnir hafi brugðið lit við frá-
fall hans. — En eins og endranær
lætur dauðinn skammt stórra
högga í milli, og þynnast nú óðum
fylkingar þeirra manna, sem hösl-
uðu sér völl á morgni aldarinnar.
Sveinbjörn Jónsson var Svarf-
dælingur i ættir fram, fæddur að
Syðra-Holti í Svarfaðardal 11.
febrúar 18%. Foreldrar hans voru
þau merkishjónin Sigríður María
Jónsdóttir og Jón Þórðarson,
bóndi og smiður. I ætt Sveinbjarn-
ar er arfgengur mikill hagleikur
og hugvit, og eru bræður hans og
frændur margir þjóðahagasmiðir
og landskunnir fyrir atgervi á
ýmsum sviðum.
Ungur fluttist Sveinbjörn með
foreldrum sínum og bræðrum að
Þóroddsstöðum í Ólafsfirði og ólst
þar upp. Úr föðurgarði hlaut hann
í veganesti góðar gáfur, framfara-
hug og þann grandvarleika til orðs
og æðis, sem ætíð einkenndi hann.
Tryggð við æskustöðvar og átt-
haga var jafnan ríkur þáttur í fari
Sveinbjarnar, og gekkst hann
fyrir ýmsum nýjungum í menn-
ingar- og atvinnumálum í heima-
byggð sinni, þótt sjálfur væri
hann fluttur á brott. Má þar nefna
hafnarframkvæmdir í Ólafsfirði
og lagningu hitaveitu þar, sem
mun vera sú fyrsta í þéttbýli á
íslandi. Ennfremur var það fyrir
hans atfylgi að ráðist var í að
leggja veg fyrir Ólafsfjarðarmúla,
sem var stórvirki á sinni tíð. — Úr
foreldrahúsum lá leiðin í Gagn-
fræðaskólann á Akureyri, en þar
auðnaðist honum ekki að ljúka
námi sökum heilsubrests. Síðar,
árið 1917, sigldi hann til Noregs og
nam þar byggingafræði um
þriggja ára skeið. — Árin í Noregi
urðu honum giftudrjúg. Þar lagði
hann stund á þau fræði, sem hug-
ur hans stóð til, og í Noregi varð
honum vel til vina og batt órofa
tryggð við land og þjóð. Að námi
loknu starfaði Sveinbjörn um ára-
bil sem byggingameistari á Akur-
eyri, teiknaði og reisti þar ýmsar
byggingar. Ekki verður í fljótu
bragði komið tölu á öll þau við-
fangsefni, sem Sveinbjörn valdi
sér á þessum árum. Meðal annars
stofnaði hann verksmiðjuna Iðju á
Akureyri í félagi við Lárus
Björnsson. Framleiddu þeir
amboð úr áli, sem reyndust vel og
urðu útbreidd um sveitir landsins.
Árið 1921 kvæntist Sveinbjörn
Guðrúnu Þ. Björnsdóttur frá
Veðramóti í Skagafirði, hinni
ágætustu konu, sem þá veitti for-
stöðu Gróðrarstöðinni á Akureyri.
Ungu hjónin reistu sér nýbýli í
Kaupangslandi við Eyjafjörð og
nefndu bæ sinn Knarrarberg. Þar
fæddist þeim árið 1925 einkason-
urinn, Björn, sem nú er verkfræð-
ingur í Reykjavík. Á Knarrarbergi
ríkti vorhugur og trú á landið.
Guðrún ræktaði blóm og nytja-
jurtir og hélt námskeið fyrir ung-
ar konur í garðaprýði hvers konar.
Sveinbjörn vann að nýjungum í
verklegum framkvæmdum og
beitti sé af alhug fyrir öllu því,
sem koma mætti atvinnulífi þjóð-
arinnar að gagni. Á Knarrarbergi
man ég fyrst eftir mér, og þar
steig ég fyrstu sporin í skjóli þess-
ara elskulegu hjóna, sem ætíð
reyndust mér sem beztu foreldrar.
I huga mér er sífelld sólarbirta
yfir þeim stað. Og þegar ég, barn
. að aldri, lærði kvæði Guðmundar
Guðmundssonar „Vormenn ís-
lands“, þá þótti mér og jafnan síð-
an sem kveðið væri um Guðrúnu
frænku mína og Sveinbjörn og það
mannlíf, sem lifað var á Knarr-
arbergi og raunar alls staðar, þar
sem þau hjón gerðu sér heimili. —
Á kreppuárunum brugðu Guðrún
og Sveinbjörn búi á Knarrarbergi
og fluttust til Revkjavíkur með
tvær hendur tómar. Vormenn ís-
lands söfnuðu aldrei gildum sjóð-
um.
Þrátt fyrir þjakandi heilsuleysi
gerðist Sveinbjörn brátt umsvifa-
mikill á sviði atvinnumála, þegar
suður kom. Hann var skipaður í
atvinnumálanefnd af Emil Jóns-
syni, þáverandi ráðherra, og send-
ur utan til að kynna sér stofnun og
rekstur iðnfyrirtækja á Norður-
löndum. Varð hann, þegar heim
kom, einn af stofnendum Rafha í“
Hafnarfirði og Ofnasmiðjunnar í
Reykjavík, sem hann veitti for-
stöðu um áratuga skeið. í málefn-
um íslenzks iðnaðar var hann
jafnan í fylkingarbrjósti. Hann
var skrifstofustjóri Landsam-
bands iðnaðarmanna frá 1938 til
1944, og ritstýrði Tímariti iðnað-
armanna á árunum 1939 til 1952.
Hér eru aðeins nefndir fáir áfang-
ar á löngum og fjölbreyttum
starfsferli Sveinbjarnar Jónsson-
ar. Eflaust munu aðrir, mér fær-
ari, rekja störf hans og afrek svo
sem vert væri.
Marga góða menn hefur dreymt
stóra drauma um vöxt og viðgang
innlends atvinnulífs á íslandi. Það
gerði Sveinbjörn Jónsson líka. En
hans draumar voru engar skýja-
borgir. Hann var raunsær hug-
sjónamaður. Hann gekk fram, alls
ótrauður, og framkvæmdi það sem
fyrir honum vakti, með skapfestu
sína og hugvit eitt að vopni. Þótt
öðrum sýndust öll sund lokuð,
kleif Sveinbjörn þrítugan hamar-
inn, og komst leiðar sinnar. Um
persónulegan gróða og ávinning af
fyrirtækjum sínum sinnti hann
lítt eða ekki. Markmið hans var að
vinna þarft verk í þágu alþjóðar.
Ég held að hann hafi verið prýdd-
ur þeirri hetjulund, sem um má
lesa á fornum bókum íslenzkum,
og þeirri óbugandi seiglu, sem hélt
lífinu í þjóðinni, þegar hún átti
erfiðast uppdráttar. — Ekki var
Sveinbjörn undanlátssamur í
skaplyndi, en að baki bjó strangur
heiðarleiki og rík réttlætiskennd.
Og þótt hann gerði stundum kröf-
ur til annarra, var hann jafnan
kröfuharðastur við sjálfan sig. —
Önnur hlið á Sveinbirni, sem
margir munu hafa kynnst, var
veglyndi hans og hjálpsemi. Vildi
hann ætíð hvers manns vandræði
leysa.
Á heimili hans og Guðrúnar hér
í Reykjavík ríkti sama gestrisnin
og höfðingslundin og á Knarrar-
bergi. Þar var gott að koma á
góðri stundu, — og þar var skjól
og óhult borg í raunum. Guðrún
frænka mín var frændrækin að
fornum sið, og var heimili þeirra
hjóna jafnan opið okkur frænds-
ystkinum og minnumst við þeirra
stunda af þakklátum huga. —
Guðrún Björnsdóttir andaðist í
Reykjavík árið 1976. — Sveinbjörn
hélt óskertu andlegu þreki sínu til
hinstu stundar og var brennandi í
andanum þar til yfir lauk. — Nú
að leiðarlokum vil ég biðja honum
Guðs blessunar og þakka honum
allar velgjörðir við mig og mína.
— Innilegar samúðarkveðjur
sendum við mæðgurnar Birni
Sveinbjörnssyni og hans ágætu
konu Guðlaugu Björnsdóttur, en
hjá þeim átti Sveinbjörn athvarf
síðustu árin, og barnabörnunum
fimm af fyrra hjónabandi Björns,
sem er fríður hópur og mannvæn-
legur.
Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir
80 26 ' "" "
Veistu hvaöa litsiónvarpstæki
hefiir tvigeisla
hátalaraRerfi?