Morgunblaðið - 23.09.1982, Side 21
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 23. SEPTEMBER 1982
21
Kveðja frá
Norræna félaginu
Það var ógleymanlegur dagur og fögur
minning að eiga um vorn látna forseta,
þegar þess var kostur að fara með þeim
bræðrum Kristjáni og Hirti og konum
þeirra Halldóru og Sigríði í það unaðsland
Vatnahverfi í Eystri byggð á Grænlandi í
ágústmánuði á liðnu sumri. Skjótt hefur
sól brugðið sumri og komið hausthljóð í
vindinn.
Kristján Eldjárn var einhver sá maður
sem best var að biðja bónar allra sem ég
hef kynnst. Ætíð var mér tekið með ljúfri
lund og léttri og minnist ég þess ekki að
hann léti mig nokkru sinni synjandi frá
sér fara. Alla jafnan voru þetta óskir um
að taka á móti fólki eða koma á fundi og
tala, en betur máli farnir en hann voru
fáir eins og kunnugt er.
Ég minnist þess eitt sinn að ég hafði hitt
fræðimann af Álandi, dr. Dreyer, sem
skrifað hafði um doktorsritgerð Kristjáns.
Hann langaði að eignast ritgerðina áritaða
af höfundi. Ég færði þetta í tal við Krist-
ján. Hann tjáði mér að „Kuml og haugfé"
væri svo til ófáanleg með öllu þótt gull
væri í boði.
„En ég skal gera annað," sagði hann að
bragði og brosti. „Ég á hér eintak af „100
árum í Þjóðminjasafni". Ég skal skrifa á
það ef þú vilt, svo að þú getir veitt honum
nokkra úrlausn."
Þetta lýsir nokkuð þessum ljúflingi, sem
ekki vildi láta neinn bónleiðan frá sér fara.
Við sem erum að leitast við að vinna að
norrænum málum söknum sannarlega vin-
ar í stað og er þá nú síðast að minnast
drengilegs stuðnings Kristjáns við Græn-
landskynningu okkar á liðnu vori og að-
stoð í Grænlandsferð sem hann átti drjúg-
an þátt í að gera eftirminnilega.
Engan grunaði þegar hann talaði yfir
okkur Islendingum við Hvalseyjarkirkju
— fleiri íslendingum en nokkur maður
hefur ávarpað siðustu sex aldir eða svo þar
um slóðir — að hann myndi allur um mán-
uði síðar.
Við getum svo sannarlega tekið undir
með Stefáni G. er hann segir í Helgaerfi:
Hreifur fram á hinstu stund
hann um mein sitt þagði
faldi sína opnu und
undir glöðu bragði.
Norræna félagið og allir þeir er láta sig
norræn samskipti varða sjá á bak hollvini
og biðja allar góðar vættir að styrkja Hall-
dóru, börn þeirra og venslafólk í miklum
harmi heillar þjóðar.
Hjálmar Ólafsson
Jón Ögmundarson, Hólabiskup, var upp
fæddur með ísleifi biskupi Gissurarsyni.
Segir sagan, að jafnan þá er menn ræddu
um þá menn, er vænir voru eða hagir eða
að öðru vel, hafi hann mælt, „Svo var ís-
leifur fóstri minn. Hann var manna
vænstur, manna hagastur, allra manna
beztur." Þá mæltu þeir: „Hver gat nú
hans?“ Hann svarar: „Þá kemur mér hann
í hug, er ég heyri góðs manns getið. Hann
reyndi ég svo að öllum hlutum."
Þessu líkt mun vissulega fara vinum
Kristjáns Eldjárns, að þeir muni hans
minnast, hvenær sem mannkosti eða
mannvit ber á góma, svo vel gerður maður
var hann og heill í lífi sínu, starfi og öllum
háttum.
Á þessari saknaðarstund, þegar Krist-
ján Eldjárn hefur verið burtu kallaður um
aldur fram frá margháttuðum störfum og
áhugaefnum, er erfitt að meta þann missi,
sem íslenzk þjóð og menning hafa orðið
fyrir. Þó ber nú öðru fremur að þakka hið
ómetanlega lífsstarf hans sem fræði-
manns, safnvarðar, rithöfundar og þjóð-
höfðingja.
Þegar litið er yfir glæsilegan feril
Kristjáns Eldjárns, verður mér efst í huga,
hversu heilsteyptur maður hann var á alla
lund og hve miklu jafnvægi hann hafði náð
í lífi sínu og verkum. Hann var hvort
tveggja í senn sannur fulltrúi þess bezta í
íslenzkri sveitamenningu og hámenntaður
vísindamaður á alþjóðavettvangi. Allt sem
hann vann, ritstörf, rannsóknir og opinber
embættisverk, bar merki um og auðgaðist
af samtvinnun þessara tveggja þátta.
Skarpur skilningur, öfgalaus gagnrýni og
mannleg hlýja voru þau einkenni, sem mér
fannst setja sterkastan svip bæði á verk
hans og afstöðu til manna og málefna.
Honum var eiginlegt að feta hinn gullna
meðalveg, leitandi hins sanna í hverju
efni, réttsýnn og umburðarlyndur í dóm-
um um samferðamenn sína.
Kristján Eldjárn sóttist ekki eftir því að
verða kjörinn forseti íslands. Til þess gekk
hann fyrir eindregin tilmæli fjölda manna,
sem staðfest voru af yfirgnæfandi fylgi
meðal þjóðarinnar. Hins vegar kom brátt í
ljós, að hann átti til að bera þá eiginleika,
sem bezt mega prýða höfðingja lítillar
þjóðar: vitsmuni, hófsemd og góðvild. Varð
hann því íslendingum í forsetatíð sinni
bæði fyrirmynd og lærifaðir.
Þegar Kristján Eldjárn lét af embætti
að eigin ósk fyrir tveimur árum, miklu
fyrr en margir hefðu kosið, var ástæða til
að vona, að hann gæti enn átt drjúgan
starfsdag fyrir höndum og verið áfram í
forystuhlutverki á sviði íslenzkra fræða.
En örlögin hafa ráðið þessu á annan veg,
og autt stendur nú rúm þess manns, sem
einna ástsælastur hefur orðið með þjóð-
inni á okkar tíð. Megi fordæmi hans og
trúmennska verða þeim sem við taka til
eftirbreytni.
Sjálfur á ég og fjölskylda mín Kristjáni
Eldjárn meira að þakka en hér verði upp
talið. Á sárri skilnaðarstund flytjum við
frú Halldóru, börnum hans og ástvinum
öllum dýpstu samúðarkveðjur.
„Orð eru til lítils, við vitum það,“ stóð í
bréfi til okkar hjónanna haustið 1979.
Þetta bréf var skrifað af svo mikilli hlýju
og mannkærleika að það var eins og sól-
argeisli í myrkrinu, bjartari og hlýrri en
orð fá lýst. Bréfið var frá forsetahjónun-
um á Bessastöðum, frú Halldóru og dr.
Kristjáni Eldjárn.
í rökkri haustkvöldsins, þann 14. þessa
mánaðar, dró ég fram þetta bréf, enn á ný,
en nú vildi ég gera svo mörg orð, sem þar
er að finna að mínum og beina þeim til
fjölskyldunnar að Sóleyjargötu 1. Orð eru
lítils megnug á þessari stundu og mér er
um megn að koma þeim saman sem skyldi.
„Nú grætur mikinn mög, Minerva tára-
gjörn“ mælti skáldið á Bægisá um látinn
prest á Tjörn. Mér finnast þessi orð eiga
vel við í dag og þessvegna minnist ég
þeirra.
Hún kom eins og reiðarslag yfir þjóðina,
fregnin á öldum ljósvakans að morgni þess
15. september um að dr. Kristján Eldjárn
væri látinn. Hann sem þjóðin hafði elskað
og virt að verðleikum, valið til æðsta emb-
ættis og verið stolt af. Nú er hið Ijúfa,
fágaða og hámenntaða glæsimenni horfið
okkur, langt um aldur fram.
Dr. Kristján var ósvikinn meiður af
sterkum hlyn skálda og fræðimanna sem
hæst hafa borið í þjóðlífinu. Hann var
gæddur óvenjulega mörgum góðum hæfi-
leikum. Hann var skáld, rithöfundur, mik-
ill fræði- og vísindamaður og hafði ein-
stakt vald á íslenskri tungu. Vandfundinn
er sá, sem betur kunni að haga orðum og
rita fágað mál sem dr. Kristján Eldjárn.
Allar ræður hans, hvort sem þær voru
fluttar til þjóðarinnar af forsetastóli eða
við önnur tækifæri, voru fluttar og fram-
settar af einstakri snilld. Það er ofar mínu
gripi að fjalla um vísinda- og fræðirit sem
eftir hann liggja, það munu mér færari
menn gera. En ógleymanlegar eru stund-
irnar þegar hann leiddi þjóðina um sali
Þjóðminjasafnsins, þá látlausú og greinar-
góðu leiðsögn aftur í móðu aldanna skildu
allir og hann glæddi áhuga fólksins á þeim
gersemum, sem þar er að finna og voru í
hans umsjá.
Ég ætla ekki í þessum fáu fátæklegu
orðum að rekja æviferil þessa mæta bróð-
ur, né heldur tíunda öll þau trúnaðarstörf
sem hann var valinn í vegna mannkosta
sinna. En mig langar til þess að minnast
góða og drenglundaða mannsins, sem
hvergi mátti vamm sitt vita og vildi öllum
gott gera. Hann var óvenjulega skemmti-
legur og fróður, svo af bar. Á vinafundum
hrókur alls fagnaðar og leiðándi í samræð-
um svo allir höfðu yndi af að hlýða á orð
hans. Mig langar til þess að minnast lið-
innar tíðar og þakka samferðina fyrr og
síðar. Feður okkar, fóstbræðurnir frá
Tjörn í Svarfaðardal, voru nánir vinir og
fjölskyldurnar tengdar órofa vináttubðnd-
um. Systkinin frá Tjörn, Þórarinn, Sess-
elja, Ingibjörg og Ólöf voru eins og óað-
skiljaniegur hluti minnar fjölskyldu og
það var oft glatt á hjalla þegar þau komu
til okkar, enda óvenjulega skemmtilegt og
gott fólk. Nú er Sesselja ein eftir, hana
þarf ekki að kynna, hún er þjóðkunn. Hlýir
straumar streyma til hennar þessa daga
úr öllum áttum, þar sem hún nú dvelur
eins og drottning á Hrafnistu. Sesselja er
góður fulltrúi sinnar kynslóðar og stolt
ættmenna sinna. Hún stendur nú eins og
klettur úr hafinu og ber harm sinn eins og
hetja. Dr. Kristján var henni afar kær og
hlýr eins og besti sonur. Ég minnist
margra vinafunda á heimili fjölskyldu
minnar og á Bessastöðum og síðar á Sól-
eyjargötu 1, en þar hafði fjölskyldan frá
Bessastöðum búið sér fagurt heimili. Þar
vildu þau njóta friðsældar einkalífsins í
fögru umhverfi. „Mér finnst eins og ég hafi
alltaf átt heima hér,“ sagði dr. Kristján
eitt sinn við mig og leiddi mig um hin
fögru húsakynni. Loksins gat hann helgað
sig ritstörfum og fræðistörfum, sem hann
vann að af kappi. „En skjótt hefir sól
brugðið sumri". Eldingu laust niður af
himnum ofan og Guð kallaði hann til sín.
Bóndasoninn úr Svarfaðardal, vísinda-
manninn, ritsnillinginn, fyrrum þjóð-
minjavörð og forseta lýðveldisins, kveður
þjóðin með virðingu og þökk í dag.
Frú Halldóru og börnunum, systkinum
hins látna og öllum ættingjum flyt ég ein-
lægar samúðarkveðjur frá mér og minni
fjölskyldu með þökk fyrir liðna tíð.
Jóhannes R. Snorrason
Svo segir í Hungurvöku að þegar Gissur
biskup ísleifsson andaðist þá þótti drjúpa
ísland eftir fráfall hans. Slíkt hefur stöku
sinnum síðar gerst í sögu okkar lands, en
sjaldan eða aldrei svo sannlega sem nú, er
fregnin barst um skyndilegt fráfall Krist-
jáns Eldjárns. Hann var ekki aðeins virtur
og dáður forseti, heldur átti hann og fleiri
persónulega vini heldur en nokkur maður
annar með okkar þjóð. Hann hafði ferðast
margsinnis um land allt, fyrst sem þjóð-
minjavörður og síðan sem forseti íslands,
og hvar sem hann fór löðuðust menn að
þessum gáfaða og hjartahlýja dreng. öll
þjóðin grætur nú góðan vin.
Þegar í bernsku kom í ljós, að hann var
afbragð annarra ungmenna að greind og
námfýsi. Hann lagði stund á vísindalega
fornleifafræði fyrstur íslendinga; hann
skildi nauðsyn þess að við eignuðumst
lærðan þjóðminjafræðing og vildi taka til
höndum þar sem þörfin var mest. Og hann
kom til starfa á tímadegi. Skömmu eftir að
hann lauk háskólaprófum var hann
skipaður til embættis Þjóðminjavarðar, og
rétt um sömu mundir var lokið byggingu
hins nýja þjóðminjasafnshúss. Það kom í
hlut hins unga minjavarðar að skipa forn-
minjum þjóðarinnar hverjum á sinn stað í
hinni glæsilegu byggingu, og þar laukst
upp fyrir mönnum nýr heimur. Fáir höfðu
áður gert sér ljóst hvílíka auðlegð við eig-"
um í fornminjum okkar, og þær vekja
stöðugt athygli og aðdáun erlendra jafnt
sem íslenskra gesta sem fjölmenna til að
skoða þær með þeim umbúnaði sem Krist-
ján Eldjárn fékk þeim á sínum tíma.
í rúma tvo áratugi stýrði hann Þjóð-
minjasafninu með dugnaði og frábærri
skyldurækni; og jafnframt annasömum
embættisverkum tók hann margvíslegan
þátt í menningarlífi þjóðar sinnar, meðal
annars með ritstörfum og ræðuhöldum og
alþýðlegri fræðslu í útvarpi og sjónvarpi.
íslenskt mál lék honum á tungu, hreint og
látlaust alþýðumál, flutt með þýðum og
hreimfögrum raddblæ.
En þegar minnst varði var hann sóttur
út á akur hinna fornu fræða og kallaður til
að gerast æðsti oddviti þjóðar sinnar.
Hann var allra manna hógværastur og
sóttist vissulega ekki eftir þessari upp-
hefð. En æ fleiri skoruðu á hann uns hon-
um varð ljóst, eins og hann sagði sjálfur,
að þetta væri í raun og veru vilji þjóðar-
innar.
Allir þeir sem tóku með Kristjáni þátt í
kosningabaráttunni, sem svo var nefnd,
lúka upp einum munni um það að sá tími
hafi verið ógleymanlegur. Því var líkast
sem hlýr vorvindur færi um land allt.
Sjálfsagt hafa legið til þess margar ástæð-
ur hversu stuðningsmenn streymdu til
Kristjáns, en þó hlaut það að vega þyngst
á metunum að þetta var sá forseti sem
fólkið vildi fá. Auðvitað var kosningin líka
að öðrum þræði pólitísk eins og allar kosn-
ingar á landi hér. En sjálfum var Kristjáni
afar illa við það. Hann skildi vel, að forset-
inn á að vera hafinn yfir lágkúru og eig-
ingirni stjórnmálabaráttunnar; og að
loknum kosningum lá við að hann bannaði
okkur stuðningsmönnum sínum að fylgja
sigrinum eftir með nokkurri nýrri póli-
tískri hreyfingu. Og vilji hans var einnig
okkar vilji.
Um forsetastarf Kristjáns Eldjárns skal
ekki fjölyrt hér, það þekkja aílir. „Ég
breytist ekkert þótt ég verði forseti," sagði
hann, „og ég hyggst ekki heldur breyta
forsetaembættinu frá þvi sem það hefur
verið mótað af hinum fyrri forsetum.“ Það
mun allra manna dómur, að honum hafi
tekist frábærlega að sigla hina réttu með-
alleið: Hann var virðulegur forseti, há-
menntaður og mælskur í ræðum; en hann
var jafnframt alþýðumaður, norðlenskur
bóndasonur sem aldrei sleit sundur rætur
uppruna síns. Með þeim hjónum Kristjáni
og Halldóru var jafnræði í þessu sem öðru;
og frú Halldóra, sem er að eðlisfari kyrrlát
kona og hlédræg, vann hug og hjörtu
manna með hlýju sinni, rólegum, en gáfuð-