Morgunblaðið - 06.10.1982, Qupperneq 7
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 6. OKTÓBER 1982
39
arleysið á tungumálasviðinu.
Hinsvegar er brugðið á alls konar
leiki og gaman og einhver ósköp
drukkin af límonaði og gosdrykkj-
um. Var þar kátt lið samankomið
og þegar haldið var úr hlaði hjá
Radio Peking hlupu stelpurnar í
útvarpskórnum á eftir bílnum og
veifuðu í kveðjuskyni.
Tónleikar kórsins okkar fóru
fram í gífurlega mikilli tónleika-
i höll við Torg hins himneska friðar
á laugardag, sunnudag og mánu-
dagskvöld. Salurinn var þéttsetinn
áhorfendum öll kvöldin. Var kórn-
um geysivel fagnað öll kvöldin og í
sjálfu sér var það mikið ævintýri
fyrir hinar ungu stúlkur kórsins
að syngja fyrir fólk af allt öðru
menningarsvæði, fólk með allt
annan smekk en við höfum í Evr-
ópu. Fyrstu tónleikarnir voru
filmaðir og teknir upp á segulband
fyrir útvarpið, sem flutti tónlist-
ina frá Hafnarfirði tvívegis. Sjón-
varpið sendi út langa dagskrá með
söng kórsins og munu íslenskir
kraftar ekki hafa fengið fleiri
áhorfendur en einmitt Kór Öldu-
túnsskólans í það skiptið.
Búdda er guð margra Kínverja,
og Búddahof eru víða til. Mest
þeirra er Himnahofið í Peking.
Þar færðu keisarar fyrri alda
fórnir og báðu guð sinn um ríku-
lega uppskeru. Hér ríkir eins og
víðar kyrrð og friður þrátt fyrir
aragrúa gesta. Fegurð hofsins er
mikil en byggingar þarna eru í
uppbyggir.gu og viðgerð eins og
margar aðrar fornminjar land-
sins. Veggur einn hringlaga er
merkilegur fyrir þær sakir að
hljóð virðist ferðast um hann ofur
auðveldlega. Þannig getur maður
talað inn í vegginn þannig að ann-
ar í töluverðri fjarlægð heyrir það
sem talað er hinum megin. Þannig
talar fólk saman við vegginn þráð-
laust. Mun þetta einstakt og í
rauninni óútskýranlegt fyrirbæri.
Keisarans hallir skína...
„Það kvað vera fallegt í Kína,
keisarans hallir skína ... hvítar
við safírsænum ...“, kvað Tómas
Guðmundsson í kvæði sínu í Vest-
urbænum. Og það er mikið rétt
hjá skáldinu góða. Keisarahallirn-
ar eru merkileg mannvirki. Þær
standa að baki Hliði hins
himneska friðar í miðri Peking.
Hér bjuggu 24 keisarar Ming- og
Quing-ættanna á árunum 1368 til
1911. Hallirnar eru á 72 hektara
svæði og í þeim eru meira en 9000
herbergi. Umhverfis hallirnar er
10 metra hár múr og 50 metra
breitt síki þannig að óvinir vald-
hafanna hafa ekki átt gott með að
sækja að þeim.
Keisarahallirnar bera eins og
margt annað vott um feiknarlegt
bruðl við hirðina. í það minnsta
þrjár bygginganna hvíla á sjö
metra háum marmaragrunni.
Hvert hús fyrir sig gegndi sínu
sérstaka hlutverki. I Höll hinnar
æðstu samræmingar, níu hæða
byggingu, hinni stærstu í Kína
sem byggð er úr viði, gefur að líta
hásæti á tveggja metra hárri upp-
hækkun. Stendur hásætið á sex
listilega útskornum súlum, en á
milli þeirra eru drekar málaðir
með gullmálningu. Horfi maður
upp til lofts kemur í ljós að enginn
flötur er ómyndskreyttur, í loftinu
hátt yfir hásætinu eru gullnar
myndir sem sýna dreka, þessa sér-
stöku kínversku dreka, sem leika
þar með perlur. Minnir það á keis-
araveldið að leik með fjöregg fá-
tækrar þjóðar. í þessari höll fóru
fram allar meiri háttar uppákom-
ur við hirðina.
í annarri höll fóru fram æfingar
fyrir ýmsar seremóníur, í enn
annarri voru embættismenn til-
vonandi látnir gangast undir próf.
Þannig virðist hver bygging hafa
gegnt sínu tiltekna hlutverki.
Innandyra eru húsgögn í þung-
um, gömlum stíl. Manni finnst í
raun að þau séu orðin nokkuð lúin
sum hver, enda frá síðustu öld eða
enn eldri. Allir gripir sem varð-
veist hafa eru af dýrustu gerð með
innlögðum steinum og ornament-
um. I þessum dýru húsakynnum
keisaranna bjuggu hundruð ætt-
ingja keisaranna og þúsundir
þjónustumanna og kvenna þeirra.
Keisarahallirnar voru lokaðar
almenningi og máttu menn jafn-
vel ekki nálgast rammgerða vegg-
ina umhverfis keisaraborgina.
Fékk borgin því nafnið Forboðna
borgin. Inni fyrir lifðu keisarar og
fólk þeirra í iðjuleysi og sællífi.
Keisaraekkjan Ci Xi sem áður
greindi frá vegna byggingarafreka
hennar við Sumarhöllina var síð-
ust í röð stjórnenda landsins. Hún
heimtaði að matseðill dagsins
innihéldi 100 rétti, lágmark. Það
var nóg fæða til að halda lífinu í
5000 bændum í landi hennar, en
þá ríkti hungursneyð í landinu
eins og fyrr og reyndar síðar. Um
þetta leyti höfðu 1,3 milljónir
bændafólks í norðurlandinu látist
af völdum matarleysis. Þetta var
undir stjórn næstsíðasta keisar-
ans, Guang Xu, en hann hélt veg-
lega brúðkaupsveislu, sem kostaði
álíka og framfærsla þriggja millj-
óna bænda í heilt ár.
í dag brauðfæðir þetta risastóra
land sig sjálft. Greinilegt er að
Kínverjar láta sér líða vel, enda
þótt þeir séu áratugum á eftir
vestrænum þjóðum í ýmissi upp-
byggingu. Frá því að landið varð
alþýðulýðveldi árið 1949 hefur tek-
ist að útrýma hungurvofunni, sem
öldum saman hafði vofað yfir
íbúum landsins. Þetta er stórvirki
mikið. Þegar keisara- og lénsveld-
inu hafði verið steypt af stóli 1911
breyttist ekki mikið í þessu efni
fyrst í stað. Kínversk borgaraöfl
stóðu að þeirri byltingu og upp-
gjöfin var formlega undirrituð í
Höll sálrænnar ræktunar í keis-
arahöllunum miklu. Fyrri keisari
fékk að búa í híbýlum sínum undir
vernd næstu 13 árin. Meðan
Sjang-kai-sjek stýrði landinu frá
1927 fór keisaraborgin í órækt
mikla. Eftir byltinguna 1949 var
hafist handa um að fegra og bæta
hina Forboðnu borg og síðan hefur
hún verið almenningseign og er
stöðugt unnið við endurbætur.
Á Torgi hins himneska friðar
Á einkaferðum okkar íslensku
ferðalanganna um borgina kom-
umst við að ýmsu skemmtilegu.
Frá Vináttuhótelinu okkar var
haldið af stað með leigubíl, sem
hótelið útvegar. Leigubíll í Kína
kostar ekki stóra peninga. Maður
tekur bíl og lætur bílstjórann bíða
tímunum saraan. Kínverjarnir
vilja síður að gestir þeirra lendi í
vandræðum. Leigubíla fær maður
ekki úti á götu og strætisvagna- og
sporvagnakerfið kann maður ekki
á. Tungumálaerfiðleikarnir eru
líka algjörir, þannig að það er eins
gott að vita af traustum og góðum
bíl og bílstjóra sem bíður.
Fyrst af öllu var haldið á Torg
hins himneska friðar. Þegar kom-
ið er eftir hinni miklu breiðgötu
Changan, blasa við Hlið hins
himneska friðar og torgið víðáttu-
mikla, Tian An Men. Efst trónir
mikil mynd af Maó formanni en
baka til sér i háu þökin á höllum
keisaranna. Maó er góðlátlegur og
mildur á svip eins og gjarnt er um
Kínverja. En hann átti líka aðrar
hliðar og grimmari, ella hefði hon-
um ekki tekist að ná þeim tökum á
þjóðmálunum sem hann náði.
Eftir miklar myndatökur af
þessu frægasta hliði heims er
haldið yfir Changangötu, þrætt á
milli reiðhjóla á fljúgandi fart og
yfir á torgið stóra, sem rúmar
milljón manns, þegar samkomur
eru haldnar hér. Það vekur strax
athygli hversu hreinlegt allt er.
Þar er varla sígarettustubb að
finna, hvað þá meira. Verður
manni þá hugsað til Reykvíkinga,
sem ekki ganga ýkja snyrtilega
um borgina sína og brjóta gler á
borgarstrætum eins og það sé ekk-
ert tiltökumál. Annað sem við tök-
um eftir er furðusvipurinn á fólki,
þegar það ber okkur augum.
Margir snúa sér við og góna á
okkur. Enn aðrir vilja eignast
mynd af sér með íslendingunum.
Kínverjar virðast vera mestu
áhugamenn veraldar um ljós-
myndir. Þeir eru „vopnaðir" ágæt-
um kínverskum myndavélum, sem
ekki kosta stóra peninga, en eru
umfram allt einfaldar að gerð.
Þeir taka yfirleitt svarthvítar
myndir og framkalla filmuna
strax og henni er lokið og þurrka
hana síðan á ferðalagi sínu.
Maó formaður var
ekki til sýnis
Ógleymanlegt var það, þegar við
gerðum hlé á göngu okkar við
grafhýsi Maós formanns við »nda
torgsins. Þar hópuðust að okkur
tugir forvitinna Kínverja. Haukur
Helgason skólastjóri reyndi eftir
megni að ná sambandi við fólkið.
„Bing-daó“, sagði hann og benti á
okkur hin. Þessi orð þýða í raun
íseyjan á kínversku og er nafnið á
landinu okkar. Greinilega trúðu
Kínverjar því ekki að við kæmum
frá íseyju og mátti greina furðu-
svip á andlitum þeirra. Haukur
endurtók þá þetta um íseyna og
hryllti sig kröftuglega um leið.
Vakti sá leikur mikinn hlátur,
jafnt meðal kínverskra sem ís-
lenskra áhorfenda.
Haukur leyfði líka viðstöddum
að kíkja í myndavélina sína’ og
þótti fólki það hin besta skemmt-
un. Hópurinn í kringum okkur
stækkaði óðum, varð enn stærri en
sá sem sást kringum Azkenasí í
sjónvarpinu á dögunum. Varð-
maður frá grafhýsinu sá ástæðu
til að koma og kanna hvað um
væri að vera. Þegar hann sá að
allt mundi í friði og spekt brosti
hann bara og hélt aftur á sinn
stað.
Grafhýsið höfðum við ætlað að
skoða. Það var því miður lokað en
þarna hefur Maó látinn verið til
sýnis fram undir þetta. Heyrði ég
að núverandi valdhafar væru á
móti allri persónudýrkun af þessu
tagi. Einhver útlendingur frá Afr-
íku sagði líka að senn mundi
myndin af formanninum á Hliði
hins himneska friðar líka hverfa.
Ekki veit ég sönnur á þessu, en
látum tímann skera úr um hvað
verður.
Við torgið mikla standa margar
byggingar frá nýrri tímum, ekki
síður stórbrotnar en hallir keisar-
anna. Áður var sagt frá hinni
mikiu Höll fólksins, þar sem ís-
lenski hópurinn hafði átt ánægju-
legan kvöldverð með forráða-
mönnum menningarmála í Pek-
ing. Gólfrými hinnar nýju hallar
er meira en samanlagt gólfpláss
keisarahallanna. Þarna er og
minnismerki um Hetjur fólksins,
gerð úr 17 þúsund granít- og
marmarasteinum. Á minnis-
merkinu standa orð Maós for-
manns: Hetjur fólksins eru ódauð-
legar. Þarna við torgið er mikil
bygging, Sögusafn Kína, þar sem
skoða má fornar minjar allt aftan
úr grárri forneskju til okkar daga.
Hinar fornu minjar Forboðnu
borgarinnar og hin nýju hús við
torgið mynda skrítna en þó góða
heild hvernig sem á það er litið.
Torgið sjálft er 40 hektarar að
stærð eða tveir kílómetrar á kant.
Ekki er mikið stressið á þessum
miðpunkti Kínaveldis. Margt fólk
er á ferli, enda þótt rigningar-
skúrir vofi yfir og hrelli fólk öðru
hvoru. Hér er fátt eitt boðið til
kaups. Helst eru það fjölmargir
ljósmyndarar sem bjóða þjónustu
sína, blaðasölur og gosdrykkja-
búðir. Fólk er á ferli með eigin
myndavélar og áreiðanlega er eng-
inn blettur í heiminum þar sem
eins ótt og títt er smellt af mynda-
vélum og einmitt hér.
Lúxusvarningurinn er falur
í hinu nýja Kína
Litlu börnin eru einatt með í
för, foreldrar með eitt barn er al-
geng sjón. Hér á landi er það
fyrirskipað að fjölkyldur eigi að-
eins eitt barn. Það er upphafið að
aukinni velgengni landsmanna að
takmarka barneiginir svo sem
framast má verða. Litlu börnin
eru klædd á nokkuð óvenjulegan
hátt. Klofstykkið á buxum þeirra
er opið, þannig að sinna má þörf-
um barnanna á ofur einfaldan
hátt, en bleyjustandið óþekkt hjá
kínverskum mæðrum.
Á annarri ferð um aðalversl-
anahverfi Peking kemur í ljós að
Kínverjar hafa sitthvað til sölu í
verslunum sínum. Verðlag allra
hluta er hátt miðað við kínversk
laun, lágt miðað við okkar vest-
rænu. Mikið ber á allskyns lúxus-
vöru, sjónvarpstækjum, segul-
bandstækjum, ljósabúnaði hvers-
konar, raunar eru hér alls konar
vörur, sem við ófróðir höfðum
fyrirfram álitið að fyndust ekki í
Kína.
Dagarnir týnast einn af öðrum.
Áður en varir erum við komin að
lokadegi þessarar ævintýraríku
heimsóknar. Við höfum verið
heppin. Heppin að fá tækifæri til
að heimsækja það góða fólk, sem
við höfum mætt, að kynnast ein-
staklega fögru landi. Aldrei fyrr
hefur verið dekrað annað eins við
okkur og hér í Kína. Allt hefur
þetta verið sem ljúfur draumur.
Hugmyndir okkar um fjölmenn-
asta land veraldar hafa gjör-
breyst. Óljós tíðindi þaðan getum
við vegið og metið að eigin smekk
héðan í frá. Alls kyns fréttir fá á
sinn ankannalegan svip. Við lás-
um t.d. einhvers staðar eftir heim-
komuna að í Peking væru til tvö
píanó. Fréttir sem þessar fá að
sjálfsögðu ekki staðist, jafnvel
þótt menningarbyltingin hafi séð
um píanóbrennur fyrr á árum.
Hér höfum við kynnst menn-
ingu, mjög frábrugðinni okkar.
Raddirnar í kínversku óperunni
gleymast ekki, svo skrækar og
hjáróma. Eflaust fannst Kínverj-
um raddir stúlknanna úr Kór
Öldutúnsskóla skrítnar líka. En
það var gaman að sjá óperuna og
heyra það sem þar fór fram, sitja
innan um fólk utan af götunni,
sem mætir í óperuna með bitann
sinn, ótilhaft, en hingað komið til
að skemmta sér. Sama er að segja
um tónleika kínverska sjóhersins,
sem voru stórbrotnir. Okkur
fannst sú tónlist a.m.k. 40 ár göm-
ul vestræn tónlist, en skemmtunin
var jafn góð þrátt fyrir það. Lík-
lega á enginn sjóher i heimi annað
eins úrval af skemmtikröftum.
Heim — Eða út á akrana?
Á Pekingflugvelli eru sömu ró-
legheitin og fyrr. British Airwa-
ys-breiðþota er lent til að taka
hópinn og flytja hann til London. I
raun er þetta nokkuð sögulegt
flug, því þetta er í fyrsta sinn sem
félaginu leyfist að taka farþega á
þennan hátt, þ.e. milli Peking og
Hong Kong. Var það ágætri sam-
vinnu Útsýnar og dansks um-
boðsmanns British Airways að
þakka að samningar tókust við
kínverska aðila um flugið. Að vísu
vildi kínverska flugfélagið ekki
taka gilda miða BA og krafðist
þess að gefa út eigin miða á flugið.
Stóð Haukur Helgason þar í
samningum ásamt BA-manninum
í Peking. Samningagerðin fór
fram á kínverska vísu með túlk-
um, og hægt og rólega komst mál-
ið í höfn, og höfðum við reyndar
aldrei neinar áhyggjur af að öðru
vísi færi.
Á flugvellinum kvöddum við
kínverska vini okkar og samfylgd-
armenn með miklum trega. Þar
voru margir helstu menningar-
málamenn borgarinnar mættir, þó
að langt sé á flugvöllinn. Einhvern
veginn fylltist maður söknuði
strax. Egill Friðleifsson, sá ágæti
stjórnandi og aðalhvatamaður að
ferðinni miklu, hafði haft það í
flimtingum að ekki sakaði þó við
yrðum eftir í Kína. Mundi hann þá
nota tækifærið og fara út á akr-
ana til vinnu með kínverskum
„bræðrum og systrum". Þá fyrst
myndum við upplifa Kína til fulls.
í þessu voru eflaust sannleiks-
korn, en spurning hversu lengi við
myndum duga í hinni vægðar-
lausu sól.
Og nú var haldið heim á leið.
Lent í Hong Kong eftir 3ja tíma
flug, farið í fríhöfn þar. I næsta
nágrenni við flugvöllinn sást
ljósadýrð verslanahverfis Kow-
loon sem við vorum farin að
þekkja nokkuð vel. Síðan er flugi
haldið áfram, horft á óskarsverð-
launamynd um breska hlaupa-
garpa á Ólympíuleikum, hlýtt á
stereóútvarp, borðað og hvílst. Við
fljúgum á móti nóttunni. Svefninn
sígur á mannskapinn, og þeir voru
víst nokkrir í hópnum sem „sváfu
af sér“ Indland allt, vöknuðu ekki
í lendingu eða flugtaki, né heldur,
þegar æðislegur hitinn barst inn í
flugvélina í Bombay. Rétt fyrir
lendingu í Róm er vakið til morg-
unverðar. Á Rómarflugvelli sjáum
við fyrstu skímu dagsins. Loks er
lent í London, og þar verðum við
að bíða í hálfan sólarhring eftir
íslensku vélinni heim. Það þarf því
ekki neinn að undra að þegar heim
á Keflavíkurflugvöll var komið,
var það víst efst í huga flestra að
komast í eigið rúm, enda liðnir
nær tveir sólarhringar frá því við
höfðum kvatt rúmin okkar á Vin-
áttuhótelinu í Peking.
Staddur í hlýrri rigningunni á
Keflavíkurflugvelli minntist ég
þess skyndilega að í Kínaferðinni
hafði ég ekki upplifað „menning-
arsjokkið" sem ég átti að verða
fyrir í Kína að sögn sérfróðra
manna. Innst inni vonaði ég að ég
yrði bara ekki fyrir því fyrirbæri í
mínu eigin landi. Hvort það varð
eða ekki, það er svo önnur saga, og
mætti um það fjalla í löngu máli.