Morgunblaðið - 31.10.1982, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 31.10.1982, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 31. OKTÓBER 1982 37 þessa. Megi krafturinn og mann- dómurinn ætíð fylgja honum. Konu hans, Ingigerði Karlsdóttur, og börnum þeirra óskum við hjón- in líka til hamingju og að þau megi lengi enn njóta samvista við þennan góða heimilisföður. Gunnar Bjarnason Á morgun þann 1. nóvember 1982, er Hjalti Pálsson fram- kvæmdastjóri sextugur. Á slíkum tímamótum í lífi manna fáum við samferðamennirnir oftlega þörf fyrir að rifja upp minningar lið- inna ára, sem sækja að á hægum stundum í dagsins önn. Auðvitað dregur maður fram hið hugljúfa, sem viðkomandi tekur þá sem lof, en lofið er mörgum alls ekki að skapi. Maður er þá jafnframt að rekja þætti sem tvinnast saman í samskiptum við vini og samferða- menn. Hjalti Pálsson verður nú að þola það að borið sé á hann nokkuð lof. Hann er vinsæll maður og ekki síður vinmargur. Vinsældir hans meðal samferðamanna stafa af viðmóti og lífsviðhorfi sem honum er eðlislægt, og að hans mati alls ekki ástæða til að tíunda. Hjalti er sonur hjónanna Guð- rúnar Hannesdóttur frá Deildar- tungu og Páls Zophaniassonar fyrrv. búnaðarmálastjóra og al- þingismanns, og er næstyngstur í hinum mannvænlega barnahópi þessara merku hjóna. Hann fædd- ist að Hólum í Hjaltadal þann 1. nóvember 1922, en fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur barn að aldri, er faðir hans hóf störf þar hjá Búnaðarfélagi Is- lands. Hjalti ólst upp við leik og nám í Reykjavík, en íangskólanám þar var honum ekki hugstætt, og lét hann hið svonefnda gagnfræða- próf nægja. Hann settist svo í Hólaskóla og lauk þaðan búfræði- prófi. Þaðan lá leiðin til Ameríku. Hjalti hóf nám við ríkisháskólann í Fargo N-Dakota en lauk náms- ferli sínum með prófi í vélaverk- fræði við landbúnaðarháskólann í Ames í Iowa-ríki.Á þessum árum var Iowa-háskóli einn af þremur skólum sem taldir voru þeir bestu er völ var á í Bandaríkjunum eink- um hvað varðaði nám í búvísind- um. Hinir skólarnir voru háskól- inn í Wisconsin og Cornellháskól- inn í íþöku, N.Y. Þeir ungu menn sem urðu þess hlutskiptis aðnjót- andi að mennta sig í Bandaríkjun- um á þessum árum, einkum í Mið-Vesturríkjunum, kynntust því besta sem finnst í fari þeirrar þjóðar. Með opnum hug gátu menn öðlast góðan þroska og mótað sinn persónuleika, sem er hverjum manni til gagns og gæfu í lífinu. Þá möguleika sem þarna buðust notaði Hjalti til hins ýtrasta og ber hann það með sér enn í dag í ríkum mæli. Sporaslóðir okkar Hjalta lágu saman í Reykjavík á unglingsár- unum, en einn bræðra hans var þá með mér í bekk i gagnfræðaskóla. Kunningsskapur okkar varð þó meiri seinna, að námi loknu. Námsferill okkar var reyndar áþekkur og áhugamálin á margan hátt svipuð. Hjalti haslaði sér völl í viðskiptalífi höfuðborgarinnar en ég sneri mér að búskap á föð- urleifð minni að Reykjum. Hjalti hóf ævistarfið með því að stofna og stjórna fyrirtækinu „Dráttarvélum hf.“ sem byggðist m.a. á tækniundrinu „Ferguson" dráttarvélinni. Viðskiptamennirn- ir voru fyrst og fremst bændur og hugsjón hins unga forstjóra var að stuðla að tæknivæðingu sveitanna. Þar gegndi fyrirtæki hans for- ystuhlutverki á þessum árum svo sem mörgum er kunnugt. Síðan lá leiðin til Sambands íslenskra sam- vinnufélaga þar sem hann var ráð- inn framkvæmdastjóri véladeildar og seinna innflutningsdeildar, og hefir hann starfað þar síðan. Hugðarefni Hjalta eru mörg og margvísleg, í starfinu, í félagslífi og á sviði útivistar. Ennfremur hefir hann gaman af allskyns sögugrúski og ættfræði. Persónan Hjalti Pálsson er vel gerður mað- ur að ætt og upplagi. Hann er mótaður af brag síns ágæta æsku- heimilis. Víða hefir mér verið vel tekið þar sem ég hefi litið inn hjá fólki, en minnisstæðar eru mér móttökur þær sem móðir Hjalta sýndi mér ávallt, óvandabundnum unglingi, er leið mín lá á það heimili. Umh.vggja og áhugi Hjalta fyrir íslenskri bændastétt er meðtekin og ástunduð fyrir áhrif foreldra hans og æskuheim- ilis. í umræðum um þau mál, þar var ekki örgrannt um að fleiri legðu við hlustir en heimafólkið eingöngu. Utivist í samneyti við íslenska hestinn leiddi af sér veruleg um- svif á sviði félagsmála í röðum hestamanna. Þar urðu okkar sam- skipti mikil. Kjarkur og ráðsnilld er aðalsmerki Hjalta, þar sem og annars staðar. Hann var og er mjög virkur í röðum Fáksmanna í Reykjavík, en einnig og ekki síður í í Landssambandi Hestamannafé- laga. Raunsætt mat ásamt hæfi- legu ívafi af kímni einkenna málflutning hans, og málin liggja fyrir, einföld og auðskilin, ásamt tillögum um lausnir á næsta leiti. Hjalti hefir oftlega verið valinn í það vandastarf að vera þulur á mótum hestamanna og leyst þau mál, þegar mikið liggur við, með miklum glæsibrag. Maðurinn er vel máli farinn, smekkmaður á móðurmál sitt. Hann býr yfir ágætri kunnáttu um ættir hrossa, feril einstakra hesta, ásamt kunnugleika á hög- um og hugðarefnum hinna ein- stöku hestamanna. í tólf ár sat hann í stjórn Lands- sambands Hesfamannafélaga meginhluta síðasta áratugs. Þótti mér sá félagsskapur sem þá sat í stjórn góður og stjórnarfundir ánægjulegir enda meðbyr í hesta- mennsku bæði hér og erlendis. Þessi upptalning verður ekki lengri, en af mörgu er að taka og vandi úr að velja. Við vinir hans og félagar úr röðum áhugamanna um íslenska hestinn, sendum hon- um og hans ágætu konu, Ingigerði Karlsdóttur, kveðjur og þakklæti á merkisdegi þeirra á morgun. Við væntum þess að þau megi njóta lífsins og hvors annars enn um langt árabil og að við félagarnir megum eiga þar nokkurn þátt í, eftirleiðis sem hingað til. Lifið heil. Jón M. Guömundsson, Reykjum. Nú þegar ég átta mig á því, að vinur minn, Hjalti Pálsson, er orð- inn sextugur, finn ég, hversu tím- inn líður fljótt. Mér finnst í raun og veru ekki langt síðan Hjalti var ungur maður. Ungur maður með fullt af verkefnum framundan , sem hann vann að lausn á. En þannig hefur Hjalti alltaf verið. Hann hefur um dagana leyst ara- grúa verkefna af ýmsu tagi, því hann er mikill dugnaðarforkur, en að hverju máli leystu hefur hann fundið sér ný verkefni til að vinna að. Brautryðjendastarfið fer hon- um vel, enda maðurinn myndar- legur og aðsópsmikill. Hjalti Pálsson er fæddur að Hólum í Hjaltadal 1. nóv. 1922. Foreldrar hans voru Guðrún Hannesdóttir frá Deildartungu og Páll Zóphóníasson alþingismaður og búnaðarmálastjóri. Um það leyti sem Hjalti fæddist. eða árin 1920 til 1928, var faðir hans skóla- stjóri við búnaðarskólann að Hól- um. Að loknu gagnfræðaprófi í Reykjavík lauk Hjalti búfræði- námi frá Hólaskóla árið 1941. Ár- in 1943 til 1947 var hann við nám í Bandaríkjunum og lauk prófi í landbúnaðarverkfræði vorið 1947 frá ríkisháskólanum í Ames í Iowa-ríki. Allt frá því að Hjalti lauk námi hefur hann helgað samvinnu- hreyfingunni krafta sína. Árin 1948—1949 var hann fulltrúi í Véladeild SÍS. Árið 1949 varð hann framkvæmdastjóri Drátt- arvéla hf., sem þá voru nýstofnað- ar. Gegndi hann því starfi allt til ársins 1960. Árið 1952 gerist hann einnig framkvæmdastjóri Véla- deildar Sambandsins. Því starfi gegnir hann til ársins 1967, en þá tekur hann við fram- kvæmdastjórn Innflutningsdeild- ar Sambandsins, sem hefur verið hans aðalstarf síðan. Árið 1951 kvæntist Hjalti Ingi- gerði Karlsdóttur. Foreldrar hennar eru Þóra Ágústsdóttir og Karl Ó. Jónsson skipstjóri. Ingi- gerður er glæsileg kona og af góðu og dugandi fólki komin. Hafa þau hjón komið sér upp stórmyndar- legu heimili að Ægissíðu 74 í Reykjavík. Börn þeirra eru þrjú, Karl Óskar, Guðrún Þóra og Páll Hjalti. I starfi sínu fyrir samvinnu- hreyfinguna hefur Hjalti lagt gjörva hönd á margt. Þegar hann var fulltrúi í Véladeild SÍS og framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf., teiknaði hann t.d. mörg hundruð súgþurrkunarkerfi fyrir bændur og ráðlagði um vélakaup og tekjuval. Fer ekki á milli mála, að hinn mikli dugnaður Hjalta átti stóran þátt í velgengni Drátt- arvéla hf. þegar fyrstu starfsár þeirra. Hann lagði mikil ferðalög á sig vítt og breitt um landið. Traustvekjandi framkoma og karlmannlegt fas hins unga manns greiddu auðveldlega götu hans í samskiptum við fólk, enda ávann hann sér traust og vináttu mikils fjölda manna á stuttum tíma. Þegar Hjalti tók að sér fram- kvæmdastjórn Véladeildarinnar, víkkaði starfssviðið, og tíminn til persónulegra samskipta við stóran vina- og kunningjahóp minnkaði. En duglegur er hann við að halda sambandi við gömlu kunningjana, sem hann eignaðist um allt land á sínum yngri árum. Véladeild Sambandsins óx mjög að umsvifum þau 15 ár sem Hjalti var þar framkvæmdastjóri. Hon- um var mjög umhugað um að fylgjast með nýjungum og örri þróun í vélum og tækjum, sér- staklega því sem sneri að landbún- aði. Hann stóð fyrir byggingu á húsi Véladeildar að Ármúla 3 í Reykjavík, sem er mikil og glæsi- leg bygging. Þegar Helgi Þorsteinsson fyrr- verandi framkvæmdastjóri Inn- flutningsdeildar Sambandsins lést árið 1%7, var Hjalti ráðinn fram- kvæmdastjóri þeirrar deildar og hefur verið það síðan, svo sem fyrr segir. Innflutningsdeild Sambandsins er ein mikilvægasta stofnun sam- vinnumanna. Rekstrarafkoma Sambandsins og kaupfélaganna er verulega háð því, hvernig Inn- flutningsdeildin stendur sig í sínu hlutverki við vöruútvegun og ekki síður vöruval. Innflutningsdeildin hefur margar undirdeildir, sem sumar hverjar eru á við stór fyrir- tæki. Verkefni framkvæmdastjór- ans er því bæði stórt og víðfeðmt. Kemur sér þá vel, að hann er bæði stórhuga og kjarkmikill. Enda hafa mörg stórvirki verið unnin á framkvæmdastjóraárum hans í Innflutningsdeild, meira og minna fyrir hans forgöngu. Má nefna kornturna við Sundahöfn, Fóður- blöndunarstöð SÍS og hús Inn- flutningsdeildar við Elliðavog (Holtagarða). Allt eru þetta stór og þörf verkefni. Holtagarðar munu vera ein af stærstu bygging- um landsmanna. Auk þess sem hér er talið, hefur Hjalti átt sæti í ýmsum nefndum og stjórnum á vegum samvinnu- manna um lengri eða skemmri tíma, svo sem: Framkvæmda- stjórn SÍS, stjórn Dráttarvéla hf., stjórn Osta- og smjörsölunnar sf., stjórn Tollvörugeymslunnar hf., stjórn Kornhlöðunnar o.fl. Þá hefur hann átt sæti í ýmsum opinberum nefndum. Hjalti er áhugamaður um hestamennsku. Hefur hann og fjölskyjda hans löngum átt góða hesta. í félagsmálum hestamanna hefur hann verið virkur þátttak- andi og verið lengi í stjórn Lands- sambands hestamanna. Því miður hefur Hjalti átt við nokkra vanheilsu að stríða, sem er sykursýki. Hann hefur þó sigrast á því vandamáli, eftir því sem mögulegt er. Hjalti er einn af stofnendum Samtaka sykursjúkra og á sæti í stjórn þeirra samtaka. Hefur hann unnið mjög gott starf á þeim vettvangi. Eins og fleiri ættmenna hans hefur Hjalti mikinn áhuga á ætL'ræði. Hefur hann varið mikl- um tíma til þeirrar fræðigreinar og var annar af tveimur ritstjór- um Deildartunguættarinnar, sem er mikið rit í tveimur bindum. En móðurætt Hjalta er frá Deildar- tungu. Lengi mætti halda áfram að telja upp ýmislegt, sem Hjalti hef- ur tekið sér fyrir hendur um dag- ana. En hér verður staðar numið. Hjalti Pálsson er stór maður vexti og myndarlegur og vekur at- hygli hvar sem hann fer. Þrátt fyrir að vissu leyti hrjúft yfir- bragð er hann samt að jafnaði hlýr og þægilegur í viðmóti. Hann er skapmikill maður og heldur fast á sínu máli, en er drengilegur og ávallt sáttfús, þó að í odda skerist. I starfi sínu er hann stórhuga og gjarnan á undan sinni samtíð. Hann á gott heimili, þau hjónin, Hjalti og Inga, hafa staðið fast saman í blíðu og stríðu og verið samhent í besta lagi. Heimili þeirra er fallegt, og þar er gott að koma, enda gestkvæmt. Fyrir nokkrum árum keyptu þau sér sumarbústað á fallegum stað í Skorradal. Þar dvelja þau gjarnan á sumrin, þegar stund gefst frá annasömu starfi. Ég veit, að á þessum degi hugsa samvinnumenn og aðrir vinir um allt land sterkt til Hjalta og fjöl- skyldu hans. Um leið og ég læt í ljós ánægju yfir því að hafa um áratugi átt gott samstarf við Hjalta, vona ég, að þar verði framhald á og að hon- um endist líf og heilsa til margra góðra verka. Nú á sextugsafmæli hans fær- um við Anna honum, sem og fjöl- skyldu hans, okkar bestu óskir um gott gengi og gæfuríka framtíð. Undir þær óskir veit ég að hans mörgu samstarfsmenn og vinir taka. Olafur Sverrisson Aukið öryggi fyrir þig.þína og þá sem á vegi ykkarverða. ATLAS snjóhjólbardar í hálku og í snjó. Minni bensíneydsla, meiri ending.--------------------------- Útsölustaðir: Kaupfélögin um allt land GÆÐAEFTIRLIT MEÐ GÆÐAVÖRUM SAMBANDIÐ VELADEILD HJÓLBARÐASALA Höfðabakka 9 ^83490-38900

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.