Morgunblaðið - 14.11.1982, Blaðsíða 16
64
MORGUNBLAÐIÐ, SJJNtyUDAGUR 14. NÓVEMBER 1982
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 14. NÓVEMBER 1982
65
Heill sé þér, Páll,
og heiður mestur
Varla hefur lista-
skáldinu góða verif
það móti skapi að
yrkja tií Gaimard
þótt tíminn væri
naumur, enda áttu
þeir Páll sameigin-
legan áhuga á nátt-
úruvísindum og
rannsóknir á Is-
landi.
Hver var hann þá
þessi Fransmaður,
sem íslendingar
tóku slíku ástfóstri
við, svo miklu að
fremsta skáld þjóð-
arinnar sagði að ís-
land skyldi hann
lengi muna!?
Mikilvægasti árang-
ur ferðar þeirra var
þó líklega sá, að þeir
höfðu séð nægilega
mikið til að heillast
af landinu og þeim
viðfangsefnum er
hér biðu.
Kofar fiskimanna í Reykjavík 1835, eins og þessi hús eru kölluð í bók Gaimards.
Ekki eru húsin reisuleg né hlýlegt umhverfið: Þoka liggur yfir og snær í fjöllum
handan flóans.
Möðruvellir
í Hörgárdal 1835
Yfirlitsmynd frá Reykjavík 1835, eins og teiknarinn Mayer sá höfuðstaðinn, en allar teikningarnar hér eru eftir hann.
Þú stóðst á tindi Heklu hám
ofr horfðir yfir landið fríða,
þar sem um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám.
En Loki bundinn beið í gjótum
bjargstuddum undir jökulrótum. -
Þótti þér ekki Island þá
yfirbragðsmikið til að sjá ?
Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð.
Tífaldar þakkir því ber færa
þeim, sem að guðdómseldinn skæra
vakið og glætt og verndað fá
viskunnar helga fjalli á.
Þvílíkar þakkir færum vér
þér, sem úr fylgsnum náttúrunnar
gersemar, áður aldrei kunnar,
með óþrjótandi afli ber.
HeiII sé þér, Páll, og heiður mestur.
Hjá oss sat aldrei kærri gestur.
Alvaldur greiði æ þinn stig!
ísland skal lengi muna þig!
Svo orti Jónas Hallgrímsson 15. janúar 1839,
til hins franska læknis og vísindamanns,
Paul Gaimard. — Tilefni kveðskaparins var
það, að íslendingar í Kaupmannahöfn héldu
Gaimard veislu 16. janúar 1839, er hann
hafði þar viðdvöl á heimleið frá Spitzbergen og Lapp-
landi, en íslendingum var Gaimard að góðu kunnur
frá því hann ferðaðist um ísland á árunum 1835 og
1836. — Er samsætið hafði verið ákveðið, varð
mönnum ljóst að ekki væri annað sæmandi en að
flytja heiðursgestinum kvæði, líkt og íslensk skáld
höfðu gert um aldir. Þorgeir Guðmundsson, einn
þeirra er fyrir veislunni stóð, leitaði því til Jónasar
daginn áður, og bað hann að yrkja til Páls Gaimard.
— Fátt varð um svör hjá Jónasi, en svo fór að daginn
eftir var kvæðið tilbúið, skrautritað og prentað, sam-
tals sex erindi. Varla hefur listaskáldinu góða verið
það móti skapi að yrkja til Gaimard þótt tíminn væri
naumur, enda áttu þeir Páll sameiginlegan áhuga á
náttúruvísindum og rannsóknir á Islandi. Svo mikið
er að minnsta kosti víst, að kvæðið var tilbúið á rétt-
um tíma, og það er með fegurstu kvæðum Jónasar.
En hver var hann þá þessi Fransmaður, sem íslend-
ingar tóku slíku ástfóstri við, svo miklu að fremsta
skáld þjóðarinnar sagði að ísland skyldi hann lengi
muna!?
Franskar duggur og herskip
Á fyrri hluta 19. aldar stunduðu Frakkar um-
fangsmiklar fiskveiðar við íslandsstrendur, svo sem
þeir raunar gerðu lengi síðan. Svo mikilvægar hafa
þessar fiskveiðar þótt suður á Signubökkum, að oft
voru frönsk herskip með í ferðum, fiskimönnunum til
verndar og aðstoðar, og til margvíslegra rannsókna.
Ekki voru þó allar þessar ferðir til fjár frekar en svo
margar aðrar siglingar norður í Dumbshafi fyrr og
síðar.
Eitt frönsku herskipanna, La Lilloise, kom til Norð-
fjarðar í júlí 1833. Þaðan héldu skipverjar norður og
vestur í haf, og lentu í miklum hrakningum, bar meðal
annars undan ís og stórviðrum upp að austurströnd
Grænlands. Þar með var þó ekki öll hrakfallasaga
skipsins sögð, því skipverjum tókst að ná aftur til
Vopnafjarðar um sumarið, en eftir skamma viðdvöl
þar var aftur siglt norður og vestur með Islandi. Sást
til skipsins frá Önundarfirði röskri viku eftir að það
létti akkerum á Vopnafirði, en síðan hefur aldrei til
þess spurst. Franska stjórnin gerði þó allt sem í henn-
ar valdi stóð til að finna skipið eða grafast fyrir um
örlög þess, og í þeim tilgangi var herskipið La Bord-
elaise sent hingað sumarið 1834. Enn sendu Frakkar
hingað skipið La Recherche árið 1835 og 1836, en það
skip taldist bæði her- og rannsóknarskip. Ekki fannst
þó hið týnda skip, en hvarf þess hafði merkilegar
afleiðingar í för með sér fyrir Islendinga, því með
skipinu La Recherche hingað til lands komu tveir
franskir vísindamenn og stigu þeir fyrst fæti sinum á
íslenska grund 11. maí 1835.
Fyrra rannsóknarsumar Gaimard
Mennirnir tveir voru þeir Paul Gaimard læknir og
Eguéne Robert náttúrufræðingur. Skyldu þeir rann-
saka landið eftir því sem kostur væri, á meðan her-
skipið leitaði hins týnda skips í Norðurhöfum.
Ferðuðust þeir félagar allvíða um landið næstu
fjóra mánuðina, um Borgarfjörð, út á Snæfellsnes, um
Dali og vestur í Strandasýslu og um Húnaþing. Þar
sneru þeir við aftur og héldu á ný til Borgarfjarðar, og
fóru síðan fyrir Ok til Þingvalla. Þaðan lá leiðin aftur
um Lyngdalsheiði til Geysis og Heklu, og loks til Eyr-
arbakka, um Krýsuvík og Hafnarfjörð til Reykja-
víkur.
Frakkarnir höfðu því farið ótrúlega víða yfir á ekki
skemmri tíma, þeir kynntu sér land og þjóð, og söfn-
uðu töluverðu magni náttúrugripa er þeir hugðust
rannsaka betur er út kæmi. — Mikilvægasti árangur
ferðar þeirra var þó líklega sá, að þeir höfðu séð
nægilega mikið til að heillast af landinu og þeim við-
fangsefnum er hér biðu, og þeim tókst að sannfæra
frönsk stjórnvöld á nauðsyn frekari rannsókna á ís-
landi.
Nýr og stærri leiðangur
Hinn 30. maí árið 1836 kemur Páll Gaimard enn til
Reykjavíkur, og' nú með mikinn fjölda leiðangurs-
manna með sér. Sparaði ríkisstjórn Frakklands
hvergi til að leiðangurinn mætti verða sem best úr
garði gerður, vel búinn mönnum og tækjum. Auk
Gaimard og Roberts voru þessir helstir leiðangurs-
manna: Victor Lottin, sjóliðsforingi og eðlisfræðingur,
er meðal annars hafði tvívegis siglt umhverfis hnött-
inn; Raoul Anglérs veðurfræðingur; Eguéne Mequet
dagbókarritari; Louis Bévalet dýramyndamálari; Xav-
ier Marimer bókmenntafræðingur og síðast en ekki
síst Auguste Mayer landslagsmyndamálari.
Ferðuðust leiðangursmenn víða um landið á næstu
mánuðum, fóru meðal annars allt til Grímsstaða á
Fjöllum. Hér voru á ferð heimsborgarar og sóma-
menn, og þeir kynntu sig hvarvetna vel. Gáfu þeir
fólki gjafir þar sem þeir komu, og eru sumar þeirra
enn til. — Ekki gátu þeir félagar heldur alveg stillt sig
um að rannsaka hinar norrænu meyjar er Island
byggðu, og er til dæmis víst að Marimer bókmennta-
fræðingur átti barn með íslenskri stúlku, Málfríði í
Klúbbnum í Reykjavík.
Gáfu út viðhafnarrit um ísland
Er Frakkarnir komu út aftur gáfu þeir út mikið
ritverk um ferðir sinar á íslandi og um náttúru lands-
ins, og kom það út í mörgum bindum á árunum 1838
til 1852, og hefur aldrei verið gefið út jafnstórt við-
hafnarrit um Island, land, náttúru og þjóðmenningu.
— Kostaði bókin enda 500 gullfranka, sem var geysi-
mikið verð á þeim tíma.
Náttúrufræðirannsóknir Gaimard og félaga hans
eru að sjálfsögðu orðnar úreltar, eins og nánast allt
sem unnið var af því tagi á síðustu öld. Eitt er það á
hinn bóginn úr leiðangrinum, sem ekki hefur úrelst,
en það er mikill fjöldi mynda sem leiðangursmenn
gerðu frá ferðum sínum um Island. Myndirnar eru
fögur og fágæt heimild um land og þjóð á þessum
tíma, þar sem tekið er fyrir hið fjölbreytilegasta við-
fangsefni: landslag og náttúruundur, dýralíf, mannlíf,
húsakostur, og dregnar hafa verið upp fjölmargar
myndir af nafngreindum Islendingum, körlum og kon-
um. Þó ekki væri nema fyrir þá sök eina, mun Páll
Gaimard varla gleymast hér á landi, svo lengi sem
land er byggt og íslensk tunga töluð.
Fyrir nokkru kom út hjá Menningarsjóði mikil og
fögur bók með teikningum úr leiðöngrum Gaimard, og
ber vissulega að fagna því frumkvæði. Islendingar eru
um sumt fátækari öðrum þjóðum um minjar frá fyrri
tíð í landinu, og myndirnar úr Gaimard-leiðöngrunum
1835 og 1836 eru meðal dýrgripa þeirra sem til eru frá
tímum forfeðra okkar á Islandi.
Anders Hansen
Heimildir m.a.: Eftirmáli Haraldar Sigurðseonar við bók
Menningarsjóðs, Ritsafn Jónasar Hailgrímssonar með for-
mála Tómasar Guðmundssonar og bók Vilhjálms Þ. Gísla-
sonar um Jónaa Hallgrimsson.
Náttúrufræðirann-
sóknir Gaimard og
félaga hans eru að
sjálfsögðu orðnar
úreltar, eins og nán-
ast allt sem unnið
var af því tagi á síð-
ustu öld. Eitt er það
á hinn bóginn úr
leiðangrinum, sem
ekki hefur úrelst, en
það er mikill fjöldi
mynda sem leiðang-
ursmenn gerðu frá
ferðum sínum um Is-
land.
Ferjustaður
við Hvítá 1835
Helsta gatan
í Reykjavík 1935, Lækjargata
Dönsk verslunarhús
á Eskifirði 1835