Morgunblaðið - 31.03.1983, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 31.03.1983, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 31. MARZ 1983 87 alla leið til Taipei og bað nú um að hún færi ekki með Thai-vélinni. Stúlkan, sem hafði tekið þennan græningja að sér, brá skjótt við og tilkynnti eftir dágóða stund að taskan hefði verið stöðvuð. Síðan kallaði hún til fylgdarsvein til þess að koma mér formlega inn í landið og nálgast eigur mínar. Eftir vegabréfsskoðun fórum við inn í geymslu þar sem töskur svo tugum skipti lágu í hrúgu. Ekki var mín meðal þeirra, enda ekki von, þar sem þessar voru farnar að rykfalla. Höfðu sýnilega verið þarna lengi, orðið viðskila við eigendur sína og dagað uppi. Augljóst að líka eru til tösku- kirkjugarðar. Enn fórum við inn í annan sal. „Hús meðfram öllum götum í röð- um liggja," kveður Tómas, en hér lágu töskur meðfram öllum veggj- um. Sennilega í biðstöðu áður en þær fylltu flokk hinna „glötuðu". En mín var þar ekki. Var ég farinn að kveðja hana í huganum, þegar vagn birtist í dyrunum út að flugvélastæðinu, og efst á honum trónaði taskan mín. „Hefurdu komið til Meginlandsins?“ Nú var ekki um annað að gera en hafa sig í bæinn. Fylgdarsveinn minn valdi úr hópi leigubílstjóra lipran strák, sem kunni nokkuð fyrir sér í ensku. Rétt reyndist að leiðin var löng, en loks stönsuðum við fyrir fram- an mikla byggingu, nýja verslun- ar- og skrifstofumiðstöð og hið mesta völundarhús. Eftir allmikil hlaup þar um ganga og sali, upp og niður rúllustiga fundum við að- setur verslunarfulltrúans, sem í raun er óopinber sendiherra Tai- wans í Thailandi. Ég bar upp erindi mitt, þyrfti að fá vegabréfsáritun. Stúlka rétti mér eyðublað og að því útfylltu sagði hún mér að koma aftur eftir tvo daga og hafa þá meðferðis tvær passamyndir. Ég sagði að það gagnaði mér ekki, ég þyrfti að ná hádegisfluginu til Taipei og sýndi henni nú telex-skeytið þar sem skýrt var frá hinum áríðandi fundi klukkan 9 morguninn eftir. Þá bað hún um vegabréf mitt — ^ og var fljót að reka augun í vega- bréfsáritun frá kínverska sendi- ráðinu í Reykjavík og kínverska stimpla í passanum. „Hvað, hef- urðu komið til Meginlandsins?" Undrunin leyndi sér ekki. Ég gat ekki neitað því, og sá nú eftir að hafa ekki farið að ráðum vina minna hér heima að fá mér nýtt vegabréf, þar sem mér yrði aldrei hleypt inn í Taiwan með slíkan „komma-stimpil“ í passan- um. Skarpskyggn stúlka En hvað sem því leið jókst nú áhugi stúlkunnar á persónu minni til muna. Hún vildi fá að vita allt um það ferðalag, hvernig það var tilkomið, hvert ég hefði farið og hvernig mér hefði litist á. Síðan skoðaði hún enn telex-skeytið, leit upp og sagði: „Ja, þú hlýtur að vera mjög mikilvægur maður." Það var kominn tími til að ein- hver sæi það, hugsaði ég, og undr- aðist mjög skarpskyggni þessarar kínversku stúlku. Reyndi ég að setja upp sem mestan virðuleika- svip og kinkaði kolli. Ekki vildi ég að stúlkan skipti um skoðun. Hún mældi mig út með augunum góða stund, en sagði síðan: „Þú getur fengið vegabréfsáritun strax, en tvær myndir af þér þarf ég að fá, að minnsta kosti eina.“ Nú versnaði í því, ég hafði ekki búið mig út að heiman með ljós- myndir af sjálfum mér, þær yrði ég að fá teknar hér í Bangkok. Bíl- stjórinn kom til hjálpar. Hann kvaðst vita um ljósmyndara, sem tæki skyndimyndir — og við af stað. Umferðarþunginn var mikill þarna í miðborg Bangkok og spottinn, sem við þurftum að aka þar, reyndist langur í mínútum. Þetta hafðist þó að lokum og klukkan rúmlega 11 var ég kominn með minn stimpil. Næst lá svo leiðin í skrifstofu China Airlines, sem er á neðstu hæð í þessari sömu byggingu, til þess að athuga með farið. Því miður, allt fullbókað og langur biðlisti. Hvort ekki fyndist nokkur smuga? Nei, þeim fannst ótrúlegt að svo margir hefðu helst úr lestinni að einhver von væri til þess að ég kæmist með. Auk þess væri tíminn orðinn svo naumur, að ég næði varla út á flugvöll í tæka tíð fyrir brottför. Fullur sjálfstrausts eftir að hafa kríað út vegabréfsáritun á mettíma vildi ég ekki gefast upp þarna á stundinni og hélt út með bílstjórann á hælunum. Ein hindrun enn Þegar við vorum sestir í bílinn að nýju, bað ég bílstjórann að hraða för sem mest hann mætti. Hann kvaðst fús til þess, en um- ferðin væri svo mikil að hann fengi ekki ráðið hraðanum nema þá með því að fara út á hraðbraut- ina, og það kostaði aukapening. Snögglega var samið um auka- sporslu honum til handa. Þetta tókst. Rúmar 25 mínútur voru til stefnu, þegar á flugvöllinn var komið, og viti menn, laust sæti var í vélinni. En þá kom skyndi- lega babb í bátinn. Farseðillinn var gefinn út af Icelandair (Flug- leiðum) og China Airlines hafði engan samning við það flugfélag. „Thai Airways hefur pantað þenn- an farseðil, farðu í flugvallar- skrifstofu Thai og fáðu þar gefinn út nýian." Ég þaut þangað og skýrði mála- vexti. „Hvaða vitleysa er þetta,“ var svarið. „Við höfum að vísu pantað þennan farseðil, en það hefur verið gert að ósk China Air- lines og þeir hafa borgað hann.“ Þá vissi ég það. Síðan var mér 5ent á hvar það var tíundað á seðl- inum. Hélt ég nú aftur að fyrra afgreiðsluborði og hljóp við fót. „Nei, Tahi verður að gefa út nýjan farseðil." Hér dugði engin röksemda- færsla, hvort þeir vildu ekki held- ur sjálfir flytja þá farþega, sem þeir hefðu borgað fyrir en greiða öðrum flugfélögum fyrir það. Nei, engu varð umþokað. Á biðlista Þannig lauk þessari baráttu með ósigri. Klukkan hafði tifað jafnt og þétt og enginn tími til frekari umsvifa. Lúpulegur hélt ég til skrifstofu Thai Airways til þess að tryggja mér far með flugi fé- lagsins næsta morgun. En þá var allt fullbókað og ég settur á bið- lista. „Eina von þín til þess að komast með er að mæta tímanlega í fyrramálið, helst klukkan hálf átta.“ Mér var nú farið að leiðast þetta þóf og ákvað, ef ég yrði stranda- glópur öðru sinni, að snúa heim, því þarnæsta dag var einnig full- bókað. Ég vildi þó ekki í fullri al- vöru reikna með þeim möguleika, leitaði uppi símstöðina á vellinum og sendi telexinu í Taipei skilaboð um að mér seinkaði til morguns. Best að þykjast hagvanur Þeytingur minn þarna fram og aftur í flugstöðinni hafði ekki far- ið framhjá fránum augum náunga, sem þyrptust að og buðu aðstoð sína við að útvega mér leigubíl, hótel o.s.frv. Sérstaklega jókst atgangur þeirra, þegar ég glopraði því út úr mér að þetta væri í fyrsta sinn, sem ég væri hér. Það skyldi enginn gera. Best er að þykjast vera hagvanur. Á leiðinni inn í borgina um morguninn hafði ég tekið eftir því að skammt frá flugstöðvarbygg- Á gangstéttunum f Bangkok var víða vart þverfótað fyrir fólki, sem sat þar við matseld. Viðskiptavinir fengu síðan allt afgreitt í plastpokum, súpugutl jafnt sem skelfisk eða kjúklingalæri. ingunni var stórt og mikið hótel, Airport Hotel. Þangað ætlaði ég. Á bílaafgreiðslunni var mér hinsvegar tjáð, að það væri ekki enn tekið til starfa. Bað ég þá um að mér yrði ekið á næsta hótel við flugvöllinn, því ég vildi ekki eiga langa ferð fyrir höndum morgun- inn eftir. Sagt var að það væri stuttur akstur. Ekki leist mér þó á blikuna, þeg- ar bílstjórinn keyrði framhjá ein- um þremur hótelum og beygði loks inn í öngstræti í hverfi, sem vel var hægt að ímynda sér að væri gamall miðbær. Stansaði hann þar fyrir framan hótel, sem muna má sinn fífil fegri. Hefur það ein- hverntíma í fyrndinni verið hið glæsilegasta, en var nú í niður- níðslu. Þar fagnaði bílstjórinn sýnilega vinum og var nú að gera þeim kunningjagreiða. Eftir að hafa athugað herbergið og gengið úr skugga um að þar var loftkæling og. rúmfatnaður allur hvítþveginn samþykkti ég að vera um kyrrt, en þó með því skilyrði að ég yrði vakinn klukkan 6 morg- uninn eftir og fengi morgunmat eigi síðar en 6.30. Þjónusta boðin Ekkert vantaði upp á að mér væri tekið þarna með kostum og kynjum. Tveir vikapiltar settust bókstaflega að mér. Annar, sem kvaðst heita Kiss, elti mig inn á herbergi og fór ekkert dult með hvaða þjónustu hann vildi veita. Loks gafst hann þó upp á að bjóða sjalfan sig og bauðst til að útvega mér kvenmann. Þegar hann svo yfirgaf herbergið hefur hann ör- ugglega verið sannfærður um að þessi gamli fauskur væri með öllu náttúrulaus. Síðar um daginn, þegar ég kom úr „rannsóknarleiðangri" um nágrennið, bauðst stúlkan í lykla- afgreiðslunni til þess að leiða mig í allan sannleika um næturlíf Bangkok-borgar og gerast fylgd- armær mín um þau herlegheit. En einmitt þá var mér ljóst orðið hve þreyttur ég var og vansvefta, hafði raunar glatað heilli nótt vegna tímamismunarins. Allt slíkt hafði gleymst í strögglinu fyrri hluta dagsins. Ég sá mér því ekki annað fært en hafna þessu ágæta boði. Auk þess kunni ég illa hinu heita, rakamettaða lofti, sem á götunum blandaðist lykt af matseld á gangstéttunum og reykútblæstri bílanna. Vafalaust hefði ég sofið vel af um nóttina, ef ég hefði ekki hrokk- ið upp hvað eftir annað við ógur- legar þrumur og eldingar og rign- ingu, sem líktist helst steypibaði. Loks rofaði til Matsalurinn var lokaður, þegar ég kom niður í býti morguninn eft- ir. Var það ekki fyrr en ég hermdi upp á vaktmanninn loforðið frá deginum áður að kokkurinn var ræstur. En hann var ekki sá eini, sem varð fyrir ónæði, því í mat- salnum sváfu einir þrír eða fjórir á bekkjum með brekán yfir sér. Þeir litu gestinn heldur óhýru auga, en létu þar við sitja. Á leiðinni út á flugvöll trúði ég vart mínum eigin augum, þegar við komum að stöðuvatni þar sem áður var vegur. En við hverju mátti ekki búast eftir allan þann vatnsflaum, sem fallið hafði af himni um nóttina. Bílstjórinn bjargaði málum með því að keyra upp á gangstétt, og þar ók hann eftir minni, því gangstéttirnar voru einnig á kafi. Hann skilaði mér þó á réttum tíma, og gott ef ég var ekki fyrsti maðurinn, sem afgreiddur var með Thai-fluginu til Taipei þann morguninn. Losn- aði ég blessunarlega við allt það stapp, sem ég hafði búið mig und- ir. Loks var farið að rofa til. Telexið fær mál Greiðlega gekk að komast í gegnum vegabréfsskoðun og toll á Chiang Kai-shek-flugvellinum á Taiwan, en þegar ég fór að svipast um eftir „móttökunefndinni" gaf enginn sig fram við þessa „mikil- vægu persónu" frá íslandi. Leitaði ég þá til upplýsingaskrifstofunn- ar, sýndi telexið góða og bað um að haft yrði upp á náunga þeim, sem hefði telex-númerið, sem þar er getið um. Ég var kominn til landsins í boði hans. Stúlkan, sem afgreiddi mig, fékk ekki leynt undrunarsvip sín- um, tók samt við skeytinu og hvarf með það í höndum. Þegar hún kom aftur brosti hún blítt. „Þetta er telex-númerið hjá upp- lýsingaþjónustu ríkisins," til- kynnti hún. Þangað var hringt, og mikið rétt, allt stóð heima nema hvað búist hafði verið við mér degi fyrr. En skeytið frá Bangkok? Það höfðu þeir aldrei fengið, sagði röddin, en allt var nú gott fyrst glataði sonurinn var fundinn. Og fyrir mig var það stór stund, þeg- ar í ljós kom að telexið í Taipei hafði mál og var farið að persónu- gerast. Ég átti að búa á Grand Hotel, og taka næsta áætlunarbíl, sem þangað færi frá flugvellinum. Stúlkan í upplýsingunum kallaði á vikapilt og fól honum að koma mér í réttan vagn. Hvað með skakkt hótel? Við vorum þrír í vagninum, auk mín tveir Þjóðverjar. Leiðin var lengri en ég hugði, en loks blasti Taipei við. Sérstaka athygli mína vakti fögur hallarbygging í kín- verskum stíl í hlíðunum rétt utan við borgina. Inni í miðborginni var iðandi líf og allt með miklu þekki- legri blæ en í Bangkok. Loks var stansað fyrir utan hót- el. Þjóðverjarnir þustu út úr bíln- um og ég á eftir. Ég bjost við að þarna yrði tekið á móti mér, en svo var ekki. Þá snéri ég mér að gestamóttökunni. Nafn mitt fannst hvergi meðal þeirra, sem áttu pöntuð herbergi. „Hvað, er þetta ekki Grand Hotel?,“ stamaði ég loks. „Grand Hotel? Nei, þetta er ekki Grand Hotel." Mér létti. Það voru hreinir smá- munir, eftir það sem á undan var gengið, þótt ég villtist inn á skakkt hótel. En nú voru gefin þarna snögg fyrirmæli, og áður en varði var ég kominn upp í leigubíl og bílstjór- anum sagt hvert aka skyldi. Mér til furðu keyrði hann í átt út úr borginni, og undrun mín varð enn meiri, er hann ók inn um skraut- legt hliðið fyrir framan höllina miklu í fjallshlíðinni. Svo stansaði hann við hallardyrnar og borða- lagður dyravörður opnaði bílhurð- ina með bugti og beygjum. Þetta var þá Grand Hotel. „No problem“ Herbergi stóð mér til reiðu, og í glæsilegri vistarveru hef ég ekki gist, en ég varð ekki enn var við gestgjafa mína. Ákvað ég nú að hafa ekki frekari tilburði í frammi við að hafa upp á þeim, sem leynd- ust á bakvið telexið í Taipei, en skildi eftir skilaboð í afgreiðslunni með upplýsingum um hvar mig væri að finna. Það var auðvelt að láta sér líða vel á þessum stað. Klukkan 11 um kvöldið var bar- ið að dyrum- og inn kom, ungur brosmildur maður, en nokkuð taugaspenntur. Hann kvaðst því miður ekki hafa haft tíma til að líta inn til mín fyrr, um 200 er- lendir blaðamenn væru í héim- sókn og í mörgu að snúast. Síðan kynnti hann mér dagskrá morg- undagsins, sem var þjóðhátíðar- dagur Lýðveldisins Kína. „Og svo ef þig vanhagar um eitthvað, þá bara að nefna það,“ sagði hann. Ég var með „opinn“ farseðil heim, og eftir reynsluna í Bangkok fannst mér hyggilegast að fá strax bókað með ákveðnu flugi. Hvort hann gæti séð um það fyrir mig. „No problem," sagði hann og brosti. Þau orð áttu oft eftir að hljóma í eyrum mínum og annarra þann tíma, sem ég var á Taiwan. Öll „vandamál" heyrðu fortíðinni til.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.