Morgunblaðið - 08.06.1983, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 08.06.1983, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 8. JÚNÍ 1983 27 Gústaf A. Guðmunds- son — Minningarorð Þegar ég heyrði andlát góðs vin- ar míns, sem hér skal minnst með nokkrum fátæklegum orðum, kom mér brottför hans hér úr heimi ekki á óvart. Líf okkar er vissu lögmáli háð, öll erum við í þennan heim komin til þess að heilsast og kveðjast, þó misjafnlega snemma á lífsbrautinni. í lífshlaupi okkar verða ævinlega einhver spor sem við mörkum í hinu daglega lífi. Þegar skilnaðarstund kemur og litið er yfir farinn veg koma upp í hugann áfangar í lífsstarfinu sem marka vissar minningar og glæða þær minningar, sem við eigum best geymdar um látinn vin. Hógværð, gleði og drenglund er kannski það besta í fari samferða- manns, sem vekur okkur til um- hugsunar er kvölda tekur og húm færist yfir aldur og starfsgetu. Kvöldgeislar bjartrar vornætur verma okkur oft og minna okkur á að allt líf er lögmáli háð. Blómin sem við sjáum vaxa og þroskast minna okkur á að líf okkar manna, sem teljum okkur æðri verur, en erum þó sama iögmáli háð. Hóg- værð, gleði og drenglund hæfir einmitt vel þeim vini, sem í dag er kvaddur hinstu kveðju, bjartsýni, hlýja og gróandi líf, á þeim tíma árs sem náttlaus veraldar voröld er hvað skærust. Þegar ég lít til baka yfir liðna tíð, þá vantar fáeina daga til að 25 ár séu síðan ég kynntist Gústav A. Guðmundssyni. Fyrstu fundum okkar bar saman þann 17. júní 1958, á þjóðhátíðardegi okkar lýð- veldis, vissulega er sá dagur stærsti sigurdagur okkar þjóðar. Það var glaðasólskin, gróður allur kominn vel á veg, landið prýtt þeim fegursta skrúða, sem móðir náttúra getur því veitt. Þennan dag var einkadóttir þeirra hjóna að stíga sitt stærsta spor í lífinu, sannkallað hamingjuspor. Þau giftu sig hér á Borg þann dag Sig- ríður og Karl Ásgrímsson, mágur minn. Það var sannur hamingju- dagur í iífi þeirra allra, tengda- sonurinn þeim bestu kostum bú- inn, sem prýða mega einn mann, enda reyndin sú að í 25 ár hefur umhyggja og ástúð einkennt alla þá umhugsun sem þau hafa veitt hinum látna vini. Gústav A. Guðmundsson fædd- ist 4. október 1905. Um ættir hans er ég ekki kunnugur, en veit þó að hann var ekki hjónabandsbarn í besta skilningi þess orðs. Ólst hann að mestu upp hjá föðurbróð- ur sínum, Þórði Gíslasyni, hrepp- stjóra í Mýrdal, og konu hans, Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Mýrdalsheimilið var orðlagt menningarheimili, þar sem veitt var af gnægtabrunni þeirrar sveitamenningar og höfðingsskap- ar sem best getur verið, innrætt góðsemi og hollar venjur sem eru einn sá besti hyrningarsteinn og veganesti, sem hver maður getur hlotið til lífsframfæris. — Oft minntist Gústav á sín æskuár í Mýrdal, sem grópuðu ljúfar og hlýjar minningar í hugarheim hans. Ávallt leit hann frænda sinn og uppeldisbróður, Gísla heitinn Þórðarson, sem besta bróður sök- um manngæsku og drengskapar. Sem fulltíða maður hleypti Gústav heimdraganum, fór til náms í Samvinnuskólann undir handleiðslu hins mikla manns Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Taldi hann það sér mikið lán að nema við þann skóla, sem síðar varð honum gott veganesti til framtíðarstarfa. Fljótlega að námi loknu réðist hann til starfa hjá Póstmálastjóra og vann þar um tugi ára, en skipti svo um starf áíðustu árin og vann hjá Samvinnutryggingum. öll sín störf vann hann af mikilli sam- viskusemi og drengskap, enda framúrskarandi vandvirkur og háttvís í allri framkomu og dáður af samstarfsfólki sínu. Þann 29. desember 1932 kvænt- ist hann Þóru Hannesdóttur, ein- stakri sómakonu, sem stóð fast við hlið hans í ástríku hjónabandi. Heimili þeirra var einstakur gróð- urreitur, sem gott var að dvelja í, því húsráðendur, veitul og glað- lynd, vildu veita gestum sínum vel. Allt var svo hreint og fallegt þar innan veggja, að gestum gat ekki annað en liðið vel. Æðruleysi, rósemi og einstaklega hlýtt við- mót var sá daglegi lífsmáti þeirra beggja. Þann 3. október 1975 lést Þóra eftir stutta sjúkrahúsvist. Þá var kippt óþyrmilega í þann sterka þráð sem batt þau hjón saman. En Gústav flíkaði ekki til- finningum sínum, bar sinn harm í hljóði. Hann átti elskulega dóttur, barnabörn og tengdason, sem gerðu allt fyrir hann til þess að milda það stóra sár er hann hlaut, er eiginkonan var burtkölluð skyndilega. Er heilsan og starfsþrek þraut að mestu dvaldi hann á sjúkra- heimilinu Arnarholti á Kjalar- nesi. Þar var hann vel geymdur og allt gert svo dvölin væri honum sem þjáningarminnst, hann and- aðist í Borgarspítalanum þann 2. júní sl. Nú hefur minn kæri vinur lagt í þá löngu för, sem okkar allra bíð- ur fyrr eða síðar. „Gott er heilum vagni heim að aka“, þar munu áð- ur farnir vinir fagna í varpa þeim gesti sem nú hefur knúð þar dyra. Við sem eftir stöndum þökkum einstaklega góðar minningar frá liðinni tíð. Eiknadóttur, tengdasyni og barnabörnum votta ég dýpstu samúð á sorgarstund. Guð blessi minningu góðs vinar. Páll Pálsson. Ljúfmennið Gústav Adolf Guð- mundsson, fv. póstfulltrúi, andað- ist í Borgarspítalanum hinn 2. júní sl., eftir stutta legu þar. Hann hafði hins vegar átt við vanheilsu að stríða nokkur síðustu ár. Gústav var fæddur í Reykjavík 4. október 1905. Foreldrar hans voru Guðmundur Gíslason, sem síðar bjó að Bóndhól í Mýrasýslu og Gíslína Pálsdóttir, ættuð úr Árnessýslu. Skömmu eftir fæð- ingu Gústavs fór faðir hans til Ameríku og dvaldist þar í allmörg ár. Gústav dvaldist fyrst með móður sinni, en á hans unglings- árum réðist hún sem vinnukona að Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadal til þeirra hjóna Þórðar Gíslasonar, hreppstjóra, og konu hans, Ingibjargar Guðmundsdótt- ur, en Þórður var föðurbróðir Gústavs. Þegar Gíslína síðan fór aftur til Reykjavíkur, varð Gústav eftir hjá þeim sæmdarhjónum og ólst því að verulegu leyti upp hjá þeim. Eftir að Gústav fluttist frá Mýrdal fór hann flest sumur þangað vestur og hélt ævilangri tryggð við heimilið, þó að kynslóðaskipti yrðu. Eftir að Gústav fór aftur til Reykjavíkur, um tvítugsaldur, hóf hann fyrst nám í iðnskóla, en hvarf frá því og hóf nám í Sam- vinnuskólanum og lauk þaðan burtfararprófi. Vann hann síðan í nokkurn tíma við skrifstofustörf á Austurlandi, en var skipaður póst- fulltrúi í Reykjavík árið 1932. Varð það hans aðalævistarf eða til ársins 1966, þegar hann komst á eftirlaun. Gústav vildi þó halda áfram að vinna og vann við skrif- stofustörf hjá Samvinnutrygg- ingum um nær 10 ára skeið. Það mun vera einróma áiit sam- starfsmanna Gústavs að hann hafði verið einstaklega ljúfur og þægilegur vinnufélagi og einstakt snyrtimenni. Hann var hjálpsam- ur og vildi hvers manns vanda leysa, ef unnt var. Alltaf glaður og ánægður og hafði takmarkalausan áhuga á störfum sínum. Gústav var félagi í Oddfellow- reglunni um 40 ára skeið og hlaut þar margs konar viðurkenningu fyrir störf sín í þágu reglunnar. Árið 1932 giftist Gústav glæsi- legri ungri stúlku, Þóru Hannes- dóttur. Bjuggu þau sér fallegt, en íburðarlaust heimili, þar sem tek- ið var á móti vinum og kunningj- um af einstakri hlýju og vinsemd. Áttu Hnappdælir þar sérstaklega innangengt. Sá, sem þessar línur ritar, man vel eftir einstakri um- önnun og hlýju, þegar hann var ýmist hjá ungu hjónunum eða á sjúkrahúsi veturinn 1933—34. Þá bjuggu þau á Vesturgötu 42. Það mikla áfall, þegar Þóra andaðist 1975 var slíkt, að kunn- ugir sáu, að það var eins og lífs- neistinn smám saman fjaraði út. Ég hef tæpast séð eins mikinn mun á neinum við andlát maka síns. Þau Gústav og Þóra áttu eina dóttur, Sigríði. Hún var alla tíð í sérstöku uppáhaldi hjá föður sín- um og þeim báðum hjónum. Hún giftist ung Karli Ásgrímssyni, bif- reiðastjóra, frá Borg í Mikla- holtshreppi. Er það mjög umtalað meðal kunnugra, hversu þau önn- uðust Gústav vel hin síðustu ár. Var þar sannarlega endurgoldin sú umhyggja sem veitt var Sigríði á fyrstu árum ævinnar. Þau Karl og Sigríður eiga þrjú börn, sem voru í miklu uppáhaldi hjá afa sínum, en þau eru Gústav Adoif, Þóra Sigríður og Ásgrímur Karl. Öll sjá þau nú á eftir góðum og ástríkum afa. Gústav Adolf var hugljúfi allra, sem kynntust honum hvort sem var vinnufélaga eða annarra. Öll framkoma hans og ljúfmennska var slík að hún hlaut að kalla fram vinsemd á móti. Ég og kona mín sendum fjöl- skyldu Gústavs og ættingjum innilegar samúðarkveðjur. Pétur Pétursson „Ég ætla að fara til Þóru og Gústa,“ var setning er ég sagði oft þegar ég var barn, en ekki bara til Þóru eða til Gústa, því svo sam- einuð voru þau í huga mér, móð- ursystir mín, Þóra Hannesdóttir, sem nú er látin fyrir nokkrum ár- um og eiginmaður hennar Gústaf A. Guðmundsson, sem kvaddur er í dag. Milli heimilis þeirra og foreldra minna var ekki langur vegur og eru því bernskuminningar mínar bundnar þessum báðum heimilum, og ekki því síður að Gústaf og fað- ir minn byggðu saman sumarbú- stað í Mosfellssveit er kallaðist Systrahvoll en var í nokkur sumur sameiginlegt heimili þessara fjöl- skyldna. Þessi sumur eru mér minnisstæð vegna þess hversu mikil samheldni var þar og eins við næstu nágranna. Sem dæmi má nefna að skömmu eftir að Systrahvoll var reystur var tengd þar vatnsveita og síðar sett upp þar rafstöð, en bústaðurinn var byggður árið 1940 og þá mjög fá- títt að slíkt væri gert. í Systrahvoli var oft setið fram eftir kvöldum og hlustað á Gústaf segja sögur af lax- og silungsveiði, en Gústaf hafði mjög gaman af veiðiferðum og veiðiskap. Á þess- um árum fór Gústaf í ýmsar veiði- ferðir með spilafélögum sinum og þeirra mökum. Þessir spilafélagar hittust hver hjá öðrum einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina f mörg ár. Eitt af áhugamálum Gústafs var ljósmyndataka og vinna í sam- bandi við framköllun og stækkun á myndum og eru til myndir sem sýna að þar var hann ekki eftir- bátur annarra. Um ættir Gústafs er ég ekki nægilega kunnur til að gera þeim skil hér. Þó veit ég hins vegar hversu annt honum var um þann stað er hann ólst upp á en það er Mýrdalur í Kolbeinsstaðarhrepp. Alltaf var gott að koma til Þóru og Gústafs, hvort sem var að Mánagötu 16 eða í Skipholt 28, en ekki þar langt frá eða í öðru húsi þaðan, hefur dóttir þeirra Sigríður búið ásamt manni sínum Karli Ásgrímssyni og þremur börnum þeirra um langt skeið. Það veit ég að Þóra og Gústaf þökkuðu ávallt fyrir að hafa fjölskylduna svo nærri sér. Fyrir mína hönd og systur minnar Döddu, en hún dvelst nú erlendis, vildi ég óska að Guð styrki Dirrý og hennar fjölskyldu í sorg þeirra og blessi þau. Fiffi. Myndverkið frágengið á stafni Dalvíkurskóla. Dalvíkurskóla slitið Dalvík, 2. júní. LAUGARDAGINN 28. maí fóru fram skólaslit í Dalvíkurskóla. 300 nemendur voru í skólanum í vetur að meðtaldri forskóladeild og framhaldsdeild, en við skólann er starfrækt eins árs framhaldsdeild. Grunnskólaprófi lauk 31 nemandi en prófi eftir 2 annir í framhalds- deild luku 11 nemendur auk 5 nemenda af skipstjórnarbraut sem útskrifaðir voru 14. maí sl. Á þessu ári var fullorðins- fræðsla flutt á herðar Dalvík- urskóla og var fólki boðið upp á að sækja áfanganám í kvöld- skóla auk ýmiss konar nám- skeiða. Tók mikill fjöldi fólks þátt í þessu og luku 29 nemendur prófi í einum eða fleiri áföngum. Nú í voru fóru nemendur 9. bekkjar í skólaferðalag til Hol- lands. Dvöldu þeir þar í viku- tíma en fjár til fararinnar höfðu þau aflað með ýmiss konar sam- komuhaldi og uppákomum sem settu svip á bæjarlífið á Dalvík nú í vetur. Ferð þeirra gekk í alla staði mjög vel. Nemendur vinna að skreytingu á skóla. Síðastliðið haust var efnt til samkeppni í 8. og 9. bekk skólans um skreytingu á norðurstafn skólahússins. Unnu nemendur upp hugmyndir með aðstoð myndlistarkennara síns, Kol- brúnar Ólafsdóttur. Dómnefnd var skipuð og dæmdi hún tillög- ur sem lagðar voru fram. Mynd- in sem var talin best var svo máluð á stafninn, en sökum veð- urs var ekki hægt að ljúka því í haust, en nú í vor var gengið frá myndverkinu á húsið. Við skólaslit afhenti skóla- stjóri verðlaun frá Lionsklúbbi Dalvíkur, Kiwanisklúbbi Dalvík- ur, úr Móðurmálssjóði og frá skólanum. Fréttaritarar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.