Morgunblaðið - 20.01.1984, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 20.01.1984, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 20. JANÚAR 1984 25 sókn Per Borten, forsætisriðherra Noregs). stytta sem honum var lífsnauðsyn eftir að hann fékk áfallið og barð- ist við að komast til starfa á ný. Við Rúna sendum Ingibjörgu og börnunum, Kristínu og Jóni, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi okkur öllum minningu Magnúsar Jónssonar. Lárus Jónsson Magnús Jónsson bankastjóri frá Mel átti sæti í Áfengisvarnaráði frá því Alþingi kaus í það fyrst 1954 þar til hann varð fjármála- ráðherra 1965. Þá sagði hann af sér og varamaður hans, Páll V. Daníelsson forstjóri, tók við. Magnús Jónsson var fyrsti ritari Áfengisvarnaráðs og var það í áratug. Hann átti drjúgan þátt í að móta starfshætti og viðhorf. Að því höfum við búið alla tíð. Til hinstu stundar var hann hollur ráðgjafi og tryggur leiðsögumaður þeim sem vildu vinna að heil- brigðu og fögru mannlífi, frelsun fólks úr fjötrum áfengis og ann- arra vímuefna. Skarpskyggni og góðvild mót- uðu afstöðu hans. Á tímum þegar „Oft er það með ákefð varið eymd og neyð sem stafar frá, fram það logna blákalt barið, blindir þér sem eiga að sjá,“ haggaðist Magnús Jónsson ekki. Viðhorf hans voru á bjargi byggð og goluþytur tísku og sýndar- mennsku, jafnvel þótt hann stæði úr nösum þeirra sem ættu að sjá sæmilega, raskaði í engu grund- vallarsjónarmiðum hans. Þau voru ávöxtur vitsmuna, óhvikullar réttlætiskenndar og óvenju næmr- ar skynjunar á fegurð óbrotinna og einfaldra lífshátta íslensks sveitafólks um aldir. Magnús Jónsson var það stór- brotinn að æðstu vegtyllur stigu honum ekki til höfuðs og urðu honum aldrei jökultindur hefðar. Því síður gerði hámenntun hann að sjálfbirgingslegum aivitringi. Bestu eðliskostir íslenskrar al- þýðu spegluðust í fari hans og störfum. Á fimmtudegi hittum við, tveir félagar úr bindindishreyfingunni, Magnús Jónsson á skrifstofu hans í Búnaðarbankanum. — Hann kvaddi okkur með hlyjum árnað- aróskum og hvatti til að láta ekki deigan síga í baráttunni fyrir heill og hamingju íslensks fólks. Að morgni næsta dags var hann horf- inn úr veröld vor manna. En hvatning hans varir. Guð blessi ástvinum hans minn- inguna um fágætlega heilsteyptan mann og góðan dreng. Guð gefi íslendingum sem flesta menn honum líka. Ólafur Haukur Árnason Við dánarbeð Magnúsar Jóns- sonar langar mig til að mega flytja þakkir frá þeirri fjölskyldu sem féll í hans hlut að kynnast eftir að hann kvæntist fyrir rúm- um þrjátíu og þrem árum. Fyrst vil ég þakka fyrir hönd tengdafor- eldra hans, móður minnar og föð- ur. Þeim reyndist hann alla tíð eins og skilgetinn sonur. Og frá okkur öllum hinum, sem áttum hann að bróður og vini, er mér einnig ljúft að þakka við leiðarlok. Ef til vill urðu hinir miklu eðl- iskostir Magnúsar augljósastir í viðmóti hans við fjölskyldu sína, konu, bðrn og bamabörn, sem honum voru svo hjartfólgin, einn- ig okkur hin sem stóðum fjær. Þar gat hann varpað af sér áhyggjum stjórnmála- og veraldarvafsturs, opnað hjarta sitt, sagt hug sinn allan. Og aldrei var þar annað að finna en það eitt sem prýða má þann best sem er frábærlega vel af guði gerður og engu hefur glatað af góðu veganesti í andviðrum lífs- ins. í dag verður það trúlega rifjað upp sem einkum mun tryggja Magnúsi veglegan sess í stjórn- mála- og atvinnusögu þjóðarinnar, minnst á ævintýrið um sveitapilt- inn sem ruddi sér braut af eigin rammleik til ágætrar menntunar og mikilla mannvirðinga. Vonandi gleymist þá ekki að geta þess að Magnús var í hópi þeirra sárafáu manna sem ávinna sér í miklum ábyrgðarstöðum engu síður virð- ingu og aðdáun andstæðinga en jábræðra. Þess verður einnig eflaust minnst að Magnúsi tókst með stálvilja og frábærri þrautseigju að ljúka fullum starfsdegi um langt árabil eftir að sjúkdómur hafði lamað starfsþrek hans fyrir rúmum áratug. En ég vona að ekki gleymist þá að geta þess að aldrei heyrðist hann kvarta um and- snúin örlög en reyndi jafnan að láta það gleymast öðrum að hann gengi ekki heill til skógar, og leit- aðist við að njóta þeirrar lífsfyll- ingar sem unnt var að fá innan þeirra takmarka sem afleiðingar sjúkdómsins settu. Vitanlega er það mikið hryggð- arefni að sjúkleiki skyldi leggja þröskuld á framabraut Magnúsar í stjórnmálum, torvelda honum dagleg störf og gera hann ófæran um að njóta eðlilegs lífs. En „gull prófast í eldi“. Án þessarar þungbæru lífsreynslu myndum við ekki í dag hafa hugmynd um þá hetjulund sem einkenndi síðustu æviár Magnúsar. „En skugginn er, þegar á allt er litið, afsprengi ljóssins," segir Zweig í hinni frá- bæru bók sinni „Veröld sem var“. Þess vegna leikur nú birta hetj- unnar, sem rís gegn myrkum ör- lögum, um minningu Magnúsar Jónssonar. Og hið eftirminnilega fordæmi hans mun verða mörgum þeim til hvatningar sem ákveða að sannreyna ágæti finnska spak- mælisins um sterkan vilja er brýt- ur sér jafnan braut, jafnvel gegn- um granítið grátt. Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem öðru fremur grundvallaði þann mikla trúnað og frábæra traust sem Magnús naut alla tíð, þá var það hið óskeikula brjóstvit hans. Hann gat á svipstundu greint kjarna frá hismi mála og skýrt frá rökstuddum skoðunum sínum af festu en þó miklum hlý- leik og virðingu fyrir viðhorfum annarra. í afstöðu til allra mála var hann strangheiðarlegur og vék aldrei frá þeim málstað sem hann taldi hverju sinni réttan. Þrátt fyrir fastmótaðar hugmyndir um menn og málefni var hann beiskjulaus, sáttur við guð sinn og samferðamenn og þakklátur fyrir hverja þrautalausa stund. Engan hef ég vitað sleppa jafn vel við brunasár úr eldi mikilla valda og mannvirðinga. Þess vegna urðu þar engin ör, allt jafn slétt og fellt og það hafði áður ver- ið í uppvextinum hjá foreldrunum góðu að Mel. Öll sýndarmennska var honum víðs fjarri, látlaus en virðuleg framkoma eðlislæg. Ljúfustu minningar frá langri samfylgd okkar Magnúsar verða tengdar honum, brosmildum, léttmálum og hjartahlýjum, í hópi fjölskyldu okkar. Þar fann ég best hve frábæran dreng og mikinn ágætismann Magnús Jónsson hafði að geyma. Vegna þess veit ég örugglega að þeir sem þekktu hann best sakna hans nú sárast. Dapurlegt er að hann skyldi verða að falla skyndilega fyrir aldur fram. Já. Skyndilegt var það, enda þótt við værum lengi búin að óttast að lífsþráður hans væri veikur. Fimmtudagskvöldið 12. þ.m. sátum við saman á heimili mínu. Við skemmtum okkur stórvel. Seinna rifjaðist það upp að þetta kvöld hafði Magnús einmitt verið óvenju stálsleginn, slunginn við spilaborð, spaugsamur í spjalli og þakklátur fyrir ljúft kvöld. Ég stóð svo á tröppunum og horfði á eftir þeim þar sem Magnús gekk út að bifreiðinni studdur af Ingi- björgu. Svo óku þau brott. Stuttu síðar var hringt. Heimferðin hafði gengið að óskum. Við skiptumst á kveðju- og þakkarorðum. Einn af mörgum unaðslegum fundum var á enda. Og gott var að ganga til hvílu í fullvissu þess að við ættum enn eftir að lifa saman ótal marg- ar ljúfar stundir. Ekkert var fjar- lægara en dauðinn þetta janú- arkvöld. Um nóttina brá hann sigðinni. Sigurður Magnússon Magnús Jónsson varð fjármála- ráðherra árið 1965 og gegndi því starfi til 1971. Það kom því í hlut Magnúsar Jónssonar að stýra fjármálum ríkisins þegar áföllin vegna þriðjungs samdráttar í út- flutningstekjum þjóðarinnar dundu yfir á árunum 1967 og 1968. Þáttur Magnúsar í lausn þess vanda verður líklegast aldrei met- inn til fulls. Hann var réttur mað- ur á réttum stað og með réttsýni sinni, kjarki og staðfestu reyndist hann sá klettur, sem þjóðinni var nauðsyn á í þessum þrengingum. í tíð Magnúsar Jónssonar urðu grundvallarbreytingar í fjármála- stjórn ríkisins, sem hann leiddi farsællega. Ég átti því láni að fagna að vera einn í hópi nokkurra ungra manna, sem hófu störf hjá Magn- úsi, þegar hann var fjármálaráð- herra. Sá tími, sem við störfuðum undir stjórn Magnúsar var okkur öllum ómetanlegur skóli. Hann var kröfuharður húsbóndi en rétt- sýnn og raungóður. Magnús hafði lag á því að sýna undirmönnum sínum þannig traust, að því vildi enginn bregðast. Vinnuálagið var oft mikið og vinnudagurinn lang- ur, en við minnumst þessara daga í samstarfi við Magnús með ánægju og þakklæti. Það vega- nesti, sem við höfðum með okkur frá því samstarfi út í lífið verður honum aldrei fullþakkað. Blessuð sé minning hans. Stcinar Berg Björnsson Haustið 1939 settist sá er þessar línur ritar í Menntaskólann á Ak- ureyri. Þar var margt forvitnilegt og skemmtilegt að sjá og upplifa. Mannval var þar mikið meðal kennara og nemenda sem vakti at- hygli og aðdáun þeirra er nýir komu í skólann. Frá þessum vetri minnist ég m.a. sérstaklega eins nemanda, sem með vasklegri framkomu sinni og í senn prúð- mannlegri setti svip á lífið í skól- anum. Þessi maður, Magnús Jónsson frá Mel, varð síðan vinur minn er við sóttum laganám sam- tímis í Háskóla Islands og bjugg- um lengi í nábýli á Nýja stúdenta- garðinum. Samskipti okkar voru mikil á þessum tíma. Við lásum nokkuð á sama stað, við sóttum saman skemmtanir, við ræddum mikið um pólitík, við höfum sér- staka samvinnu varðandi frétta- öflun af gangi heimsstyrjaldar- innar m.a. með því að hlusta mikið á breska útvarpið og þannig mætti lengi telja um samskipti okkar í leik og námi. Allir sem kynntust Magnúsi hlutu að finna óvenju- lega mannkosti er hann hafði hlotið í vöggugjöf. Það fór heldur ekki á milli mála að hæfileika sína til starfa, þ. á m. forystustarfa, vildi hann heill og óskiptur gefa þjóð sinni. Enda varð Magnús frá Mel áhrifamikill leiðtogi og afar farsæll í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Ég rek ekki í þessum fáu línum afrek Magnúsar Jóns- sonar. Það munu aðrir gera. Mig langar fyrst og fremst til þess að láta í ljósi þakkir mínar fyrir gömul kynni og góðar minningar. Ég sendi eiginkonu Magnúsar Jónssonar, frú Ingibjörgu Magn- úsdóttur, og þeirra fjölskyldu allri innilegar samúðarkveðjur og bið þeim Guðs blessunar. Eins og fyrr er getið þá vöktu eiginleikar Magnúsar Jónssonar athygli og aðdáun við fyrstu kynni. Hann var mjög vel á sig kominn bæði andlega og líkam- lega. Vitsmuni hans og starfsgetu ber enginn brigður á. Það sem einnig kom strax í hugann voru ótvíræðir forystuhæfileikar, fast- mótaðar skoðanir og hæfni til þess að vinna að framgangi þeirra, m.a. með góðum penna að ógleymdri óvenjulega glæsilegri mælsku úr ræðustól, og framkomu allri, bæði í einkalífi og opinberu hlutverki. Sá hópur er lauk prófi í lögum frá Háskóla íslands 1946 er því miður farinn að þynnast, og nú síðast með fráfalli Magnúsar Jónssonar. Við sem eftir lifum lít- um til þeirra daga með eftirsjá en eigum þó minningu þeirra daga til að ylja okkur við. Hin síðari ár leið oft langur tími milli þess að við Magnús hefðum skipti saman. En í hvert sinn er svo bar til þá var Magnús ævin- lega í viðmóti eins og við hefðum verið á Nýja Garði í gær. Þetta segir líka sína sögu um Magnús Jónsson frá Mel. Vilhjálmur Árnason Kveöja frá bekkjarbróður Hann hófst til mikilla áhrifa og valda af sjálfum sér, þessi fátæki en dugmikli, skagfirski sveita- drengur. Hann átti enga valda- menn að, né aðra pótintáta að bakhjarli. Hans beið aðeins að stíga efsta þrepið upp metorða- tröppurnar eða streitustiga stjórnmálanna þegar örlaganorn- irnar lustu hann þeirri lömun, sem bægði honum frá æðsta valdastólnum og skildi hann eftir óvígan sem væntanlegan leiðtoga og foringja flokks síns. En þar hátt uppi í því úlfabæli valdastóla eru veður öll válynd og þar gnauða oft kaldir vindar. Viðkvæmar og tilfinninganæmar sálir bogna eða brotna, en hinir standa af sér alla óvæga storma og stórviðri stjórn- málanna án þess að depla auga. Þar fer jafnvel stundum lítið fyrir vináttu og bræðraböndum nán- ustu samherja þegar auður ráð- herrastóll er í augsýn. Hver veit nema betur hefði far- ið ef þessi sí-sóandi og eyðslusjúka þjóð hefði lengur notið aðsjálni og búandlegrar sparsemi hins gætna og dygga fjárhirðis frá Mel. Fáum hefði tekizt betur að lægja ófrið- aröldur meðal flokksbræðra sinna. Að minnsta kosti hefði þessi makalausa þjóð ekki getað speglað glannalega ásjónu sína og póker- fés í galtómum ríkiskassanum eins og í dag. Þrátt fyrir margvíslega mögu- leika náði Magnús aldrei að spill- ast. Heiðarleikinn og ærlegheitin voru honum í blóð borin ásamt órofa trygglyndi. Hann var við- kvæmur undir niðri eins og marg- ir ættmenn hans og framsæknir frændur af Skeggstaðaætt. Ef það er nokkurri ætt til inntektar að peðra úr sér sem flestum alþingis- mönnum, þá á sú húnvetnska Skeggstaðaætt metið. Hefir hún getið af sér rösklega tuttugu slíka síðan sá fyrsti þeirra, Jón Pálma- son eldri í Stóra-Dal, settist á þingbekkina einhverntíma upp úr miðbiki síðustu aldar. Magnús frá Mel var flóðmælsk- ur og vildi vel. Hann var gæddur fjölþættum gáfum og miklum hæfileikum, sem sómt hefðu hon- um sem farsælum foringja og þjóðskörungi. Magnús var góð- menni og sannur sonur sveitar sinnar. Hér áður fyrr meðan heils- an leyfði hvarf hann í sumarleyf- um norður á æskustöðvar í Skaga- firði til að hjálpa öldruðum for- eldrum við heyskapinn meðan aðr- ir héldu til suðrænna sólarlanda. Hann var ástsæll meðal okkar bekkjarsystkinanna, allt frá glöðu og Ijúfu skólaárunum á Akureyri. Við getum sætt okkur við, að hugsun hans og gáfnafar var óskert eftir áfallið. Eins getum við nú látið huggast þar sem síðara áfallið sendi hann ekki til ævi- langrar og ósjálfbjarga stofnunar- dvalar. Þannig á dauðinn líka til með að vera líknsamur. Óskiljanlegar og furðulegar eru gerðir og duttlungar forsjónarinn- ar eins og að hremma þann sem sízt skyldi, hinn vammifirrta og hreinlundaða, sem aldrei sté al- varleg víxlspor á vandförnum vegi dyggðanna eða bergði nokkru sinni af göróttum bikar Bakkus- ar. Á meðan létu örlaganornirnar okkur hina í friði, okkur syndasel- ina og ábyrgðarlausu slæpingjana, sem fáum ennþá að leika lausum hala og njóta óáreittir lystisemda lífsins án þess að hafa til þess unnið. Mikið munum við gamlir samstúdentar sakna hans á bekkj- arhófum, þar sem þau ágætu hjón, Magnús og Ingibjörg, létu sig sjaldan vanta og héldu hvað mest uppi fjörinu. Við söknum hans ekki sem bankastjóra og áhrifa- manns, heldur vegna hins, að fyrir hugskotsjónum okkar var hann alltaf sami gamli, góði Magnús okkar frá Mel. Örlygur Sigurðsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.