Morgunblaðið - 30.12.1984, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 30. DESEMBER 1984
37
mikil hækkun til bænda eða
11,8%. Hins vegar voru niður-
greiðslur lækkaðar að krónutölu í
maí 1984. Höfðu þær þá staðið
óbreyttar frá ágúst 1983 og á sum-
um vörum, t.d. kindakjöti og
nautakjöti frá júní 1982. Niður-
greiðslur sem hlutfall af vöruverði
hafa því stórlækkað á undanförn-
um tveim árum. Þess vegna hafa
þær vörur, sem mest voru greidd-
ar niður, hækkað mjög mikið til
neytenda. Hefur þesi þróun rýrt
samkeppnisstöðu þessarar vöru og
valdið sölutregðu, enda ekki verið
þagað yfir verðhækkunum land-
búnaðarvara, en skýringar á
orsökum þeirra hækkana síður
verið túlkaðar fyrir almenningi.
Hinn 1. mars var smásöluálagn-
ing á kindakjöti og nautakjöti gef-
in frjáls nema í heilum og hálfum
skrokkum. Hefur þessi ákvörðun
aukið samkeppni um sölu þessarar
vöru, en nokkuð hefur borið á
óeðiilega háu verðlagi í einstöku
verslunum. Samásöluálagning á
þessa vöru var mjög lág og enn er
álagningin lág á heila og hálfa
skrokka. Enn er ekki að fullu ljóst
hvort þessi ákvörðun verður til
hagsbóta fyrir framleiðendur og
neytendur, en aukið frjálsræði I
ákvörðun vöruverðs er mjög í
tísku um þessar mundir.
Framleiösla
Mjólkurframleiðsla jókst mikið
á fyrri hluta ársins, en á síðari
hluta dró úr framleiðslu miðað við
árið á undan. Gera má ráð fyrir að
mjólkurframleiðslan verði um 109
milljónir lítra, sem er rúmlega 2%
aukning frá fyrra ári.
Slátrun sauðfjár var verulega
minni á þessu hausti en undanfar-
in ár. Samkvæmt bráðabirgðatöl-
um var dilkakjötsframleiðsla um
10.635 tonn á móti 11.048 tonnum
1983 og kindakjötsframleiðslan í
heild tæplega 12.213 tonn á móti
12.789 tonnuni 1983. Fallþungi
dilka var mun meiri í haust en
undanfarin ár eða 14,65 kg á móti
13,92 kg 1983.
Framleiðsla nautakjöts hefur
aukist verulega milli ára. Sala
hefur verið svipuð og undanfarin
ár, en birgðir ungneytakjöts auk-
ist.
Framleiðsla svínakjöts og
kjúklingakjöts virðist enn hafa
aukist nokkuð en skýrslur eru enn
ekki fyrir hendi um heildarmagn
þessarar framleiðslu. Ekki liggja
heldur fyrir skýrslur um hrossa-
kjötsframleiðslu, en nýlunda er,
að flutt voru út milli 5 og 6 hundr-
uð lifandi hross til siátrunar.
Uppskera kartaflna og annarra
garðávaxta var góð á árinu, eink-
um var kartöfluuppskera mikil um
austan- og norðanvert landið. Um-
talsverð aukning varð í fram-
leiðslu loðskinna og hefur verð
fyrir þau farið hækkandi.
LokaorÖ
Eins og fyrr segir hefur fram-
leiðsla hefðbundinna landbúnað-
arvara minnkað til muna frá því
sem var 1978, en þá var hún mest.
Þegar skipulegar samdráttarað-
gerðir hófust í mjólkur- og kinda-
kjötsframleiðslu gerðu menn sér
vonir um að geta mætt minnkandi
framleiðsiu með sparnaði á að-
föngum. Þær vonir brugðust ekki
síst vegna erfiðs árferðis. Bændur
söfnuðu skuldum bæði vegna
framkvæmda og hallareksturs á
búunum. Á þessu ári hefur farið
fram breyting á lausaskuldum um
700 bænda í föst lán. Flestir eru
þessir bændur ungir og því vaxt-
arbroddar bændastéttarinnar.
Lánin eru að fullu verðtryggð eða
gengistryggð. Þrátt fyrir þessar
skuldbreytingar eiga bændur I
vaxandi örðuleikum fjárhagslega.
Árferði var tiltölulega gott í land-
inu á þessu ári. Spretta hvers kon-
ar jarðargróða var yfir meðallag
og sums staðar með ágætum.
Óþurrkar ollu þó erfiðleikum um
sunnan- og vestanvert landið. Hey
eru víða létt, bæði vegna hrakn-
ings og þess að grös spruttu úr sér.
En til þess að búa bændum var-
anlegt fjárhagslegt öryggi þarf
meira en eitt gott sprettuár. Meiri
öryggi * fóðuröflun og fjölbreytt-
ari framleiðsla eru undirstaða
þess, að blómleg byggð haldist í
sveitum landsins og afkomulegt
jafnræði verði með borg og byggð.
Ragnar S. Halldórsson
Ragnar S. Halldórsson,
formaður Verzlunar-
ráðs íslands:
Hvað fór
úrskeiðis — hvað
er til ráða?
Við lifum einatt í þeirri von að
sérhvert ár skili okkur nær settu
marki. Þegar upp er staðið sjáum
við þó oft að árin hafa liðið hjá án
verulegra umskipta. Við hefðum
getað gert betur.
Ár vona og vonbrigða
í efnahagslegu tilliti var árið
1984 bæði tími mikilla vona og
mikilla vonbrigða. I upphafi árs
stefndi í jafnvægi. Verðbólga var
á niðurleið og tiltölulega hófsamir
kjarasamningar höfðu verið gerð-
ir. Um stund virtist sem unnt væri
að beina öllum kröftum þjóðarinn-
ar að uppbyggingu.
Þegar líða tók á árið sló hins
vegar í bakseglin. Efnahagslegar
þversagnir komu fram, svo sem að
ýmsar þjónustugreinar blómguð-
ust á höfuðborgarsvæðinu á sama
tíma og sjávarútvegur leið fyrir
tekjumissi vegna minnkandi sjáv-
arafla. Viðskiptahallinn við út-
lönd jókst á nýjan leik. Hvað fór
úrskeiðis?
Hér geta margar skýringar ef-
laust átt við. Ég vil nefna þrjár:
— 1 fyrsta lagi var látið hjá líða
að takast á við skipulagsvanda
í sjávarútvegi og landbúnaði. 1
skjóli byggðastefnu og mis-
vægis atkvæða (40% kjósenda
velja 60% þingmanna) var á
undanförnum árum hvatt til of
mikilla fjárfestinga, sem hafa
ekki getað skilað arði. Slík
byggðastefna er og hefur alltaf
verið láglaunastefna.
— í öðru lagi var gengi íslensku
krónunnar of lágt skráð.
— Síðast en ekki síst hélt ríkis-
sjóður áfram að eyða um efni
fram. Með því var ýtt undir
umframeftirspurn, sem skap-
aði spennu og misvægi og tor-
veldaði samstarf ólíkra hópa á
erfiðum tímum.
Við þessi skilyrði reyndist auð-
velt að hvetja til ófriðar á vinnu-
markaðnum, en að vísu var gert
meira úr misvæginu en efni stóðu
til. Knúið var á um launahækkan-
ir sem allir vissu að engin inn-
stæða var fyrir og afleiðingin
blasir við: Verðbólgan æðir af stað
á ný, en launþegar fá engar raun-
verulegar kjarabætur. Hvenær
læra menn af reynslunni?
Auðvitað hefðu fyrirtæki og ein-
staklingar einnig getað hagað sér
skynsamlegar, en ríkisvaldið
sjálft gekk á undan með slæmu
fordæmi þvert gegn öðrum
markmiðum sínum um aðhald og
jafnvægi í efnahagslífinu. Jafn-
framt þessu gekk ríkissjóður hart
fram á innlendum lánamarkaði,
yfirbauð vexti banka og sparisjóða
og skemmdi fyrir þeirri þörfu
nýbreytni að leyfa frjálsræði í
vaxtamálum.
Bætum lífskjörin
íslendingar hafa gengið í gegn-
um efnahagslegar þrengingar. t
kjölfar óstjórnar í efnahagsmál-
um um langt árabil hafa þjóðar-
tekjur minnkað þriðja árið í röð.
Við þessar aðstæður er ekki unnt
að hækka laun landsmanna al-
mennt, en við hljótum þó alltaf að
setja okkur það markmið að bæta
lífskjörin. Um það geta allir verið
sammála, þótt deilt sé um leiðirn-
ar.
Því miður er ekki útlit fyrir að
þjóðartekjur vaxi á næstu árum
og menn binda ekki vonir við að
viðskiptakjör batni. Ekki er því að
vænta hagsbóta úr þeirri áttinni.
Árangur síendurtekinna yfirlýs-
inga síðastliðinna 10 ára um sér-
staka hækkun lægstu launa er
nánast enginn. Reynslan hefur því
kennt okkur að erfitt er að breyta
launahlutföllum í kjarasamning-
um. Fjárfesting í nýjum atvinnu-
greinum nú getur ekki skilað sér í
bættum lífskjörum fyrr en að
nokkrum árum liðnum. Ekki virð-
ist því vera um auðugan garð að
gresja. Hvað er þá til ráða?
Við verðum að horfast í augu
við staðreyndir og viðurkenna þær
takmarkanir sem við erum háðir
um leið og við könnum þá mögu-
leika sem eru fyrir hendi. Friður á
vinnumarkaði er nauðsynleg for-
senda framfara, enda hafa koll-
steypur í efnahagslífinu í kjölfar
vinnudeilna leikið okkur grátt
fyrr og nú. Einnig ríður á miklu að
við skoðum fordómalaust alla þá
möguleika sem fyrir hendi eru í
gjaldeyrismálum til að auka
viðskiptalegt öryggi og tryggja að-
hald í efnahagslífinu. Til dæmis er
tímabært að velta því fyrir sér
hvort smáþjóð á borð við íslend-
inga geti haldið uppi eigin pen-
ingakerfi og tryggt um leið stöð-
ugleika.
Ennfremur þurfum við að koma
í framkvæmd efnahagsstefnu sem
miðar að uppbyggingu. Efla þarf
almennan skilning og koma á víð-
tækri samstöðu um eftirfarandi
stefnumið:
— Samið verði til langs tíma um
óbreyttan kaupmátt launa
meðan þjóðartekjur vaxa ekki.
Launakjör verði bætt smám
saman eftir því sem raunveru-
leg verðmæti aukast.
— Grundvallarbreytingar verði
gerðar á efnahagskerfinu sem
örvi framtak einstaklinga til
uppbyggingar í efnahags- og
atvinnumálum.
— Aðhaldi verði beitt í ríkis-
fjármálum og einkafyrirtæki
setji sér markmið um aukna
framleiðni.
— Arðsemi fyrirtækja heima í
héraði verði undirstaða blóm-
legrar byggðar en horfið verði
frá byggðaláglaunastefnu fyrri
tíma.
— Skipuleg samvinna ólíkra
hagsmunahópa og mismunandi
byggðarlaga verði tekin upp til
að efla skilning þeirra i milli
og leggja áherslu á sameigin-
lega hagsmuni.
Náist samkomulag um stefnu af
þessu tagi er von til að við getum
unnið okkur út úr vandanum á
sem skemmstum tíma. Ef við
höldum áfram stöðnuðu hags-
munakerfi í efnahags- og atvinnu-
málum og ófriður ríkir á vinnu-
markaðnum miðar okkur ekkert
áleiðis.
Þegar þenslan á höfuðborgar-
svæðinu varð lýðum ljós, var reynt
að kenna þjónustugreinunum um
hvernig til tókst án þess að litið
væri á efnahagslegt samhengi eða
hlutverk þessara greina. Verslun
og þjónusta eiga að svara eftir-
spurn eftir vöru og þjónustu á sem
hagkvæmastan hátt. Því hlutverki
hafa þessar greinar skilað með
prýði.
Þótt margt hafi farið miður í
stjórn efnahagsmála varð ánægju-
leg þróun í verðlagsmálum. Frjáls
verðmyndun var innleidd á flest-
um almennum neysluvörum með
glæsilegum árangri, enda hafa
verðkannanir leitt í ljós, að vörur
með frjálsri verðmyndun hafa
hækkað minna en aðrar vörur.
Lætur nú ekki hátt í þeim, sem
áður höfðu talað mest gegn
frjálsri verðmyndun.
Seljum ríkisfyrirtækin
Ríkisvaldið er umsvifamikið í
atvinnurekstri, þrátt fyrir að fáir
telji að atvinnurekstur sé betur
kominn hjá hinu opinbera en í
höndum einstaklinga. Eitt af for-
gangsverkefnum næsta árs ætti
því að vera að losa ríkisvaldið úr
beinum atvinnurekstri. í grófum
dráttum má skipta atvinnufyrir-
tækjum hins opinbera í þrennt:
— Fyrirtæki sem hafa lent í eigu
ríkisins að hluta eða öllu leyti
fyrir tilviljun eða hafa verið
stofnuð af misskilinni hug-
sjónamennsku.
— Fyrirtæki sem ríkisvaldið hef-
ur stofnað eða tekið yfir til að
efla atvinnulífið á einhverjum
tíma.
— Fyrirtæki sem eru talin veita
ákveðna tegund af almennings-
þjónustu, til dæmis veitustofn-
anir.
Þessi skipting ætti að geta orðið
til glöggvunar á því hvaða ríkis-
fyrirtæki eigi að selja og í hvaða
röð. Að vísu eru ekki allir á eitt
sáttir hvort ríkið eigi að reka
fyrirtæki í síðasttalda flokknum,
en flestir munu þó sammála um að
ríkið eigi að hafa þar hönd í bagga
á einn eða annan hátt. Fyrirtæki í
hinum tveim flokkunum ætti hins
vegar tvímælalaust að setja á
sölulista.
Við stöndum nú frammi fyrir
þeirri staðreynd að ríkið hefur
sett á stofn mörg fyrirtæki, meðal
annars til að efla atvinnu. Slík af-
skipti ríkisvaldsins af atvinnulíf-
inu eru alltaf varhugaverð. Öllu
máli skiptir þó að markmiðið var
að koma viðkomandi fyrirtæki af
stað, en ríkisreksturinn var ekki
markmið í sjálfu sér, enda hefur
ríkisvaldið enga yfirburði í
rekstri, nema síður sé. Því á ríkið
skilyrðislaust að draga sig í hlé
um leið og fyrirtækin eru komin á
rekspöl. Éðlilegast væri að breyta
þeim ríkisfyrirtækjum sem á að
selja í hlutafélög til að greiða
fyrir sölu þeirra smám saman.
Flestir, ef ekki allir, stjórnmála-
flokkar hafa tekið undir þetta
sjónarmið.
Það er yfirlýst stefna núverandi
ríkisstjórnar að selja ríkisfyrir-
tæki. Éfndir hafa hins vegar verið
litlar ef frá eru taldar aðgerðir
iðnaðarráðherra, en hann hefur
verið athafnasamur á þessu sviði.
Mættu aðrir ráðherrar feta í
fótspor hans á nýju ári.
Víglundur Þorsteinsson
Víglundur Þorsteinsson,
formaður Félags
íslenskra iðnrekenda:
Heimskulegir
kjarasamningar
Það sem hæst ber á árinu 1984
eru tvennir heildarkjarasamn-
ingar sem gerðir voru á árinu.
Annars vegar febrúarsamn-
ingarnir sem tóku sæmilega
raunhæft mið af ástandinu í þjóð-
félaginu og stefndu að því að
stöðva frekari lífskjaraskerðingu
en orðin var í lok ársins 1983,
þrátt fyrir enn frekari samdrátt
þjóðarframleiðslu á árinu, og hins
vegar haustnáttasamningarnir
sem í reynd voru samningar
samninganna vegna, án nokkurra
markmiða.
Til grundvallar febrúarsamn-
ingunum lá tilraun til að stöðva
frekari lífskjaraskerðingu en þá
sem þegar var orðin og jafnframt
ákveðinn vilji samningsaðila til að
varðveita þann árangur í barátt-
unni við verðbólgu sem náðst
hafði.
Miðað við gengis- og verðlags-
forsendur ríkisstjórnarinnar fyrir
árið 1984 var vinnuveitendum
ljóst, að febrúarsamningarnir
lögðu á þá 5—6% raunverulega
hækkun launa.
Launahækkun sem þeir yrðu að
mæta með bættum rekstri, auk-
inni framleiðni í fyrirtækjunum,
það töldu vinnuveitendur mögu-
legt vegna þess stöðugleika sem
var að skapast í þjóðfélaginu,
stöðugleika sem febrúarsamn-
ingarnir tefldu ekki í teljandi
hættu, þegar tekið var mið af boð-
aðri stefnu ríkisstjórnarinnar í
ríkisfjármálum og gengismálum.
Þegar leið á árið kom í ljós, að
áætlaður samdráttur þjóðar-
framleiðslunnar myndi reynast
minni en talið var í ársbyrjun. Sú
breyting varð fyrst og fremst
vegna þess að þrek ríkisstjórnar-
innar til að hafa taumhald á ríkis-
fjármálum brast. Opinberar fram-
kvæmdir fyrir erlent lánsfé
keyrðu úr hófi fram með þeim af-
leiðingum að veruleg spenna reis á
vinnumarkaðnum á síðastliðnu
sumri, spenna sem hlaut útrás í
yfirborgunum á vinnumarkaðin-
um.
Við þessar aðstæður, þegar ljóst
var orðið að ríkisstjórnin hafði
sniðgengið sína eigin stefnu í
ríkisfjármálum, datt botninn úr
febrúarsamningunum og flest
verkalýðsfélög sögðu samningun-
um upp.
Eftirleikurinn er öllum í fersku
minni. Haustnáttasamningarnir
sem undirritaðir voru í byrjun
nóvember.
Samningar sem að mínu mati
eru þeir heimskulegustu sem hér
hafa verið gerðir eftir sólstöðu-
samningana margfrægu 1977. Þótt
of seint sé að iðrast eftir dauðann,
er okkur eigi að síður nauðsynlegt
að horfast í augu við fánýti þess-
arar haustsamningagerðar ef það
gæti orðið til þess að forða okkur
frá slíkum mistökum síðar.
I samningaviðræðunum var tek-
ist á um tvær meginleiðir, annars
vegar hina svokölluðu skattalækk-
unarleið ASÍ og VSÍ og hins vegar
prósentuleið BSRB.
Skattalækkunarleiðin mótaðist
smátt og smátt i löngum viðræð-
um VSI og tveggja landssam-
banda innan ASl, eftir að við-
ræðuaðilar höfðu gert sér ljóst að
eina raunhæfa leiðin til einhverr-
ar kaupmáttartryggingar fælist i
lítilli verðbólgu sem unnt væri að
ná með lágum prósentuhækkunum
launa samhliða skattalækkun að
því tilskyldu að slíkri skattalækk-
un yrði mætt með niðurskurði
ríkisútgjalda. Ljóst var að þessi
leið átti miklu fylgi að fagna með-
al launafólks í verkalýðsfélögum
innan ASÍ. Öðru máli gegndi hins
vgar um forystu BSRB sem snerist
strax öndverð gegn öllum hug-
myndum um skattalækkanir og
lágar launahækkanir.
Jafnframt reyndist samnings-
aðilum ASÍ og VSÍ það fjötur um
fót, hversu reikul ríkisstjórnin var
í afstöðu sinni. Þrátt fyrir endur-
teknar yfírlýsingar formanna
stjórnarflokkanna um vilja til að
beita sér fyrir skattalækkun sem
lið í kjarasamningageröinni komu
ítrekað fram önnur sjónarmið hjá
einstökum ráðherrum í ríkis-
stjórninni, sem grófu undan tiltrú
samningsaðila á það að skatta-
lækkunum yrði mætt með þeim
niðurskurði sem nauðsynlegur var
til að halda verðbólgunni í skefj-
um.
Þar birtist á nýjan leik það
vilja- og getuleysi þessarar ríkis-
stjórnar til að taka á ríkisfjármál-
unum, sem leitt hafði af sér þensl-
una sem sprengdi febrúarsamn-
ingana.
Það er nú fyrirsjáanlegt að
kaupmáttur haustnáttasamn-
inganna mun hrapa niður úr öllu
valdi á síðari hluta samningstím-
ans vegna þeirrar óðaverðbólgu-
hrinu sem samningunum fylgir.
Verði ekkert að gert, verður kaup-
máttur samninganna kominn
langt niður úr meðalkaupmætti
síðasta ársfjórðungs 1983 strax
næsta vor. Fari svo, vaxa mjög lík-
urnar á því að kjarasamningarnir
haustið 1985 verði lítið annað en
endurtekning á haustsamningun-
um 1984 með sömu afleiðingum og
þá.
Okkur er brýn nauðsyn á að
koma í veg fyrir slíka þróun.