Morgunblaðið - 05.02.1991, Qupperneq 21
Það sem á sunnudag var fullbúið einbýlishús á Leifs-
stöðum liggur nú á víð og dreif um túnið. Á innfelldu
myndinni stendur Eygló Birgisdóttir við nýju þvottavél-
ina sem verður varla notuð úr þessu.
Austur-Landeyjar:
Við horfðum á húsið okkar
hreinlega springa í loft upp
- segir Eygló Birgisdóttir á Leifsstöðum í A-Landeyjum
Hvolsvelli.
NÝREIST einbýlishús á bænum Leifsstöðum í Austur-Landeyjum
fauk um hádegi á sunnudag. Ekkert er eftir nýtanlegt af húsinu
og liggur það eins og hráviði um túnin. Húsið var í eigu ungra
hjóna sem höfðu nýlokið við að reisa það og selja í stand.
„Við horfðum á húsið hreinlega
eins og springa í loft upp klukkan
15 mínútur fyrir tólf á sunnudag-
inn,“ sagði Eygló Birgisdóttir á
Leifsstöðum en hún og maður
hennar, Auðunn Leifsson, áttu
húsið.
„Við vorum alveg tilbúin að
flytja inn í nýja húsið okkar, búin
að mála allt og setja í stand, við
áttum bara eftir að setja gólfdúk
á eitt herbergið. Þetta var viðlaga-
sjóðshús, svokallað gámahús, sem
við keyptum og reistum hér, u.þ.b.
70 fermetrar að stærð. Við þökk-
um bara guði fýrir að hafa ekki
verið flutt í húsið, þá værum við
líklegast ekki til frásagnar. En
við vorum búin að flytja megnið
af búslóðinni okkar svo við misst-
um svo að segja allar okkar eig-
ur“, sagði Eygló.
Þau hjónin höfðu nýkeypt inn-
anstokksmuni og heimilistæki fyr-
ir um hálfa milljón króna, en höfðu
ekki enn tekið allt úr umbúðúnum
og þessir munir liggja nú á víð
og dreif í allt að kílómeters fjar-
lægð frá húsinu. Innbúið var ekki
tryggt.
Eygló sagði að fjósþakið hefði
einnig að mestu fokið og nú sætu
þau bara og biðu eftir að rafmag-
nið kæmi. Ekki var búist við að
rafmagn kæmist á fyrr en seinni-
partinn á mánudag en margir
staurar brotnuðu í Landeyjum í
óveðrinu. Þar fór rafmagn af á
sunnudagsmorgun. Svo virðist að
skemmdir hafi orðið á allflestum
bæjum í Landeyjum.
Flóinn:
Hlaðan fór fram á götu
Selfossi.
TÍU METRA há tré lögðust á hliðina, rúður í gamla kaupfélagshúsinu
brotnuðu, gróðurhús molnuðu og þakplötur losnuðu á nokkrum húsum,
þar á meðal íþróttahúsi Gagnfræðaskólans á Selfossi. Björgunarsveitar-
menn á Selfossi voru önnum kafnir allan sunnudaginn, líkt og félagar
þeirra á öðrum þéttbýlisstöðum.
í suðaustanáttinni á sunnudags-
morgninum varð eitt og annað undan
að láta. Nýr uppsláttur einbýlishúss
í Tjamarhverfi á Selfossi lagðist
saman og vinnuskúrar lyftust. Um
hádegið þegar suðvestanhvellurinn
skall á sviptust þakplötur af íþrótta-
húsinu og fleiri húsum. Hurð á flug-
skýli á Selfossflugvelli lagðist inn en
björgunarmönnum og eigendum
flugvéla tókst að forða tjóni á vélun-
um.
Mikið tjón varð á sveitabæjum í
Flóanum. Þök fuku í heilu lagi af
útihúsum og dæmi eru um að útihús
hafi lyfst í heilu lagi og splundrast.
Á Stokkseyri fuku þakplötur, hest-
hús eyðilagðist og hlaða á sjávar-
kambinum austarlega í þorpinu fauk
í heilu lagi milli húsa. „Þegar ég leit
út var hliðin farin úr hlöðunni og
þegar ég ætlaði að huga að þessu
þá var hlaðan farin fram á götu
milli húsanna," sagði Jón Kristinsson
á Stokkseyri, eigandi fjárhússins og
hlöðunnar.
í austanáttinni um morguninn
fauk mikill sandur inn um sjávarhlið
á gamla varnargarðinum og hlóðst
í skafla á lóðunum fyrir innan. Jón
sagði að sandinn hefði skafið eins
og snjó inn um sjávarhliðið. Þá flett-
ist torfið á Þuríðarbúð af henni fram-
anverðri og blakti í vindinum.
Á Eyrarbakka voru björgunar-
sveitarmenn í önnum allan daginn.
Þar fauk þak af gamalli hlöðu og
hesthús í miðju þorpinu eyðilagðist.
Veðurhamurinn náði hámarki milli
flóða þannig að aldrei var nein hætta
af sjávarflóðum á Eyrarbakka og
Stokkseyri.
Þegar ekið var um götur á Eyrar-
bakka og Stokkseyri og víðar mátti
sjá viðbúnað manna. Kaðlar voru
strengdir yfir gömul hús til að halda
niðri þakplötum, límband var innan
á stórum rúðum og skjólveggir voru
stífaðir af. Útifyrir ströndinni byltist
svo sjórinn í brimgarðinum þegar
fjallháar öldurnar brotnuðu. Og á
Selfossi strókaði upp af Ölfusá þegar
vatnið skóf í mestu vindhviðunum.
Sig. Jóns.
Jón Kristinsson á Stokkseyri við tóftina á hlöðunni sem fauk.
Hvolsvöllur:
Flaug 3 metra
og rotaðist
Hvolsvelli.
ÞAÐ VAR mikil mildi að ekki fór
verr fyrir Guðfinni Guðmanns-
syni byggingameistara þegar
hann var að reyna að loka stórri
hurð á trésmíðaverkstæði sínu.
„Við vorum að reyna að loka
• stórri flekahurð þegar félagi
minn fór að ná í kúbein. Þá kom
snörp vindhviða og ég vissi ekki
af mér fyrr en ég raknaði úr rot-
inu. Þá lá ég á sandhrúgu 3 metra
frá hurðinni. Hún hafði þá slegist
í höfuðið á mér og þeytt mér
þessa vegalengd," sagði Guðfinn-
ur. Hann slapp ótrúlega vel, en
fékk aðeins skurð á höfuðið og
sagðist vera dálítið dofinn.
„Annars er allt meira _og minna á
tjá og tundri hjá mér. Á trésmíða-
verkstæðinu opnuðust stórar hurðir,
ein þeirra sem er 250 kg að þyngd
þeyttist 100 metra í loft upp og lenti
á planinu hjá Sláturfélaginu í um
300 metra fjarlægð. Sem betur fór
lenti hún á auðu planinu. Inni á
trésmíðaverkstæðinu eyðilögðust
hurðir og milliveggir gáfu sig og
- allt er fullt af sandi og drullu. Við
erum að reisa hús hjá Sláturfélag-
inu. Þar gaf sig mótauppsláttur og
lagðist niður. Kaffiskúrinn tókst á
loft og splundraðist.
Ég rek hér einnig söluskála, þar
brotnuðu rúður og fylltist allt af
sandi og drullu svo að við þurftum
að þrífa allt. Þar fauk bensíndæla,
skilti og útiborð með áföstum bekkj-
um. Þau tókust á loft og við þökkum
bara fyrir að þau komu ekki inn í
búðina. Þau liggja núna hérna úti á
túninu. Annars er þetta nú ekki svo
mikið hjá mér. Það hafa svo margir
orðið fyrir tjóni, sérstaklega í sveit-
unum, sagði Guðfinnur að lokum.
Hann varð fyrir einna mestu tjóni
hér á Hvolsvelli. Víða varð fólk fyr-
ir smávægilegu tjóni s.s. rúðubrot-
um, þar sem möl þeyttist í gegnum
rúður og inn í hús.
Mesta tjónið virðist hafa orðið í
sveitunum, þar eru fáir bæir sem
hafa sloppið. Sérstaklega urðu göm:
ul útihús og skemmur illa úti. í
Fljótshlíð fuku sumarbústaðir og
víða varð mikið tjón þar.
Fjárhús fuku við bæinn Vindás á
Rangárvöllum. Húsfreyjan þar stóð
við gluggann og sá að járnið var
farið að losnað á fjárhúsunum. Hún
ætlaði að teygja sig í sjónauka en
þegar hún leit út aftur voru íjárhús-
in horfin. Þessi saga er lýsandi fyrir
þann mikla veðurofsa sem hér var
á sunnudag.
- S.Ó.K.
Þorlákshöfn:
Gamla kaup-
félagshúsið
bundið niður
með köðlum
Þorlákshöfn.
I óveðrinu sem gekk yfir landið
um helgina varð töluvert tjón i
Þorlákshöfn en guðsmildi að ekki
fór verr því veðurhamurinn var
gífurlegur og man undirritaður
ekki eftir öðru eins.
Björgunarsveitarmenn voru kall-
aðir út snemma á sunnudagsmorgun
og voru að stanslaust fram á kvöld
og hafa margir haft á orði að þeim
megi að hluta þakka að ekki fór verr.
Þeir settu kaðla á þak gamla
Kaupfélagshússins og njörfuðu niður
en þess eru menn hér minnugir að
þetta sama þak flaug nokkra tugi
metra í heilu lagi fyrir nokkrum
árum, en það fór ekki langt núna
þó það sé að vísu laust frá húsinu.
Þakplötur fuku af stórum hluta
Meitilsins og klæðning og plötur af
fleiri húsum í bænum. Veiðihús sem
veiðifélagið átti og var nýlokið við
tókst á loft og leystist upp í frum-
eindir þegar það lenti. Tjaldvagnar,
hestakerrur, auglýsingaskilti og
fleira lauslegt fauk um bæinn.
Nokkrar rúður brotnuðu ýmist undan
veðurhamnum eða eitthvað fauk í
þær.
- J.H.S.
Magnús Gíslason gefur hrossum sínum væna tuggu utandyra.
Stokkseyri:
Hrossin fundu veðrið á sér
Selfossi.
„Hrossin hafa alltaf komið inn í hesthúsið þegar ég gef á
garðann en núna stóðu þau fyrir utan og góndu á dyrnar. Ég
reyndi að reka eina hryssuna inn en það var ekki við það kom-
andi að þau færu inn,“ sagði Magnús Ingi Gíslason varðstjóri á
Stokkseyri en hesthús hans splundraðist í veðrahamnum á
sunnudag.
,Eg gat komið tveimur trippum
inn en þau hlupu út aftur og þá
var ekkert annað að gera en loka
og bjóða hrossunum góða nóttþar
sem þau stóðu og góndu á húsið.
Á sunnudagsmorguninn varð
mér órótt vegna þeirra þegar ég
heyrði í veðrinu. Eg leit út og sá
þá hvar hesthúsið bókstaflega
þandist út eins og blaðra og
sprakk síðan í loft upp.
Það er alveg á hreinu að hross-
in vita mikið meira en við menn-
irnir. Ég hef oft tekið eftir óró-
leika hjá hrossunum við veðra-
brigði. Það var svo greinilegt
þarna um kvöldið að þau vildu
ekki koma nálægt húsunum,"
sagði Magnús.
Sig. Jóns.