Óðinn - 01.01.1935, Page 28
28
Ó Ð I N N
þau mistu þar Björn son sinn. Sumarið 1893 fluttust
þau til Vesturheims. Vigfús sonur þeirra andaðist á
leiðinni, og hafði hann slrax og hann varð lasinn
verið tekinn frá þeim, og sáu þau hann svo ekki fyr
en líki hans var varpað í sjóinn, og þegar á land kom
var móðirin sett í sóttkví með yngri stúlkuna. Þetta
og fleira hafði þau áhrif á þennan tilfinningaríka og
fastlynda mann, að hann festi ekki yndi í Ameríku,
en dreif sig strax á næsta ári heim affur með konu
og dætur. Fóru þau fyrst að Nesi í Loðmundarfirði
til Páls Ólafssonar, sem átti fyrir seinni konu Ragn-
hildi, systur Margrjetar. En á næsta vori fóru þau
að búa á parti úr Vakurstöðum í Vopnafirði. Árið
1899 fluttust þau aftur að Nesi í Loðmundarfirði, en
dvöldu þar aðeins árlangt og fluttu svo aftur að
Vakurstöðum á sama partinn, sem eigandinn hafði
ekki viljað byggja öðrum, af því hann bjóst fastlega
við að Björn mundi ekki festa yndi í Nesi. — Konu
sína misti Björn 21. sept. 1901. Hafði hjónaband
þeirra verið hið ástúðlegasfa, enda var Margrjet sál.
ágætiskona, glaðlynd og hvers manns hugljúfi, greind
og tápmikil.
í annað sinn giftist Björn 2. maí 1903 Rannveigu
Nikulásardóttur, veitingamanns og borgara í Reykjavík,
jafetssonar gullsmiðs Einarssonar, er var bróðir Ingi-
bjargar konu ]óns forseta Sigurðssonar. Bjuggu þau
á Vakurstöðum þar til vorið 1910 að Björn keypti
Refsstað í sömu sveit og fluttist þangað, og þar
bjuggu þau í 20 ár. En þá hafði Björn að mestu
mist sjón og var nú orðinn þreyttur og slitinn; brá
hann því búi og flutti í kauptúnið.
Þau Rannveig og Björn eignuðust 3 börn, sem öll
eru á lífi: Gunnar, lærði húsasmíði, býr í Reykjavík,
kvæntur Margrjeti Björnsdóttur; Karl, lærði gullsmíði,
býr í Hafnarfirði, kvæntur Júlíönu Jónsdóftur, og
Margrjet, gift Kára bónda Tryggvasyni í Víðikeri í
Bárðardal, og dvelja nú gömlu hjónin þar hjá dóttur
sinni og tengdasyni. Auk þess er af fyrra hjónabandi
Björns á lífi í Winnipeg: Lára Guðrún, var hún gift
Guðmundi kaupmanni Arnasyni, sem andaðist þar
síðastl. sumar.
Björn Pálsson stundaði þannig ætíð búskap og
smíðar. Bú sitt stundaði hann af dugnaði og alúð,
og fáir þóttu. betri búendur, enda kom þar sem
annarsstaðar fram hygni hans og forsjá. Svo var
hann kyntur, að allir báru til hans fult traust, enda
var hann þektur að öllum heiðarleik og samviskusemi.
Tvíbýlinu á Vakurstöðum var viðbrugðið, því það var
þannig, að hvorugir vildu annan styggja í neinu, og
var það eins á báða vegu.
Smíðar Björns vóru eftirsóttar, hvort heldur vóru
skartgripir úr gulli eða silfri, skeiðar eða svipur, sem
allir vildu eiga. Alt var þetta grafið eða útsagað með
mestu snild. Gerði hann sjálfur allar teikningar sínar
mjög smekklega og snildarbragur var á allri vinnu.
Og það þurfti enginn að vera hræddur um að hann
fengi svikna vöru, sem keypti smíðar af Ðirni Páls-
syni. Lengi vel reyndi hann að sneiða sig hjá öllum
sveitarsökum, en svo fór að hann varð að fara í
hreppsnefnd og þótti þar, sem annarsstaðar, ætíð
koma fram til góðs. Hann var einnig lengi safnaðar-
fullfrúi.
©
Erling Ólafsson.
Fæddur 21. ágúst 1910.
Dáinn 23. desbr. 1934.
Þú elskaðir vor og ljóð og lag
og lifðir í töfra heimi,
úr blámóðu sástu bjartan dag
þjer brosa frá sólna geimi.
Þú gekst í listanna háreist hof,
þar hörpustrengurinn glóði,
og gladdir marga og gatst þjer lof
með glitrandi tónaflóði.
Og hrifningu fyltist hugur minn
á helgi leyndustu dóma,
er síðast jeg heyrði sönginn þinn
í sölum musteris óma.
En nú ertu horfinn seggjasveit
á sólbjörtu æfiskeiði,
þá æskumanns sálin örugg leit
sín áform á vona heiði.
]á, svona hverfið þjer, einn og einn. —
Hver elskandi fámáll stynur.
]eg óska þjer heilla, söngvinn sveinn,
og sólin blessi þig, vinur.
Hallgrímur Jónsson.
(9