Dagblaðið Vísir - DV - 08.11.1986, Qupperneq 19
LAUGARDAGUR 8. NÓVEMBER 1986.
63
Keisarinn sem varð garðyrkjumaður
- Bernardo Bertolucci undirbýr nú kvikmynd um síðasta keisara Kína
sem sá meiri breytingar á lífi sínu en flestir menn á tuttugustu öldinni
„Nú er ég hamingjusamur maður.
Það þekkti ég ekki áður. Þá var
ég böðull og saurlífisseggur og dek-
urdýr og skepna. Nú annast ég
þennan garð og þakka fyrir þann
heiður sem stjórnin hefur veitt mér
og Maó formaður að fá að vera
einn af alþýðunni. Ég er nýlega
kvæntur konu sem ég hef kosið
mér sjálfur. Niður með slæmar
venjur. Lifi Maó formaður." Þann-
ig talar síðasti keisari Kína yfir
íslenskum ferðalöngum í Foldu,
bók Thors Vilhjálmssonar, þar sem
ferðasögur tslendinga eru skop-
stældar með eftirminnilegum
hætti. En það eru fleiri en upp-
skáldaðir íslenskir ferðalangar í
Kínaför sem hafa rekist á P’u-yi
keisara. Kvikmyndaleikstjórinn
Bernardo Bertolucci á nú stefnu-
mót við þennan fræga mann.
Ævintýralegri
en ævintýri
Fyrir nokkrum árum lagði kunn-
ingi Bertoluccis eintak af ævisögu
P’u-yi, síðasta Kínakeisara, á borð
leikstjórans, sem lagði bókina til
hliðar. Hann hafði þá gert kvik-
myndirnar Before the Revolut-
ion, The Conformist, Last
Tango in Paris og 1900. Við gerð
siðustu myndarinnar hafði hann
kynnt sér baráttu ánauðugra kín-
verskra bænda fyrir betra lífi og
nýtt sér ýmislegt sem þar var að
finna í lýsingar á ítölskum bænd-
um. Og seint og um síðir ákvað
Bertolucci að renna í gegnum ævi-
sögu keisarans.
Éiginlega er hún ævintýralegri
en nokkurt ævintýri. P’u-yi var tí-
undi og síðasti keisari Ch’ing-
ættarinnar sem ríkti frá 1644 til
1912. Hann fæddist 1905 og settist
í hásætið þriggja ára gamall og sat
þar til 1912, þegar lýðveldið var
stofnað. Honum var samt leyft að
dvelja í borginni helgu í Peking og
stýrði sem fyrr hirð sinni og tólf
hundruð geldingum. 1924 var hann
hrakinn frá Peking og hélt norður
á bóginn til Tianjin. Þar lifði hann
þó enn í vellystingum pg velti fyrir
sér utanlandsför til Vesturlanda,
en þangað þráði hann að fara, ekki
síst fyrir áeggjan kennara síns,
Bretans Reginalds Flemmings Jo-
Þegar P’u-yi tók við keisaratign var hann ekki nema þriggja ára og að
því er virðist heldur venjulegt smábarn.
P’u-yi, siðasti Kínakeisari, sem Maó kallaði i gríni fyrirrennara sinn.
hnston en hann var að öllum
líkindum njósnari Breta.
í grasagarði formannsins
Arið 1934 hafði japanski herinn
náð á sitt vald mestum hluta Norð-
ur- Kína og gerði P’u-yi að keisara
yfir Mansjúríu. Eða eins og Thor
Vilhjálmsson lætur keisarann
segja í Foldu: „Ég var gjörspilltur.
Ég hjálpaði útlendingum að kúga
þjóð mína. Ég hjálpaði Japönum
að drepa múg manns í landi mínu.
Mikið var ég spilltur. Það var eng-
in óvera hvað ég var spilltur." 1945
féll hann svo í hendur Rússum og
þoldi Síberíuvist fram til ársins
1950. Það var árið eftir kommún-
istabyltinguna og Stalín samþykkti
að framselja hann til Kína sem
stríðsglæpamann.
P’u-yi dvaldi níu ár í fangabúðum
og var endurmenntaður. Maó for-
maður leysti hann síðan úr prí-
sundinni og fékk honum starf í
grasagarði Pekingborar. Það starf-
aði P’u-yi til æviloka en hann lést
úr krabbameini 62 ára gamall árið
1967.
Aðalleikari frá Hong Kong
Bertolucci sá strax að ævisaga
P’u-yi var fullkomið hráefni í kvik-
mynd og honum til mikillar furðu
voru stjórnvöld í Kína á sama máli.
Myndin um P’u-yi verður fyrsta
myndin, að heimildarmyndum frá-
töldum, sem gerð er af útlendingi
í Kína nútímans. Bertolucci hefur
jafnvel fengið leyfi til að njóta að-
stoðar Pujie, bróður keisarans, og
honum stendur til boða stúdíóað-
staða og leikarar í aukahlutverk,
enda mun ekki af veita; P’u-yi hafði
margt manna í kringum sig af ólik-
um ástæðum á hverju æviskeiði.
Bertolucci hefur farið þrjá meiri-
háttar leiðangra til Kína til að
kynna sér aðstæður og velja töku-
staði og þess á milli leitaði hann
vítt og breitt um hinn kínverska
heim að leikurum. John Lone, sem
lék foringja vondu kallanna í Year
of the Dragon, varð fyrir valinu
sem túlkandi P’u-yi, en Bertolucci
hreifst ekki aðeins af honum sem
leikara heldur af ferli hans. Átta
ára gamall var Lone settur til náms
við kínversku óperuna í Hong
Kong og mátti þola hvers konar
harðræði sem hluta af þjálfuninni.
Margt af þvi sem þar gerðist var
verra en Dickens gat ímyndað sér
í harmrænum firásögnum af illri
meðferð á litlum drengjum. Aðrir
helstu leikarar voru einnig valdir
utan alþýðulýðveldisins og Ber-
tolucci segist heillaður af þeirri
hugmynd að færa allt þetta fólk
nær uppruna sínum, til lands sem
það hefur aldrei augum litið.
Peter O’Toole leikur Reginald
Johnston en áhrif Johnstons á P’u-
yi voru mjög mikil á meðan hann
réð fyrir Mansjúríu og þjónaði Jap-
önum. Kjarni myndarinnar verður
þó samband P’u-yi við kommúnis-
tann sem fær það hlutverk að
„endurmennta” hann, og sam-
kvæmt handriti hefst myndin á för
keisarans fyrrverandi frá Síberíu
til föðurlandsins þar sem hann býst
við að verða líflátinn.
Hið óbreytta hlutverk
Bertolucci hefur sagt í viðtali að
hann geri sér þess ljósa grein að
hann fjalli um Kína og kínverska
sögu frá sjónarhóli Evrópubúans.
En honum er annt um sögu P’u-yi
og lítur á hann sem fórnarlamb.
Honum var alla tíð kennt að hann
ætti að vera fyrirmyndarborgari,
annað væri ekki keisara sæmandi
og þegar hann fær kommúniska
uppfræðslu, sem á að gera hann að
fyrirmyndar þjóðfélagsþegni, er
honum fátt kærara. Og þegar þeir
horfast í augu P’u-yi og fangavörð-
ur hans er báðum sama spurningin
efst í huga: Hefur keisarinn P’u-yi
nokkuð breyst? Er félagi P’u-yi
ekki enn að leika svipað hlutverk
og fyrr?
-SKJ
Heimildir: Thor Vilhjálmsson: Folda,
ísafoldarprentsmiðjan, Reykjavík,
1972, og American Film, okt. 1986.