Dagur - 17.12.1985, Blaðsíða 7

Dagur - 17.12.1985, Blaðsíða 7
6 - DAGUR - 17. desember 1985 17. desember 1985 - DAGUR - 7 „Huldufólkstrú var mikil á Dalvík“ - segir Jóhann S. „Það er aldrei hægt að segja um það fyrirfram, hvort fram- hald verður á þessum skrifum,“ sagði Erlingur Davíðsson, rithöfundur, en nú er 14. bindi af „Aldnir hafa orðið“ komið út og 5. bindið úr bókaflokknum „Með reist- an makka“. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessi rit, svo kunn eru þau orðin og vinsæl. Báðar bækurnar eru með stærra móti að þessu sinni, „Aldnir“ 384 blaðsíður og „Makkinn“ 288 blaðsíður. Forsíðumyndin á hestabókinni er af Penna, Magna í Árgerði, frægum hesti. Erlingur gat þess í stuttu spjalli að hann vissi ekki til þess að annar hestur ætti sérstak- an sumarbústað. Penni á sumar- hús, einn út af fyrir sig, sem girt er sérstaklega og þar er ríki hans. Hann er alveg sérstaklega þrifinn í umgengni. Erlingur sagði að sér hefði verið sagt að svo hreinlegt væri í sumarhúsinu hans Penna að það væri engin frágangssök að leggjast þar á gólfið. Hann hefði farið og litið á herlegheitin og komist að raun um að lítið hefði verið ofsagt í þessum efnum. í sumarhúsi Penna er ekki þessi dæmigerða hesthúsalykt, enda er aldrei migið og skitið þar inni. Þar er fjalagólf eins og í baðstof- um í gamla daga og einu óþrifin eru svolítið ryk úr heyinu. Dyr- um sumarbústaðarins er aldrei lokað, nema þegar merar koma í heimsókn. Þær áttu það til að sóða út húsakynni Penna. Frá þessu er meðal annars sagt í bók- inni „Með reistan makka“. En við ætlum að grípa niður í kafla í bókinni „Aldnir hafa orðið“, og sá sem þar talar er Jóhann S. Sigurðsson, formaður frá Dalvík: „Huldufólkstrú var mikil á Dalvík í æsku minni og ýmsar sagnir heyrði ég um huldufólk þótt ég yrði ekki svo frægur að sjá það. Skammt ofan við Háagerði er Melrakkadalur. Þar er skál ein og í henni stór steinn, nefndur Kirkjan. Þar bjó huldufólk, eða svo var mér sagt. Strákar klifruðu upp á Kirkjuna, en fyrst þegar ég man tókst mér það ekki. Oft var mikið af berjum á þessum slóð- um, ekki síst í kringum Kirkjuna. Fór ég þangað margar ferðirnar, bæði með systkinum mínum og leikfélögum. Einu sinni fórum við Rósa syst- ir og einhver sá þriðji upp í Mel- rakkadal til að tína ber því nóg var af þeim. Stundum vildu nú berin lenda upp í manni í stað þess að fara í berjafötuna. Mikið er af grjótinu í Mel- rakkadal. Á einum stað er flatur steinn og þar gafst á að líta. Við sáum þar marga súkkulaðibita, rúsínur og brjóstsykur af ýmsum gerðum. Fyrst horfðum við á þetta, al- veg agndofa af undrun en einnig af aðdáun. Strax kom okkur huldufólk í hug og það varð til þess að við þorðum ekki að sann- reyna ágæti þess, sem við nú höfðum fyrir augunum og stóð- umst allar freistingar. Móðir okkar hafði oftar en einu sinni sagt okkur að huldu- Sigurðsson m.a. í kaflanum um hann í „Aldnir hafa orðið“ fólk væri til. Aðrir kunnu frá huldufólki að segja og þeir voru svo miklu fleiri, sem sögunum trúðu en hinir. Og þeir hinir sömu trúðu þá auðvitað einnig því, að huldufólkið væri til. Hvernig mátti annað vera? Sann- leikurinn var sá, að þótt ég tryði hverju orði móður minnar, trúði ég einnig mörgum öðrum og vissi því hvorki upp né niður í þessu máli, hlaut þó fremur að hallast á sveif með „trúuðum“. Við trúðum varla okkar eigin augum og það var þess vegna, sem ég snerti varlega einn súkku- laðibitann með einum fingri. Hann hafði að nokkru bráðnað í sólarhitanum þarna á steininum og sat fastur. Við sögðum ekki aðeins móður minni söguna um veisluborð huldufólksins, heldur hverjum þeim er hafa vildi og margir hlustuðu með eftirtekt á frásögn okkar. Síðar fréttum við, að nokkur ungmenni hefðu lagt leið sína upp í Melrakkadal fyrir skömmu og þá lagt á borð fyrir huldufólk, eins og þau nefndu það, til þess sjálf að fá úr því skorið með óyggjandi vissu, hvort þarna væri raunverulega huldufólksbyggð. Fólkið raðaði góðgætinu á flatan stein í trú á það, að huldufólkið gerði sér að góðu. Þannig var nú huldufólkstrúin heima á þeim árum, a.m.k. hjá mörgum. En þegar við heyrðum þessa sögu, hlýt ég að játa, að huldu- fólkstrú mín dofnaði verulega. Það var svo sem ekki í fyrsta sinn sem hún mamma vissi betur en aðrir. En þessar nýjustu fréttir urðu til þess, að við fórum hið snarasta upp í fjall, gengum í Melrakka- dal og komum að ósnertu veislu- borðinu. En nú vorum við ekki feimin við góðgætið og gerðum okkur góða veislu, einhverja þá bestu sælgætisveislu sem ég man eftir! Við tókum upp á mörgu, krakkarnir í Háagerði og kotun- um í kring, enda þurfa börn og unglingar alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Við höfðum fregnir af því bræður, að hægt væri að dáleiða hænsni og ræddum um, að gaman væri að gera tilraun með þetta á hænsnunum móður okkar. Hæn- urnar voru sjö eða átta og með þeim skrautlegur hani. Einu sinni sem oftar var þeim gefið korn á hlaðinu heima. Við hófum þá tilraun okkar með dá- leiðsluna, gripum eina og eina hænu, strukum nokkrum sinum með handarjaðrinum um háls hennar og lögðum hana síðan á hliðina. Þannig fórum við með allar hænurnar og þær lágu eins og steindauðar, nema þær depl- uðu augum, eins og þær einar gera. Þá var nú aðeins haninn eft- ir og við ætluðum okkur að dá- leiða hann líka, en hann var styggur og lét okkur ekki ná sér. Eltum við hann í kringum bæinn og hann hafði hátt. Amma mín heyrði lætin í okkur, kom út í dyrnar og leist ekki á. Hún sagði: „Guð almáttugur hjálpi ykkur drengir. Hvað eruð þið eiginleg að gera við hænurnar? Hvað haldið þið að hún mamma ykkar segi?“ Við vissum það nú ekki en ekki þótti okkur það gott, ef móðir okkar kæmi nú út, stæði okkur að verki og færi að skamma okkur. Um leið og amma fór inn til að klaga okkur fyrir mömmu, flýtt- um við okkur að snúa öllum hæn- unum við og þá spruttu þær upp, ein af annarri og fóru samstundis að tína. Þeim varð ekki meint af svæfingunni. Þegar móðir mín kom út á hlað til okkar, dálítið þung á brúnina, sá hún ekkert óvenjulegt. Hænurnar voru hinar sprækustu og haninn var montinn eins og venjulega og hafði honum ekki orðið meint af hlaupunum. Þær voru andaktugar yfir öllu þessu, mamma og amma, en sögðu ekki margt. Móðir mín sagði að lokum, að við mættum ekki ónáða hænurnar því þá hættu þær að verpa og þá fengj- um við engin egg. Við lofuðum að láta þær í friði og efndum það, enda höfðum við komist að raun um sannleiksgildi dáleiðsluað- ferðarinnar. Messuferð að Völlum Áður en ég náði fermingaraldrin- um bar það til sumardag einn í góðu veðri, að ég og nágranni minn, Þórhallur Arnórsson á Upsum, ákváðum að fara til messu að Völlum næsta sunnu- dag. Ekki var það þó trúarþörfin, heldur ævintýraþráin, sem var undirrót þessarar fyrirætlunar. Nágranni minn, sem jafnframt var jafnaldri minn, fékk lánaða gráa hryssu föður síns og ég fékk lánaðan Bleik föður míns og voru þá báðir sæmilega vel ríðandi. Sunnudagurinn rann upp með blíðu veðri og árdegis sóttum við hestana og bjuggum okkur til ferðar eftir því sem efni stóðu til og best við kunnum. Engin brú var enn komin á Svarfaðardalsá, en okkur var vísað á vað eitt, ekki langt framan við Árgerði og þegar þangað kom voru reiðskjót- ar okkar mjög fúsir að fara þar yfir og við sáum það bæði og fundum, að við vorum á réttum stað, enda staðfestu hestarnir það. Áin var vel í kvið og gátum við kreppt fætur okkar svo mikið að við blotnuðum ekki. Riðum við svo fram í Velli. Margt fólk var þegar komið á kirkjustaðinn þegar okkur bar að garði og komu flestir ríðandi eins og við en aðrir á tveim jafnfljót- um. Ekki þekktum við aðra kirkju- gesti en nokkra bændur, sem við höfðum séð í kaupstaðarferðum á Dalvík. Og ekki vissum við hvað við áttum að gera við hest- ana. Góður staur nærri kirkjunni varð okkur til bjargar því við sáum strax, að þar gátum við bundið reiðskjóta okkar á meðan guðsþjónustan stæði yfir. Þarna tylltum við klárunum og ætluðum síðan að ganga í kirkjuna eins og aðrir. En áður en af því varð, varð mikið uppistand meðal hunda milli leiða. Okkur þótti þetta vert frekari athugunar, gengum þar að og sáum að hundarnir, heill sægur, rifust um Petit-súkkulaði, stórt og mikið stykki. Þar fer góður biti í hundskjaft, hugsuðum við víst báðir. En súkkulaðistykkið var enn heilt nema annar endinn var eitthvað nagaður og umbúðirnar rifnar. Við ræddum um, hvort við ætt- um að blanda okkur í samkeppn- ina og stóð hugur okkar mjög til þess. En þá mundi ég eftir því að hundafár hafði gengið f Svarfað- ardal og margir hundar drepist úr því. Kom hik á okkur og við hugsuðum okkur tvisvar um. Ekki vildum við sýkjast af hunda- fári. Hins vegar var annar endinn á súkkulaðistykkinu stráheill! Endirinn varð sá, að við steyptum okkur í samkeppnina og vorum búnir að góma súkku- laðið eftir fáein augnablik og stóðum nú með það í höndunum. Við þurrkuðum þann enda súkkulaðisins með grasi, sem nagaður var, en gerðum okkur í hugarlund ágæti hins endans. Óttinn við hundafárið kom þó í veg fyrir að við leggðum okkur góðgætið til munns. Á samri stund varð okkur ljóst, að við vorum komnir í ógöngur, en datt þá það snjall- ræði í hug að losa okkur við súkkulaðið á þann hátt, að gefa það einhverjum. Þá værum við lausir allra mála. Því var þó ekki að neita, að með því var verulega fórnað af okkar hendi. Kirkjugestir sem staðið höfðu í smáhópum úti undir kirkjuveggj- um, gengu nú í kirkju sína, enda kominn messutími, gott ef ekki var búið að hringja inn. Þá kom- um við allt í einu auga á unglings- pilt, er stóð einn sér og virti fólk fyrir sér eins og við. Heilsuðum við honum og tók hann vel kveðju okkar. Við gáf- um honum súkkulaðið og hann þakkaði okkur hjartanlega og hafði naumast lokið því er við skutumst inn í kirkjuna, sam- ferða körlum og konum úr sókn- inni. Við settumst nálægt dyrum og létum fara lítið fyrir okkur. Séra Stefán Kristinsson á Völl- um, hinn virti prestur og skör- ungur flutti guðsþjónustuna. Því miður man ég ekki neitt úr ræð- unni því ekki höfðum við setið lengi á kirkjubekk, þegar það rann upp fyrir okkur, að ungi maðurinn kom ekki inn í kirkj- una. Kannski var súkkulaðið bráðdrepandi. Við hvísluðumst á um þetta og við það magnaðist ótti okkar um allan helming. En hvað gátum við gert til að bjarga piltinum? Við þorðum ekki að hreyfa okkur og ganga út til að ná í piltinn og vara hann við. Það var svo áberandi og mikill dóna- skapur að standa upp undir messu og ganga út. Við gátum ekki annað gert, en beðið Guð að bjarga lífi piltsins. í hvert sinn er presturinn fór með bænarorð, tókum við undir þau með sjálfum okkur og reyndum að stilla þau inn á fyrirbænir vegna piltsins með súkkulaðið, ef hann væri ekki þegar kominn með hundafár eða dauður. Sjaldan hef ég kvalist eins mik- ið og þennan dag í Vallakirkju og feginn varð ég þegar messu lauk. En ég kveið því þó að koma út og rekast þar kannski á piltinn, sem að öllum líkindum væri orðinn fárveikur eða þegar liðið lík, sem var sennilegra. Með hjartslætti og sektar- kennd í hjarta gengum við út í sólskinið. Því varð ekki frestað sem fram átti að koma, hafði okkur verið kennt. En það fyrsta sem við sáum, var pilturinn margnefndi með bros á vör. Hann hafði næstum lokið við súkkulaðistykkið, átti aðeins eftir tvo eða þrjá munn- bita. Kvíði okkar breyttist í fögn- uð og var sem þungu fargi væri af okkur létt. Pilturinn kom þegar til okkar og þakkaði okkur á ný fyrir hina góðu gjöf. Síðan gengum við til hesta okkar og bjuggumst til heimferð- ar.“ Safnahúsið á Húsavík: Sýning Rögnu Hermannsdóttur og Asrúnar Aðalsteinsdóttur Um helgina var haldin sýning í Safnahúsinu á Húsavík. Ragna Hermannsdóttir, sem fædd er á Stóruvöllum í Bárðardal, sýndi þar grafíkmyndir. Ragna sem fædd er 1924 lauk stúdentsprófi 1979 og hefur síðan stundað myndlistarnám af kappi í Bandaríkjunum og Myndlista og handíðaskóla íslands og nú er hún við þriggja ára nám við Listaakadem- íuna í Amsterdam. Einnig sýndi Ásrún Aðalsteinsdóttir og voru flest verk hennar tauþrykk. Enda lærði Ásrún tauþrykk sem sérnám við myndlistaskólann. Hún býr að Hlíðskógum í Bárðardal og þar er hún að opna vinnustofu. Nokkur verk seldust á sýningunni, en aðsókn var dræm. Ljósavatn og Bjöm Þórhallsson Þar sem Ljósavatnsskarðið opnar sitt gullna hlið austur í gegnum fjallgarð- inn en höfuðáttir tapa máli og merk- ingu og verða í tali manna „hérna megin“ eða „hinum megin“, en þar sem tengjast handabandi byggðirnar allt frá Eyjafirði til Austurfjalla, er Ljósavatn. Þar í lægðinni birtist það manni og nokkuð óvænt. Nafnið eitt nægir til að nema staðar, hvað þá ef fjöllin speglast í fletinum undir hvíldarnótt, ellegar stíga sem endurnærð upp í himin sinn á sólskinsmorgni. Hér á mörkum skarðs og dala hillir hið forna og nýja höfuðból, sem líka heitir Ljósavatn. Þar inn með brekk- unni, þar sem Bárðardals er orðin landafræðin, stendur þessi bær undir háu fjalli. Héðan lá eitt sinn í órafjarlægð þráður á milli bæja. Þorgeir Ljós- vetningagoði átti móður þá er var sonardóttir Gnúpa-Bárðar á Lundar- brekku, að lesa má af bók. Bárður flutti með búfé sitt um Vonarskarð suður, en ekki með búsældina að kveðið var um, en Þorgeir fór á Þing- völl og mælti fram á Alþingi þau orð sem einna þyngst eru metin í sög- unni: „Vér skulum allir hafa ein lög og einn sið, því ef vér slítum í sundur lögin munum vér einnig slíta friðinn." Svo einfalt var það þá að stöðva ófrið á Alþingi, ef rétt er frá sagt, en mun nú hafa verið í umræð- um á nýloknu kirkjuþingi hvernig minnast bæri. Því orkar svo mjög á hug manns nú á haustdögum stuttum höfuðbólið Ljósavatn, frægðarsaga staðarins að fornu og nýju, hvað manni hafði ver- ið um kennt og hverjar minningar hafa orðið til tengdar eigin reynslu, að Björn Þórhallsson, sá merkilegi maður, tengdur þessum stað um meira en 60 ára ævi, hann andaðist 25. október næstliðinn á sjúkrahús- inu á Húsavík. Þó það væri öllum grátlegt harmsefni þegar slíkur mað- ur var orðinn veikur varð það ekki meira en söknuður og tregi þegar hann hvarf frá kvölinni. „Hér á Ljósavatni var lengi höfuð- staður sýslunnar, líkt og Oddi á Rangárvöllum," segir Jón fræðimað- ur í Ystafelli í sinni sagnfræðibók, og hann vitnaði til hinna fjölmörgu götutroðninga þar um breiðar grund- ir og rekja mætti aftur til goðans fræga, og finna mætti þar hoftætlur og síðan kirkjugrunna. En hér eru engar bátabrekkur eða drkkingarhyl- ir nema þar sem úðann leggur frá Goðafossi við Ljósavatnsland þar sem heiðnum guðatáknum var kast- að fram af brún, og tröllum að auki, að sagan segir. En hverjir voru svo þessir undra- menn, sem dvalið hafa þar á höfuð- bólinu næstliðin eitt hundrað ár? Björn Jóhannsson og Kristín, kona hans, Benediktsdóttir, prests í Múla, keyptu Ljósavatn árið 1884 og voru þau bæði nánir afkomendur Kristjáns á Illugastöðum, en við hann voru iíka í sterkum ættartengsl- um þrír langfeðgar, sem búið höfðu á Ljósavatni næstliðin 100 ár á undan Birni, „allir hinir mestu héraðshöfð- ingjar“, segir Jón í Ystafelli. Og svo voru forlagatengslin mér notaleg að Karl Emil Friðriksson, afi minn, fæddist inn til þessa fólks árið 1855 og var fóstraður þar upp hjá Sigurði Guðnasyni og konu hans, Björgu, sem var systir Hólmfríðar, móður Karls, en hann ávann sér þar manndóms- og virðingarstörf. Björn Jóhannsson byggði stóra timburhúsið handa sínu heimili, og var það fyrir nokkrum árum dregið af grunninum í heilu lagi til þess stað- ar er sjá má það, vegna annars mikl- um mun stærra húss sem þeir byggðu á staðnum, bræðurnir Hreinn og Björn Þórhallssynir og verður síðar að vikið. Og enn byggir Björn Jóhannsson, timbursmiður og kirkjubóndi, og nú kirkjuna, sem enn stendur þar, bráð- um 100 ára gömul, óskekkt á grunni sínum og bíður valkosta, verður endurbætt, máski vent til eftir höf- uðáttum, sem hún ekki fékk stefnu af þegar smíðuð var, og fagurgerðan turn, þann sem Björn ætlaði henni líka, en ekki varð. Það gengu upp peningar á þeirri tíð við að inna af hendi stórvirki, þó ekki hétu dollar- ar, rúblur eða pund eins og erlend lán hundrað árum síðar. Rís kannski minningarkirkjan - aldamótakirkjan - Þorgeirskirkjan, sem mörgum finnst við hæfi að ein þjóð ætti hlut að, en á sér nú þegar sjóðstofnun, tengda nöfnum gefenda en bundna hugsjón og merkum, einstæðum at- burði. - En tíminn líður á Ljósa- vatni. Þau hjónin, Jenný Karitas Björns- dóttir og Þórhallur Björnsson, flytja að Ljósavatni árið 1924, ekki auðug af lausafé en áttu sér þetta höfuðból, með nokkrum þreytublæ eftir misæri mikil, og sett á leigu um árabil en hefir heimt þau heim. Þó er þetta ekki rétt með öllu, því Tómas Björnsson, kaupmaður á Ák- ureyri, átti hálfa þessa föðurleifð þeirra bræðra, og snemma vissi ég það um Tómas og hann afsannaði það sem ég annars las oft ungur af blaði og enda oft síðan, að kaup- menn væru eitt af því sem þyrfti að varast umfram annað. Það er skemmst um að segja að þau Jenný og Þórhallur urðu strax héraðskunn eins og jörð þeirra hafði löngum verið, ekki aðeins af þeim persónutöfrum sem þau báru með sér og voru þeirra einkenni, heldur miklu fremur hvernig þau brugðust við viðfangsefnum sínum, sem þau völdu sér og þeim voru falin. 'Þórhallur var lærður og æfður listasmiður. Þess utan var hann meir en drátthagur, því hann var listmál- ari, þó ekki bærist á. Eitt sinn hafði hann hafið nám í dýralækningum og kynntist þá jafnvel fátækt og sulti. En frægastur varð hann af eljustarfi og listfengri kennslu sinni og stjórn á smíðadeildinni við Laugaskóla um áratuga skeið. Og má enn sjá og finna þann menningarstraum, sem hann vakti frá strönd og inn til dala, á þeim árum þegar naumast var til stólkríli að skjóta undir gest sem að garði bar, en þar allt í einu kominn armstóll með flúri, sem unglingsmað- ur hafði smíðað á Laugum. Annað varð starf Jennýjar á Ljósa- vatni, þar sem hún gætti landsíma- stöðvar um nokkur ár, einnar af sára- fáum í strjálbýlinu. Líka var þar við- komustaður landpósta, með hesta- hóp og samferðafólk og sífelldar gestakomur, tengdar staðnum og störfum þar. Og deila með mönnum, gestum og gangandi, heimamönnum og ungum börnum, öllu til fæðis og klæða og aðhlynningar, ef til vill út- deilt hér á kirkjustaðnum hinu raunsanna sakramenti. Og verður að teljast lífshamingja gömul meðhjálp- ara í minningum sínum að hafa kynnst slíku fólki. Hver var hann svo, þessi Björn Þórhallsson, sem fluttist 7 ára bjartur sveinn að Ljósavatni með foreldrum sínum árið 1924. Ólst þar upp, elstur fjögurra systkina sinna, þriggja systra og eins bróður. Dó frá okkur öllum hinn 25. október síðastliðinn, var lagður í vígða mold sinnar heimajarðar hinn 2. nóvember, nærri eins og táknstafur í helga sagnabók staðarins? Hver getur svarað því el-. staðarins? Hver getur svarað því ell- egar skilgreint þá staðreynd sem Hann var kannski fugl sem flaug um víðáttur, - söngfugl, sem flaug með hljóminn innra með sér í brjóstinu, frá hugskoti sínu til hjartans, til annarra hreiður- búa að hlýja þeim og færa ljós. Þegar Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti fór um Þing- eyjarsýslu, þar á meðal um ná- grenni Ljósavatns, til að byggja heimilisrafstöðvar við bæjarlæk- ina, var Björn á Ljósavatni að- eins 11 ára gamall, en Bjarni í Hólmi þegar orðinn þjóðsagna- persóna sem kom við á bæjum í skyndiferð. Hann mældi fallhæð og vatnsmagn lækjarins eða ár- innar, með vasaúrið sem teljara í lófa sínum eða í mosahreiðri þar á bakkanum, fór heim og smíð- aði þessa aflstöð að öllu nema rafalnum. Notaði gjarnan efni úr strönduðu kaupfari þar á sandin- um. Bjó sér sjálfur í hendur smíðatólin, mætti á næsta vori með allt saman, og mælti fram úrslitaorðið með einu handtaki, - og það varð ljós. Það lýsti upp umhverfið, bægði frá kulda, ótta, einstæðingskennd og bölsýni, breytti hryggð barnsins í bros. Þannig var einmitt Björn Þór- hallsson. Hans tími var kominn, og hann tók tækninni fagnandi, tileinkaði sér ábendingar hennar og lausnir en trúði henni ekki fyr- ir kröfugerð sér til handa nema í hóflegum mæli. Sá sem fékk að lifa það var hamingjumaður. Hann tók að aka um vegi og vegleysur íslands, allar götur með ströndum fram og innst til dala um flestar sýslur landsins til að byggja aflstöðvar ljóss og hita. Hann sinnti kalli hvaðan sem kom og frá hverjum sem var. Og þó hann ætti þátt í margri frumsmíð og hugkvæmnis- verki stóð hann sífellt í viðgerð- um, innti af hendi marga dverga- smíði, gerði sem nýtt margt það sem aðrir töldu ónýtt. Með ólíkindum voru afrek þessa manns svo mörgum kæmi í hug afrendur kraftajötunn, met- hafi í keppnisgreinum ef þeir vissu ekki um annað, en það voru ekki hans greinar. Hann hefur varla boðið nokkrum manni til átaka, síst þeim er við litlu mátti, sem hefir hent stundum annarrar gerðar menn. Af brjóstviti og áunnum lær- dómi svo nærri stæði fullkomnun, að valda verkefni, sem sérfróðum gat orðið erfitt úrlausnar. Þannig talaði þjóðtrúin. Hann var kom- inn ! þjóðsagnaskrá, númerslaus - án orðu. Ef til vill var hans gamla þríliða í lífsreikningi: Trú, von og kærleikur. Sú dregur oft langt þeim sem vilja og kunna. Vissulega er þó notalegt til að vita að Björn væri efnalega sjálf- stæður maður eftir si.... íífaai- rakstur, eins og sumir orða þá tekjugrein, en hafa vitað hann búa við hófsemd í klæðaburði og slitlegan bíl, á meðan mest var um hans þjónustu en minnst um hans verðlagningu. En nú er orð- ið í síðasta lagi að bæta þar um þeim sem mest hafa þegið. Það er mönnum, - það ætti að vera mönnum viss opinberun að kynnast slíkum manni á tímum hinna miklu vonbrigða um líf- hætti manneskjanna „heima og erlendis" eins og orða má það. Þegar Birni á Ljósavatni varð ráða vant kvaddi hann ekki fyrst dyra að skrifstofum lærdóms- manna þar sem ýmsir segja gjarn- an að rýrni hið raunverulega framkvæmdafé. Hann ók í Ár- teig, þar sem býr frændi hans, hann Jón Sigurgeirsson. Þó margt sé líkt með þeim frændum er Jón þó trúlega landskunnari maður af hugviti sínu, hagleik og snilli, en saman hafa þeir margt afrek unnið, og að öllu saman- lögðu er upphefð að hafa átt þá að sveitungum. Menn gætu ætlað að rúmgóð væru þau réttindi, sem Birni hafa dugað til svo mikilla verka: Litlar og stórar orkustöðvar sem víða má finna og hlutdeild hans í stórbyggingum bæði heima hjá sér og annars staðar. Sjá má í nætursortanum glampandi ljósin, sem vöggubarnið og viðamikil fyrirtæki njóta saman, svo ólík að þörfum og gerð. - En það er hald manna að hann hafi haft þau rétt- indin best: Hin frjálsu fararleyfi og slysalaus. Hann átti samt meistarabréf til húsgagnasmíða þó varla hafi hann smíðað sjálfum sér sæti, en hurðir og gluggar í íbúðarhús voru stundum hans „aukabú- greinar" en varla þó atvinnu- rekstur. Ekki skráður til að fjalla um rafmagnsfræði eða eðlisfræði- formúlur, sem hann gerðist þó mikið kunnugur í fjölmörgum myndum. Nú eruð þið, lesendur mínir, farnir að hugsa margt, sem líka var meining mín. Þó má ekki undan draga, hvað þessi dáða- drengur, Björn á Ljósavatni, var skemmtilegur maður að ræða við, víðsýnn og tillögugóður, og horfði fram hjá smámunum og ásteytingaratriðum, - líka sveit- unga sinna, sent geta átt slíkt til þrátt fyrir að þeir eigi slíka menn. Svo miklar mannaferðir voru heim að Ljósavatni þann drunga- lega haustdag 2. nóvember síð- astliðinn að gátu minnt á það sem sögur segja frá þegar þar voru haldnar héraðssamkomur fyrrum; aldamótahátíð, mann- talsþing, kosningafundir, brúð- kaupsveislur. ellegar gleðimót Ljósavatnsskólans sem þar var merk stofnun um tíu ára skeið nokkru eftir síðustu aldamót sem mikið orð fór af. Ekki var um því- líkt að ræða, enda vetrardagur með aðsteðjandi norðanhríð um kvöldið en hins vegar fór þar fram jarðarför Björns Þórhalls- sonar þennan dag, og varð síðast- ur vitnisburður fólksins, hversu mikið er metið það sem fyrir það er gert, þrátt fyrir allt og allt. Það var viðstaddra dómur að sóknarprestinum, séra Sigurði Árna Þórðarsyni, tækist eftir- minnilega að mæla eftir þennan óvenjulega mann, þó þeir hefðu ekki verið Iengi kunnugir. Kannski er enn til viðbótar eðli verka hans og hugblær svona sterkt afl í líkingu við ljósið og hitann sem orkustöðvar hans geisluðu frá sér. Vel mætti hugsa sér það. Það var jafnvel þröng mikil við þá erfidrykkju sem fór fram í íbúðarhúsi staðarins sem mun þó vera eitt mesta sinnar tegundar frá nýliðnum árum. Og það var líkast sem stórmannleg verk- menning og alúð liðinna kyn- slóða sameinaðist hér forsjá hús- bændanna og systranna hans Björns. Og enn er komin ný kynslóð þess fólks sem færist mikið í fang. Ég bið öllum þeirn blessunar sem besta má veita. Jón Jónsson, Fremstafelli.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.