Dagur - 26.08.1986, Blaðsíða 8

Dagur - 26.08.1986, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 26. ágúst 1986 Myndir og texti: G.Kr. Það var greinilegt að veðurguðirnir voru hlynntir húnvetnskum hestamönnum um síðustu helgi, því þegar um 30 manna hópur þeirra ásamt um 140 hestum var að leggja upp í þriggja daga ferð inn á hálendið, fór þokunni sem legið hafði yfir, óðum að létta ogfyrr en varði skein sól í heiði og komið var hiðfegursta veður. Eg hitti ferðalangana við Grímstungu í Vatnsdal, en þaðan var lagt upp á föstudagsmorgni og þangað skyldi aftur komið á sunnudagskvöld. Til að fræðast um leiðina og ferða- tilhögun tók ég Grím Gíslason frá Blönduósi tali en hann er í ferðanefnd hestamannafélagsins Neista ásamt hjónunum Ein- ari Svavarssyni og Sigríði Hermannsdóttur á Hjallalandi. - Er farin svona ferð á hverju ári á vegum Neista? „Við höfum reynt að fara fiest ár einhverja ferð en það hefur ekki verið farið svona langt og ekki svona stór hópur. Við höf- um verið svona á milli tíu og tuttugu venjulega, og verið þá eina nótt í burtu.“ - Og eru þeir sem fara í þessa ferð eingöngu félagar í Neista eða kemur fólk víðar að? „Ferðin er skipulögð og farin á vegum Neista, en hér eru með okkur hjón frá Hafsteinsstöðum í Skagafirði, sem Iétu flytja hrossin sín hingað í bíl í gær og eru nú hér með okkur. Svo er Ægir í Stekkjadal með okkur og hann er með á milli tíu og tuttugu hesta. Hann kemur hér bara til að vera með okkur, sjá ókunnar slóðir og temja, en Ægir er mikið í tamn- ingum. Þannig að þetta er ákaf- lega frjálslega saman sett. Aðal- kjarninn er náttúrlega úr Neista, en það er engum bannað að koma með. Við höfum bara for- ystuna í þessu og deilum bara kostnaðinum niður á fólkið sem verður með, það er ósköp einfalt mál.“ - En hvernig flytjið þið svo allt ykkar hafurtask? „Pað fylgir okkur Lapplander jeppi sem rúmar mikið af fólki ef á þarf að halda og hann dregur yfirbyggða hestakerru þar sem farangur er geymdur. Svo er sam- eiginlegt mötuneyti og það er Björg á Sölvabakka sem verður okkar matmóðir og ætlar líka að vera á hestum þegar tími gefst, því að hún er ein af okkur og vill ríða hestunum þegar hægt er og njóta ferðarinnar." - Hvernig verður svo ferðinni háttað að öðru leyti? Hvert farið þið svona nánar tiltekið? „Við ríðum nú í fyrsta lagi hérna fram fyrir heiðargirðing- una og förum þar af baki við læk sem Sísvatnslækur heitir. Svo höfum við aðstöðu eða aðhald norðan við sand og þar ætlum við að ná nýjum hestum. Þar fáum við okkur kaffi áður en við förum á sandinn. Síðan verður haldið sem leið liggur beina leið suður í Fljótsdrög sem eru vestan undir Langjökli. Þetta er talin vera svona um 60 kílómetra leið og við reiknum með að verða um átta tíma á leiðinni. Fólkið er vel hestað og það er gott veður, ekki nema mitt sumar og hrossin eru flest öll vel undirbúin. Þar er leit- armannaskáli með 16 kojum og þar gistum við og svo verður bara tjaldað. Svo er þarna hesthús fyr- ir um 20-30 hesta og við getum tjaldað inni í hesthúsinu ef þarf og tekið af okkur alla vinda.“ - Þar með lýkur fyrsta degi. Hvernig verður svo laugardegin- um varið? „Kveðumst á við góðar vættir í FljótsdrögumÉ „Við verðum um kyrrt í Fljóts- drögum á morgun ef veður leyfir. Við hrekjumst ekki þaðan nema veður verði eitthvað sérstaklega slæmt. Og við ætlum að nota tím- ann og ríða vestur að Réttarvatni og Arnarvatni og ef bjart verður förum við kannski upp á jökulstalla sem eru þarna austan í Langjökli. Þar er ákaflega stór- brotið landslag og gangnamenn kannast vel við sig. Eg hef komið þar oft og hlakka til að koma þangað núna ef bjart verður.“ - Verður farin sama leið heim aftur eða verður eitthvað annað á döfinni þá? „Við komum hér ofan aftur hvort sem við förum beinustu leið eða ríðum austur yfir Vants- dalsá og norður á Hábót sem kallað er, sem er hérna fyrir framan Forsæludal og norður múlann sem er austan við okkur og komum niður hjá Þórorms- tungu, en þetta fer bara eftir veðri og samkomulagi við fólkið. Við komum allavega hingað aftur á sunnudagskvöldið.“ - Eruð þið ekkert hræddir við drauga á Grímstunguheiðinni, það hefur heyrst sungið um drauga þar? „Nei, við erum ekkert hrædd þá. Það tilheyrir frekar Auð- kúluheiðinni. Við komum til með að kveða gangnamannavísur og syngjum, en við höfum verið ákaflega ríkir Vatnsdælingar af gangnavísum eftir kunna menn sem voru hér uppi, eins og Krist- inn Bjarnason og Björn Blöndal, Asgrím Kristinsson, Bjarna Kristinsson og Valda Kan. Þetta eru menn sem allir hagyrðingar kannast við. Af þessum mönnum er það bara Ásgrímur sem er enn hérna megin moldar. Og við kveðumst bara á við góðar vættir í Fljótsdrögum. Við þekkjum ekki annað en góðar vættir þar. En gjarnan vildum við náttúrlega hitta þarna Borgfirðinga eins og við gerðum hér áður fyrr þegar við áttum samleitir. Þá áttum við nótt í Fljótsdrögunum og sam- fund við Réttarvatn og svona nokkuð. En þetta er liðin tíð og kemur sjálfsagt aldrei aftur. En það er afskaplega bjart yfir þeim endurminningum í sambandi við þær göngur og leitir." Og að þeim orðum töluðum var Grími ekki lengur til setunn- ar boðið, því nú var samferðafólk hans sem óðast að tínast á bak fákum sínum og von bráðar riðu þeir fyrstu af stað með stóðið á eftir sér og síðastir fóru svo eftir- reiðarmenn sem sáu um að ekkert drægist aftur úr, jafnframt því sem það kom auðvitað í þeirra hlut að loka hliðum sem farið yrði um. Það var óneitanlega stórfeng- leg sjón að sjá allan þennan fríða flota leggja af stað, og ekki var alveg frítt við að ofurlítill öf- undarstraumur færi um undirrit- aðan.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.