Dagur - 13.12.1988, Blaðsíða 4

Dagur - 13.12.1988, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - 13. desember 1988 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 800 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 70 KR. GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMETRA 530 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON UMSJÓNARMAÐUR HELGARBLAÐS: STEFÁN SÆMUNDSSON BLAÐAMENN: ANDRÉS PÉTURSSON (íþróttir), ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, BJÖRN JÓHANN BJÖRNSSON (Sauðárkróki vs. 95-5960), EGILL H. BRAGASON, FRlMANN HILMARSSON (Blönduósi vs. 95-4070), INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON (Reykjavík vs. 91-17450, pósthólf 5452, 105 Reykjavík), MARGRÉT ÞÓRA ÞÓRSDÓTTIR, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, VILBORG GUNNARSDÓTTIR, LJÓSMYNDARAR: GUÐMUNDUR HRAFN BRYNJARSSON, TÓMAS LÁRUS VILBERGSSON, AUGLÝSINGASTJÓRI: FRIMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDIS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Greiðslukortajól Forráðamenn margra verslana hafa gripið til þess ráðs í jólaösinni að lengja greiðslukortatímabilið verulega, þ.e. að bjóða handhöfum Euro- og Visa- greiðslukorta að úttektarnótur þeirra verði geymd- ar fram á næsta greiðslutímabil. Það hefst ekki fyrr en 18. desember n.k. samkvæmt reglum þar að lút- andi. Þetta er gert til að freista þess að dreifa jóla- versluninni á fleiri daga en undanfarin ár, en reynslan hefur sýnt að jólaverslunin hefst ekki fyrir alvöru fyrr en nýtt úttektartímabil er byrjað hjá korthöfum. í sumum verslunum hafa úttektarnótur þannig verið geymdar frá 10. desember s.l. en meginþorri verslana hóf nýtt kortatímabil í gær, 12. desember. Þetta þýðir að þeir sem nota greiðslukort við inn- kaupin fram að jólum, þurfa ekki að greiða reikning- inn fyrr en 1. febrúar á næsta ári. Vaxandi hópur neytenda nýtir sér þessa þjónustu, enda þarf ekki mikið viðskiptavit til að sjá að mun betra er fyrir neytandann að nota greiðslukort og láta peningana sína liggja óhreyfða í banka til 1. febrúar, en að staðgreiða vörur og þjónustu án þess að fá nokkurn afslátt. Kaupmenn hafa hins vegar vaxandi áhyggjur af þessari þróun. Notkun greiðslukorta vex stöðugt, sem sést best á því að örtröð er í verslunum 18. hvers mánaðar, þegar nýtt greiðslukortatímabil hefst. Dæmi eru um að allt að 40% viðskipta í mat- vöruverslunum séu fjármögnuð með greiðslukort- um. Þrátt fyrir það verða kaupmenn að standa skil á söluskatti í byrjun hvers mánaðar, sem auðvitað reynist ákaflega erfitt, þegar þeir hafa einungis fengið rúman helming viðskiptanna greiddan. Vax- andi vanskil á söluskatti bera glöggt vitni um þessa þróun. Af þessum sökum hefur það færst í vöxt að kaupmenn selji úttektarnótur með verulegum af- föllum til banka og verðbréfafyrirtækja til þess ein- faldlega að fá reiðufé til daglegs rekstrar. Þessi afföll liggja á bilinu 3-7% eftir því hversu langt er í gjalddaga úttektarseðlanna. Ofan á þetta bætist svo að kaupmenn greiða vissan hundraðshluta í þóknun til greiðslukortafyrirtækjanna. Heildar- kostnaður vegna kortanna er kaupmönnum því afar þungur í skauti. Það segir sig sjálft að verslunareigendur bera ekki þennan kostnað sjálfir, þegar til lengri tíma er litið. Á endanum hlýtur neytandinn að borga brúsann, því ella gengur reksturinn ekki upp. Kostnaðinum er því velt út í verðlagið. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að þeir, sem enn hafa þann háttinn á að staðgreiða sín innkaup, njóti þess ekki á neinn hátt í vöruverði. Þorri þjóðarinnar hyggst nú halda svokölluð „plastjól" eða „greiðslu- kortajól" og fresta því að greiða reikninginn fram í febrúar, kaupmönnum til sárrar armæðu. Það er löngu orðið tímabært að korthafar greiði þann kostnað sem af notkun greiðslukortanna hlýst. Lenging úttektartímabilsins nú er enn ein staðfest- ing þess. BB. Það er staðreynd að nú í seinni tíð hefur atvinnumöguleikum kvenna í dreifbýli farið mjög fækkandi, segir Valgerð- ur í grein sinni um störf kvenna í dreifbýli. Valgerður Sverrisdóttir: Störf kvenna í dreifbýli Konur í sveitum hafa ekki hróp- aö á torgum yfir stöðu sinni í þjóðfélaginu. En staðreyndin er sú að þær hafa í gegnum áratug- ina og aldirnar unnið mikil og vanþakklát störf fyrir þjóðarbú- ið. Frásagnir af dugnaði og hetju- skap íslensku húsfreyjunnar hafa vakið undrun og aðdáun ungs fólks nú á tímum. Hver kannast ekki við að hafa heyrt af konunni sem kom upp tíu barna hóp ásamt því að stunda bústörfin og sinnti jafnvel að auki öldruðum rúmliggjandi foreldrum eða tengdaforeldrum. Auk þess að hafa unnið mikil- væg störf fyrir þjóðarbúið hefur sveitakona seinni tíma sparað mikla fjármuni með því að ann- ast börn sín sjálf á sínu heimili í stað þess að senda þau á dagvist- arstofnanir, kostaðar að verulegu leyti af opinberum aðilum. Þá má einnig nefna það að hún hefur matreitt og þjónað iðnaðarmönn- um sem komið hafa til starfa á búinu án þess að fá greiðslur fyrir. Ókeypis fæði er nefnilega viðbót á laun þeirra er koma til vinnu á sveitaheimilum. Það er eins og það hafi læðst inn í hugar- heim einhverra að maturinn í sveitinni kosti hvorki peninga né fyrirhöfn í tilreiðslu. Það er staðreynd að nú í seinni tíð hefur atvinnumöguleikum kvenna í dreifbýli farið mjög fækkandi. í öllum sveitum lands- ins eru fullfrískar konur sem vildu gjarnan, a.m.k. yfir vetrar- tímann, hafa aukin verkefni, auknar tekjur og meiri félags- skap. Nýlega lögðu 6 þingmenn Framsóknarflokksins fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að efla atvinnu fyrir konur í dreifbýli. Fyrsti flutningsmaður var Unnur Stefánsdóttir vara- þingmaður af Suðurlandi. í greinargerð*'með tillögunni kemur m.a. fram, að ef öll kúa- og sauðfjárbú í landinu eru talin, hafa 41% þeirra minni fullvirðis- rétt en sem nemur einu ársverki. Þetta sýnir að á um 40% allra búa í landinu er ekki vinna nema fyrir einn aðila. Aðrir verða annað hvort að leita vinnu utan bús, sé slíka vinnu að fá, eða sætta sig við skerta atvinnumöguleika. Engar horfur eru á að svigrúm til framleiðslu mjólkur og kinda- kjöts aukist við núverandi aðstæður nema hluti framleið- enda hverfi að öðrum störfum. Það er því ljóst að mikið skortir á að næg atvinna sé fyrir allt það fólk sem nú stundar hefðbundna búvöruframleiðslu. Þetta þýðir lægri tekjur sveitafólks en dreif- býlisbúa þar sem staðreyndin er sú að afkoma heimila í landinu byggist á launaðri vinnu tveggja einstaklinga. Að tilhlutan Kvenfélagasam- bands íslands hefur starfað hópur sem fjallar um möguleika á upp- byggingu heimilisiðnaðar í sveit- um og á sl. sumri skipaði f.v. Iandbúnaðarráðherra nefnd sem ætlað er að gera tillögu um atvinnuuppbyggingu fyrir konur í sveitum. Þá er til athugunar að setja upp við Bændaskólann á Hvanneyri sérstaka heimilisiðn- aðarbraut og braut um nýsköpun og endurnýjun starfsgreina í sveitum. Konur hafa bundist samtökum á nokkrum stöðum á landinu og hafið framleiðslu á ýmsum smá- varningi. Mér segir svo hugur um og reyndar veit ég að þessar ágætu konur þurfa aðstoð í formi ráðgjafar og í formi fjármagns. Við bindum vonir við að útlend- ingar muni áfram heimsækja ísland og sumir gera sér jafnvel vonir um að fjöldi ferðamanna til landsins muni stóraukast á kom- andi árum. Staðreyndin er hins vegar sú að úrval minjagripa hér á landi er frekar af skornum skammti. Þarna tel ég að séu auknir möguleikar sem þarf að athuga betur. Á síðustu vikum hefur umræð- an um útflutning á íslenskri fegurð verið nefnd í umræðum manna á meðal. Nú ætla ég ekki að leggja það til að íslenskar bændakonur verði nýttar til út- flutnings en þeirri hugmynd hef- ur verið hreyft að hefja fram- leiðslu á brúðum með nöfnum þeirra Hófíar og Lindu, og er sú hugmynd svo sannarlega ekki fráleit. Staðreyndin er nefnilega sú að það þýðir ekki lengur að halda því fram að konur í sveit- um geti prjónað lopapeysur sér til tekjuöflunar þar sem þær fá innan við 1400 kr. fyrir peysuna og lopinn kostar um 600 kr. Ein- hvern tíma tekur nú að prjóna flíkina ef ég þekki rétt. Þjónusta við ferðamenn er annað og tengt atriði sem ég nefni sem hugsanlega atvinnu- gjafa í ríkari mæli en nú er. Mér heyrist að fólk til sveita sé orðið jákvæðara fyrir þjónustu við ferðafólk og er Jiað vel. Á sl. sumri notuðu Islendingar sér ferðaþjónustu bænda meira en nokkru sinni fyrr og eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga um er almenn ánægja meðal gesta með frammistöðu bændafólks. Gistirými hjá FB er u.þ.b. fjór- falt gistiframboð á Hótel Sögu og þjónustan mun víðtækari. Mín skoðun er sú að þarna leynist gíf- urlegir möguleikar og ég vil geta þess að fyrirhuguð er ráðstefna á næstu vikum um nýsköpun í at- vinnulífi í strjálbýli samkvæmt ósk aðalfundar Ferðaþjónustu bænda. Mér er kunnugt um að oft hafa skapast merkar umræður um stöðu þéttbýlis og dreifbýlis við þessar aðstæður þegar þétt- býlisbúar gista sveitaheimili sem ferðaþjónustugestir og margur misskilningur hefur verið leið- réttur á sumarkvöldum í sveitinni við þessar aðstæður. Þetta er ekki síður mikilvægur þáttur í starfsemi ferðaþjónustu bænda, þjóðfélaginu öllu til heilla. í gegnum árin hafa mörg börn úr þéttbýli dvalið á sveitaheimil- um yfir sumartímann. Á síðari árum hefur þeim börnum farið hlutfallslega fækkandi sem notið hafa þessa og er það verr. Ég tel að athuga þurfi hvort ekki er aðstaða til að veita miklu fleiri börnum tækifæri til dvalar í sveit gegn greiðslu. Ég vil að síðustu taka fram að hér er á engan hátt verið að gera lítið úr þeim mikilvægu störfum sem innt eru af hendi inni á heim- ilunum. Þar hafa konur með ung börn svo sannarlega nægileg verk að vinna. Hitt tel ég vera stað- reynd, að þær væru margar hverj- ar sælli með sinn hag ef þær hefðu tækifæri til að bregða sér af bæ hluta úr degi og stunda vinnu utan heimilis. Manneskjan er fé- lagsvera og of mikil einangrun er henni ekki eiginleg. Ég vil því halda því fram að félagslegi þátt- urinn varðandi þróun starfa fyrir konur í dreifbýli sé ekki síður mikilvægur en sá efnahagslegi. Það er þörf á átaki til eflingar dreifbýli. Höfum það hugfast að án konunnar á sveitin enga fram- tíð. Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.