Dagur - 21.11.1989, Side 6
6 - DAGUR - Þriðjudagur 21. nóvember 1989
/' DAGS-ljósinu
íl—
Þingmaður og varaþingmaður í Norðurlandskjördæmi eystra í pólitískum hanaslag á landsfundi Alþýðubandalagsins:
Máleftialegt eða persónulegt uppgjör?
Ekki er séð fyrir með afleiðingar umróts á landsfundi Alþýðubandalagsins um helg-
ina. Gríðarlegur ágreiningur milli arma Ólafs Ragnars annars vegar og Svavars Gests-
sonar hins vegar var þar staðfestur. Deilt var mjög harkalega í flestum málum og há-
punkti náði uppgjör flokksarmanna í kosningu milli þingmanns og varaþingmanns í
Norðurlandskjördæmi eystra, Steingríms J. Sigfússonar, landbúnaðar- og samgöngu-
ráðherra, og Svanfríðar Ingu Jónasdóttur, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, um
embætti varaformanns í flokknum. Svanfríður sóttist eftir endurkjöri eftir tveggja ára
setu í varaformansstólnum en Steingrímur ákvað, að eigin sögn, að sækjast eftir kjöri
eftir mikinn þrýsting fjölda flokksmanna. Steingrímur er fulltrúi arms Svavars Gests-
sonar og hafði betur í kosningunni, hlaut um 56 prósent atkvæða.
Ógjörningur er að spá um
afleiðingar þessarar niðurstöðu
uppgjörs fuíltrúa tveggja stríð-
andi fylkinga í flokknum. Við-
mælendur Dags telja að Ólafs-
armurinn svokallaði þurfi nokk-
urn tíma til að meta stöðuna í
ljósi niðurstöðu landsfundar.
Sumir segja fullum fetum að
þessi atlaga Svavars og hans
manna að formanninum og fylg-
ismönnum hans hljóti að leiða til
útgöngu fjölda þeirra síðamefndu
úr flokknum. Aðrir telja að með
kjöri Steingríms J. í embætti
varaformanns sé forystan styrkari
og breiðari og nú sé tryggt að í
henni séu fulltrúar ólíkra skoð-
ana og áherslna í flokknum.
Sumir orða það svo að ekki
hafi verið tilviljun að Steingrímur
J. sóttist eftir kjöri til embættis
varaformanns. Heimildir Dags
herma að eftir þá yfirlýsingu
Svanfríðar hér í Degi 7. október
sl. að hún færi ekki aftur í annað
sæti á lista flokksins í Norður-
landskjördæmi eystra hafi Stein-
grímur J. reiknað dæmið þannig
að hún hefði í hyggju að keppa
við sig um fyrsta sæti listans í
næstu alþingiskosningum. Pessar
sömu heimildir segja að Stein-
grímur hafi ályktað sem svo að ef
hann sigraði Svanfríði í kjöri um
varaformann flokksins styrkti
hann stöðu sína svo mjög í
Norðurlandskjördæmi eystra að
Svanfríði væri nánast ýtt út af
borðinu, að minnsta kosti um
hríð.
Dalvíkingar eru fokreiðir
Alþýðubandalagsfólk í fremstu
víglínu í Norðurlandskjördæmi
eystra er sammála um að uppgjör
þingmanns og varaþingmanns
flokksins í kjördæminu á lands-
fundinum hafi verið mjög
óheppilegt. Hins vegar eru skipt-
ar skoðanir um hvort það komi
niður á flokksstarfi í kjördæm-
inu. Svavars-, og þar með Stein-
grímsarmurinn, telur að kosning
landbúnaðarráðherrans í vara-
formannssæti hafi engin áhrif á
starf flokksins í kjördæminu.
Fylgismenn Ólafs Ragnars og
Svanfríðar eru á annarri skoðun.
Dagur hefur fyrir því traustar
heimildir að hópur flokksbund-
inna Alþýðubandalagsmanna í
kjördæminu hyggist segja sig úr
flokknum til að mótmæla þessari
„atlögu", eins og það er kallað,
að Svanfríði. Meðal annars mun
ríkja mikil og almenn reiði meðal
Alþýðubandalagsfólks á Dalvík
sem þykir að með þessari skipan
mála hafi verið mjög nærri sér
höggvið. Þóra Rósa Geirsdóttir,
fulltrúi Alþýðubandalagsins í
bæjarstjórn Dalvíkur og vara-
maður Svanfríðar Ingu Jónas-
dóttur þar, segist líta svo á að
Steingrímur J. hafi vegið mjög
ómaklega að Svanfríði. „Ég spyr
einfaldlega. Af hverju var ráðist
beint gegn Svanfríði? Af hverju
stigu menn ekki skrefið til fulls
og fóru í slaginn gegn Ólafi
Ragnari? Ég óttast mjög fyrir
hönd Steingríms að þessi aðför
hans gegn Svanfríði hafi alvarleg-
ar pólitískar afleiðingar fyrir
hann. Þær raddir heyrast frá fólki
sem ekki þekkir vel til klofnings í
Alþýðubandalaginu að þessi
framkoma þingmannsins gagn-
vart sínum varamanni sé lágkúru-
leg og honum ekki sæmandi. Ég
hlýt að álíta að þetta kunni að
hafa alvarlegar afleiðingar fyrir
flokksstarf í kjördæminu."
Krafa um sterkari
vinstri stefnu
Menn eru ekki sammála um
hvort beri að líta á þá ákvörðun
Steingríms J. að bjóða sig fram
gegn Svanfríði sem hreina
persónulega atlögu gegn henni.
Sigríður Stefánsdóttir, bæjarfull-
trúi Alþýðubandalagsins á Akur-
eyri og fulltrúi Svavars-armsins í
formannskjöri í flokknum fyrir
tveim árum, telur kjör Stein-
gríms vera staðfestingu á
óánægju fjölda flokksmanna með
pólitískar áherslur forystu flokks-
ins frá síðasta landsfundi, málið
hafi alls ekki snúist um persónur.
„Það að Steingrímur kemur
þarna inn sýnir að mínum dómi
vilja flokksmanna til að skerpa
pólitískar áherslur. Okkur hefur
fundist flokksforystan hafa fært
sig í mörgum veigamiklum mál-
um inn að miðju. Ég nefni stór-
iðjumál, utanríkismál, viðhorf til
Evrópubandalagsins og ekki síst
byggðamál. í stórum dráttum lít
ég á kjör Steingríms sem kröfu
fjölda flokksmanna um sterkari
vinstri stefnu.“
Sigríður telur að kjör Stein-
gríms í varaformannsstól hafi
engin áhrif á starf Alþýðubanda-
lagsins á Norðurlandi eystra.
„Ljóst er að það hafa orðið mjög
glögg skil milli Svanfríðar og
sjónarmiða sem hún stendur fyrir
og þeirra sjónarmiða sem mikill
meirihluti flokksmanna hér
stendur fyrir. Þessi skil voru
Svanfríður Inga Jónasdóttir.
Bakari hengdur fyrir
smið?
mjög greinileg á þeim eina degi
sem hún kom á kjördæmisþing
okkar á Húsavík í haust. Að
mínu áliti lýsti það dómgreindar-
leysi Svanfríðar ef hún ætlaði sér
að keppa við Steingrím um fyrsta
sæti á lista flokksins í kjördæm-
inu í næstu alþingiskosningum.
Ég veit auðvitað ekkert hvort
hún ætlar sér það. Mér finnst það
þó mjög ósennilegt."
Úr leik í Alþýðubandalag-
inu á Norðurlandi eystra
Þorgrímur Starri Björgvinsson,
bóndi Garði í Mývatnssveit, seg-
ist vera ánægður með þessa
niðurstöðu landsfundarins. Hann
segist yfirleitt vera ánægður með
öll störf Steingríms J. Sigfússonar
og af því leiði að hann hljóti að
fagna kjöri hans til embættis
varaformanns. Þorgrímur Starri
telur að Steingrímur hafi með
framboði til varaformanns lagt
sína pólitísku framtíð undir. „Ef
hann hefði tapað kosningunni er
einsýnt að hann hefði orðið að
ganga út úr ríkisstjórninni.
Hefðu tillögur Birtingar um land-
búnaðarstefnu og byggðamál náð
fram að ganga er augljóst að
Steingrími hefði ekki lengur ver-
ið rótt í’ ríkisstjórninni. Með því
að vinna þennan slag tel ég að
hann hafi styrkt verulega stöðu
sína hér í kjördæminu."
Þorgrímur Starri segir það að
sama skapi jafn slæmt fyrir
Alþýðubandalagið á Norðurlandi
eystra að til uppgjörs milli þing-
manns og varaþingmanns skyldi
koma með þessum hætti eins og
fyrir tveim árum þegar Sigríður
Stefánsdóttir tapaði í for-
mannskosningu fyrir Ólafi Ragn-
ari og Svanfriður Jónasdóttir
gerðist síðan aðstoðarmaður
hans. „Ég met það svo að Svan-
fríður sé úr leik í Alþýðubanda-
laginu í þessu kjördæmi, að
minnsta kosti að sinni. Hún hefur
þann möguleika, eins og Ólafs-
armurinn allur, að ganga til liðs
við Alþýðuflokkinn og kljúfa
Alþýðubandalagið. Það teldi ég
að væri í raun manneskjulegasta
aðferðin fyrir þetta fólk. Sú
niðurstaða væri gremjulaus frá
minni hendi. Það verður hver að
liggja þar sem hann hefur lund
til.“
Þorgrímur Starri segist viður-
kenna að honum hefði fundist
það hreinlegri aðferð að í stað
slags um varaformann flokksins
hefðu menn stigið skrefið til fulls
og boðið fram á móti Ólafi Ragn-
ari. Hins vegar segir hann að sú
aðgerð hafi ekki notið stuðnings
innan flokksins, menn hafi viljað
halda friðinn um embætti for-
manns. „Ég skal viðurkenna að
Steingrímur J. Sigfússon.
Gerði yfirlýsing Svan-
fríðar í Degi útslagið?
það var óhugnanlegt að skyldi
þurfa að stilla þessu svona upp.
Þetta lítur óneitanlega þannig út
að nauðsynlegt hafi verið að
stjaka þessari konu út úr vara-
formannssætinu. Ég er ekki sæll
með þá niðurstöðu. Hún geldur
þess blessuð stúlkan að það var
ekki margra kosta völ til þess að
láta skerast þarna í odd, sem ég
tel að Ólafsarmurinn hafi nánast
skorað á okkur að gera. Svanfríð-
ur er ekki endilega sú persóna
sem var spursmálslaust að yrði
fórnað. Ég vil taka fram að hún
er að mörgu leyti hæf manneskja
og við erum ágætir kunningjar."
„Þetta kemur á óvart“
Þingmenn annarra flokka í
Norðurlandskjördæmi eystra,
sem Dagur hefur rætt við, eru
sammála um að erfitt sé að spá
fyrir um afleiðingar þessara svipt-
inga í Alþýðubandalaginu. Arni
Gunnarsson, þingmaður Alþýðu-
flokksins, segir að tíminn verði
að leiða í ljós til hvers þessi átök
leiði. Hins vegar sé nokkuð aug-
ljóst að þau muni frekar skerpa
andstæður í Alþýðubandalaginu
en hitt. Hann telur að tap Svan-
fríðar fyrir Steingrími hljóti að
vera alvarlegt mál fyrir stöðu
kvenna í Alþýðubandalaginu.
Guðmundur Bjarnason, heil-
brigðisráðherra og þingmaður
Framsóknarflokksins, segir lík-
legt að átök eins og komu upp á
yfirborðið um helgina í röðum
Alþýðubandalagsmanna hljóti að
hafa áhrif á starf Alþýðubanda-
lagsins. „Við framsóknarmenn á
Norðurlandi eystra þekkjum það
úr okkar starfi. Það virðist ljóst
að einhver innbyrðis átök áttu sér
þarna stað sem mér finnst ekki
hafa verið áberandi. Þetta kemur
því á óvart. Ég sé það fyrir mér
að þetta hljóti að hafa nokkur
áhrif á starfsemi Alþýðubanda-
lagsins í Norðurlandskjördæmi
eystra."
Guðmundur segist vænta þess
að þessar breytingar í forystu
Alþýðubandalagsins hafi ekki
áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið.
Halldór Blöndal, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, telur hins veg-
ar einsýnt að þær muni veikja
stöðu formanns Alþýðubanda-
lagsins og um leið ríkisstjórnar-
innar verulega. „Ég held að sá
vængur Alþýðubandalagsins sem
varð ofan á á landsfundinum hafi
viljað fá Steingrím J. Sigfússon
sem formann flokksins fyrir
tveim árum og ég hygg að í því
ljósi beri að skoða þetta uppgjör
á yfirborðinu milli hans og Svan-
fríðar. Undir niðri eru þetta hins
vegar augljóslega átök milli Ólafs
Ragnars Grímssonar og Svavars
Gestssonar. óþh
Akureyringar!
Munið borgarafundinn um atvinnumál
í Sjallanum í kvöld
þriðjudaginn 21. nóvember kl. 20.00.
Fórnið einu kvöldi í þágu
atvinnuuppbyggingar á Akureyrar
og mætið á fundinn.
Kaupmannafélag Akureyrar.
0
m Frá Bændaskólanum
á Hvanneyri
BÚNAÐARNÁMSKEIÐ
- endurmenntun -
Bændaskólinn á Hvanneyri býður upp á ýmis
búnaðarnámskeið við skólann. Nú á haustmiss-
eri verða m.a. eftirtalin námskeið í boði:
1. Málmsuða. 23.-25. nóvember. Námskeiðið er
ætlað bændum og markmiðið er að þátttakendur
kynnist notagildi raf- og logsuðutækja.
2. Kanínurækt. 4.-6. desember. Byrjendanám-
skeið ætlað þeim, sem hafa hug á að fara út í
kanínurækt. Kennslan er bæði bókleg og verkleg.
3. Skattskil. 7.-9. desember. Fjallað er m.a. um
undirstöðuatriði í færslu landbúnaðarskýrslu og
persónuframtals auk umfjöllunar um virðisaukaskatt.
4. Tölvunotkun. 11.-13. desember. Byrjendanám-
skeið, þar sem farið verður í grundvallaratriði svo
sem stýrikerfi, ritvinnslu og töflureikna.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkir
þau námskeið, sem ætluð eru bændum.
Nánari upplýsingar um námskeiðin eru veittar á skrif-
stofu skólans kl. 8.20-17.00 mánudaga-föstudaga í
síma 93-70000 og þar fer skráning þátttakenda einnig
fram.
Skólastjóri.