Dagur - 15.12.1990, Blaðsíða 11

Dagur - 15.12.1990, Blaðsíða 11
Laugardagur 15. desember 1990 - DAGUR - 11 a 1 tór nstundir , „Dýr hafa náttúrlega tíiflnnmgar eins og við“ - segir Atli Vigfússon barnabókahöfundur Ein tómstundaiðja Atla Vigfússonar á Laxamýri í Reykja- hverfi er að skrifa barnabækur. Önnur bókin hans, Hænsnin á Hóli, var að koma út en í fyrra kom út fyrsta bókin, Kaup- staðarferð dýranna. Báðar bækurnar eru ríkulega mynd- skreyttar af Hólmfríði Bjartmarsdóttur á Sandi í Aðaídal. Atli starfar við landbúnað en hefur jafnframt stundað kennslustörf í héraði, frönskukennslu við Framhaldsskólann á Húsavík og kennslu grunnskólabarna í Hafralækjarskóla. Atli lauk prófí frá Kennaraháskólanum og stundaði síðan nám við Sorbonne í París og starfaði í Suður-Frakklandi við landbúnað til að ná betri tökum á frönskunni. í fyrra fékk hann styrk frá sænsku landbúnaðarsamtökunum, boðið var einum nemanda frá hverju Norðurlandanna til að stunda nám við skóla samtakanna. Þar var fjallað um félagslega stöðu bænda á Norðurlöndum í dag. Atli Vigfússon með nýju bókina sína Hænsnin á Hóli, en þar segir frá ýms- um ævintýrum og uppátækjum hanans Stórafótar og hænanna Toppu, Stélu Og Vængju. Myndir: IM „Þetta var mjög lærdómsríkur tími á margan hátt og kemur til meö að nýtast mér vel. Styrkur sænsku landbúnaðarsamtakanna fólst í uppihaldi og kennslu en síðan fékk ég styrk frá Norræna félaginu til ferðalaga. Þessu fylgdu skoðunarferðir í fyrirtæki víða í Svíþjóð og námskeið varð- andi umhverfismál auk ferða til annarra landa, t.d. ti| Hollands þar sem við dvöldum í viku til að kynna okkur stöðu landbúnaðar í Hollandi. Þetta var mjög mikil reynsla og það opnaðist ýmislegt fyrir mér þannig að ég kann á eft- ir betur að meta ýmislegt sem við eigum hér heima,“ sagði Atli, aðspurður um Svíþjóðardvölina í fyrravetur. Skortur á lesefni fyrir krakkana - Þú verð tómstundum þínum til að skrifa barnabækur, hver er orsökin fyrir því? „Ég held að þetta sé eitthvað sem umhverfið fær mann til að gera. Þegar ég stundaði kennslu- störf fannst mér oft vera skortur á lesefni fyrir krakkana og oft var ég að semja og segja þeim sögur. Oft voru haidnar samkomur og þá fólst það í kennslustarfinu að gera heimatilbúna þætti. Til þess fékk ég oft hjálp Hólmfríðar, myndlistarkennara, en hún er snillingur við að finna út hvernig hlutirnir eiga að vera og við að setja upp sýningar. Við vorum oft að setja eitthvað saman og þannig kom þetta til. Það var kannski tilviljun fyrst að við ákváðum að fara út í það að gefa út og prufa hvort svona efni fengi einhvern meðbyr. Svo fór þetta að verða svolítið gaman. Það er gaman að hugsa upp sögu, þá fer ég að hugsa um dýr frá því ég var lítill og rifja upp hvað þau hefðu verið að gera og hvað ég hugsaði mér að þau væru að gera. Dýr hafa náttúrlega tilfinningar eins og við og ef maður umgengst þau náið finnur maður að þau hafa svo margt sem við finnum hjá okkur sjálfum líka. Því hlýtur eitthvað að geta gerst í þeirra samféiagi. I svona bókum leynist ýmislegt sem hægt er að kalla fróðleiks- korn um lifnaðarhætti þessara dýra þó að svolitlum ævintýrablæ sé sveipað yfir. Á fyrstu síðunum í þessari bók er töluverður fróð- leikur um hvernig hænsni haga sér. Einmitt í gegnum það að eitthvað sé gaman að lesa og gaman að skoða þá kemur kannski örlítill fróðleikur með.“ - Nú búa hænsnin á Hóli við aðrar aðstæður en flest hænsni í dag. „Já, því miður er mikið af hænsnum lokað inni í búrum og mér finnst lítil dýrasiðfræði á bak við það. Samkvæmt lögum sem verið er að setja í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð, þarf að taka hænsni úr búrum fyrir aldamót. Búr eru talin fjandsamlegt um- hverfi, dýrin standa á járnteinum og búrin eru mjög lokuð þannig að þau hafa ekkert umhverfi. Það er unnið að því að skepnurnar verði á gólfi og hafi meira umhverfi þó að þær verði lokaðar inni. Víða á Norðurlöndum eru egg seld dýrari þar sem hænurnar geta gengið úti. Það er farið að huga að því við matvörukaup við hvaða umhverfi dýrin lifa sem afurðirnar koma frá. í Hollandi troða skepnur jafnvel hver á ann- arri í þröngum stíum. Það er ver- ið að reyna að græða sem mest á framleiðslunni en það bitnar á umhverfi dýranna; Þarna takast á hagfræðin og vistfræðin. HænSnin á Hóli hafa mjög frjálst umhverfi og geta í raun- inni gert það sem þeim dettur í hug því þau eru úti við bóndabæ- inn. Það er afskaplega gaman að sjá dýr úti við í sveit, það er það sem gerir landsbyggðina svo lif- andi. Það er talið hollara fyrir skepnurnar að geta verið úti yfir okkar stutta sumar. Ég sakna þess á mörgum bæjum hvað fá dýr sjást orðið úti en vissulega eru fleiri og fleiri bæir sem ekki eru skepnur á.“ * Islensku hænsnin ekki til í öðru landi Sagan af hænsnunum á Hóli er bráðskemmtileg. Hún fjallar um hanann Stórafót sem er skrautleg- ur íslenskur hani með rósakamb og þrjár hænur, Toppu, Vængju og Stélu, ævintýri þeirra og fleiri fugla sem koma við sögu. „Það er orðið lítið af þessu íslenska hænsnakyni, en ég hef svolítið verið að leika mér að því að rækta það ásamt fleirum hér í héraði. Við höfum áhuga á að þetta kyn glatist ekki því það er ekki til annars staðar. Þessar hænur verpa að vísu ekki mjög mikið en þær eru fallegar og dug- legar úti, sérstaklega á sumrin. Oft spyr fólk hvar ég hafi fengið þessi hænsn og ég hef sent hænsni bæði vestur í Eyjafjörð, suður á land og austur í Bakkafjörð. . Út frá þessu tómstundagamni með hænsnin þá þróaðist þessi saga.“ - Vita börn í kaupstað í dag ekki ósköp lítið um sveitalífið? „Jú, víða um lönd er það orðið svo að aðeins örfá prósent fólks- ins framleiða matvöru fyrir þjóð- ina og þá gefur það augaleið að það hleðst upp fólk sem ekki á neinn aðgang að því að vera í sveit á sumrin eða kynnast sveita- lífi. Margt fólk á ekki lengur ætt- ingja í sveit og veit mest lítið um hvað er að gerast þar. Þarna held ég að bændur, bændasamtök og skólarnir þurfi að koma inn í og hjálpa til við að kynna þetta t.d. með þemavikum og skólabýlum. Það eru býli sem eru með fjöl- breyttan landbúnað og bændurn- ir gætu tekið á móti skólabörnum sem kæmu í heimsókn. Fyrst mundi bændafjölskyldan koma í bekkina og segja frá sínu lífi og svo mundu krakkarnir koma í heimsókn og kynnast því sem er að gerast á býlinu, en á eftir ntundi vera unnið verkefni í skólanum sem tengdist landbún- aði. Verkefnið þyrfti að vera svo- lítið skemmtilegt svo barnið fengi eitthvað út úr því. Mér finnst svolítil synd hvernig staða kjarnafjölskyldunnar í blokk í þéttbýíi er. Fólk hefur ekki þennan möguleika að vera með dýr fyrir börnin sín, en það er sannað að börnum sem um- gangast dýr líður betur. Þau fá mikið út úr tíma sínum með dýr- unum. í kjarnafjölskyldunni er maðurinn að vinna einhvers stað- ar og konan er kannski að vinna líka. Það er enginn heima allan daginn og barnið hefur ekki möguleika á að kynnast neinu um lífið í sveitinni. Skólarnir og bændur verða að koma þarna á móti því það er ekkert mikilvæg- ara í dag en að kynnast hvernig atvinnuvegir þjóðarinnar ganga fyrir sig og hvaða gildi þcir hafa fyrir þjóðina. Þessi staða er miklu betri fyrir sveitabörnin sem hafa þennan stórkostlega mögu- leika á að vera með skepnunum og með foreldrum sínum við þeirra störf. Bankastarfsmaður- inn getur ekki haft barnið sitt með sér í vinnuna en börnin í sveitinni eru alltaf með og bara pínulítil þegar þau fara að hjálpa til og taka þátt í því sem er að gerast.“ Dómur barnanna sá besti - Hvernig seljast bækurnar þínar? „Það var góð útkoma í fyrra. Hænsnin á Hóli hafa tvisvar selst upp í Bókaverslun Þórarins Stef- ánssonar hér á Húsavík. Það sem ég legg áherslu á er að þetta er íslenskt efni. málfarið er íslenskt og sagan gerist í Þingeyjarsýslu. Þegar ég horfi yfir bókaskrána sé ég ekki margar bækur sem eiga að gerast í sveit á íslandi. í sjón- varpi, sem börnin eru mjög bundin yfir, er t.d. hasar og ýmis- legt sem er svo langt frá okkar menningu.“ - Hvaða aldurshópi er bókin ætluð? „Yngri börnum, börnum sem eru farin að lesa en svo má lesa bókina fyrir krakka alveg niður úr. En ég vona að krakkar til tíu ára aldurs muni hafa gaman af að lesa þessa sögu.“ - Ætlar þú að halda áfram að skrifa barnabækur? „Það má ekki gera of mikið af svona hlutum því þeim sem halda lengi áfram með sama efni hættir til að verða svolítið þurrir. Að svo stöddu vil ég fátt segja, en er þó kannski með einhverjar gaml- ar hugmyndir í huganum.“ - Fékkstu viðbrögð við Kaup- staðarferð dýranna? „Já, ég fékk góð viðbrögð. Einn skólabróðir minn sagði að þessi bók hefði verið hermdar- gjöf. Sonur hans fékk bókina í jólagjöf og hann þurfti að lesa fyrir strákinn aftur og aftur öll kvöld og á endanum var strákur farin að geta í hvað kæmi næst. Þetta er besti dómurinn sem ég hef fengið því ég held að börnin verði að dæma bækurnar. Þessi viðbögð voru mér svolítið kær en auðvitað eru alltaf misjafnar raddir og maður fær aldrei ein- róma umsögn með eða móti.“ IM Atli Vigfússon við landbúnaðarstörf heima á Laxamýri.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.