Dagur - 01.06.1991, Blaðsíða 4

Dagur - 01.06.1991, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Laugardagur 1. júní 1991 SÖGUBROT „Stutt er líf mitt, en listin löng“ - líf og ljóð Guðfmnu Jónsdóttur frá Hömrum Systurnar að Hömrum, Hulda til vinstri og Guðfinna til hægri. Ars longa, vita brevis. Skáldkonan tón- elska úr Mývatnssveit sem kenndi sig við Hamra í Reykjadal, Guðfinna Jónsdóttir, kvaddi þennan heim aðeins 47 ára gömul en ljóð hennar lifa og geyma margar dýr- mætar perlur. Pessar perlur fá að glitra í Sögubroti Dags og leifturljósi brugðið á nokkrar myndir úr ævi skáldkonunnar. Það má annars furðu sæta, þegar liðin tíð er rifjuð upp, hve mörg íslensk skáld hafa átt við vanheilsu að stríða og látist á fertugs- eða fimmtugsaldri. En skáldin eru auðvitað aðeins spegilmynd þjóðarinnar, þjóðar sem barðist við illvíga sjúkdóma og farsóttir meðan læknavísindi stóðu á brauðfótum. í þessu sambandi voru berkl- arnir skæðir, eins og fjölskyldan á Hömr- um fékk áþreifanlega að kynnast. Guðfinna var fædd 27. febrúar 1899 að Arnarvatni í Mývatnssveit en er hún var sjö ára fluttist fjölskyldan að Hömrum í Reykjadal. Foreldrar hennar voru þau Jón Kristinn Eyjólfsson frá Reykjum í Reykjahverfi og Jakobína Sigurðardóttir frá Arnarvatni. Guðfinna átti tvær systur, Hulda var fædd 1902 og Ragnhildur 1909. Jón ól dætur sínar upp við orgelleik, en hann var organisti í kirkjunni á Einars- stöðum. Þær voru jafnvel farnar að spila áður en þær urðu læsar og yngsta systirin, Ragnhildur, var farin að leika á orgelið fjögurra ára. Faðir hennar trúði þvf að hún væri undrabarn en um það fékkst engin vissa því Ragnhildur dó strax í barnæsku, varð fyrst systranna berklum að bráð. „Sami eldur í beggja hjörtum brann“ Guðfinna og Hulda voru mjög samrýmd- ar. Þær voru báðar glæsilegar stúlkur og þeim gekk vel í námi. Haust eitt er Hulda trúlofaðist ríkti mikil gleði hjá Hamrafólk- inu en sú gleði var skammvinn því næsta vor gerði geðveila vart við sig hjá Huldu. Guð- finna fylgdi systur sinni suður á Klepps- spítala en Hulda lifði ekki lengi eftir þetta og í heimildum er sett fram sú tilgáta að banamein hennar hafi verið berklar í heila. Guðfinna sjálf sneri ekki heil heim úr suðurferðinni og þótt hún hafi ekki verið talin berklaveik þá er líklegt að sjúkdóm- urinn sem dró hana til dauða tveimur ára- tugum síðar hafi verið byrjaður að hreiðra um sig. En grípum niður í lokaerindi ljóðs- ins Mig dreymdi þig Hulda: Ó, frostnótt í júní með feigð um brá, hví felldir þú sumarsins björtu rós, er sólin reis gullin úr bylgjum blám og breiddi um himin þitt fagra Ijós? Um unnusta Huldu hef ég ekki haldbær- ar heimildir en hann var Guðfinnu styrkur í veikindum Huldu. Þá er iítið fjallað um ástamál Guðfinnu, a.m.k. ekki getið um unnusta, en úr ljóðum hennar má lesa sára reynslu í þeim efnum. Reyndar kemur þetta okkur ekkert við, eða eins og Guð- finna segir sjálf: Hvað ástin mérgaf, og hvað aftur hún tók, skal alheimi lokuð bók. Þrátt fyrir þessar línur er talið að ljóðið Tvær systur lýsi vel djúpstæðri reynslu skáldkonunnar á Hömrum, en síðustu tvö erindin hljóða svo: Og tíminn leið. Svoleiddust þærhöndíhönd um heiðan dag á æskunnar furðuströnd, og sami eldur í beggja hjörtum brann, þær báðar hlutu að elska sama mann. Sú undi skammt, er öðlaðist lánsins gjöf, því annarrar sorg þær lagði báðar í gröf. Á legstaðnum hvísla reyrstráin raunamál um rósir tvær, sem drottinn gaf eina sál. Frá Hömrum til Húsavíkur Guðfinna Jónsdóttir bjó að Hömrum fram til ársins 1936 ef undan eru skilin nokkur ár, s.s. þegar hún var við tónlistarnám. Hún lærði m.a. hjá Sigfúsi Einarssyni, Otto Busch, Kurt Haeser og Páli ísólfs- syni. Guðfinna nam orgelleik og hafði mikla hæfileika á því sviði og má t.d. vísa til frásagnar Áskels Snorrasonar í minn- ingargrein um Guðfinnu í Þjóðviljanum 25. apríl 1946. Guðfinna stundaði söngkennslu og kór- stjórn þegar heilsa hennar leyfði. Hún fluttist til Húsavíkur 1936 og var organisti við Húsavíkurkirkju í nokkur ár og kenndi hljóðfæraleik heima í Hamrahlíð, en svo kallaði Hamrafjölskyldan íbúðarhúsið sem hún reisti á Húsavík. Þótt Guðfinna saknaði Reykjadalsins fékk Húsavík líka gildi fyrir hana. Þar voru búsettir nokkrir brottfluttir sveitung- ar hennar og hún eignaðist nýja vini. Geta heimildir sérstaklega um Sören Árnason frá Kvíslarhóli á Tjörnesi sem var leigjandi í Hamrahlíð. Hann sá um útför Guðfinnu og varðveitti óbirt ljóð hennar og efndi lof- orð sem hún tók af honum um að annast móður hennar meðan hún lifði. Um útför hennar sá Sören einnig. Faðir Guðfinnu lést 1941, berklarnir drógu hana sjálfa til dauða 1946 en móðir hennar lifði til haustsins 1956. Allt frá 1927 átti Guðfinna við veikindi að stríða og lögðust þau stundum þungt á hana. Þá gat hún ekki setið við orgelið nema stutta stund í einu og vonleysi greip um sig. Gætir þess nokkuð í ljóðum henn- ar en hún mun snemma hafa byrjað að setja saman kvæði þótt ljóðagerð hennar hafi lítt komið fram í dagsljósið fyrr en heilsubresturinn ágerðist. Og nú er kom- inn tími til að huga nánar að ljóðunum. Yrkisefni sótt í náttúruna „Ég held áfram að yrkja kvæði, það verður ekki úr mér drepið, kannske af því að það er eina starfið, sem ég get neytt mín við,“ skrifar Guðfinna í bréfi til Arnórs Sigur- jónssonar frá Sandi 1939. Ljóð Guðfinnu komu fyrst fyrir sjónir almennings er hún var rúmlega fertug að aldri. Fjögur ljóð birtust í safninu Þing- eysk ljóð sem séra Friðrik A. Friðriksson og Karl Kristjánsson gáfu út 1940. Fyrri ijóðabók Guðfinnu, Ljóð, kom út 1941 og hin síðari, Ný ljóð, 1945. Loks kom safn ljóða hennar út 1972 og ritaði Kristján Karlsson formála að bókinni. í ljóðasafninu eru nokkur áður óbirt ljóð en Guðfinna frá Hömrum lét eftir sig í hand- riti 70-80 ljóð er hún dó. Æðsta gjöfin frá guða höndum ergátan mikla um hel oggröf. Hún knýr fram seglin í leit að löndum, þótt löðrið fjúki um tímans höf. Þannig hefst Gátan mikla, eitt þeirra ljóða sem birtust í Þingeyskum ljóðum. Gátur og leyndardómar lífsins vöfðust nokkuð fyrir skáldkonunni, sem sótti and- ann ekki til æðri máttar eða skáldagyðju heldur náttúrunnar: Ver örlát, jörð, á þín yrkisföng, á meðan vorið mér vekur söng, því stutt er líf mitt, en listin löng. Guðfinna frá Hömrum orti um náttúruna, næsta umhverfi sitt sem henni þótti svo vænt um og tengsl mannsins við náttúruna. Hún byggði á grunni náttúruskáldskapar 19. aldar með raunsæisstefnuna að leiðar- ljósi í fyrstu en síðan fór nýrómantíkin að hasla sér völl. Ljóð hennar urðu þá ekki bara spegilmynd náttúrunnar heldur skreytt symbólskum áhrifum, orðskrúði og andans flugi, náttúran var þá ekki aðeins mynd heldur sálarástand. Jafnvel mátti greina áhrif frá Einari Benediktssyni en Guðfinna gætti þess að missa ekki málið út í víðáttur og urðu ljóð hennar meitlaðri með árunum. Með árunum, segi ég, en í rauninni hafði hún aðeins sex ár því dauð- inn beið hennar á Kristneshæli. „AUt líf mitt var för til fjallsins“ Frú Músíka, sönggyðjan, en svo kallaði Páll ísólfsson Guðfinnu, sendi frá sér mörg afar góð ljóð að efni sem formi. Þótt mæli- kvarði á gæði Ijóða sé að mestu leyti fólg- inn í persónulegri upplifun lesandans verð- ur gildi ljóða á borð við Með sól, Mig dreymir enn, Maríuerla, Ljósmynd að vestan, Ljóssins knörr, Bergmál, Gamalt sendibréf, Dynskógur, Tvær systur, Brotið land, Maður og mold, Vor í dalnum, Hið gullna augnablik o.fl. varla dregið í efa. Þau eru hafin yfir tískustrauma og duttl- unga augnabliksins eins og lesendur geta auðveldlega gengið úr skugga um. Þetta er a.m.k. mín reynsla en Ljóðasafn Guð- finnu hafði legið lítt sköðáð uppi í bóka- hillu í mörg ár þar til ég greip bókina kvöld eitt og gleymdi mér um stund við lestur. Út um vonanna voga skyggnast vorgróin lönd. Hvergi herfloti húmsins með sinn hlekk og sín bönd. Siglir náttsólar nökkvi fyrir Norðurlands strönd. Þetta er lokaerindið í Ljóssins knörr, fagurlega búin umgjörð um náttúruöflin og mikilvægi þeirra fyrir land og þjóð. En sumir telja hamingjuna búa í öðrum lönd- um og láta Ljósmynd að vestan glepja sig: í stílhreinum, glæstum borgarbrag ég blómgvaða menningu sá. Eg hugsaði um lands míns gadd og grjót og var gripin af sömu þrá, sem langfeðga minna hjörtu hreif, er þeir hurfu vestur um sjá. Þá er hollt að hafa í huga raunveruleik- ann, líta á hina hlið málsins: Þá minntist ég einnig íslendings, er óðal sitt vestra bjó, en festi þar aldrei yndi neitt og ættjörðu sinni dó. Þeirsegja, að afköldu kumbli hans rísi kvistur úr frónskum mó. Við verðum samt sem áður að hlúa vel að landi okkar og klæða mela og móa. Landið grær í söngvum Guðfinnu í ljóðinu Dynskógur, hollri áminningu sem á ekki síður vel við í dag: / söngvunum grær hvert laufblað, er lifði endur. í dulræðu skrjáfi sandsins um sorfnar lendur mig kallar Dynskógur horfinn, höggvinn, brenndur. Og lengi væri hægt að halda áfram í ljóðsins aldingarði en lokaerindið er tekið úr Fjallið blátt: Ofseint er nú heim að halda, þvf hjartaslátturinn dvín. Allt líf mitt var för til fjallsins, sú för var ei næsta brýn. í fjarlægðar sinnar fegurð hafði fjallið komið til mín. Andspænis slíkri lífsreynslu stendur maður berskjaldaður en hvort þetta veik- róma bergmál mitt af lífi og ljóðum Guð- finnu frá Hömrum nái eyrum lesenda, hvort mín vanmáttugu orð séu ekki dæmd til að drukkna í skarkala dægurmenningar- innar verður tíminn að leiða í ljós. En meðan ég fæ viðbrögð og þykist vita að pár mitt er ekki til einskis mun ég halda áfram að rita hið mánaðarlega Sögubrot, lesend- ur góðir, mannlífsbrot úr sögu þjóðarinn- ar. Stefán Sæmundsson. (Helstu heimildir: Arnór Sigurjónsson: Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum, Andvari, 1972. Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum: Ljóðabók - Safn, formáli eftir Kristján Karlsson, AB 1972).

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.