Dagur


Dagur - 24.03.1992, Qupperneq 6

Dagur - 24.03.1992, Qupperneq 6
6 - DAGUR - Þriðjudagur 24. mars 1992 Eyðimerkurdýrkun og svört náttúruvemd Er ekki tímabært að huga alvar- lega að hvað felst í þeirri há- stemmdu eyðimerkurdýrkun sem á stundum virðist vera megin inn- tak þeirrar náttúruverndar sem ákveðnir hópar í þjóðfélaginu hafa iðkað á undanförnum árum? Mér er málið jafnan ofarlega í huga e.t.v. vegna þess að ég hef undanfarin 20 ár búið í jaðri eyðimerkur sem ber hið ógn- þrungna nafn Ódáðahraun. Auðnir Ódáðahrauns eru svo sannarlega í framsókn rétt eins og ótölulegur fjöldi bræðra henn- ar og systra allt í kring um hnöttinn. Þessi 20 ár hefur mitt helsta áhugamál verið að ferðast um landið, jafnt hálendi og lág- lendi, sumar sem vetur á jörðu niðri og í lofti. Slíkt lætur engan ósnortinn. í gegnum tíðina hef ég gjarnan lesið blaðagreinar flokksbróður míns Hjörleifs Guttormssonar, náttúrufræðings og fyrrverandi iðnaðarráðherra og þá helst þeg- ar hann hefur varpað ljósi sínu yfir villugjarnar og lítt skilgreind- ar götur náttúruverndar. Því miður verður að segjast eins og er að oftar en ekki hafa þau skrif vakið með mér fleiri spurningar heldur en þau hafa svarað. 8. jan. sl. birtist í DV rétt ein hugvekjan, og nú get ég ekki orða bundist lengur. Hjörleifur hefur mál sitt með eftirfarandi orðum: „Umhverf- isvernd og náttúruvernd hafa átt mjög undir högg að sækja hér- lendis." Þessari fullyrðingu er ég sam- mála og koma mér þá fyrst í huga ummæli nóbelsskáldsins á þjóð- hátíðinni á Þingvöllum 1974. Þá minnti Halldór þjóð sína á að náttúruspjöll af manna völdum hefðu orðið hér meiri en í nokkru öðru landi í Evrópu. Enda er varla um það deilt lengur að af þeim 65% landsins sem ætla má að hafi verið þakin gróðri við landnám standi nú aðeins 25% eftir og af þeim 25-40% sem voru skógi vaxin hjari nú aðeins 1%. Ekki veit ég hvort það var nákvæmlega þetta sem HG hafði í huga en ég óttast að svo hafi ekki verið. Mig langar að taka aðra full- yrðingu HG sem ég er hjartan- lega sammála, en aftur er ég haldinn efa um að við leggjum í sama skilning. „Eitt stærsta verk- efni í náttúruvernd hérlendis er að tryggja verndun og skynsam- lega nýtingu hálendissvæða landsins. Þar hefur margt farið úrskeiðis síðustu áratugi og enn meiri vá steðjar að ef ekki verður hart og skipulega brugðist við.“ Hörður Sigurbjarnarson. Það sem slær mig við þessa til- vitnun er að ég hef aftur og aftur velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum það gat gerst að tek- in var um það ákvörðun að fórna Eyjabökkum við Snæfell, ein- stæðri gróðurvin öræfanna á alt- ari álversdraumsins. Mér þykir með ólíkindum hvernig svo stór ákvörðun rann nær átakalaust um allar stofnanir stjórnkerfisins, að því best verður séð. Frá haust- inu 1978 til hausts 1979 sat nátt- úrufræðingurinn HG í stóli iðn- aðarráðherra, það ár var unnið að undirbúningi Fljótsdalsvirkj- unar. í nefndri DV grein er krafist viðbragða við því skipulagsleysi sem ríki á hálendinu og marka þarf stefnu segir HG. „Á meðan ekki hefur verið mörkuð slík stefna og hún felld í heildstætt skipulag á það að vera leiðarljós að framkvæma ekkert sem varan- lega breytir svipmóti landsins." Árin 1980-1983 var HG aftur við stýrið í Iðnaðarráðuneytinu. 1981 var samþykktur á alþingi mikill lagabálkur sem heimilaði ríkisstjórn að semja við Lands- virkjun m.a. um að virkja Blöndu og á Fljótsdal. Þegar ákvörðun um virkjun Blöndu verður full- nægt munu liggja undir vatni 5600 ha af öflugasta gróðurlend- inu sem enn tórir á afrétti Austur- Húnvetninga. Og þótt verið sé að græða upp land til mótvægis við það sem tapast, hefur mönnum orðið ljóst í þeirri viðleitni, hversu gífurleg verðmæti eru í heilgrónu landi, og margfalt dýrara er að endur- heimta landið til nytja en áður var talið, með hefðbundnum aðferðum. Sama gildir um Blöndu og Fljótsdalsvirkjun, hún 1 mætti ekki teljandi anstöðu nátt- úruverndarmanna. Varla tekur því að nefna að miðlunarlón Blöndu breyti svipmóti landsins, eða hvað? Og skítt með þessa 5600 grænu hektara. Svo gerðist það sl. sumar að mælingarmenn óku út fyrir slóðir í kolsvörtu og gróðurvana Ódáða- hrauninu til að rannsaka fyrir- hugað línustæði sem Náttúru- verndarráð hafði meira að sega gefið leyfi fyrir. Nú brá svo við að landverðir Náttúruverndarráðs gerðu verkfall og úr varð tölu- verður hvellur. Náttúruverndar- ráð skipti um skoðun og margir urðu til að mótmæla knúnir af heitum tilfinningum til „fóstur- hraunanna“. Mér er spurn, er ekki eitthvað bogið við þá svörtu náttúruvernd sem hér er höfð í fyrirrúmi hjá þeim sem helst láta til sín taka þegar rætt er um náttúruvernd? Hefðu þau ramakvein sem kváðu við orðið jafn hávær ef rætt hefði verið um línulögn á sömu slóðum og þær verið algrónar eins og þær voru fyrr meir. í þessu sambandi er rétt að rifja upp að sífellt er skotið fleiri stoðum undir þá kenningu að áður fyrr var Ódáðahraun gróið. Nýjastar og e.t.v. merkilegastar eru rannsóknir dr. Ólafs Arnalds jarðvegsfræðings á jarðvegsleif- um víðsvegar um hið mikla flæmi sem Hraunið er. Þeir sem gluggað hafa í gulnuð blöð sögunnar eru margir hverjir ekki í vafa um að svo hafi verið. í máldaga frá 14. öld má lesa að þá var skógeyðing svo langt kom- in á Möðrudalsöræfum að bænd- ur þar þurftu að leita út á Sauða- nes á Langanesi til að höggva við til kolagerðar. Möðrudalur er í 500 m h.y.s. en 500 m hæðarlína í Ódáðahrauni liggur rétt norðan Dyngjufjalla beint vestur af Herðubreið. Bærinn Helgastaðir stóð við Skjálfandafljót þar sem heitir á Krókdal rösklega 30 km framan við fremstu bæi sem nú eru í byggð í Bárðardal. Þar er enn til örnefnið Smiðjuskógur í u.þ.b. 600 m h.y.s. og þar hafa fundist kolagrafir. í íslendingasögunum má lesa um viðarhögg framan við Kiðagil á Sprengisandi. Þeir sem til þekkja vita að á þessum stöðum er fátt sem minn- ir á skóga, því bæði Möðrudalur og Sprengisandur eru hluti af’ þeim miklu auðnum sem við erum svo stolt af í bæklingum fyr- ir erlenda ferðamenn og köllum hina ósnortnu náttúru íslands. Ég sagði að eyðimörkin Ódáða- Jarðvegseyðing af verstu tegund. Birkiskógarleifar í nágrenni Reykjahlíðar í Mývatnssveit. Unnið að landgræðslu sumarið 1990 í nágrenni Reykjahlíðar í Mývatnssveit. hraun væri að stækka, meðal margvíslegra afleiðinga sem það hefur, er að óhemju magn af sandi berst sunnan af auðnum þess í Kráká sem flytur sandinn í Laxá í Aðaldal. Mér hafa sagt bændur sem búa á bökkum árinnar og veiðimenn sem hafa veitt í henni um áratuga skeið að áin sé vart þekkjanleg, svo sandorpinn sé farvegurinn orðinn. Fyrir þá sem ekki vita, þarf bæði lax og silungur grófan og malborinn botn til hrygningar og seiðin þurfa skjól í uppvextin- um. Það er athyglisvert að meðan áralangar rannsóknir sérfræð- inganefndar um áhrif starfsemi Kísiliðjunnar á lífríki Mývatns, sýndu ekki fram á samband milli sveiflna í lífríki vatnsins og starf- semi verksmiðjunnar er því furðu lítill gaumur gefinn hversu stór- kostleg þau hljóta að vera áhrifin sem linnulaus sandburður hefur á lífríki Mývatns og Laxár. Mér virðist H.G. vera trúr hugsjón boða og banna aðferða en klæða þær í búning verndun- ar, hann segir og er að fjalla um hálendið: „Þar á að mínu mati verndunarsjónarmið að skipa öndvegi taka þarf frá stór svæði þar sem hvers kyns mannvirkja- gerð og umferð vélknúinna öku- tækja verður útilokuð.“ Enn spyr ég, hvaða tilgangi þjónar að banna umferð á snjó sem ekki skilur eftir sig nema tímabundnar slóðir? Getur það verið að í augum einhverra „aristókratanna“ hafi orðið verðfall á hinum fáförnu öræfum og jöklum landsins við það að alþýðan birtist svo óvænt í þeirra ríki, akandi á vélsleðum og jeppum að vetrarlagi? Og íburðarmiklu, myndskreyttu ferðalýsingarnar af frækilegri gönguferð í Lesbók Morgun- blaðsins hafi tapað athygli? Að mínu mati munu óþarfa höft og bönn og of mikil miðstýr- ing í málefnum náttúruverndar eins og svo mörgum öðrum vísa veginn beina leið til glötunar. Landnám almennings á hálend- inu er af hinu góða, hvort sem farið er gangandi, ríðandi eða akandi á vélsleðum og jeppum. Það er í þágu náttúruverndar ef rétt er á málum haldið. Til að koma í veg fyrir náttúruspjöll eru aðferðir uppeldis, áróðurs og fræðslu happadrýgri en boð og bönn. Náttúruverndarráð í núverandi mynd er gengið sér til húðar. Það skortir tengsl við það líf sem lifað er í landinu. T.d. eru 6 af 7 aðal- mönnum í ráðinu búsettir á Reykjavíkursvæðinu. Það er ámælisvert að ráðið hafi með höndum framkvæmdavald og stefnumótun eins og til þess er stofnað. Ábyrgð þess er ekki í samræmi við valdið sem það hefur. En verst er að hjá því hef- ur svört náttúruvernd skipað öndvegi. Umhverfisráðuneytið hefur verið sett á laggirnar, þaðan á að stjórna þessum málaflokki, í tengslum við stjórnkerfi sveitar- félaganna. Náttúruverndarráð á annaðhvort að leggja niður, eða laga það að aðstæðum sem eru mikið breyttar síðan því var komið á fót. Mér sýnist að með afstöðu sinni til Kísiliðjunnar hafi Nátt- úruverndarráð undirstrikað fjar- lægð sína við fólkið í landinu og jafnvel rekið síðasta naglann í sína eigin kistu þar sem títtnefnd skýrsla sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir gaf hreint ekki tilefni til að stefna að lokun verksmiðjunnar í bráð. Mig langar að bera fram þá frómu ósk að náttúruvernd fram- tíðarinnar á íslandi byggi á þeim skilningi að við þörfnumst öðru fremur græns og lifandi umhverf- is til þess að geta lifað í sátt við landið um ókomna tíð. Ég er þess fullviss að margir munu fylgjast vel með viðbrögð- um þingmanna landsbyggðarinn- ar þegar iðnaðarráðherra endur- skoðar skilmála námaleyfisins. Þau verða bæði prófsteinn á við- horf til atvinnumála hinna dreifðu byggða og náttúruvernd- ar. í einni af árbókum Landgræðsl- unnar ritar frú Vigdís Finnboga- dóttir aðfararorð og segir m.a. eftirfarandi: „Á stórum svæðum höfum við horft á hinn græna möttul þynnast og rakna og slitna og víkja fyrir auðninni grárri og brúnni. Og þótt við höfum fyrir löngu lært að skilja fegurð og búsæld, lært að meta fegurð nak- inna fjalla og úfins hrauns. Þá er það eitthvað í okkur sem and- mælir því að kalla þær auðnir fagrar sem mannfólkið skapar sjálft með umstangi sínu, það er eitthvað ónotalegt við það landslag, eitthvað sem er blátt áfram siðferðislega rangt.“ Á stórum svæðum er íslensk náttúra ekki í jafnvægi. Þar grasserar voðaleg jarðvegseyð- ing, jafnvel á svæðum sem eru hvað mest upphafin fyrir náttúru- fegurð og eru orðin að söluvöru sem slík. Heyrst hafa kröfur um að þau beri núverandi svipmót til framtíðar. Varnaðarorð forsetans snerta kjarna málsins, fremur á að byggja náttúruvernd á siðferði- legu mati en persónulegum smekk. Látum því liggja milli hluta hvort fegurra er blátt blóm eða gult, hvort betur fari í íslensku landslagi greni eða birki. Hörður Sigurbjarnarson. Höfundur er vélfræðingur í Mývatns- sveit.

x

Dagur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.