Þjóðviljinn - 27.11.1982, Blaðsíða 4
4 StÐA — ÞJÓÐVILJINN Helgin 27.-28. nóvember 1982
stjórnmál á sunnudegi Hjörleifur
itjí Guttormsson skrifar
Sterkt og víðsýnt
Alþýðubandalag
Herra forseti.
Hér er til umræðu vantrauststil-
laga á ríkisstjórnina borin fram af
háttvirtum þingmönnum Alþýðu-
flokksins, sem þó hefur fækkað um
einn frá því tillagan var lögð hér
fram.
Umkomuleysi
Alþýðuflokksins
Ríkisstjórnin hefur ástæðu til að
fagna þessum tillöguflutningi og
umræðu um hana. Hér mun koma í
ljós sundrung og úrræðaleysi
stjórnarandstöðunnar og sú
staðreynd, að ríkisstjórnin styðst
við meirihluta hér á háttvirtu
Alþingi. Vantrauststillagan er,
eins og alþjóð mun kunnugt,
sprottin af þeim skruðningum og
kvikuhlaupum sem nú eiga sér stað
innan Alþýðuflokksins, þar sem
forystumenn berast nú á banaspjót
í prófkjörum, sem taka á sig hinar
kynlegustu myndir. Höfundur hins
nýja stíls frá 1978, háttvirtur þing-
maður Vilmundur Gylfason, er
reyndar hlaupinn fyrir borð, en
fyrrverandi keppinautur hans um
þingsæti í Reykjavík, hv. þing-
maður Jón Baldvin Hannibalsson,
brosir nú breitt með eiginkonunni
upp á ameríska vísu á Broadway.
Slík er eymd og umkomuleysi Al-
þýðuflokksins og hlýtur að renna
þeim til rifja,er minnast fyrri tíðar
þess flokks, sem tók á móti kreppu-
boðum fjórða áratugarins af mynd-
ugleik undir forystu Jóns Baldvins-
sonar, Héðins og Finnboga Rúts.
Sundurlyndi
stjórnarandstöðunnar
Sjálfstæðismenn í stjórnarand-
stöðu höfðu vit á að auglýsa ekki
sundurlyndi sitt með jafn afdráttar-
lausum hætti og létu formanni Al-
þýðuflokksins eftir hlutverk Ketils
skræks, sem hrökk frá viðræðum
við ríkisstjórnina á hælana á
Skugga-Sveini Sjálfstæðisflokks-
ins. En einnig hjá íhaldinu geisar
nú prófkjörsslagur ofan á allt ann-
að sundurlyndi, sem upptekur hug-
ina og byrgir sýn til málefna.
.' Það er vissulega alvöruefni, þeg-
ar svo er komið hjá þeim, sem ættu
að veita ábyrga stjórnarandstöðu,
og engin ástæða fyrir okkur, sem
aðild eigum að ríkisstjórn, að kæt-
ast yfir slíku, síst nú þegar á reynir í
þjóðmálum og við margháttaða og
óvænta erfiðleika er að fást. Hin
sundurleita hjörð stjórnarandstöð-
unnar lætur svo sem hún vilji koma
ríkisstjórninni frá. Ég held að það
dyljist hins vegar engum, að hér
eru á ferðinni svokölluð látalæti.
Stjórnarandstaðan vill forðast í
lengstu lög að axla ábyrgð eða eiga
hlutdeild í að leysa þá erfiðleika,
sem við er að fást. Það hefur komið
berlega í Ijós síðustu vikur hér á
háttvirtu Alþingi og í þeim
viðræðum sem ríkisstjórnin efndi
til við forystumenn stjórnarand-
stöðunnar til að ræða um þinghald í
vetur og afreiðslu brýnustu mála.
Hvernig brugðust forystumenn
stjórnarandstöðunnar við? Þeir
komu að vísu og létu mynda sig
sem snöggvast, en strax og talið
barst að því að taka sameiginlega á
vandanum voru þeir hlaupnir á
dyr, fyrst Geir og síðan Kjartan.
Nauðsynlegt er að þjóðin átti sig
á þessum loddaraleik stjórnarand-
stöðunaar, sem vafalítið verður
framhald á næstu mánuði.
✓
Arangur og
ábyrg viðbrögð
Á mörgum sviðum hefur ríkis-
stjórnin náð verulegum árangri,
þrátt fyrir óhagstæðar ytri aðstæð-
ur. Fjölmörgum þýðingarmiklum
málum, sem um var samið við
myndun hennar hefur verið komið
í höfn og önnur eru í undirbúningi.
Ef ekki hefðu komið til óviðráðan-
leg áföll, svo sem aflabrestur á
loðnu og samdráttur þorskafla svo
og áhrif alþjóðlegrar kreppu með
sölutregðu og verðfalli á þýðing-
armiklum afurðum, væri hér bjart
framundan. Þau veðrabrigði urðu
ekki séð fyrir, en nú, þegar að
herðir, verða menn að horfast í
augu við veruleikann og grípa til
viðeigandi ráðstafana. Stjórnvöld
landsins hljóta þar að hafa forystu
eða víkja ella.
Ríkisstjórnin tók sínar á-
kvarðanir um nauðsynlegustu
aðgerðir í ágústmánuði og Alþýðu-
bandalagið átti sinn hlut að mótun
þeirra.Það var mat Alþýðubanda-
lagsins, að með heildarhagsmuni í
huga og hlut launamanna sérstak-
lega, bæri flokknum að standa að
þeirri málamiðlun sem tókst milli
ríkisstjórnaraðilanna, og Alþýðu-
bandalagið mun áfram taka af-
stöðu til mála út frá sömu forsend-
um. Það er ekki líklegt til vinsælda í
bráð að þurfa að draga saman segl
og leggja á byrðar, en sé það óhjá-
kvæmilegt skiptir mestu, hvernig
að slíku er staðið og að þar sé gætt
réttlætis og jafnaðar svo sem frek-
ast er kostur. Það hefur ríkisstjórn-
in haft að leiðarljósi í efnahags-
ráðstöfunum fyrr og síðar, m.a. við
setningu bráðabirgðalaganna í ág-
úst s.l.
Fjármálastjórn til
fyrirmyndar
Alþýðubandalagið ætlar hvorki
að eigna sér alla ávinninga úr nú-
verandi stjórnarsamstarfi né axla
eitt ábyrgð á því, sem miður hefur
tekist. Slíkt væri í senn óraunsætt
og ótrúverðugt, þegar um sam-
steypustjórn þriggja ólíkra afla er
að ræða. En Alþýðubandalagið
hefur farið með forystu í mikilvæg-
um málaflokkum innan þessarar
ríkisstjórnar og á þeim sviðum ber
það öðru fremur ábyrgð.
Á sviði félags- og heilbrigðis-
mála hefur verið náð fram fjöl-
mörgum réttindamálum og lögfest
atriði, almenningi til hagsbóta,
sem ekki verða auðveldlega aftur
tekin. Frumvarpið um lengingu or-
lofs er nýjasta dæmið um, hvernig
vinveitt stjórnvöld geta flýtt fyrir
framgangi hagsmunamála almenn-
ings.
Meðferð ríkisfjármála hefur þótt
takast með þeim ágætum undir for-
ystu Ragnars Arnalds fjármálaráð-
herra, að andstæðingar eiga erfitt
með að finna gagnrýni sinni stað.
Með farsælli forystu í
fjármálaráðuneyti og fjárveitinga-
nefnd Alþingis um árabil, hefur
Alþýðubandalagið sýnt og sannað,
að það getur axlað hvaða ábyrgð
sem er í stjórn landsins þannig að
til fyrirmyndar má telja.
Almennur iðnaður
og íslensk stóriðja
Um iðnaðar- og orkumál hefur
ekki ríkt neinn Fróðafriður hér á
háttvirtu Alþingi undanfarin ár,
a.m.k. ekki í orði. Mér hefur ýmist
verið legið á hálsi fyrir kyrrstöðu
og stöðnun, lokuð vinnubrögð,
einstrenging og hroka, eða þá of
mikil umsvif, lagabálka og upplýs-
ingar til Alþingis, sem kennt hefur
verið við pappírsflóð. Það væri
skemmtilegt orðasafn sem taka
Ræða flutt í
Sameinuðu
þingi 23.
nóvember
mætti saman úr ræðum háttvirtra
stjórnarandstæðinga um þau efni,
og gæti sá listi eflaust enst háttvirt-
um forseta Neðri deildar til að
vefja tungu mörgum sinnum um
höfuð sér, og kallar hann þó allt
ekki ömmu sína.
Ég hef kunnað þessum atgangi
háttvirtra stjórnarandstæðinga vel,
því að á endanum hafa þeir flestir
greitt atkvæði með mikilvægum
málum á sviði iðnaðar- og orku-
mála og hamagangur þeirra því
verið meira í orði en á borði.
Mörkuð hefur verið ný iðnaðar-
stefna og ný orkustefna. Erlenda
stóriðjustefnan er á hröðu undan-
haldi og menn átta sig nú á gildi
þess að tryggja hér innlent forræði'
yfir öllum þáttum atvinnulífs. Það
er líklega þetta undanhald erlendu
stóriðjustefnunnar, sem farið hef-
ur svo mjög fyrir brjóstið á háttvirt-
um þingmanni Agli Jónssyni, eins
og heyra mátti hér áðan, og sama
neikvæða tóninn mátti lesa á síðum
Morgunblaðsins fyrir réttri viku frá
formanni Sambands ungra Sjálf-
stæðismanna, Geir Haarde, varð-
andi íslenskt stóriðjuver, kísil-
málmverksmiðju á Reyðarfirði, en
hann á sæti í stjórn þess fyrirtækis.
Hann skyldi þó aldrei hafa fengið
línuna frá háttvirtum 11. lands-
kjörnum þingmanni, Agli Jóns-
syni?
í þeirri iðnaðarstefnu, sem
mótuð hefur verið í tíð núverandi
ríkisstjórnar hefur sérstök áhersla
verið lögð á fjölbreytta iðnþróun,
bæði almennan iðnað, þar sem
reynir á frumkvæði margra og ís-
lenskan stóriðnað, m.a. með orku-
lindir landsins að bakhjarli. Á-
stæða er hins vegar til að minna á,
að til þess að slík fjölþætt iðnþróun
verði að veruleika og nái til allra
landshluta, þarf mun víðtækari og
öflugri pólitískan stuðning innan
allra stjórnmálaflokka en hingað til
/til að tryggja vöxt og viðgang ís-
lensks iðnaðar, og undanskil ég þá
ekki úrvinnslu úr sjávarafla eða
landbúnaðarafurðum.
Virkjanir, verðjöfnun
og Alusuisse
í orkumálum hefur margt verið á
dagskrá. Sú orkustefna sem nú hef-
ur verið mörkuð og hlotið víð-
tækan stuðning hér á háttvirtu
Alþingi gerir ráð fyrir dreifingu
virkjana, jafnhliða því sem stofn-
línukerfi landsins verði treyst, stig
af stigi. Byrjað er á framkvæmdum
við Blönduvirkjun og haldið er
áfram undirbúningi að Fljótsdals-
virkjun, sem er næst á dagskrá.
Öryggi raforkunotenda um land
allt hefur verið aukið með varaafl-
stöðvum og vex enn til muna, þeg-
ar lokið verður hringtengingu
byggðalínukerfisins á næsta ári.
Tekist hefur að ná fram samn-
ingum um eina Landsvirkjun, þrátt
fyrir harðvítuga andstöðu íhalds-
aflanna.
Markvisst hefur verið unnið að
verðjöfnun á raforku til heimilis-
nota, og með Landsvirkjunar-
samningnum s.l. sumar, er tryggt
sama heildsöluverð frá byggðalínu-
kerfinu um land allt.
Fjárhagsleg staða Landsvirkj-
unar er afar bágborin, þrátt fyrir
það að fyrirtækið hafi fengið hækk-
anir á gjaldskrá sinni til
almenningsveitna langt umfram
aðrar verðlagshækkanir á undan-
förnum árum. Hefur af þessum
sökum orðið að grípa til þess að
greiða niður raforku til húshitunar
til að draga úr sárasta misrétti í
upphitunarkostnaði.
Þessi staða er fyrst og fremst til-
komin vegna raforkusölusamn-
ingsins við álverið í Straumsvík,
sem nú er knúið fast á um að fá
breytt. Þau ánægjulegu umskipti
hafa orðið síðustu mánuði, að allir
stjórnmálaflokkar virðast nú ein-
huga um réttmæti kröfunnar um
mikla hækkun á raforkuverði til
ísal. Sú afstaða, ásamt niðurstöð-
um úr endurskoðun á verðlagningu
á hráefnum til ísal, á drýgstan þátt í
að nú reynir á, hvort samningar
geti tekist milli Alusuisse og ís-
lenskra stjórnvalda. Hér eru hags-
munir í húfi sem varða hvert ein-
asta heimili á landinu.
Tryggjum réttlát
hlutaskipti
Herra forseti. Góðir hlustendur.
Sú vantrauststillaga, sem hér er
til umræðu, mun ekki auka traust
manna eða stuðning við stjórnar-
andstöðuna. Ríkisstjórnin hefur
brugðist við aðsteðjandi vanda með
ábyrgum hætti og nýtur enn meiri-
hlutastuðnings hér á háttvirtu
Alþingi og vafalaust meðal þjóðar-
innar. Þótt við margvíslegan vanda
sé að fást í íslenskum þjóðarbúskap
og n&kkuð dökkt sé í álinn fram-
undan, er engin ástæða til að
æðrast.
Við búum að gjöfulum auð-
lindum í sjó og á landi, og umhverfi
sem margir geta öfundað okkur af.
Að þessum gæðum ber okkur að
hlúa, vernda þau og hagnýta með
skipulegri hætti en gerst hefur til
þessa. Jafnframt er verkefnið að
tryggja eðlileg og réttlát hlutaskipti
í þjóðfélaginu til allra starfsstétta.
Slíkt á ekki og getur ekki gerst með
allsherjar miðstýringu eða vald-
boði, heldur verður að koma til
lýðræðisleg samstilling áhrifaaðila
og hagsmunahópa í þjóðfélaginu.
Hin pólitísku valdahlutföll í
landinu skipta hins vegar sköpum
um meginstrauma þjóðmálanna.
Þar ætlar Alþýðubandalagið sér
mikinn og vaxandi hlut, sem aðeins
fæst með atfylgi fjöldans. Hinn
breiði fjöldi vinnandi fólks í
landinu þarf nú á öflugri pólitísk-
um málsvara að halda en nokkru
sinni fyrr. Þann málsvara er aðeins
að finna í sterku og víðsýnu Al-
þýðubandalagi.
„Hinn breiði fjöldi vinnandi fólks í landinu þarf nú á öflugri pólitískum málsvara að halda en nokkru sinni
fyrr. Þann málsvara er aðeins að finna í sterku og víðsýnu Alþýðubandaiagi.“