Þjóðviljinn - 04.04.1984, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 04.04.1984, Blaðsíða 10
10 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 4. aprfl 1984 Minning Guðmundur Jóhannesson F. 8. apríl 1917 D. 24. mars 1984 Guðmundur Jóhannesson frá Vík er í dag borinn til grafar, en hann andaðist í Borgarspítalanum 24 mars sl. Guðmundur var fædd- ur að Skjögrastöðum í Suður- Múlasýslu 8. apr. 1917, yngsta barn þeirra hjóna Jóhannesar Jónasonar og Jónínu Jónsdóttur. Fjögurra vetra kom hann fyrst til Víkur með foreldrum sínum, en í það skiptið var dvölin í Mýrdalnum aðeins tvö ár. Foreldrar hans fluttu aftur austur á land og þar ólst Guð- mundur upp við algeng sveitastörf, en gerðist síðan bílstjóri er hann hafði aldur til. Leið hans lá síðan aftur til Víkur, en þangað flutti hann ásamt konu sinni, Sigríði Þormar og elsta syni þeirra Vigfúsi, árið 1945. Fyrstu árin í Vík var Guð- mundur rútubílstjóri, en varð starfsmaður Lóranstöðvarinnar á Reynisfjalli er íslendingar tóku við rekstri hennar 1946. Þar starfaði Guðmundur óslitið uns stöðin var Iögð niður árið 1977. Þá fluttu þau hjónin til Reykjavíkur og Guð- mundur hóf vinnu hjá Samvinnu- tryggingum á fyrri hluta árs 1978. Á sl. hausti bilaði heilsa Guð- mundar en löngu áður mun hann hafa fundið að hverju fór enda þótt hann léti engan bilbug á sér finna og stundaði vinnu sína án þess að láta á neinu bera. Kynni okkar Guðmundar hófust að marki rúmum áratug eftir að hann flutti til Víkur, enda var ég ekki kominn af barnsaldri er hann kom þangað. Þó fór ekki hjá því að atgervismaður sem Guðmundur vekti athygli og eins fór af honum það orð að hann væri maður fastur fyrir og ákveðinn í skoðunum. Hann var sem sé einn þeirra ungu manna sem risu gegn þeirri dag- skipan Jónasar frá Hriflu að skóla- fólk skyldi ekki mega ræða um stjórnmál innan veggja skólanna og leiddi það til þess að hann ásamt fleiri félögum sínum hvarf frá námi í Laugarvatnsskóla um miðjan vet- ur. Hann var þá orðinn ákveðinn sósíalisti og var öt.ull baráttumaður þeirra lífsskoðunar æ sfðan. í Vík tók Guðmundur virkan þátt í félagsmálum Mýrdælinga og voru honum falin mörg trúnaðar- störf á því sviði. Hann var um skeið varaformaður Verkalýðsfélagsins Víkings og síðar fvrsti formaður Félags símamanna íVestur-Skafta- fellssýslu. Þá var hann formaður Slysavarnadeilarinnar í Vík um ár- abil, varamaður í hreppsnefnd Hvammshrepps og síðan hrepps- nefndarmaður í 12 ár samfleytt og sat í sýslunefnd Vestur- Skaftafellssýslu á annað kjörtíma- bil fram til ársins 1978. Guðmund- ur var einn af stofnendum Sosíalist- afélags Mýrdælinga og síðar Al- þýðubandalagfélags Vestur- Skaftafellssýslu og þar lágu leiðir okkar saman. Hann var lengstum fulltrúi þessara félaga á flokksþing- um og landsfundum þessara sam- taka og átti sæti í stjórn þeirra um skeið. Starf félagsins heima í hér- aði mæddi jafnan mest á herðum hans enda var hann þar sem annars staðar jafnan reiðubúinn að leggja fram krafta sína. Hann var snjall fundarmaður og fylginn sér, ódeigur jafnt í sókn sem vörn og sama hver í hlut átti. Málfarið var meitlað enda kunni Guðmundur góð skil á íslendingasögunum og honum var lagin sú list að vitna til þeirra í málflutningi sínum og tengja baráttumálum líðandi stundar. Það var blátt áfram gaman að taka þátt í fundum í samfylgd Guð- mundar og finna þá dýrmætu vissu að barátta fyrir góðum málstað er það sem mestu máli skiptir þótt hún sé stundum erfið og á brattann að sækja. Þessi fáu kveðjuorð eiga að flytja þakklæti mitt fyrir samfylgd liðinna ára um leið og við hjónin vottum Sigríði, sonum þeirra og öðrum aðstandendum innilega samúð okkar við fráfall Guðmund- ar. Blessuð sé minning hans. Björgvin Salómonsson Fyrir nokkrum árum kom vinur okkar Guðmundur Jóhannesson suður með'sjó til að heilsa upp á okkur, gömlu kunningjana úr Vík- inni. Þegar komið var að kveðju- stund vatt hann sér alltíeinu að mér og glettnin skein úr augunum er hann sagði: „Þú átt að skrifa um mig eftirmæli þegar þar að kemur. Og þar á að standa: Nú er hann farinn hann Guðmundur Jó, hann hefði getað verið betri.“ Þau hjónin Guðmundur Jóhann- esson og Sigríður Þormar fluttu með fjölskyldu sína í næsta hús við mitt æskuheimili í Vík um það leyti sem ég man fyrst eftir mér á árun- um eftir stríð. Og flestar æsku- minningar mínar eru tengdar því elskulega fólki. Fyrir .voru góðir grannar sem við systkinin höfðum ánægju af að endurnýja kynni við á sl. sumri. Á þessum árum var erfitt atvinnuástand í Vík, svo faðir okk- ar varð að afla fjölskyldunni líf- -svirðurværis fjarri sínu heimili, en það sem gjörði það mögulegt var hjálpsemi góðra granna. Eftir að við fluttum til Keflavík- ur leitaði hugurinn oft á bernsku- slóðir og þegar sumra tók áttum við alltaf víst athvarf hjá Siggu og Guðmundi er hugurinn leitaði Vík- ur. Á sokkabandsárum mínum í Vík þótti okkur strákunum mest koma til fjallamanna og bílstjóra. Fjallamenn voru þeir kallaðir sem tóku við eftirliti Lóranstöðvarinn- ar á Reynisfjalli og í þeirra hópi var Guðmundur Jó. í því atvinnuá- standi sem áður er Íýst öfunduðust margir yfir þeim störfum og fannst á sólríkum sumardögum vart kall- andi vinnu að keyra upp á fjall og standa vakt einn sólarhring. Þær raddir heyrðust sjaldnar á vetrin þegar geisuðu válynd vetrarveður og vaktmenn gengu á fjallið með sitt hafurtask á bakinu vegna þess að ekkert farartæki komst út úr bvggðarlaginu vegna ófærðar. Og dæmi voru til þess að vegna storms urðu fjallamenn að skríða frá fjallsbrún suður á Lóranstöð til þess að leysa félaga sína af hólmi. Þjónustuhlutverki áætlunaröku- mannsins er óþarfi að lýsa hér, en í báðum þessum störfum sýndi Guð- mundur að hann var traustsins verður enda var honum jafnframt trúað fyrir fjölmörgum trúnaðar- störfum af sínum samferðar- mönnum. Guðmundur var enginn hvers- dagsmaður, og ekkert var honum fjær en að sýnast. Skapmynstrið var stórbrotið, oft galsafengið, en á andartaki gat skapið orðið ólgandi hafsjór, þá einkum og sérílagi ef gengið var á hlut lítilmagnans. Lít- ill drengur hrakinn af sér meirihátt- ar, eða öldungur særður af óvar- legu orði, báðir áttu jafn óbil- gjarnan stuðningsmann í Guð- mundi Jóhannessyni. Elsku Sigga mín og strákarnir. Guð launi ykkur áralanga tryggð og vináttu, og gefi ykkur og fjöl- skyldunum styrk. Hann vinur minn, Guðmundur Jóhannesson er farinn á síðustu fjallvaktina síná", fljótur að finna sig til, eins og hans var von og vísa, þegar kallið kom. Ég mun engum manni kynnst-betri. Sævar Guðmundur Jóhannesson frá Vík er borinn til moldar í dag. Ég tengdist honum og fjölskyldu hans gegnum konu mína, sem oft var austur í Vík á æsku- og unglingsár- um hjá þeim Guðmundi og Sigríði, móðursystur sinni. Minnist hún þeirra dvalar jafnan með sérstakri gleði. Þau hjón bæði voru raunar upp- runnin austur á Héraði, en bjuggu sinn búskap lengstum í Vík, þar sem Guðmundur starfaði við Lór- anstöðina á Reynisfjalli. Þegar hún varð lögð niður fyrir fáum árum fluttust þau í bæinn og Guðmundur fékk starf hjá Sambandinu. Guðmundur var ákaflega hlýr maður og barngóður, glæsimenni á yngri árum og jafnan reffilegur, hress í tali, greindur og fjölfróður. Fyrrum ók hann vörubflum austur á Fjörðum og síðar áætlunarbíl um söguslóðir Njálu milli Reykjvíkur og Víkur í Mýrdal og varð manna sterkastur í þeirri bók; hann sagði mér sitthvað merkilegt af því fólki öllu, sem Njálu byggir. Með Guðmundi er því borinn til moldar hluti af íslenskri menningu - hann var af þeirri kynslóð sem las og kunni a.m.k. þær íslendingarsögur sem hann sjálfan vörðuðu og hans svæði. Þetta var hans fólk og Guð- mundur velri fyrir sér og hafði áhuga á kjörum þess. Fyrir mörgum árum fékkst ég við örnefnasöfnun á Vestfjörðum og veitti því þá athygli, að þeir sem þekktu íslendingasögurnar og hugsuðu um þær þekktu líka ör- nefnin - sagan og landið voru eitt. Þegar Andrés önd, Lukku-Láki og aðrir alheimsborgarar verða orðnir sameiginlegt andlegt veganesti þjóðarinnar mun fleira verða undan að láta en hinn bóklegi menningararfur. Það var gaman að kynnast Guðmundi Jóhannessyni. Kannski var hans mest áberandi eiginleiki karlmennskan, „macho“, sem ekki er algengt hér á landi, en hluti þess er barngæska og hjartahlýja, en þó aðallega stolt - Guðmundur hefði líklega vel getað verið Spánverji, bæði að útliti og atgervi, en spænskir karlmenn eiga víst að vera „macho“. Og nú er Guðmundur Jóhannes- son kominn á leiðarenda. Sagt er að vegir guðdómsins séu órann- sakanlegir og allt á huldu um til- gang vors æviskeiðs. En hitt er víst að augljós tilgangur er að ávaxta sitt pund: Guðmundur og Sigríður komu á legg fjórum myndarlegum sonum, Vigfúsi, Stefáni, Rafni og Skúla, sem allir eru orðnir fjöl- skyldumenn, hinir tveir eldri í Vík, en hinir yngri í Reykjavík. Við Helga vottum Sigríði Þormar og afkomendum þeirra Guðmundar samúð okkar. Sigurður Steinþórsson Ég mun víst ekki hafa verið hár í loftinu í ársbyrjun 1945, þegar ég heyrði á hvíslingum fólks í Víkur- kauptúni um afar dramatískan at- burð. Það var sumsé kominn kom- múnisti í plássið. Og ekki nóg með það, heldur keyrði hann rútuna hjá Brandi. Þár sem þessi rúta stóð. löngum utan dyra hjá mér gekk maður hljóðlega um hlöð til að styggja ekki þessa kynjaskepnu, sem kommúnisti hlaut að vera, og ég hafði að ég best vissi aldrei augum litið. Helst hélt ég að svodd- an dýr líktist Víkurbola sem Binni hafði hvað eftir annað hrætt okkur með krakkana. Ég hrökk því heldur en ekki við þegar ég sá Guðmund Jóhannes- son fyrst. Ég minntist ekki að hafa áður augum litið jafn myndarlegan mann, sem andstætt furðuverum ævintýranna ávarpaði mig með alúð og hlýju. Andlit hans var frítt, augun leiftrandi af glettni og gleði, gjörvulegur á velli, kvikur og snar í hreyfingum svo aðdáun vakti. Hann var glímumaður ágætur og hafði gaman af að þreyta íþróttir við aðra menn. Guðmundur og Sigríður Þormar kona hans fluttu til Víkur í Mýrdal árið 1945, eins og áður sagði, og settust fyrst að í húsi vestast í þorp- inu, þar sem um aldamót var upp- haf byggðarinnar í Víkurkauptúni. Var brátt einkar kært með þeim hjónum og foreldrum mínum, einkum höfðu þeir Guðmundur og faðir minn mikið saman að sælda alla tíð, ekki síst að framfaramál- um sveitarinnar. Fljótlega varð ég heimagangur í húsi þeirra. Undraðist ég það mjög hversu fullorðinn maður og fjör- mikill, eins og Guðmundur, entist til að etja kappskák við þennan unga svein eða taka í spil, því sá leikur var framanaf afar ójafn. Fyrir þetta er ég Guðmundi ævin- lega þakklátur og þá ekki síður fyrir þann mikla þjóðlega fróðleik sem hann miðlaði. Guðmundur kunni heila kafla úr Njálu og þótti gaman að hafa yfir. Var hún hon- um án efa kærust bóka, enda vitn- aði hann óspart til hennar, jafnt í almennu tali sem á opinberum fundum. Guðmundur Jóhannesson var fæddur 8. aprfl árið 1917 að Skjögrastöðum í Vallahreppi í S- Múlasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Jónína Jónsdóttir og Jó- hannes Guðjón Jónasson, og var Guðmundur yngstur 10 barna þeirra. Guðmundur missti föður sinn árið 1928, þá 11 ára. Var hann þá með móður sinni og elsta bróður, Sigfúsi bónda í Vallaneshjáleigu. Þau réðu hann vinnumann til séra Sigurðar Þórðarsonar í Vallanesi árið 1931 og kom prestur honum í kristinna manna tölu á því ári. Eftir það sá Guðmundur um sig á eigin spýtur og farnaðist vel. Skólaganga Guðmundar var ekki löng, enda auraráðin oft lítil. Hygg ég þó að hugur hans hafi staðið til frekara náms, enda Guðmundur ágætlega gáfum gæddur. Hann gekk í Eiða- skóla einn vetur og síðar hálfan vetur í Héraðsskólann á Laugar- vatni, en var vikið þar úr skóla ásamt 12 öðrum vegna pólitísks á- greinings. Guðmundur stundaði venjuleg sveitarstörf framanaf, heyskap að sumri, en gripahirðingar vetrar- langt, og lét vel. Hann réðst bfl- stjóri til Kaupfélags Héraðsbúa á Reyðarfirði 1940 og var hjá því öll stríðsárin. Fór mikið orð af honum um Austfirði fyrir dugnaðarsakir. Á þessum árum kynntist hann konu sinni, Sigríði Þormar Vigfús- dóttur frá Geitagerði í Fljótsdal, mikilli glæsikonu og giftu þau sig árið 1944. Eftir að til Víkur kom gerðist Guðmundur bílstjóri hjá sérleyfis- hafanum Brandi Stefánssyni, sem giftur var Guðrúnu systur Guð- mundar. En um áramótin 1946-47 tóku íslensk stjórnvöld við rekstri Lóranstöðvarinnar á Reynisfjalli. íslendingar réðust þá til starfa við stöðina og voru þeir gjarnan nefnd- ir „fjallmenn" í daglegu tali. Var Guðmundur einn þeirra og starfaði hann þar samfellt í 31 ár, eða þar til stöðin var endanlega niðurlögð. Árin í Vík urðu því alls 33. Ég hygg að þeim hjónum hafi þótt miður að þurfa að flytja frá Vík árið 1978, en þar var að fáu að hverfa eftir að Lóranstöðinni var lokað. Oft lagði maður leið sína á „fjall- ið“. Fjallmenn stóðu sólarhrings- vaktir, og var þá oft eigi annað erf- iði en taka í spil og tefla skák. Eftir að ég fór frá Vík var það svo jafnan eitt fyrsta verk þegar Víkin var heimsótt að líta þar uppeftir í kaffi og látagamminn geysaum landsins gagn og nauðsynjar. Var það segin saga að við Guðmundur fórum yfir allt þjóðmálasviðið, ekkert var undanskilið og fengu allir sinn skammt. Það gladdi fremur minn góða vin þegar ég loks gekk til liðs við hann í Alþýðubandalagið, en þar var Guðmundur virkur og áhugasamur félagi, eins og fyrr jafnan í fylkingu íslenskra sósíal- ista. Stjórnmálabaráttan í V- Skaftafellssýslu var afar hörð og deilur oft illvígar. Einkum var því þann veg farið meðan sýslan var einmenningskjördæmi og mjótt á mununum um fylgi íhalds og fram- sóknar. Landlægur ágreiningur var um hin ólíkustu mál, einkum var harka í verslunarmálum, þar sem menn höfðu viðskipti eftir pólit- ískri línu. Hart var barist á lands- málafundum og engu síður um málefni hreppsins. Gekk Guð- mundur fram af mikilli málafylgju á fundum, og var afar laginn áróðursmaður. Ekki hafði Guðmundur haft langa viðdvöl í Vík þegar hann dróst inn í margháttaðan félags- skap. Hann gekk strax í Verka- mannafélagið Víking og varð vara- formaður þess. Formaður Slysa- varnafélagsins um árabil. Stóð að stofnun Sósíalistafélags Mýrdæl- inga og formaður þess lengstaf. Hann átti einnig sæti í stjórn Sósíal- istaflokksins um tíma. Guðmundur var fyrsti formaður deildar í Félagi íslenskrasímamanna, F.Í.S., ísýsl- unni og í stjórn hennar allan tím- ann. Guðmundur sat í hreppsnefnd Hvammshrepps samfellt í 12 ár og önnur 12 ár þar á undan fyrsti vara- maður. Síðustu 4 árin í Vík átti hann sæti í sýslunefnd. Eftir að til Reykjavíkur kom hóf Guðmundur störf hjá Samvinnu- tryggingum og varð þá félagsmað- ur í Dagsbrún og virkur félagi í Al- þýðubandalaginu í Reykjavík. Guðmundur hafði um nokkurt skeið átt við alvarleg veikindi að stríða er hann andaðist í Borgar- spítalanum 24. mars sl. Þótt skipst hafi á skin og skúrir í lífi hans eins og gengur er ég viss um, að hann taldi sig mikinn gæfumann í lífinu. Þau hjónin hafa komið upp fjórum myndarlegum sonum, Vigfúsi, Stefáni Þormar, Rafni og Skúla. Tveir þeir elstu búa nú í Vík og hafa tekið upp merki föður síns í félagslegri forystu. Þeir yngri búa báðir í Reykjavík. Ég vil votta þeim og Sigríði innilega samúð okkar Hrafnhildar og móður minnar þegar Guðmundur er nú til moldar borinn. Með Guðmundi var gott að vera. Gleði og góðvild ríkti í návist hans. Ég færi honum þakkir fyrir öll okk- ar kynni. Far þú í friði, góði vinur. Baldur Óskarsson. Margt kemur upp í hugann, þeg- ar Guðmundur Jóhannesson er all- ur, þetta mikla glæsimenni og karl- menni, sem átti bæði til að bera stolta og stríða lund og óvenjulega hjartahlýju. Fjörutíu ár eru síðan hann flutti alfarinn úr sveitinni okkar, en meðan hann átti þar heima eða var bflstjóri hjá Kaupfélagi Héraðs- búa, kom hann oft á heimili okkar og ætíð var hann þar aufúsugestur, sem gustaði af og flutti með sér hressandi blæ. Móður minni var hann alltaf kær, þótt hann væri oft fyrirferðarmeiri en henni líkaði hjá flestum ungum mönnum. Ég hafði á tilfinningunni, að hún umbæri hann umfram þá flesta, ef ekki alla. Þessu olli hjartalagið hans Guð- Framhald á bls. 12

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.