Þjóðviljinn - 15.07.1984, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 15.07.1984, Blaðsíða 8
SUNNUDAGSPIStlLL Er hœgt að vinna minna og lifa miklu betur? Við lifum í þjóðfélagi þar sem launavinna er sterk þungamiðja og eftirsóttur lykill að þeirri ánægju sem menn hafa af pen- ingum og neyslu. Og af því að neyslan er svo sterkur mæii- kvaröi á hamingju manna og sjálfsálit, þá er líka mikil eftir- spurn eftir aukavinnu og auka- tekjum (rneiri en tiltekið kreppuá- stand neyðir menn til). Þetta þykja svo sjálfsagðir hlutir að sá hrekkur við, sem er minntur á það, að óralangt er síðan menn fóru að tengja saman frelsið og styttingu vinnutímans. Thom- as More skrifaði sína frægu bók um farsældarþjóðfélagið Útópíu árið 1516: þar vinna menn sex stundir á dag og hafa nógan tíma til að stunda fagrar listir og fræði og önnur göfug áhugamál. Slagur um styttri vinnuviku íslendingar hafa verið vinnu- samir menn eins og allir vita, og fjörtíu stunda vinnuvikan hefur ekki notið hjá þeim virðingar í verki. Og kannski fannst mörg- um það ekki koma þeim sérlega mikið við, þegar í Vestur- Þýskalandi var háð allhörð deila um þá kröfu málmiðnaðarmanna að vinnuvika þeirra styttist í 35 stundir, - og náðu þeir áfanga- sigri, 38,5 stundum. Samt skyldi enginn efast um að þetta eru merkileg tíðindi sem koma okkur heldur betur við. Þýskir atvinnurekendur reyndu að láta hart mæta hörðu í þessari vinnudeilu og settu um 400 þúsundir manna í verkbann meðan mest var. Af þessu má ætla að vinnuvikan sé punktur, þar sem stéttarbaráttan kemur skýrast fram við nútímaaðstæður í evrópsku iðnríki. Hér muni glíman verða hörðust milli hægri og vinstri, milli kapítalista og verkalýðshreyfingar. Nokkuð til í því: að minnsta kosti vildu vest- urþýskir málmiðjuhöldar ekki verða fyrstir til að semja um skemmri vinnuviku en 40 stundir því það „spillir fyrir samkeppnis- getu þýsks iðnaðar" eins og þeir sögðu. En það getur eins verið að smám saman sé að myndast all víðtæk samstaða um slíka þróun. Hægrimaðurinn Poul Schluter, forsætisráðherra Danmerkur, sagði meðan hann var í heimsókn hér á dögunum, að vitanlega væri 40 stunda vinnuvikan ekki heilög kýr. Hún mundi koma. Það væri bara spurt um það, hvernig að henni skyldi standa. Stytting vinnuvikunnar er hugsuð sem leið til að draga úr atvinnuleysi, til að dreifa vinn- unni á fleiri hendur á þeim tíma þegar tækniþróunin slátrar at- vinnutækifærum af gífurlegum hraða. Það verður æ auðveldara að framleiða allskonar vöru, en erfiðara og kostnaðarsamara að selja hana. Vöruframleiðslan er miklu auðveldari en framleiðslan á neytendum. Markaðir ríkra þjóða eru um margt mettaðir og skuldamál þriðja heimsins benda ekki til þess að þar sé að vænta nýrra kaupenda offramleiðslu- vöm í bráð. En sem fyrr segir: tæknibyltingin sjálf er einna drýgst við að útrýma vinnuaflinu. Tökum dæmi frá því sama Vestur-Þýskalandi. Þar sköpuðu hundrað miljarðir marka, sem fjárfest var í iðnaði, tvær miljónir nýrra starfa á árunum 1955-1960 og 400 þúsund störf á árunum 1960-1965. En á árunum 1965- 1970 hafa sömu peningar útrýmt 100 þúsund störfum og 1970-1975 útrýmdu þeir hálfri miljón starfa. Þróunin hefur enn hert á sér síð- an. Þeirri vissu manna að vera heldur óvelkominn á vinnumark- að, fylgir minnkandi áhugi á launavinnunni sem höfuðatriði í lífi hvers og eins: kannanir jafnt í Vestur-Þýskalandi, Frakklandi og Svíþjóð sýna, að þeim hefur snarfækkað á undanförnum tveim áratugum sem telja að maðurinn sé fyrst og fremst í starfi sínu, það sé mikilvægara en það, sem hann gerir utan vinnu- tíma. Vinstriflokkar hafa, sem von- legt er, reynt að hamla gegn atvinnuleysi. Fátt verður þeim til frambúðar hættulegra en tví- skipting fólks á þá, sem hafa vinnu og eru tiltölulega vel settir og í stóran her atvinnuleysingja (kannski 30% af vinnufærum), sem lifa við allt önnur kjör og ótryggari - og yfir öllu saman tróna þeir kapítalistar og tækni- kratar sem öllu ráða, yppta öxl- um og segja: svona er lífið. En þess er líka að gæta, að margir hægrimenn hafa á því skilning, að það geti verið skynsamlegt að skipta störfum meir milli vinnu- færra. Bæði til að draga úr greiðslum til atvinnulausra (úr fé- lagslegum kostnaði kapítalískrar þróunar) og til þess að koma í veg fyrir pólitískar sprengingar sem fylgt gætu atvinnuleysi. Þeir líta svo, að það sér auðveldara að réttlæta þjóðfélagið fyrir þegnum þess, ef áfram verða til sæmilegar líkur fyrir flesta á að fá vinnu. Af þessum ástæðum getur vel orðið til allbreið samstaða um ráðstafanir eins og styttingu vinnuvikunnar. En þær segja í sjálfu sér fátt um framtíðina, þar sem enn minni eftirspurn verður eftir vinnuafli til framleiðslu. André Gorz, sem mikið hefur skrifað um „brotthvarf ör- eiganna" segir sem svo í bók sinni „Vegir Paradísar": „Hvaða hug- myndafræði sem menn annars aðhyllast þá er það víst, að sér- hver pólitísk stefna er röng sem ekki viðurkennir þá staðreynd, að það verða ekki framar til full launastörf fyrir alla og að launa- vinnan getur ekki áfram verið þyngdarpúnkturinn eða þó ekki væri nema hin ríkjandi athöfn í lífi hvers og eins“. Og spurt er vitanlega: hvernig ætla menn að bregðast við þessari „staðreynd“? Það er sjálfsagt hægt að velta upp ýmsum möguleikum. Einn er sá að markaðslögmálin hafi sinn gang með svipuðum árangri og áðan var nefnt: Efst trónar tækni- krataveldið og styðst við fjöl- menna og vel setta miðstétt, sem hefur sérþekkingu og tryggar tekjur, neðst er svo einhverskon- ar ný öreigastétt, sem er haldið spakri með „brauði og sjón- leikjum“ rétt eins og öreigum Rómar til forna - en þeirra „ör- tölvur" voru, eins og menn muna, þrælar hins foma heimsveldis. En það er líka hægt að reyna að móta stefnu, sem þrátt fyrir það að hagvaxtarvonir hafi lengst af verið sterkar á vinstrivæng, hefur lengi tórt þar í nokkrum drögum. Stefnu sem franska verkalýðs- sambandið CFDT hefur orðað sem svo „Vinnum minna - til að allir geti unnið og lifað betur“. En þetta er stefna sem kallast líka á við gamiar og góðar vangaveltur Karls gamla Marx um að mannfólkið stígi út úr ríki nauðsynjarinnar út í ríki frelsis- ins. Með því að nota sigurvinn- inga tækninnar til að vinna minna til að framfleyta þjóðfélaginu, en meira til að framleiða frjálsan tíma - í von um að menn geti nýtt hann sér til nokkurs þroska. Fyrrnefndur André Gorz og ýmsir fleiri telja að þessi stefna verði mörkuð með því að yfir- stíga lögmál kapítalískrar hag- sýslu sem og hagvaxtarhyggju ríkissósíalismans. í ritgerðum þessara manna er að finna ýmsar þær hugmyndir sem einícenna þessa framtíðarsýn. Þar er ekki boðað að tækninni sé hafnað eða sérhæfingunni, eins og stundum gerist á vinstrikanti þegar mönnum stendur ógn af því hvað framfarirnar leggja í rúst. Áhersl- an er hinsvegar á það, að tækni- möguleikar séu notaðir til að byggja upp smærri framleiðslu- einingar en nú eru algengastar, og til að dreifa valdinu með ræki- lega útfærðu sjálfstjórnarskipu- lagi í samvinnufélögum af ýmsri gerð. Þetta fer svo saman við að unnið sé markvisst gegn þeirri forréttindahugsun sem rekur m.a. kapítalismann áfram og bruðl hans. (Það sem er nógu gott fyrir alla er ekki nógu gott fyrir mig, af því ég er til dæmis verð- mætur sérfræðingur). í þriðja lagi er lögð áhersla á að sá frítími sem tækni nýrra tíma skapar sé notað- ur m.a. til að draga úr þörfum fyrir hverskonar viðskipti með vörur og þjónustu. Til þess að menn noti sinn eigin tíma bæði til að búa til ýmislegt sem þeim er nauðsynlegt án tímapressu og af- kastastreitu - og til að skapa sér sem mesta lífsfyllingu í þeim ólaunuðu og „ópraktísku“ störf- um sem menn vinna af áhuga, af tryggð og velvild og fleiri þeim hvötum sem markaðslögmálin láta sig litlu varða - ef þau ekki beinlínis vinna að því að útrýma þeim. Tœkni og hugarfar Allt er nýtt og allt er gamalt undir sólinni. Árið 1821 er ó- nefndur breskur forveri sósíalista að gagnrýna hagfræðivisku þeirra tíma og segir meðal annars: „Þar sem manneskjurnar unnu í tólf tíma munu þær nú vinna í aðeins sex stundir - og þetta er auðæfi þjóðanna, velmegun þeirra. Þeg- ar sleppt er allskonar misheppn- aðri hótfyndni er, guði sé lof, ekki til önnur aðferð til að auka auðæfi þjóðarinnar en sú sem einnig styrkir möguleika til lífs. Þannig eru auðæfin frelsi, frelsi til að leita sér skemmtunar, til að bragða á ávexti lífsins, til að þroska sína andlegu hæfileika, auðæfin er tími sem maður ræður yfir og ekkert annað“. Þetta var semsagt fyrir hundr- að og sextíu árum. En þótt tækni- legir möguleikar til að efla slík „auðæfi þjóða“ séu nú gífurlegir eru það enn sem fyrr aðeins minnihlutahópar og einstaka raddir, flestar úr hópi vinstri- sinna, sem síst eru bundnir hefð- um iðnaðaraldar, sem reyna að koma boðskap þessarar ættar út til almennings. Baráttulist til framgangs á þessum brautum er enn í brotum og enn ekki sameign fjöldahreyfinga. Hitt er svo vafa- laust, að þótt íslendingar telji sig enn geta stigið nokkur stig fram á við á hefðbundnum iðnvæðingar- brautum (vegna þess m.a. nve seint þeir komu í þann dans) þá munu spurningar af þessu tagi verða æ áieitnari með hverju ári sem líður: veruleikinn mun sjálf- ur bera þær fram og heimta svör og engar refjar. 8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 15. júlí 1984

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.