Þjóðviljinn - 27.07.1986, Blaðsíða 9
Þetta verð
að
stöðva
Treystir einhver þessum manni aö fara með allt þaö vald sem honum er falið, ráöherra sem er sjálfur tengdur útlenskum
fyrirtækjum hagsmunasamböndum?
Megindeila íslenskra stjórn-
mála undanfarin ár hefur verið
um afstöðuna til erlends fjár-
magns í íslensku atvinnulífi. Af-
staða Sjálfstæðisflokksins hefur
verið sú að hingað beri að kalla
inn í landið sem allra mest erlent
fjármagn; hugmyndirnar um 20
álverksmiðjur eru ættaðar frá
íhaldinu. Alþýðuflokkurinn hef-
ur ekki tekið afstöðu gegn þess-
um sjónarmiðum íhaldsins, þvert
á móti: Alþýðuflokkurinn studdi
eindregið álfrumvarpið á sínum
tíma og ber ásamt íhaldinu höf-
uðábyrgð á því að álverksmiðjan
var reist á sínum tíma og þeim
samningum um raforkuverð og
skattgreiðslur sem fylgdu álver-
inu. Framsóknarflokkurinn
studdi ákvörðunina um járn-
blendiverksmiðjuna á Grundar-
tanga, en Alþýðubandalagið
lagðist gegn þeim tillögum.
Afstaða Alþýðubandalagsins í
þessum efnum var mótuð á
flokksráðsfundi 1976 þar sem
segir að íslenskir aðilar skuli skil-
yrðislaust eiga meirihluta í fyrir-
tækjum hér á landi. Á þeirri for-
sendu var tekið á málum í tíð
Hjörleifs Guttormssonar í iðnað-
arráðuneytinu, en í hans tíð kom
betur í ljós en nokkru sinni fyrr
hvernig samningamenn íslend-
inga í álmálinu höfðu látið svo að
segja féfletta þjóðina. Svindlmál
Alusuisse hefur verið rakið ítar-
lega í blöðum, en vissulega væri
ástæða til þess að festa það mál
allt á bók. Hafa verið skrifaðar
langar ritgerðir um þau mál er-
lendis, þar sem meðal annars hef-
ur komið fram aðdáun á því
hvernig smáríki hefur beygt risa
fjölþjóðafyrirtækis og hvernig
núverandi ríkisstjórn gaf unnið
tafl.
Nú vil ég taka fram að ég tel
nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að
íslendingar hafi samvinnu við út-
lendinga til þess að tryggja að
hingað berist ný tækniþekking
svo sem frekast er kostur. En
samstarf við útlendinga verður að
takmarkast við það grundvallar-
atriði að íslendingar haldi þjóð-
legu sjálfstæði sínu. Sjálfstæði
þjóðar er ekki bara orð, heldur
innihald: Sjálfstæði þjóðar sem
hefur afhent útlendingum for-
ræði sinna atvinnumála er lítið
nema á pappírnum. Hér er komið
að því grundvallaratriði í afstöðu
Alþýðubandalagsins sem ræður
úrslitum og frá því munum við
hvergi víkja. Segja má að í af-
stöðunni til varðveislu sjálfstæð-
isins liggi skurðpunktur íslenskra
stjórnmála, þar skilur að Alþýðu-
bandalagið og alla hina „gömlu“
stjórnmálaflokkana þrjá.
Reisn eða
niðurlœging
Fyrir nokkrum mánuðum birt-
ist skýrsla um þróun nýrrar tækni
á íslandi, unnin á vegum félags-
málaráðuneytisins. Það var út af
fyrir sig gott framtak hjá félags-
málaráðuneytinu að láta vinna
slíka skýrslu. En þegar formaður
nefndar þeirrar sem vann skýrs-
luna, kom í sjónvarp til að skýra
frá helstu niðurstöðunum kom í
ljós hvað það var sem hann taldi
að helst gæti fleytt íslendingum
áfram á vegum hinnar nýju
tæknibyltingar: Það var samstarf
við bandaríska herinn. Taldi
hann ástæðu til þess að binda sér-
stakar vonir við stjörnustríðsá-
ætlun Bandaríkjaforseta og að ís-
lendingar gætu fengið
allranáðarsamlegast að læra
eitthvað af þeim kumpánum for-
setans. Það er raunar ekki nýtt að
talsmenn hernámsflokkanna
þriggja telji að öll vandamál ís-
Iendinga verði að leysa með því
að leggja niður raunverulegt
sjálfstæði þjóðarinnar. Þeir hafa
aldrei séð aðra leið fyrir þjóðina
en að lifa sníkjulífi á öðrum þjóð-
um, - að hengja smáfleytu ís-
lendinga aftan í doríur stórþjóð-
anna eins og einn stjórnmálaleið-
toginn orðaði það fyrir 20 árum.
Þannig var það til dæmis oft í
landhelgisdeilunni þegar hags-
munir NATO höfðu meira vægi í
afstöðu þeirra en hagsmunir ís-
lendinga. Nú þegar ný öld tækni-
byltingar gengur í garð er hins
vegar ljóst að við getum sem smá-
þjóð með meiri þekkingu en flest-
ar aðrar þjóðir í sjávarútvegi
unnið stórvirki eins og dæmin
þegar sanna - aðeins ef við höld-
um sjálfstæði okkar, en höfnum
þeirri stefnu að afhenda útlend-
ingum allt sem arðvænlegast er í
þessu landi. Einungis með því að
nýta möguleikana sjálf getum við
bætt stórkostlega lífskjörin hér á
landi. Ella hirða útlendingar það
sem gefur ávinning; eftir sitja ís-
lendingar í þeim atvinnugreinum
sem minnstan arð gefa og lægst
laun greiða. Hér er spurningin
einfaldlega um reisn eða niður-
lægingu þjóðarinnar og þá sjálfs-
tæðisbaráttu smáþjóðar sem
aldrei lýkur.
Fréttin 17. júlí
Fimmtudaginn 17. júlí sl. birti
Morgunblaðið frétt þess efnis að
iðnaðarráðherra hefði lagt fram í
ríkisstjórn frumvarp um breyt-
ingu á iðnlögunum sem gerði ráð
fyrir því að iðnaðarráðherra gæti
einn ákveðið að útlendingar ættu
meirihluta í fyrirtækjum hér á
landi. Nú er slíkt ekki heimilt
nema alþingi samþykki.
Efnisatriði málsins eru ekki
fullskýr af fréttinni, en þetta
liggur þó fyrir:
1. Að um er að ræða hugmynd-
ir um breytingar á iðnlögunum.
2. Þar er gert ráð fyrir því að
iðnaðarráðherra geti veitt unda-
nþágu þess efnis að erlendir aðil-
ar eigi meirihluta í íslenskum iðn-
fyrirtækjum.
3. Einnig er gert ráð fyrir því að
útibú erlendra fyrirtækja geti átt
meirihluta í íslenskum iðnfyrirt-
ækjum.
4. Samkvæmt frumvarpinu er
einnig gert ráð fyrir því að er-
lendur aðili fái Ieyfi til þess að
eiga og reka fasteign hér á landi
hafi hann fengið iðnrekstrarleyfi.
5. Fram kemur að iðnaðarráð-
herra hefur lagt þessa tillögu fyrir
ríkisstjórnina fyrir nokkrum
mánuðum en hún hafi ekki enn
tekið afstöðu til tillögunnar. Vit-
að er að iðnaðarráðherra hætti að
mæta á fundum ríkisstjórnarinn-
ar um skeið sl. vetur vegna þessa
máls meðal annars. Því er hins
vegar slegið föstu í Morgun-
blaðsfréttinni að ráðherrann
muni leggja málið fyrir alþingi í
haust.
Iðnaðarlögin
Iðnaðarlögin voru sett 1978
þegar Gunnar Thoroddsen var
iðnaðarráðherra. Þar segir svo í
4. gr. 3. tl.:
„Ef félag er hlutafélag, þá skal
ennfremur meira en helmingur
hlutafjárins vera í eign manna,
búsettra á Islandi."
Síðan er tekið fram að ráð-
herra geti veitt undanþágur frá
ýmsum skilyrðum laganna öðrum
en þeim sem hér um ræðir. Lögin
„taka til hvers konar iðnaðar í
atvinnuskyni“ eins og segir í 1. gr.
Hér er því bersýnilega um að
ræða tillögu um algjöra stefnu-
breytingu í atvinnurekstri hér á
landi. I tilefni þessarar fréttar er
eðlilegt að bera fram eftirfarandi
spurningar:
1. Er Sjálfstæðisflokkurinn
hlynntur þessum tillögum Al-
berts Guðmundssonar eða eru
þetta einkahugmyndir ráðherr-
ans?
2. Hefur þingflokkur Sjálf-
stæðisflokksins fjallað um þetta
frumvarp iðnaðarráðherra?
3. Vill Sjálfstæðisflokkurinn
standa við þá stefnu sem Gunnar
Thoroddsen mótaði 1978?
4. Hefur ríkisstjórnin sam-
þykkt frumvarpið?
5. Hefur Framsóknarflokkur-
inn tekið afstöðu til frumvarpsins
og ef svo er þá hvaða afstöðu?
6. Mun iðnaðarráðherra flytja
frumvarpið einn á komandi
þingi?
Nýtt skref
Það má öllum Ijóst vera að
verði frumvarpið að lögum, er
um að ræða nýtt skref á þeirri
braut, sem viðreisnarstjórn Al-
þýðuflokks og Sjálfstæðisflokks
markaði, að afhenda útlending-
urn forræði í atvinnulífinu á N-
landi. Álverið er undanþegið
venjulegum íslenskum reglum og
lögum í veigamiklum atriðum.
Þegar útlendingum hefur verið
opnaður aðgangur að hvers kon-
ar iðnaði hér á landi verður erfitt
að loka fyrir þá og meirihlutaeign
þeirra í öðrum greinum:
Hvað um fiskeldið?
Hvað um sjávarútveginn?
Hvað um verslunina?
Það er alkunna hversu erfitt er
að draga markalínurnar milli iðn-
aðar og verslunar og almennrar
þjónustu. Það er því alveg ljóst
að með því að opna útlendingum
leið til hvers konar iðnrekstrar
hér á landi verða þeir óðara
komnir í verslun og viðskipti
hvers konar. Nú er unnið að því
að koma útlendingum inn á
fjármagnsmarkaðinn hér á landi
með tveimur sjálfstæðum fyrir-
tækjum. Afleiðingarnar yrðu
þessar:
1. Útlendingar hirða arðinn af
þeim iðnrekstri sem helst getur
gefið ágóða hér á landi. Þar er
ekki síst um að ræða hvers konar
nýiðnað, meðal annars iðntækni
sem byggir á þeirri reynslu sem
fslendingar hafa umfram flestar
aðrar þjóðir í sjávarútvegi.
2. Útlendingar hirða arðvæn-
legustu verslunarkostina hér á
landi og flytja arðinn úr landi.
3. Útlendingar eiga þegar stór-
verksmiðju hér á landi og hirða
stórfelldan hagnað af henni
vegna hins lága raforkuverðs sem
er aðeins brot af því sem íslend-
ingar þurfa sjálfir að greiða.
Treystir þjóðin
Albert
Guðmundssyni?
En eftir sitja íslendingar í þeim
atvinnugreinum sem óhagkvæm-
astar eru. Hörmangaratímabilið
er að renna upp á ný ef tillögur
Alberts Guðmundssonar ná fram
að ganga. Og síðast en ekki síst:
Treystir þjóðin Albert Guðm-
undssyni (eftir það sem á undan
er gengið) eða einhverjum ámóta
ráðherra til þess að fara með allt
það vald sem hér er gert ráð fyrir,
ráðherra sem er sjálfur tengdur
erlendum fyrirtækjum og hags-
munasamböndum? Það tel ég
ekki vera, og það er því ekkert
minna en hneyksli ef frumvarpið,
leyniplaggið, verður svo mikið
sem sýnt á alþingi í haust. Verði
það sýnt verður það vafalaust eitt
mesta hitamál þingsins á kom-
andi vetri.
Greinilegt er að stjórnarflokk-
arnir hafa farið með þetta mál
eins og mannsmorð. Þeir hafa
ekki viljað gera mikið úr því og
fréttin á viðskiptasíðu Morgun-
blaðsins 17. júlí sl. hefur ekki
vakið athygli margra. Þó er hún í
raun ein alvarlegasta frétt sum-
arsins og tilefni til rækilegra um-
ræðna. Það er prófsteinn á lýð-
ræðið hversu sú umræða fer fram.
Þetta verður
að stöðva
Það hefur að vísu komið glöggt
fram á undanförnum mánuðum
og misserum að sjálfstæðismálin
virðast ekki eiga upp á pallborð
hinnar almennu þjóðmála-
umræðu hér á landi í seinni tíð.
Því þjóð sem ekki hefur gætur á
forsendum sjálfstæðisins verður
ekki lengur þjóð þegar hún
rumskar af doða sljóleikans í
klónum á erlendum stórfyrir-
tækjum ogstórveldum. Þá verður
fátt tii bjargar; hlutskipti okkar
verður eins og arðrændu nýlend-
nanna - ísland og íslendingar
verða aðeins viðfangsefni sagnf-
ræðinga. Hinn lifandi veruleiki
horfinn í haf miljarðanna sem
byggja þessa jörð. Þá verður
híutur núlifandi kynslóða í fs-
landssögunni merktur niðurlasg-
ingunni - eða verður engin ls-
landssaga? Nú verður þjóðin að
hrista af sér doðann og sameinast
um að stöðva áform Alberts
Guðmundssonar um nýja innrás
erlendra fyrirtækja í allt íslenskt
atvinnulíf.
\ 1 Stjórnmál á sunnudegi / / ! í
Svavar Gestsson skrifar
Sunnudagur 27. júlí 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 9